Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2006 Október

18.10.2006 20:32

Að kaupa nýja skó

Alveg er það nú merkilegt að af öllum þessu auglýsingum sem inn um bréfalúguna streyma eins og stórstraumsflóð, skuli maður hafa hitt á eina sem kemur manni að gagni. Það skeði þó nýlega hjá mér. Intersport í Smáralind í Kópavogi var að auglýsa skó á niðursettu verði. Ég hafði átt hvíta skó reimaða sem ég var búin að nota sem inniskó stöðugt í nærri sex ár hér á suðurlandi og ég man ekki hvað lengi á norðurlandi. Nú var komið gat á leðrið á öðrum skónum og því mál að endurnýja. Ég hafði leitað hér í Keflavík en enga fundið sem hentuðu. Nú sá ég í bæklingi mynd af hvítum skóm sem seljast áttu á 3990 á niðursettu verði. Þetta fannst mér mjög hóflegt verð og langaði að fara á staðinn. Eiginmaðurinn var fús að vera minn einkabílstjóri.

Við ætluðum að fara víðar og ég er ekki sérlega snjöll að rata í Reykjavík. Reyndar finnst mér Reykjanesbrautin leiðinleg líka síðan þeir hófu framkvæmdir við hana aftur, full af hraðatakmörkunum, sveigjum og beygjum og gulum strikum útaf vegavinnuframkvæmdunum. Mér fannst hún svo býsna þægileg meðan hún var bara hrein og bein tveggja akreina braut. Það eru nú víst fáir sem vildu hverfa aftur til þess tíma. Þetta verður sjálfsagt gott þegar framkvæmdum líkur. Alltaf mun samt stafa hætta af þeim sem sýnast leggja allt undir til þess að ná háttum á grafarbakka.

Fyrst var nú á dagskrá hjá okkur að koma við á Sólvangi í Hafnarfirði til að heimsækja gamla vinkonu mína,Rögnu Benediktsdóttir, sem þar er búin að dvelja í mörg ár en þar áður á elliheimilinu Grund í Reykjavík.

Við erum fæddar í sömu sveit og ekki meira en hálftíma gangur á milli heimila okkar.

Þegar bróðir minn Daníel var tekinn við búi heima hjá foreldrum mínum þá fór hann að byggja á jörðinni. Þá mun það enn hafa verið siður í sveitinni að nágrannarnir kæmu og tækju þátt í verkinu með þeim sem var að byggja, því ekki var hægt fyrir einn að steypa upp hússkrokkinn. Þegar allt efni hafði verið flutt heim á hestakerrum, timbur, sement ,sandur og möl og búið að slá upp mótum, þá var komið að því að hóa saman mönnum. Steypan var hrærð í tunnu sem sett hafði verið upp í statíf og síðan snúið með því að maður steig hana í hring. Þegar steypan var fullhrærð var hellt úr tunnunni á pall og mokað í skjólur sem voru handlangaðar upp til þeirra sem helltu steypunni í mótin.

Þá man ég, að ég var oft send niður að Seli til að biðja um mannhjálp en þar bjuggu foreldrar Rögnu. Satt að segja voru mér, sem barni, slíkar betliferðir lítt að skapi en bót í máli að alltaf var pabbi hennar fús til að svara kallinu og senda minnst annan sona sinna. En öðruvísi var ekki hægt að hafa þetta. Það voru flestir, ekki allir, nágrannarnir búnir að koma sér upp steinhúsi, svo ekki yrði hægt að endurgjalda þeim í sömu mynd. Þeir fengu víst ekki annað en matinn meðan á verkinu stóð. Eiginlega finnst mér ég skulda þessari fjölskyldu það frá þessum dögum að heimsækja Rögnu en fer því miður alltof sjaldan. Hún er aðeins eldri en ég en er búin að vera sjúklingur og öryrki síðan hún fékk kíghóstann þriggja ára gömul. Uppúr honum fékk hún flogaveiki sem varð viðvarandi og á seinni árum er hún búin að brotna margsinnis og líka vera skorin upp.

Hún er nú í hjólastól. Þegar ég ber líf okkar saman dettur mér oft í hug að um mig má segja: ,,Þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir en Ragna á sama hátt sitt böl." Mun þetta verða einhvern tíma jafnað? Hún sagðist vona að það yrði tekið á móti sér er hún yfirgæfi þennan heim og ekki efa ég það. Hún ber svo einlægt traust til frelsara síns. Hún fór með sálminn ,,Ég kveiki á kertum mínum við krossins helga tré." fyrir okkur og virtist alveg ná því að fara með öll versin í réttri röð með veikburða rödd en vissu öryggi samt. Ég man aldrei eftir að hafa tárast fyrr undir predikun eða andlegu ávarpi en undir upplestri þessa veikbyggða þjáninga barns, þar sem andlegi krafturinn yfirskyggði veikleika líkamans gat ég ekki varist tárum. Ég skildi að þetta var arfurinn sem hún hlaut í veganesti úr foreldrahúsum og hafði með sér út í líf þjáninga og fárra tækifæra. Sæl eru þau börn sem hljóta slíkt veganesti. Meðan ég enn var ung að árum heima í sveitinni hafði ég heyrt að Björg systir hennar hefði kunnað 50 sálma þegar hún gekk til prestsins fyrir fermingu sína. Ég er líka viss um að Ragna kunni fleiri en þennan eina sem hún fór með fyrir okkur.

Jæja, við héldum nú af stað þaðan og komumst heilu og höldnu inn í Kópavog og í verslunina. Það voru ekki mörg pör eftir af þessum fyrirhuguðu skóm. Ég þarf eftir skógerðum ýmist 39 eða 40. Í þessu tilfelli þurfti ég nr.40 til þess að nógu rúmt væri um fótinn og viti menn, eitt par eftir af þeirri stærð. Sannarlega voru þeir mér ætlaðir og ég var ánægð með þá. Þar eftir héldum við inn í Reykjavík að heilsa upp á systur Ásgríms og mann hennar og vorum þar vel móttekin. Þá var erindum lokið og aðeins eftir að koma sér heim.

10.10.2006 22:05

5o ára útskriftar afmæli

Fimmtíu ára útskriftarafmæli.

Ég held að það hafi verið einhvern tíma í september síðastliðnum að hún Rósa skólasystir mín úr Ljósmæðrskólanum hringdi til mín og forvitnaðist um, hvort ég hefði áhuga á að mæta í 50 ára útskriftarafmæli okkar ef haldið yrði uppá. Ég taldi það líklegt. Nú átti ég heima á suðurlandinu og minna fyrirtæki að taka sig upp og taka þátt í ýmsu sem bundið væri við höfuðborgarsvæðið. Ég hafði víst ekki séð sumar af skólasystrunum síðan við útskrifuðumst. Þegar við lesum sögur hinna gömlu íslensku ljósmæðra má segja að okkur hafi hlotnast mikill heiður að fá að bera starfsheitið,,ljósmóðir" Þetta voru svo miklar ágætiskonur, alltaf reiðubúnar í hvernig færð og veðri sem var er þær voru kallaðar til að sinna fæðandi konum.

Þá höfum við nú líka dæmin úr Biblíunni þar sem sagt er frá tveimur hebreskum ljósmæðrum sem Egyptalandskonungur bauð að deyða sveinbörnin strax eftir fæðinguna en meybörnin máttu lifa. En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gerðu ekki það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim heldur létu sveinbörnin lifa. Við getum nú rétt ímyndað okkur að þær hafi hætt hér miklu til, að óhlýðnast sjálfum konunginum...En það stendur neðar á blaðsíðunni: ,,Og guð lét ljósmæðrunum vel farnast,og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög. Og fyrir þá sök að Ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja." Þær voru fúsari að bjarga heldur en að farga lífi

Það má segja að fyrir hennar Rósu drift og framtakssemi varð þessu útskriftarafmæli okkar til vegar komið og á hún allan heiður skilið af okkur hinum fyrir alla sína fyrirhöfn og hringingar út og suður. Árangur erfiðis hennar birtist í því að 30 september mættum við átta ljósmæður í Salthúsinu í Grindavík til sameiginlegrar máltíðar ásamt fjórum köllum sem voru eiginmenn fjögurra ljósmæðra í okkar hópi. Tvær af hópnum gátu ekki mætt og tvær voru dánar. Við vorum þarna þá samtals 12 samankomin. Það var nú lagt á borð fyrir okkur ljósmæðurnar sér við borð en þeir voru hafðir annarstaðar, samt í sama sal. Það var sjálfsagt skynsamlegt því líklega hafði hvor hópur um sig óskyld áhugamál til að ræða

Okkar umræða snerist mest um það sem gerðist fyrir 50 árum síðan. Sumar höfðu unnið lengi við það starf sem við höfðum menntast til og aðrar sinnt hjúkrun aldraðra um mörg ár. Við vorum misjafnlega langt að komnar. Ein kom frá Ísafirði og önnur frá Eskifirði. Hinar held ég hafi komið af höfuðborgarsvæðinu. Ég held að sumar hafi ekki sést í 50 ár og naumlega þekkt hver aðra. Maður breytist á svo löngum tíma. Hárið upplitast og það breytir ekki svo litlu og svo.framv. Við fengum þarna góðan mat og í eftirmat einhverskonar bláberjaís í pönnukökum listilega útbúnum sem ílát undir ísinn.

Það var margt rætt og rifjað upp á meðan á borðhaldi stóð og ef til vill best að við sætum einar að þeim minningum. Ég hugsa að kallarnir hafi ekkert heyrt, þeir sátu það langt frá. Mér fannst það samt bæði rausnarlegt og snjallt hjá henni skólasystur okkar að hafa frumkvæði að því að bjóða köllunum líka. Þeir þurftu sumir hvort sem var að aka sínum konum langa leið til fagnaðarins. Þegar máltíð var lokið gekk Rósa fram í afgreiðsluna og ég þóttist vita að hún hefði farið að gera upp kostnaðinn við veru okkar. Þegar við svo ætlum að gera upp við hana kemur á daginn að hún hafði ákveðið að bera allan kostnað af veru okkar allra á þeim stað og ekki nóg með það. Nú vildi hún bjóða öllum heim til sín á eftir í kaffi og tertur.

Það var yndislegt að koma inn á hið fallega heimili þeirra hjóna og dásamlegt að sjá hvað sumt fólk hefur frábæran smekk til að gera heimili sín aðlaðandi, þótt það fari ekki milli mála að hönnuður hússins á þar stóran þátt en fleira þarf til að koma. Eftir að hafa gert okkur gott af veitingunum þar og setið að spjalli kvöddum við hina rausnarlegu gestgjafa okkar sem höfðu sýnt okkur að enn búa á Íslandi fornaldarhöfðingja. Héldum við svo heim á leið. Ég hafði fengið far með Maddý og manni hennar fram og til baka og þakka þeim kærlega fyrir. Þau búa í sama bæjarfélagi og höfðu boðið mér að vera samferða.

02.10.2006 21:23

Öðruvísi dagur

Öðruvísi dagur

Það er nú helst að frétta af mér að ég er orðin einu ári eldri en ég var í fyrra. Það var eitthvað á reiki í huga mér hvernig ég skyldi haga mér í því ssambandi. Vera heima eða ekki. Það má segja að yfirleitt hafi ég haldið upp á mitt afmæli með því að halda ekki upp á það. Sumir trúaðir menn álíta það rangt að halda afmælisveislur. Það á að helgast af því, að einn óguðlegur konungur í Ísrael hélt upp á afmæli sitt.

Hann fékk stúlku til að dansa fyrir sig og sína boðsgesti. Hvort hún var tjóðruð við staur eins og gerist hjá okkur í dag, það er ekki ljóst af frásögninni.

Ég hefi alltaf haldið að hún hafi svifið um. Annað finnst mér órökrétt ef dans skal heita. Konungur varð alveg upplyftur eftir að hafa horft á dansinn. Hann bauð henni að bera fram ósk sína og hún skyldi uppfyllt, allt að helmingi ríkis hans. Þetta var auðvitað rífandi rausnarlegt boð og unga stúlkan alveg óviðbúin. Hún fór því til móður sinnar og bað um leiðbeiningu.

Sú virðist nú ekki hafa farið að hugleiða hvað dótturinni kæmi best með framtíð hennar í huga. Hún bauð henni að biðja um höfuð Jóhannesar skírara á fati. Hann var spámaður Guðs en fangi konungsins og hafði ávítað hann fyrir ósiðferði þar sem þessi kona kom sjálf við sögu. Margir munu vita endalokin og sumir segja að þetta sé eina afmæliveislan sem getið er um í Biblíunni. Þess vegna vilja þeir ekki að fólk haldi afmælisveislur.

Ég var nú ekkert bundin af þessari hugsun enda aldrei ætlað mér að fá neina súlumey eða annarskonar dansmey til að skemmta.

Það var nú heldur hitt að mér vex allt í augum hvað matreiðslu snertir. Ég á nóg af uppskriftum og mér þykir ekki leiðinlegt að skrifa þær upp á blað, en það fer eins og í einhverju ljóði: ,,Að hugsa það, langa það, loksins að vilja það en í verk því að koma, ég má ekki skilja það." Það verða alltaf til viðfangsefni sem mér finnast skemmtilegri þegar um er að ræða að hefjast handa. Ég get nú samt alveg haldið fólki á lífi á fáeinum einföldum réttum. Ég er alin upp við fáar fæðutegundir og veit að það er alveg hægt að lifa af þeim. Saltfiskur, selspik og kartöflur að mjólk meðtalinni voru ríkjandi sem fæði á engjunum, dag eftir dag um sláttinn, já meira að segja allt árið nema selspikið, ég held að það hafi ekki alltaf verið til.

Faðir minn var í kunningsskap við bónda í fjarlægri sveit og tætti fyrir hann hrosshár. Vann úr því þarflega hluti eins og reipi, hnappheldur líka að mig minnir og fékk hjá honum selkóp úr vigrinni í staðinn. Á þessum mat varð ég aldrei leið og þetta kann ég að sjóða en spikið er held ég ófáanlegt og ekki heldur vanalegt að fólk haldi upp á afmæli sitt með þessum réttum.

Þegar nær dró fór dóttir mín í Noregi að forvitnast um hvað ég ætlaðist fyrir, að vera heima eða fara að heiman? Upp úr því ákvað ég að taka þann kost að vera heima við, þar sem nú líka kötturinn var kominn til sögunnar og hann yrði ekki skilinn einn eftir til langs tíma.

Ég gerði ekki ráð fyrir fleirum en rétt innan við 30 gestkomandi. Það voru börnin okkar og makar þeirra sem gætu mætt og örfáir að auki. Mér datt nú ekki í hug að bjóða syni mínum í Danmörku því hann og kona hans voru búin að koma í sumar. Gæti ég skipt þessum hópi á 2 daga þá gæti ég haft þetta heima hjá okkur. En eftir umhugsun fannst mér skemmtilegra að hafa það í einum hópi. Fór þá að hugsa um lítinn sal þar sem okkur væri svolítið nýnæmi að koma á og kynnti mér möguleika á að fá aðsenda þjónustu. Áður en þetta yrði afgert ákvað ég að hringja í fólkið þar sem ekki voru margir dagar til stefnu, og vita hvort það gæti komið. Með því að færa afmælið aftur um einn dag, kom í ljós að næstum allir sem ég átti von á, gætu mætt.

Þegar ég svo hringdi í bróðurdóttur mína eina af þremur sem búa tvær í sama húsi í Reykjavík og sú þriðja í húsi rétt hjá. Þá fer hún að spyrja mig hvort hún geti ekki hjálpað mér og ég segi henni hvað í býgerð sé. Hafði ekki hugsað mér að leggja frekari byrðar á boðsgesti en að mæta. Það sé ekki ákveðið hvar mæst verði en ég væri að horfa eftir litlum sal. Eftir stutta stund hringdi hún svo aftur og hafði þá, að ég held, talað við systur sína sem heima var. Hún spyr hvort ég vilji ekki þiggja að halda afmælið hjá sér. Hún hafi stórt húsnæði og þótt allir geti ekki setið við sama borð séu til nóg sæti og innskotsborð og þær systur skuli sjá um allt og gefa mér það í afmælisgjöf. Ein systirin var ekki heima þá en heimkomin gekk hún inn í hlutverkið með þeim.

Mér þótti ábyrgðarhluti að gera að engu svo rausnarlegt boð, vildi leyfa þeim að ávaxta þá eðliseigind sem þær hefðu að erfðum tekið frá sínum foreldrum Mér dettur í hug það sem nágrannakona okkar í æsku, sagði við mig um föður þeirra systra. ,,Hann var frír í sér." Ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta orð notað áður né síðan um mann sem væri rýmilegur í útlátum.

Hefur það því orðið mér minnisstætt. En hvað hafði hún fyrir sér. Hún hafði þekkt hann lengur en ég.

Hann var 16 árum eldri en ég og farinn burtu til að vinna heimilinu gagn um það leyti þegar ég fæddist. Hans vinna utan heimilisins stóð undir því að hægt var að kaupa viðbót við jarðnæðið heima sem var mjög lítið.

Þegar börn unnu að búskapi foreldra sinna var venja að þau eignuðust smám saman nokkrar kindur sjálf . Þegar þessi bróðir minn var fluttur burtu alfarinn, kom hann heim og ráðstafaði kindum sínum, sem ekki voru margar. Hvort sem ærnar voru nú 6 eða 7. Jarðnæðið var lítið og búið bar ekki margar skepnur. Það er af ánum að segja að hann gaf þær móður okkar sem séreign að skilnaði.

Þannig skildi hann við sitt fátæka bernskuheimili og mér finnst það hafi verið honum sómi. Ég er ekki viss um að dætur hans hafi heyrt þetta áður og get þess því hér.

Þegar kona hans kom til sögu færðist það meira yfir á hennar hendur að velja í jólapakkana. Hún kunni því vel að hafa eitthvað að gleðja þá með sem lítið höfðu.

Daginn áður en halda átti uppá afmælið fórum við upp á flugvöll til að taka á móti dóttur minni Önnu frá Noregi þá sjáum við son minn Jóhannes birtast með henni. Hann hafði þá tekið vél frá Danmörku og beðið á vellinum eftir að við kæmum að sækja Önnu. Svo birtist dóttirin mín frá Akureyri kvöldið eftir um sjöleitið í Sæviðarsundinu á boðuðum tíma. Því miður gat maðurinn hennar ekki komið, það var einum degi of snemma fyrir hann. Bróðursonur minn sem ég átti von á veiktist. Við vorum 26 sem mættum.

Ég vil að lokum þakka systrunum og þeirra mökum fyrir sinn frábæra þátt í að gera áttræðisafmæli mitt ánægjulegt og einnig þeim sem til máls tóku og rifjuðu upp gamla daga. Fyrir öll fallegu blómin, skeytin og gjafirnar. Ég var ekki nógu skörugleg að standa upp og þakka fyrir mig þar á þeirri stundu. Sá það ekki fyrr en seinna, að svona á ekki að haga sér. Ég segi bara eins og Jakob ærlegur: ,,Dugir ekki að gráta gengur betur næst." Ég held að maðurinn minn hafi nú eitthvað bætt úr þessu háttleysi mínu og þakkað fyrir mig og þakka ég honum fyrir það.

  • 1
Flettingar í dag: 171
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99834
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:46:59

Eldra efni

Tenglar