Þóra Guðrún Pálsdóttir

1912 - Útgáfa Norðurljóssins hefst

Í  janúar 1912, þegar  Arthur var 29 ára gamall, hóf hann útgáfu Norðurljóssins en hins vegar virðist dagbókin hafa oltið útaf skrifborðinu á þessum tíma, aðeins sjö dagar eru skráðir þetta ár.  Á öftustu síðustu fyrsta blaðs 1. árgangs stendur:
Norðurljósið kemur út einu sinni í mánuði og verður 96 blaðsíður á ári.  Árgangurinn kostar 50 aura og borgist fyrirfram.  Menn mega senda útgefanda verðið í óbrúkuðum frímerkjum.  Ritstjóri og útgefandi Arthur  Gook  Akureyri.
Við þetta má bæta að afgreiðslumaður blaðsins á Ísafirði var hr.  James L. Nisbet sem áður hefur verið sagt frá.

Hvað efni blaðsins snertir þá urðu "Molar frá borði meistarans"  framhaldsþættir í blaðinu og hófust á greinaflokknum "Persónuleiki Heilags Anda eftir Dr.  Torrey".  Annar vinsæll framhaldsþáttur varð "Heimilislækningar" en en auki voru greinar og þættir um margvísleg málefni. Hvernig viðtökur fékk svo þetta rit? Í þriðja hefti blaðsins, í mars 1912 skrifar ritstjórinn:
Lesendum blaðsins þykir líklega gaman að vita dálítið um viðtökurnar, sem "Norðurljósinu" hafa hlotnast og oss er gleðiefni að geta skýrt frá því, að þær hafa verið hinar beztu enda þótt það hafi heyrst úr tveimur eða þremur áttum, að það sjeu svo mörg blöð nú orðið, að mönnum þyki óþarfi að bæta við,  hefir það samt verið ánægjulegt að sjá, hve margir menn vilja þiggja fegins hendi sjálfstætt heimilisblað, sem er laust við pólitískt rifrildi, og sem ætlar frekar að  byggja upp en að rífa niður.  
Enn þá hefur ekki frést um viðtökurnar fyrir sunnan og í ýmsum sveitum, því það er svo skammt síðan blaðið hóf göngu sína. En vestra hafa þær verið allgóðar. Það er haft eftir einum manni á Ísafirði, þegar honum var sagt frá verði blaðsins: ,,Það er ómögulegt! ... Prestur fyrir austan skrifar: Jeg sá tveimur norðurljósageislum, er voru á ferð frá yður til prófastsins á ... bregða fyrir.  Af því að mjer þykir svo vænt um blessuð norðurljósin, einkum þegar ég er einn á ferð, bið jeg yður að senda mjer einnig nokkra geisla." Einnig er ritað úr Suður-Þingeyjarsýslu:  ,,Mér finst blaðið ómissandi á hvert heimili, svo að jeg vildi gera mitt ítrasta til að vekja athygli manna á því."
Sumir góðir vinir hafa skrifað lítið, en hafa sent skrá yfir áskrifendur, sem þeir hafa góðfúslega útvegað.  Þeim, og öllum sem hafa hjálpað til á nokkurn hátt, er tjáð innilegt þakklæti ritstjórans.
En það er margt að gera enn, til þess að blaðið geti komið að tilætluðum notum.  Áskrifendurnir þurfa að vera margir, til þess að það svari kostnaðinum að selja árganginn fyrir svo lítið verð (50 au.)  en þegar þeir eru orðnir svo margir að blaðið borgar sig, þá er búist við að stækka það og bæta á ýmsan hátt og selja þó fyrir sama verð, svo að ágóðinn verði á þann hátt lesendunum í hag.  Þess vegna förum vjer þess á leit við alla lesendurna, að þeir geri nokkrar tilraunir til að fá fleiri áskrifendur.  Það liggur nærri því í hvers manns valdi, að gera þetta með lítilli eða engri fyrirhöfn.
Ef menn senda ritstjóranum nöfn og heimili áskrifendanna, ásamt tillögum, þá verður blaðið sent beint til kaupendanna, ef þess er óskað.
Menn hafa þegið vel greinarnar um heimilislækningar, enda hefi jeg þegar frétt um menn, sem hafa farið að ráðum þeirra sjer til gagns.  
Ritstjóranum þykir vænt um að heyra frá lesendum sínum, ef það er einhver aðfinsla eða uppástunga, sem þeir vilja flytja honum.

Í apríl 1912 skrifar ritstjórinn á þessa leið:
Síðan síðasta tölublað "Norðurljóssins" kom út, hefir áskrifendatalan vaxið stórum.  Eiga þeir allir þakkir skilið, sem hafa góðfúslega ljeð hjálparhönd til þess að útvega áskrifendur á meðal kunningja og nágranna sinna.  Vjer höfum ákveðna hugsjón um það vinarsamband, sem ætti að vera milli lesenda og ritstjóra sjerhvers blaðs, en þá sjerstaklega blaðs, sem er bygt á kristilegum grundvelli, og það er fyrirboði ánægjulegs sambands, sem vonandi verður um langan tíma, að svo margir hafa sýnt blaðinu ákveðinn vinarhug.  Mikil hvatning er það, að vanda blaðið af ýtrasta megni - til endurgjalds.

Þeir sem dreifðu hinu ritaða orði
Mig langar að gefa lesendum hugmynd um hvernig Norðurljósið útbreiddist svo fljótt strax í byrjun.  Þar kom bóksölufólkið sterkt inn í myndina.  Áður en Norðurljósið kom til sögunnar höfðu þessir áhugasömu einstaklingar aðstoðað Arthur við að selja bækur og rit sem hann hafði til sölu. Nú hófust þeir handa við að safna kaupendum að Norðurljósinu. Einn af þeim fremstu í byrjun var Eiríkur  Einarsson í Berlín, Höfðaströnd.  Hann sendi lista með nöfnum 46 manna sem áttu heimili víðsvegar um Skagafjörð.  Bréfið var póstlagt 6. mars 1912. Hann segir í bréfinu:
Hjer sendi jeg þjer 46  áskrifendur að Norðurljósinu, nöfn þeirra og heimili  og bið þig vinur minn að sjá um það að hver fái sinn árgang, annars skellur skuldin á mig ... Nöfn þeirra sem á skránni eru skrifaðir á Höfðaströnd skalt þú senda mjer eins og jeg talaði um í brjefi því, sem jeg sendi með fyrri listanum.  Hinum öllum, sem á skránni eru, verður þú að senda hverjum einstökum, því þeir vilja fá sitt blað beint, beina leið frá þjer með pósti á hvern afgreiðslustað sem er í þeim hreppi sem þeir eru í
 
Einnnig kemur í ljós að hann hefir sent annan lista áður en ekki hve marga áskrifendur þá.  Þessi maður stóð sig afburða vel í útbreiðslustarfinu bæði með bækurnar og blaðið. Kvenfólkið lét ekki sitt eftir liggja.  Ein skrifaði 20. september árið 1910:   
Kæri bróðir í Kristi!   Ef Guð lofar, langar mig til að takast ferð á hendur áður en langt líður, til að selja bækur.  Jeg held jeg geti það heilsunnar vegna, ef ekki verður vont veður eða ófærð því til hindrunar - og hefi jeg helst hugsað mjer að fara um Hörgárdal og Öxnadal.  Jeg held að stúlkan sem fór um Hjaltadalinn hafi varla ferðast um þá dali, því að þeir eru svo mikið úr leið þegar farið er um Hjaltadalinn ... Nú ferð þú líkast til bráðum að byrja vetrarstarf þitt, og bið jeg Drottinn að blessa þig og það margfaldlega.  Jeg  er þess fullviss, að þú munt fyr eða síðar sjá dýrðlega ávexti vinnu þinnar í Drottni því þeir verða aldrei til skammar sem á hann vona. J.J.

Önnur kona skrifar 16. mars 1911: 
Kæri bróðir!  Okkur Mæju minni hefur gengið vel að selja þessar bækur ... Mjer þótti fjarska leiðinlegt að hafa ekki fleiri bækur til sölu því jeg á mjög lítið eftir en hefi í hyggju að fara fram í fjörð í vor ef Guð lofar, máski fram í Grund og einnig út til Jórunnar.  Þetta hefi jeg í huga  þegar veður batnar og vona jeg að Drottinn gefi mjer kraft til að framkvæma það.  Jeg fer ekki ef jeg get ekki haft með mjer bækur til að selja honum til dýrðar.
 
Þann 22. júlí réri Arthur með Florence, Irene og Eric yfir fjörðinn og daginn eftir fóru þau hjónin í reiðtúr. Nokkru síðar var samkoma að Krossanesi og þá skrifaði Arthur "Blessaður tími" í dagbókina. Hann talar oft  um blessaðan tíma. Þegar hann tekur svo til orða tel ég að finni fyrir sérstakri nálægð Guðs.  Hann tekur oft svo til orða er hann  hefur notið Drottinlegrar máltíðar  en sú samkoma var haldin á hverjum sunnudagsmorgni. Einnig talar hann oft um að hann hafi hlotið "hjálp" er hann predikaði, bæði heima og erlendis.  Þá held ég hann hafi fundið sig í sérstöku sambandi við Guð og fengið innblástur að ofan.  Það er mín skoðun að ekkert í lífinu hafi veitt honum meiri fyllingu en slíkar stundir.  Ég trúi að hann hafi verið skapaður til þess hlutverks sem varð hans aðalstarf, þótt hann legði gjörva hönd á ýmislegt annað svona í framhjáhlaupi.

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99777
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:04:37

Tenglar