Þóra Guðrún Pálsdóttir

26.11.2006 21:46

Ljósið

Bláa ljósið.

Fimmtudaginn 23 nóvember stóð eftirfarandi fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins.

,,Bláar perur verða stöðugt algengari á almenningssalernum borgarinnar.

Bláa ljósið fælir burt fíklana

Eiturlyfjaneysla Stöðugt verður algengara að bláar perur séu settar í ljós á almenningssalernum til varnar gegn eiturlyfjafíklum. Þannig hafa bláar perur verið settar í ljósastæði á almenningssalernum á Slysavarðstofunni og í Sundhöll Reykjavíkur. Fíklarnir sjá ekki æðarnar í bláu ljósi. Ólafur þorgeirsson yfirlæknir á Slysavarðstofunni, segir að fíklarnir eigi erfiðara að sprauta sig í bláu ljósi en vörnin sé ekki hundrað prósent."

Frásögnin um þetta bláa ljós sem hindrar fólk í verkum myrkursins minnti mig á þann sem sagði,

:,, Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn sem á mig trúir, sé áfram í myrkri. Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn. Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið sem ég hefi talað verður dómari hans á efsta degi. Því ég hefi ekki talað af sjálfum mér, heldur hefir faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala. Jóh.12:46-49.

15.11.2006 22:07

Afmælisóskir

Kæru afkomendur sem hafið átt afmæli nýlega.  Mig langar að færa ykkur síðbúnar afmælis óskir.  Suma hefi ég haft samband við.  Nöfnin eru eftir röð í mánuðunum.  Fyrst er þá sonardóttirin Sara 2. október, þá faðir hennar 6 október og yngri dóttir hans Anna 27 okt.  Þessi búa í Danmörku. Næst kemur dóttir mín Guðný sem býr á Akureyri.  Hún á afmæi 12 nóvember og dagin eftir 13 nóv. rekur lestina Hrefna Sæunn sem dvelur nú sem námsmaður á fyrsta ári úti í Danmörku.  Með afmælis óskunum sendi ég ykkur lítið ljóð sem  heitir,

                        Trúfastur vinur

      Ég á þann vin, sem aldrei brugðist hefur,

      sem alltaf stöðugt hefur reynst mér trúr,

      er hjálp og styrk í hverri raun mér gefur

      og hrifið fær mig hverri freisting úr.

 

      Hann annast mig svo ástúðlega blíður.

      í elsku hans og náð er sál mín þyrst.

      ,,Ó, komið til mín allir ", blítt hann býður,

      _Hver betri átti vin en Jesúm  Krist?

 

      Og, vinur þinn nú vill hann einnig vera

      að vernda þig og styðja lífs á braut.

      Hann fyrir þig vill hverja byrði bera

      og bæta hverja sorg og lífsins þraut.

                              S.G.J.

      Kær kveðja Þ.G.P.

 

 

10.11.2006 23:02

Ágæt uppfinning

Eigðu mig, eigðu mig.

Þegar ég var ung heyrði ég orðtak sem hljómar svona: ,,Hann þarf nú meira með, hann búskapur en að segja, eigðu mig, eigðu mig". Eins er það, þegar maður hefir eignast kött, þá er að mörgu að hyggja. Ég vissi svo sem alveg í hverju ég gæti lent því ég er nú ekki fædd í gær og hefi fyrr lent í ýmsu í sambandi við ketti og kattaeigendur. Fyrir mörgum árum vann ég með konu sem mér féll mætavel við. Hún átti frjósama læðu og þurfti því að reyna að troða kettlingunum inn á einhverja sakleysingja sem ekki áttu kött fyrir. Ég var nú lengi treg til , því að þótt ég hafi alltaf verið hrifin af köttum, þá var ég búin að reyna að það er hægt að fá meira en nóg af þeim, sérstaklega af læðum. Ég sagði konunni að ég vildi alls ekki læðu. Hitt væri frekar möguleiki með fress sem hún greip þá eins og gefinn hlut. Dag nokkurn birtist hún svo með skenkinn og afhendi mér hann með miklum asa. Að mér læddist illur grunur en kunni ekki við að auglýsa tortryggni mína opinberlega með því að skoða undir kvikindið.

Það er nú viðkunnanlegra að hafa einhverjar sannanir í höndunum áður en farið er að sýna fólki opinberlega að efast sé um heiðarleika þess. Konan mátti ekkert vera að því að koma inn og stoppa og var horfin eins og snæljós. Þá fékk ég nú tækifæri að prófa getspeki mína og hvað kom ekki á daginn ? Læða var það. Ég gat séð fram á, að á stuttum tíma gæti ég komið mér upp heilli hjörð af köttum án þess að þurfa að borga nokkurn fressatoll. Fjórir ?fimm fresskettir mundu hefja umsátur um húsið mitt á hverju gangmáli læðunnar og þar ofan í kaupið sprauta miður vel þefjandi ilmefni á útihurðina og þröskuld húss míns, já og ef til vill kjallaragluggana líka. Ég kvartaði auðvitað yfir þessum prettum við konuna en hún taldi þetta nú ekki mikið mál. Bara að gefa henni pilluna. Ég fékk uppgefið hvenær slíkt ætti að hefjast, en mín læða varð nú svo bráðþroska að hún náði að verða kettlingafull áður sá tími kæmi, sem mér var uppgefinn.

Jæja, nú var ég aftur komin með læðu, búin að láta skrá hana, örmerkja og ormahreinsa. Nú þurfti að fara að huga að getnaðarvörn, annað hvort með uppskurði eða töflum. Við völdum nú töflurnar og maðurinn minn fékk upplýsingar hjá dýralækni um hvernig ætti að haga sér við það að koma pillu ofan í kisu. Hann hélt á henni og lét hana gapa og ég lét töfluna detta niður í ginið hálfhrædd um puttana á mér því hún er vel tennt. Þetta fór vel í fyrsta sinn en ekki jafnvel í næsta skipti. Þá var hún víst búin að gera sér grein fyrir að þetta héti ofbeldi, sem verið væri að beita hana og hugsaði sér að láta hart mæta hörðu. Hún hafði yfir að ráða fimm flugbeittum klóm á hverri löpp og sá sem hagaði sér svona við hana, skyldi nú aldeilis komast að því fullkeyptu. Við þessa árás varð haldaranum svo bilt að hann sleppti takinu og um leið stökk Uppáþrengja frjáls úr fyrri skorðum og skyrpti töflunni langt fram á gólf. ,,Mörg er búmannsraunin" eins og þar stendur.

Framtíðin var skýlu hjúpuð hjá okkur og ekki augljóst hvað til bjargar yrði með að koma lyfinu ofan í köttinn í framtíðinni En eitthvað þeim til líknar leggst sem ljúfur Guð vill bjarga. Nú datt húsbóndanum harðfiskurinn í hug. Hann hefir vanið hana á að gefa henni smáharðfiskbita á kvöldin eins og sumir fá konfektmola. Hún er vitlaus í harðfisk. Hann sker nú lítinn bita af harðfiski niður og gefur henni og svo vefur hann öðrum bita utan um töfluna og þetta heppnaðist átakalaust og rann ljúflega niður. Hefur síðan heppnast fram að þessu. Stundum hefir taflan viljað bítast sundur og detta úr umbúðunum en þolinmæði þrautir vinnur allar. Svona mannlega séð á húsbóndinn allan heiður af þessu framtaki og uppfinningu, sem hefur orðið enn einfaldari í framkvæmd með því að nota heldur nýjan fisk hráan til að setja töfluna í.

02.11.2006 16:53

Sunnudagur 22/10.

Skroppið til höfuðstaðarins 22/10

Kunningi okkar, sem við höfðum smávegis kynnst, meðan hann bjó hér í Keflavík, hafði hringt og boðið okkur í afmælisveislu sonar síns sem var að verða fjögurra ára. Við vorum búin að vera á sunnudagssamkomu kl.11 um morguninn, sem tekur allt að tveimur tímum með eftirspjalli í loftstofunni. Þegar heim kom fórum við að hita matinn og borða. Við höfum alltaf þennan gamla sið að borða heita máltíð um hádegi. Það er auðvitað engin nauðsýn, en af því ég er svo löt finnst gott að ljúka þeirri máltíð af, sem meiri tíma tekur og eiga hina léttari eftir seinnipartinn. Mér finnst það mikil fyrirmyndarregla sem maður les um í Gamla testamentinu að gyðingar áttu að elda og baka daginn áður, það sem með þyrfti til að eta á hvíldardeginum. Þannig gátu meira að segja skepnurnar fengið hvíld. (Mós.20: 10) Þrælarnir og ambátirnar einnig ásamt hinum, ef ekki voru skepnur að detta í gryfjur sem draga þurfti þær uppúr, samanber Matt. 12:11.

Sjálfsagt hefði ég getað verið búinn að koma þessari reglu á hjá mér fyrir 50 árum, að elda fyrir tvo daga í einu og græða mikla hvíld á góðu skipulagi. Páll postuli lagði mikið upp úr góðu skipulagi eins og líklega flestir sem koma miklu í verk. Í Kólossubréfi öðrum kafla, segist hann í anda horfa með fögnuði á gott skipulag hjá þeim. (Útgáfan 1946.) Það getur komið að gagni í eldhúsunum líka. Annars er nú ekki sambærilegt að snúa rofa á rafmagnseldavél eða fara út á mörkina að tína saman viðarkvisti eða grámosa eins og ég man eftir, til þess að kveikja eldinn við. Nú eftir að við höfðum lokið máltíð þennan áminnsta sunnudag og lagt okkur smástund á eftir þá vorum við það hress að við ákváðum að fara í afmælið. Það varð að samkomulagi að ég æki inn að álverinu. Þar er stórt stæði og gott að skipta. Mér finnst ágætt að láta aka mér en það má ekki verða að fastri reglu þá færi mér að finnast erfitt að byrja aftur, þótt ég aki alltaf eitthvað í hverri viku að Bónus eða Kaskó. Það er samt öðruvísi að aka innanbæjar á 50, heldur en á 90 á vegum úti.

Ákvörðunarstaður okkar var í Breiðholtinu svo mér fannst auðvitað miklu öruggara að hann æki þangað til að finna staðinn, því hann hefur svo miklu betra sjónminni og hafði farið þetta einhvern tíman áður. Líka lesið sér til á kortinu á leiðinni til Hafnarfjarðar. Allt gekk líka að óskum að finna staðinn. Þar voru nokkrir samankomnir á ýmsum aldri af þremur þjóðernum, svo langt sem ég vissi, meðal annars ein fjölskylda sem við þekktum. Eftir kaffidrykkju og eðlilegan stans kvöddum við og héldum heimleiðis. Það var yndislegt veður og því má bæta við, að þótt leiðin suður með sjó bjóði ekki upp á stórfenglega náttúrusýn, aðeins hraunið svart og grett, næst manni, þá er himininn oft ákaflega fallegur með allskonar yndislegum skýjabólsltrum og rauðu sólsetri við hafsbrún. Það er eins og segir í 19 sálminum í Biblíunni:

,, Himnarnir segja frá Guðs dýrð,

og festingin kunngjörir verkin hans

handa.

Hver dagurinn kennir öðrum,

Hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða engin orð,

ekki heyrist raust

þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina,

og orð þeirra ná til endimarka heims.

Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðgumi er gengur út

úr svefnhúsi sínu,

hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himinsins rennur hann upp,

og hringferð hans nær til enda himins,

og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans.

18.10.2006 20:32

Að kaupa nýja skó

Alveg er það nú merkilegt að af öllum þessu auglýsingum sem inn um bréfalúguna streyma eins og stórstraumsflóð, skuli maður hafa hitt á eina sem kemur manni að gagni. Það skeði þó nýlega hjá mér. Intersport í Smáralind í Kópavogi var að auglýsa skó á niðursettu verði. Ég hafði átt hvíta skó reimaða sem ég var búin að nota sem inniskó stöðugt í nærri sex ár hér á suðurlandi og ég man ekki hvað lengi á norðurlandi. Nú var komið gat á leðrið á öðrum skónum og því mál að endurnýja. Ég hafði leitað hér í Keflavík en enga fundið sem hentuðu. Nú sá ég í bæklingi mynd af hvítum skóm sem seljast áttu á 3990 á niðursettu verði. Þetta fannst mér mjög hóflegt verð og langaði að fara á staðinn. Eiginmaðurinn var fús að vera minn einkabílstjóri.

Við ætluðum að fara víðar og ég er ekki sérlega snjöll að rata í Reykjavík. Reyndar finnst mér Reykjanesbrautin leiðinleg líka síðan þeir hófu framkvæmdir við hana aftur, full af hraðatakmörkunum, sveigjum og beygjum og gulum strikum útaf vegavinnuframkvæmdunum. Mér fannst hún svo býsna þægileg meðan hún var bara hrein og bein tveggja akreina braut. Það eru nú víst fáir sem vildu hverfa aftur til þess tíma. Þetta verður sjálfsagt gott þegar framkvæmdum líkur. Alltaf mun samt stafa hætta af þeim sem sýnast leggja allt undir til þess að ná háttum á grafarbakka.

Fyrst var nú á dagskrá hjá okkur að koma við á Sólvangi í Hafnarfirði til að heimsækja gamla vinkonu mína,Rögnu Benediktsdóttir, sem þar er búin að dvelja í mörg ár en þar áður á elliheimilinu Grund í Reykjavík.

Við erum fæddar í sömu sveit og ekki meira en hálftíma gangur á milli heimila okkar.

Þegar bróðir minn Daníel var tekinn við búi heima hjá foreldrum mínum þá fór hann að byggja á jörðinni. Þá mun það enn hafa verið siður í sveitinni að nágrannarnir kæmu og tækju þátt í verkinu með þeim sem var að byggja, því ekki var hægt fyrir einn að steypa upp hússkrokkinn. Þegar allt efni hafði verið flutt heim á hestakerrum, timbur, sement ,sandur og möl og búið að slá upp mótum, þá var komið að því að hóa saman mönnum. Steypan var hrærð í tunnu sem sett hafði verið upp í statíf og síðan snúið með því að maður steig hana í hring. Þegar steypan var fullhrærð var hellt úr tunnunni á pall og mokað í skjólur sem voru handlangaðar upp til þeirra sem helltu steypunni í mótin.

Þá man ég, að ég var oft send niður að Seli til að biðja um mannhjálp en þar bjuggu foreldrar Rögnu. Satt að segja voru mér, sem barni, slíkar betliferðir lítt að skapi en bót í máli að alltaf var pabbi hennar fús til að svara kallinu og senda minnst annan sona sinna. En öðruvísi var ekki hægt að hafa þetta. Það voru flestir, ekki allir, nágrannarnir búnir að koma sér upp steinhúsi, svo ekki yrði hægt að endurgjalda þeim í sömu mynd. Þeir fengu víst ekki annað en matinn meðan á verkinu stóð. Eiginlega finnst mér ég skulda þessari fjölskyldu það frá þessum dögum að heimsækja Rögnu en fer því miður alltof sjaldan. Hún er aðeins eldri en ég en er búin að vera sjúklingur og öryrki síðan hún fékk kíghóstann þriggja ára gömul. Uppúr honum fékk hún flogaveiki sem varð viðvarandi og á seinni árum er hún búin að brotna margsinnis og líka vera skorin upp.

Hún er nú í hjólastól. Þegar ég ber líf okkar saman dettur mér oft í hug að um mig má segja: ,,Þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir en Ragna á sama hátt sitt böl." Mun þetta verða einhvern tíma jafnað? Hún sagðist vona að það yrði tekið á móti sér er hún yfirgæfi þennan heim og ekki efa ég það. Hún ber svo einlægt traust til frelsara síns. Hún fór með sálminn ,,Ég kveiki á kertum mínum við krossins helga tré." fyrir okkur og virtist alveg ná því að fara með öll versin í réttri röð með veikburða rödd en vissu öryggi samt. Ég man aldrei eftir að hafa tárast fyrr undir predikun eða andlegu ávarpi en undir upplestri þessa veikbyggða þjáninga barns, þar sem andlegi krafturinn yfirskyggði veikleika líkamans gat ég ekki varist tárum. Ég skildi að þetta var arfurinn sem hún hlaut í veganesti úr foreldrahúsum og hafði með sér út í líf þjáninga og fárra tækifæra. Sæl eru þau börn sem hljóta slíkt veganesti. Meðan ég enn var ung að árum heima í sveitinni hafði ég heyrt að Björg systir hennar hefði kunnað 50 sálma þegar hún gekk til prestsins fyrir fermingu sína. Ég er líka viss um að Ragna kunni fleiri en þennan eina sem hún fór með fyrir okkur.

Jæja, við héldum nú af stað þaðan og komumst heilu og höldnu inn í Kópavog og í verslunina. Það voru ekki mörg pör eftir af þessum fyrirhuguðu skóm. Ég þarf eftir skógerðum ýmist 39 eða 40. Í þessu tilfelli þurfti ég nr.40 til þess að nógu rúmt væri um fótinn og viti menn, eitt par eftir af þeirri stærð. Sannarlega voru þeir mér ætlaðir og ég var ánægð með þá. Þar eftir héldum við inn í Reykjavík að heilsa upp á systur Ásgríms og mann hennar og vorum þar vel móttekin. Þá var erindum lokið og aðeins eftir að koma sér heim.

10.10.2006 22:05

5o ára útskriftar afmæli

Fimmtíu ára útskriftarafmæli.

Ég held að það hafi verið einhvern tíma í september síðastliðnum að hún Rósa skólasystir mín úr Ljósmæðrskólanum hringdi til mín og forvitnaðist um, hvort ég hefði áhuga á að mæta í 50 ára útskriftarafmæli okkar ef haldið yrði uppá. Ég taldi það líklegt. Nú átti ég heima á suðurlandinu og minna fyrirtæki að taka sig upp og taka þátt í ýmsu sem bundið væri við höfuðborgarsvæðið. Ég hafði víst ekki séð sumar af skólasystrunum síðan við útskrifuðumst. Þegar við lesum sögur hinna gömlu íslensku ljósmæðra má segja að okkur hafi hlotnast mikill heiður að fá að bera starfsheitið,,ljósmóðir" Þetta voru svo miklar ágætiskonur, alltaf reiðubúnar í hvernig færð og veðri sem var er þær voru kallaðar til að sinna fæðandi konum.

Þá höfum við nú líka dæmin úr Biblíunni þar sem sagt er frá tveimur hebreskum ljósmæðrum sem Egyptalandskonungur bauð að deyða sveinbörnin strax eftir fæðinguna en meybörnin máttu lifa. En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gerðu ekki það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim heldur létu sveinbörnin lifa. Við getum nú rétt ímyndað okkur að þær hafi hætt hér miklu til, að óhlýðnast sjálfum konunginum...En það stendur neðar á blaðsíðunni: ,,Og guð lét ljósmæðrunum vel farnast,og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög. Og fyrir þá sök að Ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja." Þær voru fúsari að bjarga heldur en að farga lífi

Það má segja að fyrir hennar Rósu drift og framtakssemi varð þessu útskriftarafmæli okkar til vegar komið og á hún allan heiður skilið af okkur hinum fyrir alla sína fyrirhöfn og hringingar út og suður. Árangur erfiðis hennar birtist í því að 30 september mættum við átta ljósmæður í Salthúsinu í Grindavík til sameiginlegrar máltíðar ásamt fjórum köllum sem voru eiginmenn fjögurra ljósmæðra í okkar hópi. Tvær af hópnum gátu ekki mætt og tvær voru dánar. Við vorum þarna þá samtals 12 samankomin. Það var nú lagt á borð fyrir okkur ljósmæðurnar sér við borð en þeir voru hafðir annarstaðar, samt í sama sal. Það var sjálfsagt skynsamlegt því líklega hafði hvor hópur um sig óskyld áhugamál til að ræða

Okkar umræða snerist mest um það sem gerðist fyrir 50 árum síðan. Sumar höfðu unnið lengi við það starf sem við höfðum menntast til og aðrar sinnt hjúkrun aldraðra um mörg ár. Við vorum misjafnlega langt að komnar. Ein kom frá Ísafirði og önnur frá Eskifirði. Hinar held ég hafi komið af höfuðborgarsvæðinu. Ég held að sumar hafi ekki sést í 50 ár og naumlega þekkt hver aðra. Maður breytist á svo löngum tíma. Hárið upplitast og það breytir ekki svo litlu og svo.framv. Við fengum þarna góðan mat og í eftirmat einhverskonar bláberjaís í pönnukökum listilega útbúnum sem ílát undir ísinn.

Það var margt rætt og rifjað upp á meðan á borðhaldi stóð og ef til vill best að við sætum einar að þeim minningum. Ég hugsa að kallarnir hafi ekkert heyrt, þeir sátu það langt frá. Mér fannst það samt bæði rausnarlegt og snjallt hjá henni skólasystur okkar að hafa frumkvæði að því að bjóða köllunum líka. Þeir þurftu sumir hvort sem var að aka sínum konum langa leið til fagnaðarins. Þegar máltíð var lokið gekk Rósa fram í afgreiðsluna og ég þóttist vita að hún hefði farið að gera upp kostnaðinn við veru okkar. Þegar við svo ætlum að gera upp við hana kemur á daginn að hún hafði ákveðið að bera allan kostnað af veru okkar allra á þeim stað og ekki nóg með það. Nú vildi hún bjóða öllum heim til sín á eftir í kaffi og tertur.

Það var yndislegt að koma inn á hið fallega heimili þeirra hjóna og dásamlegt að sjá hvað sumt fólk hefur frábæran smekk til að gera heimili sín aðlaðandi, þótt það fari ekki milli mála að hönnuður hússins á þar stóran þátt en fleira þarf til að koma. Eftir að hafa gert okkur gott af veitingunum þar og setið að spjalli kvöddum við hina rausnarlegu gestgjafa okkar sem höfðu sýnt okkur að enn búa á Íslandi fornaldarhöfðingja. Héldum við svo heim á leið. Ég hafði fengið far með Maddý og manni hennar fram og til baka og þakka þeim kærlega fyrir. Þau búa í sama bæjarfélagi og höfðu boðið mér að vera samferða.

02.10.2006 21:23

Öðruvísi dagur

Öðruvísi dagur

Það er nú helst að frétta af mér að ég er orðin einu ári eldri en ég var í fyrra. Það var eitthvað á reiki í huga mér hvernig ég skyldi haga mér í því ssambandi. Vera heima eða ekki. Það má segja að yfirleitt hafi ég haldið upp á mitt afmæli með því að halda ekki upp á það. Sumir trúaðir menn álíta það rangt að halda afmælisveislur. Það á að helgast af því, að einn óguðlegur konungur í Ísrael hélt upp á afmæli sitt.

Hann fékk stúlku til að dansa fyrir sig og sína boðsgesti. Hvort hún var tjóðruð við staur eins og gerist hjá okkur í dag, það er ekki ljóst af frásögninni.

Ég hefi alltaf haldið að hún hafi svifið um. Annað finnst mér órökrétt ef dans skal heita. Konungur varð alveg upplyftur eftir að hafa horft á dansinn. Hann bauð henni að bera fram ósk sína og hún skyldi uppfyllt, allt að helmingi ríkis hans. Þetta var auðvitað rífandi rausnarlegt boð og unga stúlkan alveg óviðbúin. Hún fór því til móður sinnar og bað um leiðbeiningu.

Sú virðist nú ekki hafa farið að hugleiða hvað dótturinni kæmi best með framtíð hennar í huga. Hún bauð henni að biðja um höfuð Jóhannesar skírara á fati. Hann var spámaður Guðs en fangi konungsins og hafði ávítað hann fyrir ósiðferði þar sem þessi kona kom sjálf við sögu. Margir munu vita endalokin og sumir segja að þetta sé eina afmæliveislan sem getið er um í Biblíunni. Þess vegna vilja þeir ekki að fólk haldi afmælisveislur.

Ég var nú ekkert bundin af þessari hugsun enda aldrei ætlað mér að fá neina súlumey eða annarskonar dansmey til að skemmta.

Það var nú heldur hitt að mér vex allt í augum hvað matreiðslu snertir. Ég á nóg af uppskriftum og mér þykir ekki leiðinlegt að skrifa þær upp á blað, en það fer eins og í einhverju ljóði: ,,Að hugsa það, langa það, loksins að vilja það en í verk því að koma, ég má ekki skilja það." Það verða alltaf til viðfangsefni sem mér finnast skemmtilegri þegar um er að ræða að hefjast handa. Ég get nú samt alveg haldið fólki á lífi á fáeinum einföldum réttum. Ég er alin upp við fáar fæðutegundir og veit að það er alveg hægt að lifa af þeim. Saltfiskur, selspik og kartöflur að mjólk meðtalinni voru ríkjandi sem fæði á engjunum, dag eftir dag um sláttinn, já meira að segja allt árið nema selspikið, ég held að það hafi ekki alltaf verið til.

Faðir minn var í kunningsskap við bónda í fjarlægri sveit og tætti fyrir hann hrosshár. Vann úr því þarflega hluti eins og reipi, hnappheldur líka að mig minnir og fékk hjá honum selkóp úr vigrinni í staðinn. Á þessum mat varð ég aldrei leið og þetta kann ég að sjóða en spikið er held ég ófáanlegt og ekki heldur vanalegt að fólk haldi upp á afmæli sitt með þessum réttum.

Þegar nær dró fór dóttir mín í Noregi að forvitnast um hvað ég ætlaðist fyrir, að vera heima eða fara að heiman? Upp úr því ákvað ég að taka þann kost að vera heima við, þar sem nú líka kötturinn var kominn til sögunnar og hann yrði ekki skilinn einn eftir til langs tíma.

Ég gerði ekki ráð fyrir fleirum en rétt innan við 30 gestkomandi. Það voru börnin okkar og makar þeirra sem gætu mætt og örfáir að auki. Mér datt nú ekki í hug að bjóða syni mínum í Danmörku því hann og kona hans voru búin að koma í sumar. Gæti ég skipt þessum hópi á 2 daga þá gæti ég haft þetta heima hjá okkur. En eftir umhugsun fannst mér skemmtilegra að hafa það í einum hópi. Fór þá að hugsa um lítinn sal þar sem okkur væri svolítið nýnæmi að koma á og kynnti mér möguleika á að fá aðsenda þjónustu. Áður en þetta yrði afgert ákvað ég að hringja í fólkið þar sem ekki voru margir dagar til stefnu, og vita hvort það gæti komið. Með því að færa afmælið aftur um einn dag, kom í ljós að næstum allir sem ég átti von á, gætu mætt.

Þegar ég svo hringdi í bróðurdóttur mína eina af þremur sem búa tvær í sama húsi í Reykjavík og sú þriðja í húsi rétt hjá. Þá fer hún að spyrja mig hvort hún geti ekki hjálpað mér og ég segi henni hvað í býgerð sé. Hafði ekki hugsað mér að leggja frekari byrðar á boðsgesti en að mæta. Það sé ekki ákveðið hvar mæst verði en ég væri að horfa eftir litlum sal. Eftir stutta stund hringdi hún svo aftur og hafði þá, að ég held, talað við systur sína sem heima var. Hún spyr hvort ég vilji ekki þiggja að halda afmælið hjá sér. Hún hafi stórt húsnæði og þótt allir geti ekki setið við sama borð séu til nóg sæti og innskotsborð og þær systur skuli sjá um allt og gefa mér það í afmælisgjöf. Ein systirin var ekki heima þá en heimkomin gekk hún inn í hlutverkið með þeim.

Mér þótti ábyrgðarhluti að gera að engu svo rausnarlegt boð, vildi leyfa þeim að ávaxta þá eðliseigind sem þær hefðu að erfðum tekið frá sínum foreldrum Mér dettur í hug það sem nágrannakona okkar í æsku, sagði við mig um föður þeirra systra. ,,Hann var frír í sér." Ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta orð notað áður né síðan um mann sem væri rýmilegur í útlátum.

Hefur það því orðið mér minnisstætt. En hvað hafði hún fyrir sér. Hún hafði þekkt hann lengur en ég.

Hann var 16 árum eldri en ég og farinn burtu til að vinna heimilinu gagn um það leyti þegar ég fæddist. Hans vinna utan heimilisins stóð undir því að hægt var að kaupa viðbót við jarðnæðið heima sem var mjög lítið.

Þegar börn unnu að búskapi foreldra sinna var venja að þau eignuðust smám saman nokkrar kindur sjálf . Þegar þessi bróðir minn var fluttur burtu alfarinn, kom hann heim og ráðstafaði kindum sínum, sem ekki voru margar. Hvort sem ærnar voru nú 6 eða 7. Jarðnæðið var lítið og búið bar ekki margar skepnur. Það er af ánum að segja að hann gaf þær móður okkar sem séreign að skilnaði.

Þannig skildi hann við sitt fátæka bernskuheimili og mér finnst það hafi verið honum sómi. Ég er ekki viss um að dætur hans hafi heyrt þetta áður og get þess því hér.

Þegar kona hans kom til sögu færðist það meira yfir á hennar hendur að velja í jólapakkana. Hún kunni því vel að hafa eitthvað að gleðja þá með sem lítið höfðu.

Daginn áður en halda átti uppá afmælið fórum við upp á flugvöll til að taka á móti dóttur minni Önnu frá Noregi þá sjáum við son minn Jóhannes birtast með henni. Hann hafði þá tekið vél frá Danmörku og beðið á vellinum eftir að við kæmum að sækja Önnu. Svo birtist dóttirin mín frá Akureyri kvöldið eftir um sjöleitið í Sæviðarsundinu á boðuðum tíma. Því miður gat maðurinn hennar ekki komið, það var einum degi of snemma fyrir hann. Bróðursonur minn sem ég átti von á veiktist. Við vorum 26 sem mættum.

Ég vil að lokum þakka systrunum og þeirra mökum fyrir sinn frábæra þátt í að gera áttræðisafmæli mitt ánægjulegt og einnig þeim sem til máls tóku og rifjuðu upp gamla daga. Fyrir öll fallegu blómin, skeytin og gjafirnar. Ég var ekki nógu skörugleg að standa upp og þakka fyrir mig þar á þeirri stundu. Sá það ekki fyrr en seinna, að svona á ekki að haga sér. Ég segi bara eins og Jakob ærlegur: ,,Dugir ekki að gráta gengur betur næst." Ég held að maðurinn minn hafi nú eitthvað bætt úr þessu háttleysi mínu og þakkað fyrir mig og þakka ég honum fyrir það.

17.09.2006 18:49

Breytt heimili

Breytt heimili

Nú erum við orðin þrjú í heimili. Ég fór nú að útvega fóður handa Uppáþrengju og fór með pakka utan af mat sem hún var vön að éta. Það er dýralæknastofa hér í sömu götu og við búum. Ég fer þangað með umbúðirnar og sýni þeim sem er við afgreiðslu. Hann lítur á prentið og myndina og segist ekki eiga þennan mat til en spyr um aldur kattarins. Ég kvaðst ekki vita það fyrir víst en áætla að hann kunni að vera ársgamall. Hann leitar hjá sér og kemur með smápoka með fóðri fyrir ketti á þeim aldri. Ég er nú algjör byrjandi í að fóðra ketti á útlendu kattafóðri og veit ekkert hve mikið á að skammta þeim í einu. Ég verð því ákaflega fegin er hann lætur mig fá mál sem mælir frá 5 grömmum upp í 60 gr. Hann telur við hæfi að köttur á þessum aldri fái 40 gr. á dag. Þetta mátti hann fá allt í einu eða skipt í tvennt.

Það er nú þannig með þá ketti sem eru eingöngu á þessu þurrfóðri að þeir fylgjast ekkert með matarlykt í eldhúsi eða matartímum fólks. Þeir virka eins og einhverjir vofukettir annars heims, sem nærast ekki á jarðneskri fæðu. Ég bauð henni smá flís af steiktum fiski og lét það með í matinn hennar. Ekki leist henni á það og taldi víst að nú væri vissara að smakka ekki heldur það sem fyrir var í skálinni. Í fyrstunni fannst mér hún ekki alveg eðlilegur ungur köttur. Svo varð mér ljóst í hverju hún var frábrugðin, hún lék sér aldrei. Það kom með tímanum. Hún fór allt í einu að iðka spretthlaup í stofunni. Þá fannst mér hún vera orðin eðlileg. Svo fór nú húsbóndinn að skemmta henni með því að láta hana elta bréfvöndul í bandi, uppí sófa og niður á gólf á ótrúlegu hraða , hring eftir hring ,svo unun var á að horfa alla þá snerpu er hún sýndi í hreyfingum og skarpri athygli.

Húsbóndinn átti harðfisk upp í skáp og náði í hann til að bæta sér í munni. Kötturinn glápti eftir bitunum. Fósturpabbinn gat nú ekki látið niðursetninginn horfa til augna frekar en Job sem sagði: ,, Hafi ég etið bitann minn einn og munaðarleysinginn ekkert fengið af honum -nei frá barnæsku minni hefir hann vaxið upp hjá mér sem föður og frá móðurlífi hefi ég leitt hann." (Job 31. 17-18) Hann gefur því kisu að smakka af þessu nammi sínu. Kom þá í ljós að henni þótti harðfiskur lostæti, allra mata bestur.

,,og allir eru vinir þess, sem gjafir gefur" (Ok.19:6.) Uppáþrengja verður engin undantekning frá því. Ég geri ráð fyrir að hann sitji ekki einn að snakkinu framvegis. Hann bauð henni líka upp á lifrarpilsu og það var vel þegið. Nýmjólk þykir henni líka góð. Þetta verður nú allt félagslegra hjá okkur þegar við borðum sama mat, þótt hún fái nú ekki beinlínis að setja sitja til borðs. Þennan mat étur hún líka með miklu meiri ánægju heldur en þurrfóðrið, hvort sem það er útaf því, að hún situr þá ekki ein að snæðingi.

Hún er ógn viðbrigðin og hrædd og skríður hið snarasta lengst inn undir sófa ef ókunnugan ber að garði. Ekki þorir hún heldur út en vill gjarnan setja við þröskuldinn og horfa út um dyrnar út í garð og aðeins borið við að stíga rétt útfyrir en fljót að stökkva inn fyrir ef hún heyrir fótatak nálgast að innan. Hún virðist svo óskaplega hrædd við að lokast úti. Það var í gærkvöldi 14. sept, að við fórum á samkomu. Þegar við komum heim var kisa óttalega hrædd og stygg eins og hún hefði orðið fyrir áfalli. Seinna kom í ljós að það hafði verið barið harkalega á útihurðina eftir að við fórum. Það var ekki til að undrast yfir, því að dyrabjallan á neðri hæðinni er biluð. Þetta var nóg til að kisa hefur líklega lifað upp aftur fyrri hremmingar sínar þegar verið var að ná henni úr fylgsni hennar. Hún var farin að þora að leggja sig í hvaða stól eða sófa sem var en daginn eftir var hún að skríða lengst inn undir sófa eða hluti sem huldu hana alveg.

Mér er nú í mun að hún læri að fara út og búið er að stinga upp beð út á lóðinni svo hún sjái að hún þurfi ekki að afla sér óvinsælda með því að ganga örna sinna á annarra manna lóðum. En það verða líklega ár og dagar þangað til þessi köttur þorir yfirleitt að ganga erinda sinna utan húss.

14.09.2006 10:40

Það er sól í sálu minni í dag

og sumarmorgunrós

og ég er janfan himinsæll

því Jesús er mitt ljós

13.09.2006 20:59

Þegar Anna var ung

           Anna er fjörug yngismær,

           alltaf mikið spriklar.

          Anna brosir oft og hlær

          eða brýrnar hnyklar.

 

          Anna litla er yndisleg.

          ekki má því gleyma.

          Leidd hún verði lífs um stig 

          Ljóss til æðri heima.  S.G.J.

 

         Þakk fyrir samtalið.  Aftur til hamingju.

                 Þín mamma.

      

 

02.09.2006 20:24

Á kattaveiðum

Laugardaginn 19 ágúst 2006 hringdi til okkar frá útlöndum, kona sem við þekkjum. Biður hún strax um samband við manninn minn og kveður mikið við liggja, neyðar tilfelli. Biður hún hann að fara í nágrannasveitarfélag og sækja þangað þrjá ketti sem hún hafði skilið eftir í íbúð, sem hún var búin að leigja. Litlu síðar hringdi væntanlegur leigjandi sem ekki gat sætt sig við þessa ferfættu meðleigjendur sem alls ekki höfðu neinn samning upp á vasann . Vildi hún ekki inn í húsið fara fyrr en þeir væru á brottu, enda hefði sonur sinn ofnæmi fyrir köttum, minnir mig hún segja. Spurði hún hvort við ætluðum að taka kettina. Það var nú ekki hugsjónin, svara ég, en við ætlum samt að gera það. Okkur fannst ekki annað hægt undir þessum kringumstæðum enda ekki beðin að taka þá nema yfir helgina. Mér var kunnugt um að eigandinn var búin að ganga frá manni til manns, einnig til okkar og biðja fólk um að taka kettina hátt í ársfóstur, meðan hún dveldi erlendis. Enginn reyndist tilbúinn að bæta þrem einstaklingum við fjölskyldu sína.

Mér fannst ég ekkert gólfpláss hafa á okkar litlu snyrtingu fyrir kattaklósett, og langaði ekki heldur í þessháttar mublu í eldhúsið, stofuna eða svefnherbergi. Líka þóttist ég sjá að við hjónin gætum aldrei farið í nokkra daga ferðalag saman og skilið ketti eina eftir í íbúðinni. Ekki langaði mig að ganga fyrir hvers manns dyr og leggja það á aðra að sjá um þá. Þá vildi ég nú heldur vera heima og ekki íþyngja öðrum. Ég var búin að vera heima hjá mínum börnum meðan þau voru lítil og líka verið heima hjá mínum gamalmennum meðan þau þurftu með. Mamma mín varð nú meira en 100 ára og mér þykir vænt um að hún gat verið allt til enda heima hjá mér og sé alls ekki eftir að hafa gert skyldu mína gagnvart mínu fólki. En þessir kettir fundust mér alls ekki tilheyra mínum nánustu. Þeir gátu ómögulega rakið ættir sínar til mín eða minna ættmenna.

Að vísu segir í Biblíunni: "Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær."(Matt. 5. 41. Það á e.t.v. að útleggja þannig í mínu tilfelli, að ef einhver bæði mig að geyma þrjá ketti í nýju mánuði eða meira, þá eigi ég að vera fús að taka sex ketti í 18 mánuði minnst, ef maður á að vera fús að gera tvöfalt meira en fólk biður um. Það er hægt að komast í vandræði út af fleiru en sínum eigin eigum eins og ríki unglingurinn komst, sem oft hefur verið predikað út af. Ég var þarna komin í vandræði, ekki útaf mínum eigum heldur annarra sem þó eru einskis virði. Ég held enginn selji íslenska ketti. Það væri fróðlegt að vita hvað þeir sem fremstir standa í Biblíufræðslu á landi hér, vildu ráðleggja í mínum kringumstæðum eða hvað þeir sjálfir mundu gera. Þeir færu varla í langar predikunarferðir, ef þeir ættu enga konu, nema þá með því að grípa einhvern af götunni og kúga hann til að hugsa um kettina á meðan.

Það segir líka í Biblíunni:

Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni."Hebr,12.9." Maðurinn minn er ákaflega hjálpsamur maður og vill hvers manns vandræði leysa. Hann er bara fæddur svona. Hann hafði nú samt látið mig ráða í þessu kattafóstursmáli enda sjálfur lítt hrifinn af köttum. Hundur og hestur voru hans draumadýr. Ég var búin harðneita. Þá lenti hann í þrýstingnum en lét mín ákvörðun standa.

Okkur fannst þó sjálfsagt í þessum kringumstæðum að losa leigjandann við kettina. Brunuðum við svo af stað og nýi leigjandinn beið okkar með lykil til að komast inn og segir okkur að hægt sé að ná elsta kettinum en vissi ekki hvort hinir væru úti eða inni í veggjunum. Svo var hún horfin á braut. Nú er frá því að segja að þessi hús, sem eru byggð fyrir eldra fólk, eru með smá opum undir skápum í herbergjunum, nógu stórum til að kettirnir geta smeygt sér inn um þau og horfið inn í veggina eða sökkulinn. Þar líður þeim vel enda algerlega öruggir fyrir allri áreitni. Það mætti halda að húsin væru teiknuð af sérlegum dýravini. í því skyni að dýrin gæt flúið af vettvangi ef einhver færi að hrella þau eða toga í rófuna á þeim eins og börnum hættir stundum til. Mér finnst hann hefði mátt hugsa jafnmikið um fólkið og teikna baðker í húsin. Ef ég er að verða lasin, þá finnst mér stundum ég læknast við að fara í heitt bað. Ég legg ekki sturtuna að jöfnu, þótt hún sé kannski hentugri fyrir það fólk sem á að aðstoða gamla fólkið við böðun, þegar það er orðið ófært um slíkt. Húsin eru nú samt til kaupleigu fyrir fólk um fimmtugt. Það er fæst komið í kör á þeim aldri. Til hvers væru menn annars að leggja í kostnað við að útbúa heita potta við húsin hjá sér ef sturta kæmi að sömu notum?

Við vorum nú komin til að sækja kettina og sáum aðeins tvo. Bónda mínum tekst að handsama eldri köttinn og heldur þá víst að hálfur sigur sé unninn því þannig var það í hetjusögum fornaldar ef foringinn var ofurliði borinn þá brast flótti í liðið sem eftir var og ekki annað eftir en að reka það út úr landinu. Hann hefur annars lítið haft af köttum að segja um dagana ef frá eru talin bernskusumur hans í sveit. Þar fékk hann heldur leiðinlega mynd af þeim. Þeir voru illa að sér í mannasiðum, stukku upp á borð á matmálstímum og löptu úr mjólkurkönnum áður en búið var að segja: "Gjörið svo vel." Hann labbar nú með köttinn undir hendinni og stingur honum inn í bílinn en varar sig ekki á hinum eldsnöggu viðbrögðum sem Skaparinn hefir gefið þessum skepnum svo að kettinum tekst að skjótast út áður en hurðin skellur að stöfum. Ég hugsa með mér að ég hljóti að geta náð aftur gæfum heimilisketti og labba é eftir henni. En hún passaði sig og að lokum sá hún bíl sem hún gat skriðið undir og notað sem öruggt vígi.  Ég mátti hætta við í það sinn. Svo fórum við heim. Næst tókum við mann með okkur því það var líka fl. Sem þurfti athugunar við í húsinu.  Hann reyndi að koma sér vel við köttinn þann eina gæfa sem ekki flúði inn í veggina og reyndi að strjúka kettinum og vingast við hann.  Allt í einu vaknar einhver tortryggni hjá kisu og hún umhverfist í reitt dýr sem klórar til blóðs.  Heimiliskött sem hagar sér svona, verð ég bara dauðhrædd við.

Á mánudeginum þurfti ég að fara inn í Reykjavík á bílnum. Þá fær minn maður vin sinn með sér og þeir fá lánaða gildru hjá dýralækni. Þessum vini hans tekst að handsama tvo og það var auðvitað stór sigur.  Eigandinn var búinn, loksins að gefa leyfi til að þeir yrðu svæfðir. Hún var búin að sjá að miskunnsemi mannshjartans yrði ekki vakin og vissulega hafði hún engan stað vísan eftir helgina handa þeim.  Þriðji kötturinn var svo var um sig að hann lét aldrei sjá sig.  Enginn vissi hvort hann var úti á vergangi eða í veggjunum. Það var prófað þegar hinir voru úr sögunni, með því að loka gluggunum og vita hvort maturinn minkaði í skálinni yfir nótt.  Það reyndist svo, að hann væri innanhúss.  Hann fyrirleit alveg gildruna frá dýralækni.  Nú fór hann að sjást endrum og sinnum ef komið var óvænt. Þá var sú gráa snögg að skella sér í vegginn eða sökkulinn.  Nú fór minn maður að smíða utan um gildruna, þannig að hún kæmist ekki út úr fylgsni sínu öðruvísi en að fara í gegnum gildruna.  Hún sá nú við þeim hrekk og sat bara kyrr í holu sinni og svalt heilu hungri.

Dagar liðu hver af öðrum með sífeldum ferðum fram og til baka að vitja um gildruna.  Eftir viku var minn maður orðinn svo svekktur að hann fékk sér til fulltingis vin sinn, útlærðan húsasmið. Maður sá er mikill greiðamaður, næstum eins og minn maður sjálfur.  Hann brást vel við, sagði mér seinna að hann hefði kennt í brjósti um köttinn.  Mér er nær að halda að hann hafði líka kennt í brjósti um vin sinn, mann á nýræðisaldri að þurfa að standa í þessu.  Hann tók nú til að gera húsrof, skrúfa sundur vegginn eða skápinn eða hvað hann gerði.  Það tókst svo vel að hægt reyndist að ná kettinum, sem reyndi hvorki að bíta eða klóra.  Hafði bara verið svona voðalega var um sig.  Eftir alla þessa hetjulegu baráttu fyrir lífinu er kötturinn búinn að vinna samúð mannsins míns og ég heyri að honum finnst leiðinlegt að lóga honum.  Ég sé nú að atburðirnir eru að snúast í höndum mér.  Hann er farinn að hringja í staði sem mér finnst ekki koma til greina og biðja um fóstur heimili.  Ég segi þá að ég skuli fóstra köttinn ef ég fái hann til eignar.  Það er borið undir fyrri eiganda og hún samþykkir það ef hún fái að sjá hann, svona rétt eins og þegar um mannabarn er að ræða.  Ég geri nú ekki ráð fyrir að verða neitt harðbrjósta í þeim efnum ef kötturinn verður lifandi þegar alvöru mamman kemur heim.  Kisan verður hér minnsta kosti einn mánuð en, nema hún brjóti stórlega af sér hvað hreinlæti varðar.  Hún er nú búin að brjóta einu sinni.  Það kann að hafa stafað af tungumálaerfiðleikum, hún hafi hreinlega ekki skilið til hvers væri ætlast af henni.  Ég hafði náð í allstóran pappakassa og skorið ofan af honum. Þá braut ég saman stærðar íslenskt ullarteppi og lét í botninn. Ég læt svo kassann við hlið sandkassans og ætlast til að hún sofi þarna.  Húsbóndinn reynir að gera henni skiljanlegt að þetta sé hennar rúm.  Hann vill ekki hafa hana í okkar herbergi, segir hún sé með umgang á næturnar.  Það truflar mig ekki. Ég held þessi fælni hans sé einhver arfur frá bernskudögum þegar hann kynntist köttunum norður í Fljótum.   Kisa lætur sér ekki skiljast þetta með kassann, hefir e.t.v. aldrei sofið í kassa.  Helst virðist henni hugkvæmast að þetta sé klósett úr því það er við hliðina á sandkassanum og að hún eigi að hafa hægðir til baksins í sandkassann en til kviðarins í ullarteppið. Teppið fór strax í þvottavélina og síðan þurrkað í stífri golu yfir nótt.  Ég er búin að ganga frá teppinu upp í skáp og taka kassann burt.  Við sjáum hvernig framvindan verður. Eiginlega eru þau að verða bestu vinir Uppáþrengja og fósturpabbinn. Ég hissa á þessu. Hann hefir gaman af að strjúka henni og hún gengur á milli okkar og nýr sér upp við okkur til skiptis og malar og malar.  Ég minni hann á að hann hafi nú ekki verið hrifinn af köttum.  Hann játar því, en segist eiginlega ekkert hafa þekkt þá.

Eftir mánuð þarf að greiða skráningargjald af kisu 15.000 fimmtán þúsund og ef hún verður tekin úr sambandi og merkt, þá bætast við 12000.  Þá trúi ég að hún eigi eftir að fá ormahreinsun líka en veit ekki hvað það kostar.  Mér finnst við nú ekki vön að eyða svona miklum peningum í óþarfa svo ég hugsa að við endurskoðum lífsleyfi hennar Uppáþrengju okkar, áður en fresturinn til að skrá hana rennur út.

Ég held að allir sem eru beðnir að taka dýr í geymslu en vilja ekki brjóta landslög, ættu fyrst að kynna sér lögin sjálfir til að eiga ekki á hættu að verða lögbrjótar. Lögin um kattahald eru trúi ég mismunandi eftir byggðarlögum. Hér á Suðurnesjum samanstendur samþykktin af 13 greinum. Allir ættu að hlýða landslögum svo lengi sem þau ganga ekki gegn Guðs lögum.   Það er alltof mikið virðingarleysi fyrir lögum þessa lands í dag.

 

 

 

 

 

 

 

24.08.2006 01:09

Hreingerning

 Nú er orðið langt síðan ég hefi skrifað. Ég fór að leita í dagbókinni sem stendur illa undir nafni. Hún hefir verið svo vanrækt dögum saman. Því hafa valdið verðugri verkefni. Ég fann í dagbók að við hefðum farið í að mála svefnherbergið þann 13 júlí. Við lukum því ekki á einum degi, ásamt tiltekt í skápum.  Þess þurft nú heldur ekki. En ég hefi tröllatrú á málshættinum: ,,Hálfnað er verk þá hafið er". Við áttum nokkuð eftir af málningu frá því við máluðum stofuna svo það þurfti ekki miklu við að bæta. Þetta framtak gekk nú bara vel, og þar sem húsbóndinn hafði tekið svo vel í þessa framkvæmd þá datt mér í hug að ganga á lagið. Ég þoli samt allra verst þegar mér finnst fólk ganga á lagið gagnvart mér eða mínum, svo mig langar ekkert að verða þannig sjálf og reyni því að hafa hóf á. Næst var það geymslan sem mér fannst vanta einhverja umbyltingu í. Geymslan sjálf er ágæt útaf fyrir sig, loftgóð, hlý, rakalaus og með góðar hillur. Ég er að vísu of hávaxin til að ganga þar upprétt en er nú orðin útfarin í að ganga hæfilega lotin. Á langri ævi gerist .það oft hjá fólki, sem hefir verið í rúmgóðu húsnæði, að ýmsir hlutir safnast upp hjá því, sem það hefir ekkert við að gera lengur. Húsbóndinn átti þarna marga kassa af bókum, kristilegum og minna kristilegum, sem hann var fyrir löngu búinn að ákveða hvað af skyldi gera en ekki komið til framkvæmda af því honum finnast svona verk svo leiðinleg. Mér finnst aftur á móti tilvinnandi að fara í tiltekt því þá sést á eftir að eitthvað hafi verið gert. Öðruvísi en þessi daglegu húsverk. Þá sést aldrei að neitt hafi verið gert, nema þau séu látin ógerð í einhverja daga. Mér mundi samt ekki finnast tilvinnandi að skapa svoleiðis tilbreytingu. Jæja, við fengum okkur nú sinn stólinn hvort til að setja á í geymslunni. Það er ekki hægt að vera að flokka bækur hálfboginn, ekki fyrir svona gamalt fólk. Svo var nú fyrsti bókakassinn dreginn fram og þá þurftum við aðra tóma kassa helst þrjá eða fl. Í einn áttu að fara kristilegu bækurnar norsku eða sænsku og í annan þær sem átti að fleyja af því þær voru orðnar svo óhreinar og gatslitnar af gegnum kynslóðum. Svo komu nokkrar bækur sem ég hafði áhuga fyrir að lesa, áður en þeim yrði fargað og ég reyndi að stinga þeim einhversstaðar í bili. Það er gott að vera búinn að birgja sig vel upp af kössum því líka þarf kassa undir það sem á að fara í Góða hirðinn og annan undir það sem á að fara í Rauðakrossinn. Þetta voru ekki eingöngu bækur sem við fórum gegnum. Ég verð nú að segja það, að þótt bónda mínum leiðist þetta verk þá er gott að vinna með honum. Hann vinnur af skerpu þegar á vígvöllinn er komið og er alls ekki sínkur á hluti. Hann lagði niður aftursætin í bílnum og staflaði þar því sem fleygja skyldi. Við lukum þessu nú ekkert á fyrsta degi en næsta dag fórum við með marga kassa í Kölku Þar næsta dag fórum við en í Kölku með kassa og á fjórða degi það seinasta. Mikið var nú gott að geta þvegið rykið úr hillunum og gólfið og raðað upp í þær aftur vel merktu dóti sem auðvelt verður að finna aftur og látið allt fara vel. Ég álít mjög heppilegt fyrir gamalt fólk að vera ekki að basla með hluti sem komist verður af án. Losa sig bara við þá á meðan maður hefur heilsu til og ekki leggja það á eftirkomendurna. Í Biblíunni segir frá konungi nokkrum sem fékk eftirfarandi boðskap frá Drottni. ?Ráðstafa húsi þínu því að þú munt deyja." Ég hefi ekki fengið þannig skilaboð nema hvað ég veit og allir vita, að það liggur fyrir mönnum eitt sinn að deyja og eftir það er dómurinn. Þegar ég var barn og unglingur var alltaf í mér óhugur við að deyja. Ég fékk einu sinni mjög vondan kíghósta sem barn og ég varð svo hrædd við að deyja að ég bað Drottinn um líf og ég ætlaði að vera betur undirbúin næst. Mér fannst ég ekki vera tilbúin að mæta Drottni. Svo liðu nokkur ár, þá komst ég í lífsháska og fann að ég var ekkert betur undirbúinn en áður. Ég var svo langt frá allri mannlegri aðstoð að ekkert þýddi að kalla eftir henni, enginn gat heyrt til mín. Þá ákallaði ég Drottin og hann bænheyrði mig eins og Hiskía konung. Hann gaf Hiskía 15 ár í viðbót. Hann gerði betur við mig og er búinn að gefa mér 63 ár að mig minnir.

 Fáum árum eftir þessa lífsreynslu las ég grein í Norðurljósinu sem minnti mig á, að ég var ekki enn tilbúin að mæta Kristi. Þá hugsaði ég að best væri fyrir mig að líta í Biblíuna sjálfa og hitti þar á fyrra Pétursbréf og annan kafla 13 vers og las áfram niður úr.  Ég kom að versi 24og 25 sem hljóða svo:

,,Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eru þér læknaðir. Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans sem er hirðir og biskup sálna yðar".

Þessi orð urðu sannleikur lífs míns á þeirri stundu, þannig að þá fann ég mig í lagi til mæta Drottni mínum og óttinn við dauðann hvarf og hefir ekki ánáðað mig síðan. Ég man það að ég teiknaði blóm í litlu dagbókina, sem ég hélt um það leyti, af því ég vildi ekki skrifa með orðum um það sem ég hafði reynt, ef þessi mikla öryggistilfinning mín skyldi gufa upp. Hún hefir ekki yfirgefið mig síðan. Hún var komin til að vera. Ég vil taka fram að það þurfa ekki endilega að vera sömu orðin sem verða öllum til vakningar. Guð valdi bara Pétur til að vera minn andlega föður. Hann gæti alveg eins notað Matteus, Markús eða Jóhannes til að vekja þig lesandi minn.  ,,Leitið og þér munuð finna."

31.07.2006 12:17

Ferðalag norður

Þann 19 júní kom dóttursonur minn Sigurd að nafni, frá Noregi, í heimsókn. Hann er orðin 12 ára gamall og var einn á ferðinni núna og í fyrra líka. Honum finnst svo gaman á Íslandi, aðallega á Akureyri því að dóttir mín sem þar býr á son á líku reki og þeim fellur svo vel saman. Hann var nú einmitt á leið þangað og þar sem hann átti pantað flug norður daginn eftir, þá ókum við honum þann dag inná Reykjavíkur flugvöll. Við vorum tímanlega á ferðinni eins og mér finnst alltaf best. Drengurinn byrjaði á að sýna skilríki sín þegar á völlinn kom. Mamma hans hafði borgað fyrir hann fram og til baka til og frá Íslandi, líka norður og suður, svo að þetta gekk nú allt fljótt. Eftir það settumst við í sæti við gluggann og biðum. Þangað komu líka konur tvær og í ljós kom að önnur þeirra hafði átt heima í næstu götu þegar ég átti heima á Akureyri. Hún fór strax að hæla tengdasyni mínum, hafði eitthvað .þurft til hans að leita sem læknis og dásamaði hann mikillega sem góðan mann. ,,Mér finnst það líka". Sagði ég bara. Svo var nú kallað út í vélina og allir þustu upp og einnig ég. Einhvernvegin fannst mér ég ætti bara að fylgja drengnum út fyrir dyrnar til að kveðja hann þar. Flugvéin var þar skammt fyrir utan, því þegar komið er úr asanum á Keflavíkur velli í rólegheitin á Reykjavíkurflugvelli er eins og maður sé komin út í sveit þar sem stigið var út fyrir dyrnar og gesturinn kvaddur á hlaðinu. Stúlkan sem stóð við dyrnar og tók á móti ferðaspjöldum farþeganna stoppaði mig í því, að fara að taka upp kveðjusiði forfeðra minna í sveitinni og hleypti mér ekki út á hlaðið, svo ég sneri þá aftur til baka og komst úr fortíðinni inn í nútíðina. Héldum við svo aftur á leið heim með viðkomu hjá mágkonu minni í Kópavogi.

Það var svo þann 25. Á sunnudegi í sama mánuði, að næstu gestir komu frá útlöndum. Í það sinn voru það sonur minn úr Danmörku og konan hans hún Birta sem er dönsk. Vinur hans íslenskur, hafði boðið þeim í hestaferðalag á norðurlandi. Þau gátu aðeins sofið eina nótt hjá okkur því þau þurftu að komast norður daginn eftir. Þau höfðu verið að hugsa um að taka sér bílaleigubíl en af því ég átti hálft um hálft erindi norður líka, fannst mér tilvalið að þau fengju okkar bíl lánaðan og ég fengi að fljóta með þeim. Ásgrímur ætlaði að fara annað og ég vissi að hann gat farið með vini sínum þangað svo hann þurfti ekki bílinn. Svo ég fór með þeim daginn eftir í góðu veðri en sólarlitlu sem er betra ferðaveður í bíl heldur en sterkt sólskin. Það var ánægjulegt að koma að Vinaminni og sjá hvað garðurinn þeirra er orðinn fallegur og allt á uppleið innan og utanhúss. Við gistum svo öll þrjú í Stekkjargerði en Sigurd frá Noregi var þar fyrir.

Ég fékk náttstað í herbergi sem dóttir mín notar fyrir vinnuherbergi og kettirnir nota til samvista við hana og hvíla sig í rúminu. Þau heita Birta og Máni. Þetta eru Síamskettir. Birta kom fyrst á heimilið og mér fannst hún ógn mjó og rengluleg í vexti sem unglingur, ekki nærri eins falleg og íslensku kettirnir. Svo óx hún nú uppúr þessu unglingsgervi og varð þolanleg. Hún hafði strax fallegan haus og skírlegt upplit. Svo var nú annar kettlingur fenginn, sjálfsagt til að vera Birtu til skemmtunar þegar heimilisfólkið væri við nám og störf sín utanhúss en hann var og er daufeygður. Samt voru augu hans alls ekki lítil, bara svona þokuleg og sljóleg. Mér hafði ekki fyrr verið ljóst hvað í þeim orðum fólst sem sögð eru um Leu í Biblíunni. Hún var sögð daufeygð. Ég hafði ekki getað séð hvaða óskaplegur útlitsgalli það væri, sem nægði til þess að hún væri alla tíð fyrirlitin af eiginmanninu, fyrst hún var ekki sögð blind. Hún gat líka eignast fullt af börnum sem þótti nú mikill kostur þá. Þegar ég sá Mána þá laukst upp fyrir mér að það er mikill útlitsgalli að vera daufeygður. Ég var ekkert viss um að hann hefði fulla greind eða fulla sjón en mér var sagt að hann hefði sjón. Ég held að eigendur Mána hafi alveg eins mikið uppáhald á honum eins og Birtu og það þurfi alls ekki að kaupa þau með einhverju nammi til að vera góð við hann eins og aumingja Lea þurfti með sinn eiganda. Tengdasonur minn hefur veg kattarins upp með því að segja "Hann er góður við alla." Ég held honum finnist kötturinn eigi skilið meiri virðingu en ég hefi í té látið.

Auðvitað er engin kurteisi að vera að hafa orð á, þótt maður sjái einhver lýti á dýrum þess fólks sem maður dvelur hjá sem gestur. Ég verð að játa að Máni er góður við mig, því hann vill gjarnan lofa mér að deila rúmi með sér. Birta kemur ekki nálægt meðan ég bý í herberginu. Hún er það sem mamma mín kallaði "tyrtuleg" um mig, þegar ég var krakki og var ekki nógu huppleg við ókunnugt fólk Orðabókin gefur þá skýringu meðal annarra um orðið tyrtuleg, að það sé skepna sem vill ekki aðhyllast menn. Við kynningu kemur í ljós að Mána er ýmislegt gefið fram yfir það að vera þægilegur í umgengni við náunga sína. Ég hefi oft séð kött opna hurð með loppunni sé hurðin ekki alveg að stöfum svo að hann kemur klónni á milli en ég hefi ekki heyrt áður um kött sem stökkvi upp á hurðarhúninn til þess að opna eins og maður opnar hurð. Það gerir Máni. Þetta tekst stundum og stundum ekki en nógu oft til þess, að hann leggur ekki árar í bát. Einn daginn sá ég það til hans að honum var efst í huga að stökkva út um gluggann á herberginu okkar og niður á hellulagða stéttina þar sem garðstólarnir og borðið eru. Þetta fannst mér nú býsna djarft því þetta er meira en einnar hæðar hús þótt kjallarinn sé nálægt meter í jörð, en þetta vex honum ekki í augum þegar engir aukahlutir eru á stéttinni sem hamla för. Ég furða mig á því að hann skuli ekki heldur fara gegnum stofuna og út úr henni er stigi niður á stéttina. Honum finnst ef til vill galli við þá leið, að þurfa að fara gegnum tvennar dyr, sem eru ýmist opnar eða lokaðar svo þetta sé einfaldara að láta sig bara dúndra niður á stéttina. Ég held þau séu búin að sanna það þessi kattahjú að þau séu ekki neinir sérstakir innikettir svo sem mér skildist þau ættu að vera þegar þau voru keypt.

08.06.2006 07:05

            Hvenig getum vér þekkt Guðs vilja?

Hinn góðkunni predikari, Mr.F. B. Meyer, segir svo frá: Ég var á ferð yfir Írlanshaf eina nótt.  Það var mjög dimmt, ekkert tunglsljós, ekki sást einu sinni stjarna.  Ég stóð hjá skipsstjóranum, meðan við vorum að nálgst land.  "Hvernig getið þér ratað í höfnina í Holyhead í þessu þreifandi myrkri?" spurði ég.  "Sjáið þér þessi þrjú ljós?  Þegar þau eru öll í beinni línu, svo að þau líta út eins og þau væru eitt ljós, þá vitum, við hvar við erum og getum hæglega fundið hafnarminnið." 

Svar skipstjórans gaf mér tilefni til umhugsunar.  Þegar vér viljum fá að vita, hver er vilji Guðs, þá er það þrennt, sem þarf að standa svo að segja í beinni línu, - innri sannfæring vor, Guðs heilaga orð og ytri kringumstæðurnar.  Þegar við finnum að Guð sannfærir hjartað, þegar vér sjáum að það sé í samræmi við hans heilaga orð og þegar hann stjórnar hinum ytri kringustæðum vorum, svo að þetta þrennt sé allt í samræmi hvert við annað, þá vitum vér, að oss er alveg óhætt að sigla áfram.  Vér munum vissulega rata.  en án þessara þriggja samhljóða hluta má aldrei gera neitt.

                           Tekið úr Norðurljósinu 1932.

 

 

19.05.2006 02:01

Sáðmaður gekk út að sá

Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist ,að honum, að hann varð að stíga út í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið. Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:

"Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá, og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar himinsins komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. En er sól hækkað visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu upp og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt. En sumt féll í góða jörð. Kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt." Og hann sagði: "Hver sem eyra hefur að heyra, hann heyri!" Mark. 4: 1-9.

Menn sáðu í Gyðingalandi og menn sá á Íslandi. Þann 16 maí gekk húsbóndinn í þessu húsi út til að sá gulrófufræi og gulróta, í þessu unaðslega sólskinsveðri. En þótt veðrið sé gott þá geta ýmsir verið á ferð sem hugsa meira um sinn eigin hag en okkar. Fuglarnir hafa býsna góða fréttaþjónustu á veturna að ég ætla, því að ég hefi séð þá setja, einn og einn upp í háum trjám með löngu millibili. Þeir hafa að mínu áliti það starf að tilkynna félögum sínum ef einhver góðhjörtuð sál fleygir fuglamat út í garðinn sinn. Þeir eiga ef til vill líka að líta eftir köttunum, hvort óhætt sé, þeirra vegna, að setjast að krásunum.

Fuglarnir minna á sig á veturna en við erum ekkert að gefa þeim núna. Þeir fóru líka að verða lausari við þegar voraði. Gæti best trúað að þeir hefðu farið í langt ferðalag. Þeir sjást lítið það næsta okkur. Samt fylgjast þeir meira með athöfnum okkar en við höldum.

Að lítilli stundu liðinni eftir að beðið hafði verið stúngið upp og sáning var hafin, hafði hópur fugla safnast í nágrenni við sáðmanninn. Gátu varla biðið með að setjast að krásinni þar til hann hefði lokið verkinu og léti sig hverfa. Þeir höfðu sennilega komist að því að það gæti verið arðsöm atvinna að ganga í spor sáðmannsins og týna fræin um leið upp úr moldinni. Þannig fréttir höfðu mér áður borist af athæfi þessara fugla hér á suðurnesjum og varð þessi atburður til að staðfesta að það væri engin lygasaga, þótt mér fyndist hún ótrúleg. Svona innrætta fugla hafði ég aldrei heyrt um, þar sem ég ólst upp, nema Krumma. Hann hafði það til á haustin að vakna á undan okkur til að draga silunganetin uppúr Kistulæknum sem lögð höfðu verið kvöldinu áður. Hann hafði víst málsháttinn í höfðinu: "Morgunstund gefur gull í mund." Sáðmaðurinn sá nú hvert stefndi með sitt ræktunarstarf og sótti plastdúk til að verjast frekari ágangi nágranna okkar. Ég hefi ekki séð þá síðan.

Jesús sagði: ,,Heyrið þér nú dæmisöguna um sáðmanninn: Hvenær sem einhver heyrir orðið um ríkið og skilur það eigi, þá kemur hinn vondi og rænir því, er sáð var í hjarta hans."

Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 130
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123423
Samtals gestir: 24542
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:10:44

Eldra efni

Tenglar