Þóra Guðrún Pálsdóttir

Aðrir höfðu erfiðað

Það er við hæfi áður en lengra er haldið, að skýra nokkuð frá upphafi þess starfs sem þegar var hafið á Akureyri og Arthur var tilbúinn að ganga inn í og taka upp merki hins fallna hermanns og bera það áfram er hann kom til þessa lands.

 

Árið1897 ferðaðist enskur maður, Alexander Marshall að nafni, til Íslands. Hann hafði meðferðis mikið af kristilegum smáritum.  Fór með skipi umhverfis landið og dreifði út ritum í hverri höfn þar sem skipið kom.  Í þá daga voru nálega hvergi bryggjur.  Skipið lá fram á höfn meðan farþegum og vörum var komið í land.  Afgreiðsla öll var seinleg og viðdvalir lengri en nú er orðið títt.  Gesturinn enski hafði því góðan tíma til að dreifa ritunum.  Þeim var alls staðar tekið mjög vel.  Þegar Mr. Marshall kom aftur til Englands, ritaði hann í tímarit frásögn af ferð sinni og sagði þar, að Ísland væri trúboðsakur, hvítur til uppskeru.

 

Hús reist

Nokkru eftir að Mr. Jones kom hingað var verið að selja lóðir á Akureyri.  Hann keypti hér 1500 ferfaðmalóð og framan í melrana sem lá ofan við Hafnarstræti lét hann reisa hús það og samkomusal sem þar standa enn, þótt við húsið væri byggt síðar meir. Til er afrit af samningi þeim er Friðk H. Jones (þannig skrifaði hann nafn sitt) gerði við smiðinn sem reisti Sjónarhæð. Samningurinn er undirritaður 7. mars 1901.  Í  24. grein hans má lesa:

 Fyrir alla þá vinnu, efni og tilföng sem hjer að framan er greint borga jeg Friðk  H. Jones 7.300 kr. 

Við þetta má bæta að Mr. Jones afhenti félagi í Englandi, Stewards Company Limited, eignina með gjafabréfi fyrir dauða sinn. Skyldi höfuðstóllinn greiðast upp með leigu hússins.  Árið1927 er ársleiga salsins 406 kr. og 50 au. + brunabótagjald 6 kr. og 25 au. sem deilt er á 12 mánuði.  Þetta átti söfnuðurinn að borga fyrir salinn en Arthur sá um leiguna fyrir íbúðarhúsið (Heimild: Sæmundur G. Jóhannesson).  Áratugum seinna fékk söfnuðurinn á Sjónarhæð bréf uppá það, að nú hefði félagið fengið sinn höfuðstól greiddan og gæti söfnuðurinn því tekið við eigninni.

Þegar Mr. Jones flutti til Akureyrar, kynntist hann síra Matthíasi, þjóðskáldinu sem gaf okkur þjóðsönginn "Ó, guð vors lands". Árið 1902 gaf Mr. Jones út lítið sálmakver með 27 sálmum sem voru þýddir af síra Matthíasi og fleirum, prentað í prentsmiðju Björns  Jónssonar.

 

Fyrsta samkoma að Sjónarhæð

Fyrsta samkoma að Sjónarhæð í hinu nýreista trúboðshúsi var haldin 16. febrúar 1902. En skömmu síðar, eða þann 4. mars, kviknar í hinu nýreista trúboðshúsi.  Það hafði verið mikið um bruna á Akureyri og í Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason má lesa eftirfarandi:

Nú var sannkölluð brunaöld gengin í garð á Akureyri.  Næstu árin áttu stórir og smáir eldar eftir að brjótast út.  Glæðurnar eftir stóra brunann voru vart kulnaðar þegar kviknaði í nýju húsi enska trúboðans Fr. Jones er stóð á brekkunni, Barðsnefi, fyrir norðan leikhúsið.  Trúboðanum tókst sjálfum að slökkva eldinn en brenndist töluvert um leið.

Hjá síra Matthíasi fékk Mr. Jones upplýsingar um Íslendinga.  Bar Matthías þeim vel söguna enda segir hann einhversstaðar í ritum sínum að hann vilji heldur lýsa kind í góðum holdum og með fullu reyfi en horaðri og ullarlausri.  Upplýsingar þessar ásamt öðru sendi svo Mr. Jones áfram til Bretlands.  Þar las þær ungur maður, Arthur Gook að nafni, og er hann las lýsingarnar á Íslendingum komst hann að þeirri niðurstöðu, að hér byggju sofandi englar.  Bræður tveir, ungir kaupmenn á Akureyri tóku Mr. Jones mjög vel.  Lánuðu honum vöruskemmu til að halda samkomur í, áður en salurinn var reistur.  Voru þessar samkomur vel sóttar.  Þá var fátt til að stytta fólki stundir, ekkert útvarp og engar kvikmyndasýningar á hverju kvöldi.  Auk þess kom systir Mr. Jones, Alice May, til að hjálpa honum við starfið.  Þau léku bæði vel á strengjahljóðfæri og sungu mjög vel, einkum þó hún.

Mr. Jones var tilheyrandi svonefndum Bræðrasöfnuðum.  Þeir mynduðu enga sérstaka kirkjudeild í þá daga, heldur kostuðu þeir kapps um að vera með öllu óháðir erfikenningum manna, sem margar eru og mismunandi.  Söfnuðir þessir höfnuðu barnaskírn og fermingu en lögðu allt kapp á að vinna menn til afturhvarfs og trúar á Drottin Jesúm sem son Guðs og frelsarann eina.  Síðan eftir afturhvarfið til Krists boðuðu þeir mönnum að þeim bæri sem lærisveinum Krists  að láta skíra sig til nafns Föðurins, Sonarins og hins heilaga Anda, eins og Kristur býður í Matt. 28. 19.  

 

Mr. Jones fór af landi brott vegna heilsubrests og var dáinn árið1905 þegar Arthur Gook kom til Íslands. En hann lagði svo góðan grundvöll að því starfi sem unnið var eftir hans dag, að mér finnst við hæfi að leggja lítið blóm að leiði hans, með því að birta tilvitnun í bréf sem ég tel honum skrifað 2. janúar 1905.

 

Hjalteyri  2/1  1905

Kæri bróðir í Drottni.

Mitt innilegasta þakklæti fyrir allt hið góða frá samverustundunum.  Já oft verður mjer að hugsað til þeirra stunda sem við nutum saman í indælum samræðum um það allra dýrmætasta, sem til er í heiminum - jeg vona að þær stundir fyrnist aldrei - jeg á minn Jesúm - og treysti því að enginn fái mig frá honum, og það er þjer að þakka vinur minn.  Hjeðan er allt gott að frjetta - okkur líður vel ... Með kærri kveðju frá öllum mínum - foreldrum, systkinum og konu - já og fólkinu hérna sem talar oft um þig - Jeg er viss um að þú hefir sett frið í mörg hjörtu hér, - já himneskan fögnuð, þó þú hafir ekki heyrt það koma fram af vörunum -  og víst er um það að margir þrá að þú komir aftur til Íslands. Vertu sæll vinur minn - kvaddur hjartans kveðju í Drottni.  Þinn bróðir í Kristi.

L.M.

Flettingar í dag: 226
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99889
Samtals gestir: 20163
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 16:30:16

Tenglar