Þóra Guðrún Pálsdóttir

Arthur fer til Íslands

Ekki er alveg ljóst af þeim gögnum sem fyrir liggja hvenær nákvæmlega kynni Arthurs og Mr. Jones hófust en í hinni stuttorðu dagbók Arthurs, sem er skrifuð í algjörum símskeytastíl, er samveru þeirra ásamt þriðja manns getið 13. apríl 1902.  Þann 25. ágúst stendur:
Address Ísland (Mr. Jones). Lof sé Drottni.
Og tveimur dögum síðar:
Verði vilji hans. Kærleikur Krists knýr oss
Um þetta leyti eða litlu síðar virðist Arthur vera kominn í kynni við Florence  Palmer.  Seinni part febrúar 1903 er hann heima hjá Georg Palmer bróður hennar og 13 mars stendur í dagbókinni:
Drottinn leiddi til samtals við F. P. lof sé honum. 
Þar eftir hafa þau greinilega meira samband. 

Í október 1904 er hann í Danmörku og í janúar 1905 er hann þar enn en 8. júní er hann kominn heim.  Hinn 6. júlí sama ár leggur Florence heitmey hans af stað til Danmerkur, um leið og hann til Edinborgar, þá á leið til Íslands.  Arthur hittir Mr. Sloan (skoskan trúboða að ég held. Þ.P) í Færeyjum.  Þann 12. júlí lítur hann Ísland fyrst augum af hafi og daginn eftir kemur hann til Reykjavíkur. Þar dvelur hann í tíu daga en leggur svo af stað með skipi til Akureyrar, með viðkomu víða meðfram ströndinni, eins og þá var títt. Arthur stígur svo fæti sínum í fyrsta sinn í land á Akureyri þann 3. ágúst 1905 (Heimild: Irene Gook).

Arthur byrjar að predika
Arthur hafði sett sig í samband við Mr. Jones og fór hingað til lands með það fyrir augum, að verða samstarfsmaður hans.  Undir það hafði hann búið sig. En þegar hann kom til Akureyrar var Mr. Jones farinn af landi brott og dáinn, eins og áður hefur komið fram.  Arthur hóf því predikunarstarf sitt einn og predikaði á dönsku með aðstoð túlks.  Það var svo 15. okt. 1905, tveimur og tæpum hálfum mánuði eftir komu sína, sem hann setur í dagbókina að hann hafi predikað fyrsta sinn án túlks, á dönsku. Arthur hefir sjálfsagt fljótt komist í kynni við það fólk sem verið hafði í vinfengi við Mr. Jones, og ekki má gleyma íslenskunáminu sem hann hefir eflaust lagt sig mikið fram við.  Það kemur líka á daginn að hann er undrafljótt kominn í samband við fólk  á öðrum stöðum á landinu.  Það hefur sennilega gerst gegnum útbreiðslu Nýja testamenta sem Mr. Jones hafði hafið útbreiðslu á. 

Eitt af því fyrsta sem Arthur gerði var að stofna "Íslenskt Biblíulestrarsamband".  Gaf hann mánaðarlega út  stutta leskafla með stuttorðum skýringum.  Ekki varð þetta biblíulestrarsamband langlíft.  Hann rak sig brátt á það blindsker sem heitir áhugaleysi.  Fólk hafði engan áhuga þegar biblíulestur var annarsvegar.  Sannfærðist hann um að fólkið yrði fyrst að frelsast, verða endurfætt fyrir trú á Drottinn Jesúm Krist.  Dauðan líkama hungrar  hvorki né þyrstir eftir mat eða drykk.  Þannig finnur andlega dauður maður enga þörf á biblíulestri. 

Fyrsta bókin sem Arthur  Gook gaf út á íslensku heitir  "Kristur, biblían og vantrúin". Hún var prentuð í 5.000 eintökum, sem var feiknamikið í þá daga, og var síðan dreift út um landið.  Margir keyptu hana og lásu, og allmargir sögðu frá, að þeir hefðu snúið sér til Krists við að lesa þessa bók (Heimild: Sæmundur G. Jóhannesson). Af bréfum mætti jafnvel álíta að Arthur hefði verið kominn í samband við einhverja af þeim áður en hann kom til landsins.  Hann fékk bréf frá manni í Reykjavík dagsett 15. ágúst 1905.  Í því segir svo:

Kæri bróðir!
Velkominn til starfsins á Íslandi.  Mjer þótti leitt að finna yður ekki er jeg kom, því jeg kem ekki norður til Akureyrar að sinni.  Viljið þjer ekki senda mjer til sölu 10 eintök af sálmunum sem Jones heitinn gaf út síðast á íslensku.

Bréfritari óskar eftir samvinnu við að útbreiða rit og bækur og hvetur Arthur til að letjast ekki við að vinna sálir fyrir Drottin.
Vantrúin og dauðinn er mikill þess vegna þurfum við því fremur að styðja hvern annan. S.G.Á.

Hér er útdráttur úr öðru bréfi  dagsettu á Norðfirði 29. des 1905.

Góði vinur
Innilega ástarþökk mína ætti þetta brjef að færa yður fyrir yðar góða og indæla brjef af 18 þ.m., ásamt þar með fylgjandi 20 Nýja testamentum og 20 Jóh. guðspjöll, að gjöf, handa börnum, og hefi jeg þegar úthlutað mörgum þeirra.  Svo var fallegt spjald með þessum dýrmætu sannleiksorðum Jesú: "Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig". En jeg saknaði hinna indælu blessuðu orða hans rétt á undan: "Jeg er vegurinn" o.s.frv.  Ó hversu þau eru fögur þessi orð: "Það er eilíft líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann er þú sendir, Jesúm Krist".  Þetta er dýrmætur og náðarfullur sannleikur.  Hafið hjartans þökk fyrir spjaldið! Það var þegar hengt uppá vegginn ...

Það væri freistandi að birta bréfið allt því það er svo þrungið af kærleika til Drottins og sorg yfir því að sumir aðhyllast vantrúna sem segir: "Enginn Guð er til, enginn dómur, ekkert annað líf, og því ekkert að óttast". Þessi maður kann að hafa verið prestur því sumum prestum voru einmitt send þessi testamenti til útbýtingar.

Arthur kynnist ferðalögum á Íslandi
Arthur fór sjálfur í langt ferðalag vorið eftir að hann kom til landsins. Hann spurðist fyrir um hvar væri erfiðast að ferðast á Íslandi.  Honum var sagt að það væri um Skaftafellssýslur.  Hann ákvað því að byrja þar og fór með skipi  2. júlí 1906 austur um fyrir norðan land og til Hornafjarðar.  Þangað er hann kominn 10. júlí og daginn eftir virðist hann hafa keypt jarpa hryssu, tíu vetra gamla á 70 krónur.  Þar næsta dag kaupir hann bleikan hest, fimm vetra, á 150 krónur sem hann kallar Jo.  Þremur dögum síðar er hann staddur í Bjarnanesi og sonur prestsins þar fylgir honum að Stórulág.  Arthur selur bækur á leið sinni, hefur haft þær í töskum á lausa hestinum.  Hann heldur svo áfram ferð yfir slæma vegi, mýrar og mikil vatnsföll.  Á einum stað talar hann um níu tíma ferð, af baki og á bak, í linnulausu regni. Bækurnar skemmdust á þessu ferðalagi og fötin gegnblotnuðu. Efalaust hefur hann haldið einhverjar samkomur í þessari ferð. Í mars-apríl blaði Norðurljóssins 1926 segir hann frá áhrifum nokkurra frægra sálma og þar á meðal er sálmurinn "Ég hefi fullkominn frelsara á himni".  Síðan segir:

Ritstjóri "Norðurljóssins" leyfir sjer að bæta við einni sögu enn, um áhrif þessa sálms í sínum íslenska búningi.  Árið 1906 var hann á ferð í Austur-Skaftafellssýslu og hélt útisamkomu einn sunnudagsmorgun í skínandi sólskinsveðri, nálægt Brunnhólskirkju.  Sex eða sjö árum seinna kom ungur maður úr þessari sýslu til Akureyrar og sótti samkomur stöðugt á Sjónarhæð.  Eitt kvöld sat hann að borði með trúboðanum og fjölskyldu hans og sagði honum þessa sögu.  "Þegar þjer ferðuðust um Austur-Skaftafellssýslu fyrir nokkrum árum, hjelduð þér samkomu við Brunnhólskirkju og sunguð sálm sem byrjaði: "Jeg hefi fullkominn frelsara á himni".  Kirkjuorganistinn var viðstaddur, og varð svo hrifinn af þessum sálmi, að hann skrifaði lagið upp á blað svo hann gæti munað það rétt.  Margir keyptu af yður sálmakverið, sem þessi sálmur var í.  Við fyrsta tækifæri kenndi organistinn unga fólkinu að syngja lagið og það var svo hrifið af því, að þessi sálmur var sunginn víða um sveitina um langan tíma, nær því á hverjum bæ!"

Ritstjórinn vissi ekkert um þetta fyrr en gestur hans sagði honum það eftir svo mörg ár.  Við sjáum á þessari sögu að það var ekki alltaf rigning, stundum skein sól.  Í þessari ferð myndaðist vinátta milli Arthurs og fólks sem hann hitti sem átti eftir að endast lengi og áratugum seinna var blaðið Norðurljósið enn keypt á þessum slóðum.  Hann var aleinn á ferðinni stundum en hitti þó marga.  Tekur fram að hann hafi sofið í kirkjum og hlöðum á leið sinni. Í bakaleiðinni fer hann austur yfir Lónsheiði og áfram um Austfirði og talar um óumræðilega vegi og til Reyðarfjarðar kemur hann alveg dauðuppgefinn af vosbúð. Hvort hann fór landveg norður til Akureyrar liggur ekki ljóst fyrir en er þó líklegast að hann hafi farið á hestunum.  Hestinn Jo átti hann á Akureyri og ef til vill merina líka en hennar er að engu getið. 

Þegar Arthur fór af stað í þetta fyrsta ferðalag hafði hann ekkert minnst á skírn trúaðra við þá sem höfðu snúið sér til Krists.  Meðan hann var að heiman kom maður til þeirra og sagði þeim í trúnaði að Arthur hafnaði barnaskírn og mundi ætla að skíra þá.  Var þeim gefinn kostur á öðru samfélagi, þar sem ekki var iðkuð skírn trúaðra.  Viðbrögð fólksins voru þau, að það spurði: "Hvað segir Nýja testamentið um þetta mál?" Tók það þá Nýja testamentið og fór að lesa það saman.  Niðurstaða lestrar þessarar kennslubókar Guðs fólks varð sú, að það fann ekkert boð um að börn skyldu skírð, en hinsvegar var boðið að skíra lærisveina Krists.  Þar sem fólkið var orðið að lærisveinum Krists, ákvað það að, þessu boði Drottins sem öðrum skyldi það leitast við að hlýða.  Arthur hafði hikað við að minnast á skírnina af því að hún var þá - enn meira en nú - mjög viðkvæmt mál. Vildi hann því kunna nægilega mikið í málinu til að geta rökrætt um þetta efni ef þörf krefði.  Þess þurfti hann nú ekki.  Þeir sem höfðu ákveðið sig fyrir Krist, voru tilbúnir til að taka skírn.

Litið í  fleiri  bréf
Það getur verið fróðlegt að kynnast trúboðanum Arthuri  Gook með augum þeirra er honum kynntust hér í byrjun og þá um leið því umhverfi er hann hrærðist í hingað kominn.  Til eru bréf frá mæðgum er honum kynntust  hér á Akureyri en fluttu til Danmerkur árið 1906.  Hér kemur bréf frá dótturinni.  Dagsetningin er svolítið spursmál en það er móttekið þann 28. ágúst. Arthur hafði þann sið að skrifa á bréfin móttökudag.

Kæri bróðir í Kristi!
Við komum til (Kaupm.) Hafnar á föstudagskvöldið og vorum þá orðnar þreyttar þó við hefðum haft það gott í Lauru eftir að við komum í hana.  Í Mjölni leið okkur ekki vel, því alla leið frá Hrísey að Langanesi höfðum við ís, en þegar að við komum úr ísnum fórum við á grunn eins og mamma var víst búin að skrifa áður. Þar lágum við í sex klukkutíma en þá sendi Guð sinn sólargeisla niður og þokunni létti, en um leið runnum  við af skerinu, og þokan varð aftur jafnsvört og áður, en sólargeislinn gleymdist aldrei... Enn hefi jeg ekki fundið kærustuna þína eða frú ... en jeg finn þær máski bráðum.  Mamma sendi brjefin til þeirra og jeg hefi ekki heldur fundið hitt fólkið sem þú vísaðir mér á.  Jeg get ekki fundið það fyrr en við erum búin að fá okkur húspláss ... Pabbi og mamma biðja að heilsa.  Viltu skila kærri kveðju til allra endurfæddra Guðsbarna frá okkur mömmu ... Vertu ætíð kært kvaddur af  þinni einlægu trúsystur í Kristi ...

Næst kemur bréf frá móðurinni.
Kjöbenhafn 19. ágúst 1906

Mr.  Gook  Sjónarhæð  Akureyri.
Bréf yðar 16. Júlí og meðfylgjandi myndir þakka ég innilega fyrir.  Ég vil ekki segja yður hvaða áhrif bréf að heiman hafa á mig ... Og þegar den ungi Engelskmann kvaddi okkur, öfundaði ég hann.
Bókin Kristur b.og v. er fyrirtaks vel skrifuð og að öllu leiti vel frá gengin.  Ég vildi óska að hvert einasta heimili læsi slíka bók.  Mér flaug í hug að hún gæti verið nokkurskonar lykill að biblíunni?Það er mikið þakklætisverk, sem þér gjörið að koma henni á Íslensku svona dæmalaust billega ...
En nú er nóg komið um okkur.  Hvernig líður nú yður?  Eru Ragúelssens farin? Og þér nú einir í húsinu?  Er heilsa yðar góð og eruð þér eins og vant er í góðu skapi?  Eruð þér að kenna enskuna?  Hvernig líður Birni okkar?  Þú trúir ekki hvað mér var farið að þykja vænt um hundinn og hvað ég sakna hans.  Ég er viss um að fröken Palmer verður góð við hann.  Nú fáið þér bráðlega til yðar den unge Engelskmann og þá eruð þér ekki eins einmana og það er huggun fyrir okkur að vita það.  Ég bið þess að ykkur falli vel hvorum við annan og unga manninum finnist ekki til um lífið á Íslandi sem er svo ólíkt því sem hann er vanur, en er í raun og veru  blessað og  gott ...
Maðurinn minn og dóttir biðja að heilsa yður. Ég kveð yður með velvildar og þakklætishug því að þér minnist okkar í bænum yðar til föðurins, eins og við dóttir mín ávallt gjörum um yður.  Í Guðsfriði ...

Flettingar í dag: 171
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99834
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:46:59

Tenglar