Þóra Guðrún Pálsdóttir

27. Árið 1936. Ferðasaga 1. hluti

Séð  heyrt og reynt - ferðasaga úr Norðurljósinu eftir Arthur Gook

   Það er ekki laust við, að jeg kinoki mjer við, að byrja enn þá nýja ferðasögu.  Mjer þykir það óviðfeldið, að skrifa mikið um eigin gerðir, eins og maður verður að gera meira eða minna, þegar segja skal sína eigin ferðasögu.  En það lítur út fyrir, að jeg sé neyddur til að fylgja þessari venju, sem nú er orðin á tveggja ára fresti í "Norðurljósinu".  Menn heimta að heyra ferðasöguna, segjast hlakka til hennar o.s. frv.
   Það er auðvitað skiljanlegt, að þeir, sem ekki hafa haft tækifæri til kynnast öðrum löndum og öðrum þjóðum sjálfir, vilji heyra ferðasögur annarra.  Jeg vil því reyna að segja hispurslaust frá öllu, sem í frásögur er færandi og fyrir kom á hinni löngu og skemtilegu ferð, er Drottinn lét mig takast á hendur s.l. sumar, og biðja góðfúsa lesendur að lesa í málið.
   Það er þá fyrst frá því að segja, að jeg fjekk óvenjulega fljóta ferð frá Akureyri til Reykjavíkur- ekki nema 40 kl. stundir milli borganna.  Viðdvölin í Reykjavík var mjög  skemtileg, en stutt, - 54 kl. Stundir.  Ferðin yfir hafið var með hinum bestu, sem jeg hefi nokkurntíma fengið.  "Gullfoss" kom til Leith hérum bil nákvæmlega einni viku frá því að hann fór frá Akureyri.  Man jeg ekki eftir fljótari ferð milli Akureyrar og Skotlands.
Þetta var 27.  júní, snemma morguns.  Ungur vinur minn, sem býr í Edinborg, kom til skipsins til að taka á móti mjer.  Hann er systursonur konunnar minnar, og er faðir hans lögfræðingur þar í borginni. Jeg dvaldi hjá þeim yfir helgina.
   Sorgarfréttir biðu mín í Bretlandi.  Sonur minn í London talaði við mig í símanum og tjáði mjer lát móður minnar, háaldraðrar, í Canada, og einnig lát konu bróður míns nálægt London.  
   Snemma á mánudagsmorgun lagði jeg af stað með járnbraut frá Edinborg til Bristol, þar sem fjölskylda mín býr.  Þegar lestin átti eftir nokkra tugi mílna frá Bristol varð mjer bilt við, er lestarstjórinn kom til að taka farmiðann.  Er hann sá, að jeg ætlaði til Bristol, sagði hann íbygginn:  "Já, ef Bristol er enn þá til, er við komum þangað".  Þá sagði hann mjer, að símfréttir væru nýkomnar, að ákafar rigningar hefðu komið snögglega yfir Bristol svo að nokkrar aðalgötur lægju undir vatni, um 3-4 feta djúpu, og horfði til stórra vandræða.
   Þegar komið var til Bristol um kvöldið, var kona mín, ásamt þremur dætrum okkar, á stöðinni til að taka á móti mjer, og varð þar fagnaðarfundur, eins og nærri má geta.  Við sáum verksummerki stormsins sumstaðar, en jeg hafði ekki tíma til að fara og skoða bæinn, því að við hjónin þurftum að leggja af stað snemma næsta morgun til London, því að þann dag átti að jarðsyngja tengdasystur mína.  Hafði dauða hennar borið mjög óvænt að.  Mjer þótti gott, að jeg var kominn rétt í tíma til þess að standa við hlið bróður míns á þessum sorgartíma hans.  Sonur minn dvelur í London, og kom hann því til móts  ið okkur.  Hann var í bifreið sinni, og er við yfirgáfum hús bróður míns sem er í borg fyrir sunnan London, ók hann okkur foreldum sínum, til Norður-London.  Þar mættum við Mr.  Hogg,  sem hefir verið nokkur ár hjer á Íslandi, og munu margir kannast við hann.  Við fjögur snæddum kvöldverð saman í matsöluhúsi, og sagði jeg þeim fréttir frá Íslandi.  Þá héldum við hjónin af stað aftur til Bristol og komum heim eftir miðja nótt.
   Fyrsta sunnudaginn, sem jeg var í Bristol, átti að vera merkisdagur í söfnuðinum í Stokes Croft.  Þegar Georg Muller stofnaði söfnuðinn þar, lét hann ekki gera skírnarlaug, vegna þess að annar frjáls söfnuður þar í borginni, sem hann hafði stofnað líka, lánaði söfnuðinum í Stokes Croft sal sinn og skírnarlaug, hvert sinn, sem hann ætlaði að framkvæma skírn.  Það er hálftíma gangur á milli safnaðarhúsanna, og stundum hefir þótt æskilegt, að hafa þar sinn eigin skírnarstað, en ekki var það öll þessi ár, sem Georg Muller starfaði þar né síðan hann dó.  En nú vildi einn af forstöðumönnunum gefa söfnuðinum skírnarlaug.  Það stóð svo á, að verkinu var nýlega lokið, og átti að skíra í fyrsta sinn í safnaðarhúsinu þennan sunnudag.  Meðal þeirra, sem beðið höfðu um kristilega skírn, var 12 ára drengur, sem Davíð hét, sonur eins forstöðumanns í söfnuðinum.  Skírnarlaugin var ákaflega vönduð.  Það var auðséð, að allir, sem lagt höfðu hönd að verki, höfðu gjört sitt besta, enda trúaðir verkfræðingar unnið að öllum breytingum, sem þurfti að gera í salnum, til þess að koma skírnarlauginni fyrir.
   Margir vinir komu langt að, og safnaðarhúsið var fullt.  Það var eins og þar væri samankomin ein stór fjölskylda.  Mjer var það mikil ánæja, að hitta þar marga gamla vini, og sjá þar alla fjölskyldu mína, nema eina dóttur, sem var langt í burtu.  Davíð litli og sonur minn voru miklir vinir, og ekki dugði annað en að sonur minn kæmi alla leið frá London til að vera viðstaddur, er Davíð tæki kristilega skírn.  Hann var yngstur allra þeirra, sem þá hlýðnuðust skipun frelsarans, og hann var lifandi skýring á orðum Drottins: "Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki." Hann hafði ekki verið skírður barnaskírn, svonefndri, því að foreldrar hans eru meðal þeirra, sem meta boð Krists meira en mannasetningar, en þau höfðu reynt að leiða hann til persónulegrar þekkingar á Drottni Jesú.  Og Guð hafði blessað viðleitni þeirra, eins og í svo mörgum tilfellum, er menn heiðra hann, með því að breyta eftir orði hans.  Jeg þekki þennan litla dreng vel, og það er blessunarríkt að sjá ávöxt hinnar innilegu og hispurslausu trúar hans.  Jeg vili óska þess, að þeir, sem í blindni sinni halda því fram, að "barnaskírn" sé nauðsýnleg til þess að börnin geti síðar meir öðlast persónulega trú, gætu þekt og athugað trúarlíf þessa drengs og margra annarra unglinga, sem hafa haft sömu reynslu.  Davíð litli tók skírn vegna þess að  hann þekti af eigin reynd náð frelsarans.  Foreldrar hans höfðu "leyft" honum að koma til Krists og ekki bannað honum það á nokkurn hátt, samkvæmt orðum Drottins.  Bannið getur verið í því falið, að foreldrarnir komi fram þannig, að börnin leiti ekki Drottins.  Ekki sagði drengurinn frá því, en þau komust að því samt, að hann hafði  talað  einarðlega við sendisveina og aðra, sem komu til hússins, og reyndi að hvetja þá til að leita Krists.  Hann virtist hafa haft áhrif á manninn, sem kveikir á götuljósunum, í götu þeirra á hverju kvöldi, og sem Davíð litli hafði kynnst.  
Margir af hinum bestu þjónum Drottins hafa snúið sér til Krists, eins og hann, á ungum aldri.  Guð gefi, að trúaðir foreldrar hér á landi leiði börn sín til Krists, áður en þau lenda í spillingunni, sem alstaðar bíður þeirra í heiminum.
   Um þetta leyti kom til mín gamall vinur, sem sagðist ætla að ferðast til Rússlands í sumarleyfi sínu.  Hann langaði til að kynnast ástandi trúbræðra vorra þar í landi, Því hann hafði heyrt margar sögur um þjáningar þeirra.  Nú vildi svo til, að jeg átti upplag af bókum á rússnesku.  Það var rússnesk þýðing af  bók minni um Biblíuna  ( á íslensku: "Er Biblían ábyggileg?", sem prentuð var í 2 árgangi "Norðurljóssins").  Vinur minn bað mig um nokkrar bækur, sem hann sagðist ætla að taka með sjer til Rússlands, svo að þær gætu orðið einhverjum til blessunar þar.  Síðar meir kom hann og sagði mjer frá ferð sinni.  Hann hafði komist í kynni við háttstandandi Soviet-embættismann í borg einni í Rússlandi, sem hafði snúið sér til Krists, og hafði mikinn áhuga fyrir því,  að útbreiða þessa bók.  Vinur minn sagðist hafa orðið að lofa honum, að nefna ekki nafn hans og heldur ekki borgina, þar sem hann var embættismaður.  Hann ætlaði að prenta bókina upp aftur á rússnesku og útbreiða hana.  Vinur minn hafði, í þessum kringum stæðum, tekið á sig, að leyfa  honum það fyrir mína hönd, í þeirri trú, að jeg vildi samþykkja það.
   Vinur minn sagði frá mörgu, sem hann hafði orðið var við í Rússlandi.  Margir hafa mist lífið þar fyrir trú sína, þó að þeir hafi ekki gert neitt á móti stjórninni.  En þar eru mjög margir sem leita Guðs, þó að þeir þori ekki að láta bera á því.  Margir trúaðir menn hafa verið sendir til Síberíu.  Sem trúuðum mönnum sæmir, hafa þeir ekki tekið þátt í neinni uppreisn gegn yfirvöldunum, en þar fyrir hafa þeir ekki komist hjá ofsóknum vegna trúar sinnar.  Trúaðir menn ættu að biðja fyrir trúbræðrunum í Rússlandi, því þeir eiga vafalaust að búa við mjög erfiðar kringumstæður.
   Sonur minn fékk viku af sumarleyfi sínu um miðjan júlí og ætlaði að ferðast um í Devonshire sem er fylki í suðvestur-horni Englands, ásamt öðrum ungum manni.  Þeir vildu fyrir alla muni hafa mig með sjer og þar sem jeg hefði annars ekki getað verið með syni mínum neitt að ráði, varð það að samkomulagi, að jeg yrði með þeim þessa viku.
   Næsta laugardag óku piltarnir í bifreið sonar míns, frá London til Bristol, og um kvöldið héldum við þrír af stað suðvestur til Devonshire.  Við vorum ekki komnir mjög langt frá bænum, þegar dekkið sprakk á einu hjólinu og tafði það heldur fyrir okkur.  Við hefðum ekki komist alla leið suður, fyr en allt of seint, svo að við tókum það ráð, að gista í næsta gistihúsi, sem við komum til.  Næsta morgun hjeldum við áfram snemma, en þá var mikil rigning.  Eftir því, sem komið var lengra suður, fóru vegirnir að mjókka, og víða voru brekkur.  En alstaðar voru fallegir skógar.  Við vissum af  heimatrúboða einum, sem sonur minn hafði verið með eitt sumar fyrir tveimur árum, og við fórum fyrst til hans.  Hann var rjett í þann veginn að fara á samkomu í bæ einum nokkuð langt í burtu.  Okkur langaði til að vera með Guðs fólki þennan sunnudagsmorgun, svo að við fylgdum bifreið trúboðans og komum rjett í tíma til samkomustaðarins og tókum þátt í minningu Drottins vors og frelsara með söfnuðinum þar.  Þá ókum við aftur til þess staðar, þar sem trúboðinn var að starfa, og borðuðum hjá þeim hjónum.  Hann þurfti að fara eitthvað annað síðdegis, svo að jeg tók samkomuna fyrir hann kl. 3 og seinna um kvöldið.  Margt fólk safnaðist saman, sumt langt að, þrátt fyrir rigninguna.  Um kvöldið héldum við til bæjar, sem heitir Ermington, þar sem við ætluðum að dvelja.
   Næsta morgun var fagurt sólskinsveður.  Við ætluðum að fara um afarstóran skóg, sem sonur minn vissi af, og var orðlagður fyrir fegurð.  Við ókum nokkuð langt í bifreiðinni, skyldum hana eftir á afvíknum stað og héldum inn í skóginn.  Bráðum fór að halla undan fæti, og við komum loksins niður í djúpan dal, þar sem var orðið mjög blautt vegna rigningarinnar daginn áður.  Eftir nokkra stund, komum við að djúpri og breiðri á, sem hvergi virtist vera brúuð, þar sem við gátum fundið.  Það var ekki um annað að ræða en að vaða eða synda yfir hana, svo að við klæddum okkur úr og fórum yfir um, og bárum fötin okkar hátt yfir höfðum okkar.  Þá fórum við upp háa brekku, uns við komum að sveitabúgarði mitt í skóginum.  Enginn virtist vera heima.
   Okkur varð starsýnt á afarstóra byggingu, skamt frá þessum búgarði.  Alt um kring voru merki þess, að byggingin hefði verið illa hirt um langan tíma, - illgresi alstaðar, þar sem áður höfðu verið garðar, göturnar óhirtar og grasi grónar.  Við komum auga á dyrnar í kjallaranum, sem stóðu opnar, svo við fórum inn til þess að vita, hvort við gætum fundið nokkurn mann, því að hvergi sást mannleg vera, og okkur langaði til að kaupa mjólk eða einhverja hressingu í búgarðinum, eftir göngu okkar.  Þar að auki vorum við mjög forvitnir um þessa einkennilegu og feiknastóru byggingu, sem stóð þar langt frá öðrum húsum, að búgarðinum undanteknum.  Við fórum um marga klefa í kjallaranum og alstaðar var autt og tómt.  Einhvers staðar var vatnsleki, því að steingólfið var sumstaðar undir vatni.  Við fórum upp stiga og rannsökuðum fyrstu hæðina.  Þar var afarstór salur og mörg önnur herbergi.  Þegar komið var upp á aðra hæð, komum við inn í geysistóran sal, sem var auðsjáanlega nokkurskonar kirkja.  En allt var niðurnýtt.  Gólfið var sumstaðar fúið og ótrygt.  Við austurendann voru leifar af stóru altari.  Hjer og þar voru helgiskrín, og á sumum þeirra stóðu enn líkneski af ýmsum dýrlingum.
   Þetta hafði efalaust verið kaþólskt klaustur.  Í hliðarherbergi einu fundum við heilt safn af dýrlingalíkneskjum. Sem stóðu hingað og þangað á víð og dreif á gólfinu, eins og þetta væri lifandi fólk í skrautbúningum að bíða þar eftir því, að menn kæmu aftur til að tilbiðja sig.  Yfirengillinn Gabríel, Pétur postuli, María og Jósep stóðu öll þar í ýmsum stellingum og margir aðrir.  Þar höfðu þau staðið og beðið í mörg ár, því við fengum að vita eftir á, að þetta hús hafði verið klaustur nokkurra munka frá Belgíu, sem höfðu sest þar að, meðan á stríðinu mikla stóð.  En þegar þeir höfðu getað farið aftur til lands síns, höfðu þeir yfirgefið þetta stóra hús og skilið það eftir í óreiðu.
   Þegar við komum út aftur og gengum dálítinn spöl þaðan, tókum við eftir, að munkar þessir höfðu reist tvö afarstór líkneski, annað af Kristi á krossinum, hitt af Maríu, móður hans.  Stóðu líkneski þessi hvort gegnt öðru á hæðum, en mikill dalur var á milli.  Bæði voru fúin og óhirt.  Þetta allt talaði til mín um ástand þessa átrúnaðar, sem grundvallaður er á fornum mannasetningum og einblínir á dauðan mann.  Það var gott að koma út í Guðs sólskin aftur og lyfta sálu sinni upp til himins, þar sem hinn lifandi, sigri hrósandi frelsari situr á hásæti Guðs, en ber þó merkin enn, á höndum sér og fótum, að hann hafi fyrir löngu borið syndir heimsins og fullkomnað verkið, sem friðþægði fyrir oss.
   Við fórum aðra leið aftur til staðarins, þar sem bifreiðin var, og fundum brú yfir ána.  Komum við svo heim um kvöldið, þreyttir en ánægðir yfir hinni skemtilegu  göngu okkar gegnum skóginn mikla.
                --------------
                       2 Ka.
   Næstu daga ferðuðumst við þrír einlægt í bifreiðinni og heimsóttum marga skemtilega staði, sem við höfðum heyrt og lesið um, en aldrei sjeð.  Sonur minn notaði tækifærið til þess að kenna okkur hinum fyrstu stafina, svo að segja, í bifreiðaakstri, því báðir vildum við læra.  Stundum fórum við langt frá mannabústöðum, skildum bifreiðina eftir og klifruðum langa leið niður að sjónum til þess að fá okkur bað.  
   Ég hefði átt að geta þess, að heimatrúboðinn, sem hafði starfað þar um slóðir, var Mr.  Lewes, sá, sem fyrir nokkrum árum dvaldi einn vetur hjá mjer á Akureyri.  Hann hafði haft það í huga, að starfa með mjer hjer á landi, og er nú ekki alveg laust við að hann sjái eftir því, að hafa ekki gert það.  Við erum góðir vinir, og var sonur minn með honum sumartíma, fyrir tveimur árum, um þessar slóðir og hjálpaði honum eitthvað í starfinu.  Þannig stóð á því, að sonur minn var þar kunnugur og kaus helst þetta hjerað fyrir sumarleyfi sitt.
   Þrjú kvöld var jeg hjá trúboðanum í stóra tjaldinu, þar sem hann heldur samkomur sínar í sveitaþorpi einu.  Eitt kvöld heimsótti jeg sveitasöfnuð einn og tók þátt í samkomu hans.  Síðdegis á laugardaginn var haldið stórt trúaðramót, í bænum þar sem við gistum, og komu margir langt að.  Sótti jeg samkomurnar og tók þátt í þeim.
   Einn morgun fórum við í bifreiðinni til að skoða seglskip, sem hafði strandað þar nálægt.  Það var eitt af hinum síðustu stóru seglskipum, sem fara langar leiðir, og flytja farm, sem ekki liggur á.  Víðast hafa seglskip orðið að víkja fyrir gufuskipum, þessvegna vakti strand þessa skips mikla athygli, og leituðu margir þangað til þess að skoða það.  Það var haldið, að það myndi vera hægt að bjarga skipinu, þegar við vorum þar, en síðar spiltist veðrið, og skipið liðaðist sundur.
   Einn dag heimsóttum við fjölskyldu, sem hafði öll snúið sér til Drottins við starf trúboðans fyrir tveimur árum, þegar hann heimsótti þorp þeirra í fyrra skiftið.  Fólk þetta mundi eftir syni mínum og tók okkur tveim höndum.  Bráðum kom fiðla fram og harmonika, og við fórum að syngja Drottni dýrð,  hvert  hjarta  fullt  af  gleði  hans. Ein dóttirin lék ágætlega á fiðlu, en gamli bóndinn lék undir á harmonikkuna.  Innan skamms vorum við öll eins og gamlir vinir, og jeg er þess fullviss, ef jeg kem nokkurntíma aftur í nánd við þetta þorp, að það verður mitt fyrsta og ljúfasta verk, að finna þessi trúarsystkini.  Hvert sem maður fer, reynast böndin í Kristi nógu sterk til þess að tengja hjörtu bræðranna saman í kærleika hans.
   Alt of fljótt var vikan á enda.  Okkur langaði til að vera á  samkomu safnaðarins í Ermington, þar sem við dvöldum, sunnudagsmorguninn.  En um kvöldið hafði jeg lofað stórum söfnuði í Bristol að prjedika hjá honum.  Við þurftum þessvegna að flýta okkur sem mest heim til Bristol eftir samkomuna.  Þó þáðum við boð heimatrúboðans, að koma við hjá sér og þiggja miðdegisverð.  Alt gekk vel á heimleiðinni og kl. 5, eins og áætlað var, ókum við að húsi okkar.  Fórum við hjónin svo á samkomuna í Suður-Bristol, en piltarnir héldu áfram til London, til þess að geta verið við störf sín næsta morgun.
   Um hálfan mánuð var jeg  kyrr í Bristol, en úr því var jeg í einlægum ferðalögum, hjer um bil allan, tímann sem jeg var í Englandi.  Í byrjun ágúst átti jeg að taka þátt í miklu trúaðramóti í bæ sunnan við London.  Jeg fór í járnbrautarlest til London og þegar þangað kom, voru bæði sonur minn og vinur minn, Mr. Hogg, á stöðinni til að taka á móti mjer.  Sonur minn ók okkur að bæ, þar sem við þurftum að finna mann, og síðan heim að bústað Mr. Hoggs.  Hann hefir verið með mjer hjer á Íslandi, og höfðum við um margt að spjalla.  Seint um kvöldið fékk hann bifreið lánaða og ók mjer til staðarins, þar sem jeg átti að starfa næsta dag, sem hét East Sheen.
   Söfnuðurinn á þessum stað stóð í blóma og hafði margvísleg störf með höndum.  Salurinn var nýr og mjög stór, og margt fólk kom saman á mótið, sem var haldið á mánudaginn.  Fyrsti mánudagurinn í ágúst er almennur frídagur í Englandi, því var þessi dagur kosinn fyrir mótið.  Frá London ætlaði jeg suður til Hove, sem liggur á suðurströnd Englands.  Þar starfaði elsta dóttir mín sem hjúkrunarkona í stórri stofnun þar.  Hún hafði kynst trúaðri hjúkrunarkonu, sem átti heima þar í borginni, og höfðum við hjónin verið boðin að dvelja nokkra daga hjá foreldrum þessarar stúlku.  Í Brighton átti ég líka að halda fyrirlestur um Ísland, með skuggamyndum.  Brighton og Hove liggja saman, eins og væri einn stór bæ.
    Kona mín ætlaði að koma frá Bristol til London og fara með mjer til Hove.  Sonur minn ók mjer til stöðvarinnar til að taka á móti henni og fór þá með okkur til stöðvarinnar suður í borginni, þar sem farið er til suðurstrandar Englands.  Ferðin frá London til Brighton er stutt og skemtileg, enda mikið gert til þess að hæna ferðamenn að.  Suðurhluti Englands er mjög skemtilegur.  Hvergi eru há fjöll, en alstaðar eru grænar hæðir og skógum þaktir dalir.  Víða er útsýnið fallegt.  Margir, sem starfa í stórborginni, eiga heima í sveitunum fyrir sunnan og ferðast inn í London á hverjum morgni.  Vegirnir eru ágætir, breiðir og beinir yfirleitt.  Oft sjást fleiri en 1000 bifreiðar  fara framhjá á klukkustund.  Þó er til járnbraut, sem flytur margar þúsundir fram og aftur á hverjum degi, milli Londonar og Brighton, og þar auki fara margir hjólreiðamenn milli borganna.  Hraðlestir á járnbrautinni, sem nú eru knúðar af rafmagni, eru hjer um bil klukkustund á leiðinni, en bifreiðar nokkuð lengur, vegna umferðarinnar.
   Alt mögulegt er gert í Brighton til að gera mönnum heimsóknina skemtilega.  Í góðu veðri eru sandarnir þaktir fólki, sem nýtur sólskins og sjávarlofts.
   Eitt af hinu fallegasta, sem jeg sá í Brighton, var gosbrunnurinn mikli, nær því í miðborginni, þar sem er torg mikið og rúmgott.  Gosbrunnurinn er látinn starfa aðallega á kvöldin.  Vatnið gýs úr mörgum vatnshönum, en undir þeim eru mörg afarsterk kastljós, sitt með hverjum lit, þannig, að hvert ljós skín í gegnum litað gler, en þessu er svo komið  fyrir, að sífelt skiftir um liti.  Hafi maður ekki sjeð þetta með eigin augum, er ómögulegt að ímynda sjer, hve aðdáanlega fögur útkoman er, þegar gosbrunnurinn er í algleymingi.  Menn standa lengi í stórum hópum, heillaðir af fegurðinni.  Vafalaust gerir gosbrunnurinn sitt til þess, að fegra Brighton og hæna menn þangað.
Allt í kring eru margar trjáraðir, og eru allavega lit ljós á greinum þeirra.  Það má nærri geta, hversu fagurt er að ganga þar um að kvöldlagi í góðu veðri.  Vinur minn, sem jeg dvaldi hjá, útvegaði mjer litmyndir af gosbrunninum og umhverfinu, en engin mynd getur auðvitað gefið sanna hugmynd um það, sem fyrir augun ber, meðan vatnið gýs ýmist hátt eða lágt, ýmist í stöðugum straumi eða iðandi,blátt, rautt, gult, fjólublátt og grænt, úr mörgum hönum í einu.  
   Ekki færri en 15 hjúkrunarkonur, starfsystur dóttur minnar, sóttu fyrirlestur minn um Ísland, og margt annað fólk.  Jeg sýndi þeim meðal annars mynd af Geysi, en jeg gat ekki sagt frá litbrigðum hans!  Enga mynd átti jeg af norðurljósunum.
   Næsta dag átti jeg að fara til bæjar, sem heitir Lingfield, er liggur nokkuð langt frá Brighton, uppi í sveitinni.  Vinstúlka dóttur minnar bauðst til að flytja mig þangað í litlu bifreiðinni sinni.  Við fórum snemma af stað, hjúkrunarkonurnar tvær og jeg, og drukkum te á skemtilegum stað í skógi á leiðinni.  Þegar við komum til bæjarins, þurftu stúlkurnar að hverfa aftur heim til að sinna störfum sínum.  Sjálfur gisti jeg þar í sveitinni, að fyrirlestrinum loknum.  
   Jeg hafði tekið eftir því, að stúlkunni, sem ók mjer til Lingfield, hafði liðið eitthvað illa, en hún gerði lítið úr því.  En næsta morgun, er jeg var kominn aftur til Hove, var tilkynt í talsímanum frá sjúkrahúsinu, að stúlkan hefði orðið skyndilega veik af botnlangabólgu, og það þurfti að skera hana upp undir eins.
   Í þessum kringumstæðum varð konan mín eftir hjá frúnni, sem við dvöldum hjá, til að hugga hana, því þetta kom yfir hana eins og reiðarslag.  En jeg varð að halda áfram til Eastbourne, þar sem jeg átti að prjedika á sunnudaginn.  Fyrir Guðs náð gekk allt vel, og
stúlkunni batnaði fljótt.   
   Í Eastbourne hafði jeg dvalið bæði 1932 og1934, meðan jeg var í Englandi um sumurin.  Þar er starfið meðal ungra manna, sem hafði haldið mótið í Seaford 1932 og hafði farið í seglskipaferðina á Norfolk Broads sumarið 1934, þar sem jeg hélt samkomurnar fyrir ungu mönnunum.  Jeg var beðinn í þetta skifti að tala á síðdegissamkomu, ásamt ungum lækni, sem var að fara til Afríku sem trúboði.  Við áttum báðir að tala um efnið: "Hversvegna mig langar til að þjóna Kristi".  Eftir á talaði jeg við marga, sem jeg hafði kynst á fyrri árum og var margs að minnast frá þeim tímum.  
   Næsta morgun kom konan mín frá Hove og sagði góðar fréttir af sjúklingnum.  Við fórum ofan að sjávarsíðunni til þess að sjá starf barnatrúboðsins, sem heldur þar í ágústmánuði stórar samkomur á hverjum virkum degi, einkum fyrir unglinga.  Samkomurnar eru svo aðlaðandi, að jafnvel margt fullorðið fólk stendur þar og hlustar á, eflaust sjer til mikillar blessunar.  Dómkirkjuprestur þar í borginni, trúaður maður, stjórnar samkomum þessum, en þær eru ekki bundnar við neinn sérstakan trúarflokk, aðeins eru sanntrúaðir menn í starfinu, sem starfa á frjálsum grundvelli ritningarinnar.
   Eftir hádegi fórum við til að finna gömlu vinkonu okkar, sem hafði boðið okkur til sín á fyrri árum.  Nú var hún of veil til þess að hafa gesti. Enda komin á nýræðisaldur.
   Um kvöldið hélt jeg  fyrirlestur um Ísland í sal frjálsa safnaðarins þar.  Áður en jeg byrjaði, stóð einn af leiðtogum starfsins upp og vildi tala nokkur orð.  Hann sagði frá nokkru, sem ég hafði aldrei heyrt fyr, þó að það kæmi mér við og jeg þekti hann vel.  Hann sagðist hafa verið, fyrir mörgum árum, einn af forstöðumönnum þess safnaðar, sem  jeg var í, er jeg fór fyrst til Íslands, í Balham í suðvestur London.  Hann skýrði frá því, að forstöðumennirnir höfðu komið saman til að ræða um það, hvort þeir ættu að veita mjer blessun sína og meðmæli, sem trúboða til Íslands.  Hann sagði að allir hinir forstöðumennirnir, (það munu hafa verið um sjö eða átta), hefðu verið eindregið með því, að láta þennan unga mann fara með blessun þeirra (sbr Post. 13. 3.), þar sem þeir báru traust til hans.  En hann hafði sjálfur heyrt að íslenskan væri mjög þungt mál, og erfitt fyrir Englendinga að læra hana, og vildi helst mælast til þess, að farið væri mjög varlega í þessu máli, og engin ákvörðun tekin fyrst um sinn.  En hann varð samt að gefa það eftir, vegna allra hinna.  Nú vildi hann nota tækifærið, eftir öll þessi ár, að kannast við það opinberlega, að honum hefði þar skjátlast, eins og reynslan hefði sannað.  Þessi maður var sérstaklega gætinn og íhaldsamur, og þó að jeg hefði oft hitt hann, hafði hann aldrei sagt mjer frá þessu.  
   Þegar fyrirlestur þessi var úti, kom til mín ungur maður, sem hafði verið með okkur fyrir tveimur árum á skipsferðinni í Norfolk  Broads.  Sagði hann mjer frá því, að hann hefði þar orðið fyrir miklum áhrifum og hefði leitað Drottins  Jesú og fundið hann.  Nú væri hann að þjóna honum eftir megni.  Það er mjög mikil gleði fyrir þjóna Drottins, að hitta hér og þar unga, efnilega menn, sem hafa hlýðnast boðskapnum, sem þeir hafa flutt i Drottins nafni.  Altaf sannast það, að fagnaðarerindi Krists er "kraftur Guðs til hjálpræðis, hverjum þeim, er trúir".  Því viljum vjer halda áfram að boða hann, eins og postulinn sagði, "í tíma og ótíma".
                 ------------------

Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99750
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 14:43:33

Tenglar