Þóra Guðrún Pálsdóttir

1916

Í lok janúar getur Arthur  þess að hafi hann byrjað að vinna að  "Lífi í sigri",  riti eða bók sem hann gaf út.  Um svipað leyti er barnið veikt aftur en hressist fljótlega.

Hann fær yndisleg bréf frá safnaðarsystkinunum á Sjónarhæð sem þrá mjög heimkomu fjölskyldunnar allrar.  Þau eru að reyna að koma saman en kvarta yfir hve fáir komi og telja að það muni breytast undir hans forystu.  Reyndar var það þannig að fólk fór mikið úr bænum og út á land  að leita sér að atvinnu yfir sumarið svo það tók sinn tíma að koma samkomunum í gang aftur að haustinu.

Heimferð
Jeg ætlaði að koma heim snemma 1916, en var ekki fullviss um, hvort jeg gæti fengið leyfi til að fara út úr landinu, þar sem jeg hafði heyrt að margir, sem vildu fara til útlanda, hefðu ekki fengið vegabrjef.  Menn þurftu að fá meðmæli frá dómara í þeirri borg, sem þeir dvöldu í, og senda það ásamt umsókn sinni um vegabrjefið.  Jeg var svo heppinn að þekkja vel háttsettan borgara í Portsmouth, sem hafði verið sjóforingi á yngri árum sínum, en nú um langa tíð fengist við kristilega starfsemi þar í borginni.  Þessi maður hafði hlustað á alt, sem jeg sagði frá Íslandi, með miklum  áhuga, og hafði látið í ljós löngun sína til að heimsækja "sögueyjuna".  Hann skrifaði dómara, sem hann var persónulega kunnugur og hvatti hann til, að greiða veg minn alt hvað hann gæti.  Þegar jeg mæti fyrir rjettinum, til að útskýra hvers vegna jeg vildi fara af landi burt, var mjer tekið framúrskarandi vel, og dómararnir tveir, sem þar sátu á dómstóli, gáfu mjer meðmæli tafarlaust og sá sem vinur minn hafði skrifað kallaði upp, svo allir heyrðu: "Jeg öfunda yður, herra minn, af starfi því, sem þjer hafið í huga að framkvæma!"
Eftir fáa daga, fjekk jeg vegabrjef mitt og vissi að nú var mjer óhætt að hefja ferð mína, að því er snerti "hið opinbera".
Af því að jeg bjóst við að fara með "Goðafossi" frá Leith þ. 22. marts og jeg þurfti að koma víða við á leiðinni til Leith fór jeg á stað þ. 7.marts frá heimili okkar í Southsea.  Sjaldan kemur snjór svo sunnarlega á Englandi, en þegar jeg fór af stað gerði mikla hríð, og hafði jeg ekki sjeð aðra eins allan þann tíma er jeg dvaldi á Englandi.  Það reynir æfinlega á, að skilja við þá, sem manni eru kærastir á jörðu, en í þetta sinn, er ferðir og samgöngur voru allar svo óvissar, var það hjer um bil óbærilegt.  En jeg fól ástvini mína í Drottins hönd í því trausti, að við mundum brátt sameinast aftur á Íslandi, enda varaði skilnaðurinn ekki lengur en fimm mánuði.
Sama kvöldið átti jeg að halda fyrirlestur í Norður-Lundúnum, og eftir þriggja daga dvöl í höfuðborginni hjelt jeg norðvestur til Birmingham.  Þar átti jeg að tala á stórri eftirmiðdagssamkomu, og jeg kom til bæjarins í tæka tíð, en þurfti þó að fara á stað, að samkomunni lokinni, ennþá lengra, til stórbæjar, sem heitir Bolton, sem jeg hafði löngu lofað að heimsækja.  Jeg náði þeim stað, þar sem jeg átti að gista, um miðnætti.  Söfnuðurinn, sem hafði boðið mjer til sín, var mjög stór og virtist mjer hann hafa víðtækari starfsemi og ötulli starfsmenn, en nokkur annar söfnuður, sem jeg hefi kynst á ferðum mínum.  Fáir meðlimir hans munu hafa verið iðjulausir, allir virtust taka einhvern þátt í hinni margháttuðu starfsemi safnaðarins.  Jeg talaði á fimm samkomum þennan dag, en varð þó að sleppa sunnudagaskólanum, þar sem voru um 600 börn.  Söfnuður þessi hefir nefnilega ekki aðeins einn stóran sal, heldur fimm eða sex minni sali í sömu stóru byggingunni, og hefir t.d. á meðan á barnaguðsþjónustunni stendur, samkomu fyrir karlmenn, aðra fyrir kvennmenn o.s.frv.  Miðdegisverðar neytti jeg þar á staðnum, ásamt mörgum starfsmönnum, því að ekki var tími til að fara burtu til þess.  Jeg var meir en lítið þreyttur, þegar þessi dagur var á enda, en hefi margar sælar endurminningar um það ágæta fólk, sem jeg kyntist þar.
Þaðan fór jeg austur til Sheffield, - bæjarins, þar sem hnífar og alskonar vörur úr stáli eru smíðaðar, - til þess að finna einn aldavin minn, sem var tollgæslumaður þar.  Hafði hann beðið mig að halda fyrirlestur fyrir söfnuðinum, sem hann var í. 
Þar frjetti jeg að "Goðafoss" mundi ekki fara til Leith á áætlunardegi, heldur, ef til vill miklu seinna.  Sá jeg nú eftir, að hafa flýtt mjer svo,  að fara frá fólki mínu, en hjelt samt áfram til Glasgow, þar sem jeg hafði lofað að halda nokkra fyrirlestra.  Þar hitti jeg marga góða vini, sem jeg kyntist á fyrri ferðum mínum, og hjelt fyrirlestra eða prjedikaði nærri því á hverju kvöldi í rúmlega hálfan mánuð, annað hvort í sjálfri borginni eða í bæjum skammt frá henni. 
Eitt sunnudagskvöld var  jeg beðinn að prjedika í einum af hinum stærstu samkomusölum í borginni.  Þar er margháttuð kristileg starfsemi, sem var stofnuð til að halda áfram starfi því, sem Moody, ameríski trúboðinn alkunni, byrjaði þar í  borginni fyrir fjörutíu árum síðan.  Það var óvenjulega mikil hríð það kvöld, en þó komu um 1500 manns saman, af öllum stjettum mannfjelagsins.  Í góðu veðri koma stundum 2000.  Menn veittu sjerlega góða eftirtekt og var auðsjeð, að þeir höfðu komið þrátt fyrir óveðrið af innilegri löngun eftir að heyra Guðs orð.  Er það ætíð mikil ánægja að prjedika fyrir slíkum. 
Frá Glasgow fór jeg til Edinborgar,  þar sem jeg á tengdafólk, en þar sem "Goðafoss" átti ekki að fara fyr en tíu dögum seinna, hafði jeg lofað að fara til Aberdeen, á austurströnd Skotlands, og prjedika síðasta sunnudaginn, sem jeg var á Skotlandi, og halda fyrirlestur á mánudaginn. 
Þegar jeg kom til Edinborgar aftur, heyrði jeg að Zeppelínloftför   þýsk hefðu heimsótt borgina og varpað nokkrum sprengikúlum niður á íbúana.  Þeir höfðu eyðilagt nokkur íbúðarhús og drepið nokkrar fjölskyldur.  Eitt spellvirki þeirra mun hafa glatt Goodtemlara, því ein sprengikúlan lenti á "whisky"- verksmiðju og eyðilagði hana svo, að varla mun hún geta framleitt áfengi í langan tíma.  Gerði óvinurinn á þann hátt beinlínis gagn. 
Ein sprengikúlan lenti á húsinu, þar sem afgreiðsla íslenska eimskipafjelagsins er og sýndi afgreiðslumaðurinn mjer skemmdirnar, sem hún hafði gert.  Hafði hún brotið vatnspípu á einum stað, svo að vatnið bunaði um alla skrifstofuna.  Talsímasambandið var líka slitið.  Kúlan hafði fallið beint niður í gegnum fleiri loft og gólf og voru kringlótt göt eftir hana, fimm eða sex þuml. að þvermáli, minnir mig.

Loksins  stigið  á  skip
Kvöldið áður en skipið átti að fara, fór jeg um borð ásamt skrifara mínum, sem hafði komið sama daginn frá Lundúnum.  Skipakvíarnar voru í kolsvarta myrkri, en lögregluþjónn leiddi okkur að þeirri kví, sem "Goðafoss" lá við. Embættismaður nokkur kom þá til að skoða vegabrjef okkar og farangur.  Það var skemmtilegt og ánægjulegt að heyra íslensku aftur, eftir svo langan tíma, og hitta nokkra Akureyringa, sem voru með skipinu. 
Þessir sautján mánuðir, sem jeg hafði dvalið á föðurlandi mínu, höfðu verið mjer mjög blessunarríkir.  Starfið, sem jeg hafði þá gleði að mega vinna fyrir Drottin minn og meistara, Jesúm  Krist, bæði með ræðu og riti, virtist ekki hafa verið með öllu árangurslaust.  Jeg kynntist mörgum ágætum mönnum, sem jeg minnist ætíð með hlýjum hug.  Og tilbreytingin hafði mjög góð áhrif á heilsu mína, svo jeg kom aftur til Íslands með nýrri starfsþrá og meiri löngun, til að boða kærleika og sannleika Jesú Krists ?

Ferðin til Íslands gekk fremur vel, en skipið hrepti hálfvont veður við Færeyjar, svo að það varð að liggja við akkeri um tíma í hlje einnar eyjunnar.  Um kl.11 f.h. fimta daginn komum við til Djúpavogs, og jeg fór í land, ásamt fjelaga mínum, innilega hrifinn af að vera kominn aftur til landsins.  Jeg reyndi, eins og margsinnis áður, kraft þeirra banda, sem Ísland tengir hjörtu nokkurra útlendinga við sig.  Jeg fór að velta því fyrir mjer, hvort þeir, sem taka sjer bústað í einhverju landi á fullorðins árum, muni ekki þar með hafa sannað ást sína til landsins fult eins vel og þeir, sem fæddust í landinu, án þess að hafa átt völ á því, á hvaða landi  eða í hverri þjóð þeir ættu að fæðast.
Næsta morgun fór skipið til Stöðvarfjarðar, þar hitti jeg nokkra kunningja.  Tókum við ljósmynd af síra Guttormi, sem virtist ern og hress, þrátt fyrir  aldur sinn, en myndin var því miður ekki vel góð. 
Á  Fáskrúðsfirði sendi jeg boð um kaupstaðinn, að samkoma yrði haldin í fundarsalnum, og þrátt fyrir það, að ekki var nema um fáeina klukkutíma að gera, komu um 60 manns saman, og jeg hafði þá gleði, sem jeg hafði þráð, alt síðan jeg fór til útlanda, að kunngera hinn órannsakanlega ríkdóm Krists, á íslensku.   
Nú var veðrið hið ákjósanlegasta, en alstaðar var mikill snjóþungi.  Skipið kom við á Reyðarfirði, Eskifirði, Norðfirði og Seyðisfirði og fann jeg margt fólk sem jeg hafði áður kynst.

Á  Vopnafirði kom margt fólk saman til guðsþjónustu, sem jeg hjelt, því við vorum þar á sunnudegi.  Á Bakkafirði, Þórshöfn og Raufarhöfn fórum við ekki í land.  Skipið tafðist nokkuð fyrir utan Húsavík, vegna hríðar, en við komumst samt inn í höfnina þar snemma á skírdag.  Jeg auglýsti samkomu kl. hálf þrjú í gistihúsinu og kom töluvert af fólki.  Snjórinn var svo fádæma mikill á Húsavík, að við tókum nokkrar myndir af honum til minningar. 
Næsta dag, föstudaginn langa, kom "Goðafoss" til Akureyrar og ferð mín var á enda.

Jeg var heppinn, að vera kominn heim, einmitt á helgum degi, því að menn voru ekki bundnir við störf sín og vinir mínir og systkini í Kristi fundu mig strax og það var líka hægt að halda samkomu sama daginn. Fylltist salurinn af gömlum vinum, og hinar hlýju viðtökur voru mjer til mikillar uppörfunar. 
Síðan hefur starfið borið meiri sýnilegan ávöxt, og samkomurnar hafa verið betur sóttar en nokkurn tímann áður.  "Norðurljósið" hefir og náð meiri útbreiðslu en áður og því hefur verið betur tekið af lesendum yfirleitt, eftir brjefum þeirra að dæma. 
Þess vegna vil jeg af öllu hjarta þakka og lofa almáttugan Guð, hinn góða gjafara allrar blessunar, fyrir hina dásamlegu vernd hans og varðveislu, á mjer, hinum óverðugasta allra þjóna hans, á öllum þessum ferðum mínum, og fyrir alla þá blessun, sem hann hefir í tje látið, síðan hann leiddi mig hingað aftur ...
Í júní talar Arthur gegn guðspeki á tveimur samkomum, í fyrra skiptið að Grund í Eyjafjarðarsveit og svo að Sjónarhæð fyrir fullu húsi. Fljótlega eftir heimkomuna hlýtur hann einnig að hafa hafist handa við útgáfu Norðurljóssins og í dagbók hans kemur fram að þann 7. júlí var blaðið sent út. Þetta var október-nóvember blað árgangsins 1914.  Þá skrifar ritstjórinn:
Öllum áskrifendum, útsölumönnum og lesendum "Norðurljóssins" heilsast innilega!
Mikill hefir drátturinn orðið á útkomu þessa tölublaðs, sökum fjarveru minnar í Bretlandi.  Í staðinn fyrir að vera fjóra mánuði í burtu, eins og jeg ætlaði, hefir það orðið átján mánuðir.  Hefi jeg frá mörgu að segja, aðallega viðvíkjandi styrjöldunum, sem nú geisa um löndin og skal jeg við tækifæri reyna að segja lesendum "Norðurljóssins" frá því sögulegasta.  Mikið verð jeg að þakka Guði vorum og Föður fyrir hina náðarríku handleiðslu hans á öllum ferðum mínum, fyrir vernd hans frá öllum hættum og loks fyrir það, að jeg fjekk að sjá þetta kæra land aptur, sem hefir náð svo föstum tökum  á hjarta mínu.  
Næsta blað kemur út bráðlega, og þá er árganginum lokið.  Í því verður sagt frá útkomu blaðsins framvegis.  Að minsta kosti kemur blaðið út, ef Guð lofar, árið 1917, en óvíst er, hvort mjer tekst að gefa út 12 blöð fyrir 1916.   Ef jeg sje mjer það ekki fært, þá sleppi jeg þeim árgangi alveg.  Verður ákveðið sagt um það í næsta blaði.
                                                               
Góðar   bækur

Aftast í þessu blaði er listi yfir bækur sem út höfðu verið gefnar og fengust á þessum tíma á afgreiðslu blaðsins.  Slíkir listar birtust öðru hverju í blaðinu.

"Norðurljósið" mælir með eptirfylgjandi bókum, og vill  fúslega senda lesendum þær gegn póstkröfu.  25% afsláttur,  ef keypt er af þessum bókum fyrir 2. kr.

á 1 kr.:  Nýja testamenti, með litmyndum.
               Kristur biblían og vantrúin, eftir R. A. Torrey, í bandi.
Á 50 au.: Sálmar og söngvar(87, flestir þýddir úr ensku)
Á 25 au.: Kristur biblían og vantrúin(128 bls í kápu.)
                Eiríkur litli.  Ágæt saga (48 bls. Með myndum).
                Er biblían ábyggileg? Sjerprentun úr Norðurljósinu.
                Auðæfi  Krists.  Þýtt úr ensku.(63 bls.)
Á 20 au.: Hið sigursæla líf.  Sjerprentun úr Norðurljósinu.
Á 15 au.: Falleg veggspjöld, með myndum.(tvær sortir með hanka).
Á 10 au.: Andatrúin: lýsing og viðvörun.  (24 bls).
                 Stóð sólin kyrr á dögum Jósúa? 16 bls.)
                 Frelsun úr þrældómi(16 bls.)
                 Það sem hver drengur á að vita. (24 bls. Með mynd).
                 Saga leikarans (12 bls. Með myndum).
                 Týndi sonurinn.  Veggspjöld með hanka.
Á 8 au.:   Falleg veggspjöld með litmyndum  (6 sortir).
Á 5 au.:   Hjálpræði Guðs.  (32 bls).
                 Fegurð  Krists.    (16 bls).
Á dönsku, 60 au.: Jesús Genkomst. (235 bls).

Þetta voru bækurnar sem bóksölumenn Arthurs ferðuðust um með og buðu fólki til kaups á þeim tíma.  Þeir höfðu einnig til sölu skrifpappír, umslög, penna og blek, griffla og spjöld.  Einnig stílabækur.  Það sést að minnsta kosti í einu bréfi að fólk vildi heldur kaupa stílabækur frá Arthuri en annarstaðar af því það taldi þær ódýrari en í búð.

Um miðjan júní kemur skeyti frá Florence um að hún sé væntanleg til Íslands með skipinu Ceres og 3. ágúst hringir hún frá Seyðisfirði.  "Lof sé Guði!" segir Arthur þá í dagbók sinni. Þremur dögum síðar kemur hún með börnin og Kötu til Akureyrar.  Þær mæðgur, Florenc, Irene og Mabel, veikjast allar af kvefi fljótlega eftir komuna til Íslands en í lok september eru þær orðnar hressari og þann 29. september fara Arthur og Florence í útreiðartúr fram að Bægisá, drekka te við ána og koma ekki heim aftur fyrr en dimmt var orðið.

Þann 2. desember skrifar Arthur að 10 ár séu liðin síðan fyrst var farið að brjóta brauðið á Sjónarhæð.  Að sjálfsögðu hefir það verið  á sunnudegi.

1917

Aðeins ein færsla er skrifuð í dagbók Arthurs árið 1917. En Norðurljósið kom út það ár og hér má sjá athugasemdir ritstjórans í janúartölublaðinu:


Mjer er skylt að þakka Guði fyrir hinar óskiljanlega hlýju viðtökur, sem margir lesendur blaðsins hafa veitt mjer síðan jeg kom hingað aftur til landsins. Einnig þakka jeg hverjum einum sem hefir skrifað mjer, fyrir vingjarnleg orð og loforð um hjálp við útbreiðslu blaðsins.  Það lítur út fyrir, að blaðið nái töluvert meiri útbreiðslu þetta ár, heldur en áður.  Sumir hafa greitt áskrifendagjald sitt fleiri mánuðum fyrirfram, og sumir jafnvel borgað fyrir fleiri ókomin ár!
Þeir, sem ekki hafa þegar sent áskrifendagjald sitt, eru beðnir að hugsa til þess með næsta pósti, því að blaðið á að borgast fyrirfram.  Nú á þessum ófriðartímum er blaðaútgáfa svo mörgum erfiðleikum bundin, og kostnaður allur svo miklu meiri, að það er nauðsynlegt að lesendur sjeu skilvísir, helst undantekningarlaust.  Um leið og menn senda sína 60 au., er þeim ráðlagt að bæta 20 au. við til þess að kaupa nýútkomið rit, sem heitir "Jónas í kviði stórfiskjarins", (Rannsóknarrit nr. 3,10 au.), eftir ritstjórann, og nýtt veggspjald með mynd af Galíleuvatninu (10 au.), sem verður sent með pósti strax við móttöku pöntunarinnar.

Stríðið hafði margvísleg áhrif eins og gefur að skilja og ein afleiðing þess var sú að skortur varð á pappír til blaðaútgáfu.  Reyndist erfitt fyrir Arthur að útvega nægan pappír til að halda áfram útgáfu Norðurljóssins. Í nóvembertölublaðinu 1917 segir hann m.a. að ekki sé víst að hann geti gefið út næsta árgang blaðsins nema úr rætist. Biður hann áskrifendur að bíða með að senda sér áskrifendagjöldin fyrir næsta ár þar til ljóst sé hvort blaðið muni koma út. En í desembertölublaðinu má sjá að eftirfarandi pistil:

Athugasemdir  ritstjórans
Jeg bið alla lesendur velvirðingar á því, að þetta blað kemur út á eftir tímanum.  Hafa óviðráðanlegar tálmanir orðið til þess, sem ekki var á mínu valdi að afstýra. 
Þegar síðasta blað kom út, var jeg mjög vondaufur um að fá pappír í næsta árgang, enda er afar mikill hörgull á prentpappír  nú sem stendur.  En mjer er það ánægja að tilkynna lesendum, að jeg hefi nú tryggt mjer pappír í allan árganginn 1918, svo að blaðið getur haldið áfram.  En  það var ekki hægt að fá pappír af sömu stærð og áður hefur verið, og verð jeg þess vegna að breyta stærð blaðsins þannig að blaðsíðurnar verða töluvert stærri, en verða aðeins fjórar að tölu.
Lesmálið verður með þessu móti nokkuð minna. Í staðinn fyrir að hækka verð blaðsins í 1 kr., eins og hefði verið óhjákvæmilegt, ef blaðið hefði verið eins stórt og áður, ætla jeg nú að láta verðið standa óbreytt, 60 au. fyrir árganginn, þratt fyrir hina geysimiklu verðhækkun á prentpappírnum og öllu því, sem að blaðaútgáfu lýtur. Hlýtur blaðið því enn þá að vera tiltölulega ódýrasta blað landsins ...
Margir hafa lagt kapp á að safna áskrifendum, án þess að þiggja einn eyri í ómakslaun. Sumir hafa selt eldri árganga innhefta og önnur rit. Öllum þessum ósérhlífnu vinum "Norðurljóssins" votta jeg enn að nýju mitt besta þakklæti, og færi þeim ásamt öllum lesendum blaðsins hjartanlegustu óskir um blessun Drottins á nýja árinu.


Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99807
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:25:46

Tenglar