Þóra Guðrún Pálsdóttir

20. Árin 1928 - 1929

1928  
Gott gengi í andlega starfinu
Á nýársdag stendur í dagbók Arthurs:
Mikið að gera en blessaður tími. Útvarpað fagnaðarerindinu.
Gerðar voru þónokkrar tilraunir með útvarpssendingar í janúar og febrúar en gengu þær misvel. Annan janúar hjóla Arthur og Eric Hogg til Rifkelsstaða og Munkaþverár, að því er virðist til að kanna móttökuskilyrði fyrir útvarpið.

Andlega starfið heldur áfram að vaxa og jafnt og þétt bætist í hóp þeirra sem frelsast láta.  Höfundi telst svo til að 10 manns hafi tekið skírn á árinu 1928.  Dagbók Arthurs geymir lítið annað en það sem heyrir undir afturhvarf og skírn og aðeins í fáum orðum. Hann á mörg samtöl við fólk sem leitar Drottins. Þann 9. janúar lýkur Arthur við Norðurljósið.  Þann 12. janúar er Kristín sögð veik í rúminu en annars er í dagbókinni afar sjaldan minnst á fólkið sem dvaldi á heimilinu, til dæmis fáum við litla hugmynd eða enga um útlenda fólkið sem hafði verið að vinna hjá honum.  Einnig má segja það sama um það íslenska.  

Þann 26. mars berast fregnir af því að til útvarpsstöðvarinnar hafi heyrst í Californíu 4.300 mílur í burtu.  
Á föstudaginn langa fer fólk úr söfnuðinum upp í sjúkrahús, þar sem er sungið og Arthur heldur stutta ræðu.  Tveim dögum seinna, á páskadaginn, skrifar Arthur í dagbók sína:
Fullur salur á samkomu kl. 5. Mikill áhugi og kraftur Heilags anda.

Heilagur andi var vissulega til staðar, það sýnir vöxturinn í starfinu.  Þótt hann væri ekki eins og stórstraumsflóð, þá var hann öruggur og jafn um langa hríð.

Stuttu eftir þetta kom upp ágreiningur milli þriggja kvenna.  Ekki minnst á í hverju hann lá og sjaldgæft að slík atvik væru færð til bókar en Arthur hefur þurft að aðstoða þær við að ná sáttum.  Annað eins gerðist nú í frumkristninni líka.  Páll postuli nafngreinir tvær konur.  Hann sendir þeim orðsendingu í bréfi til safnaðarins í Filippí og biður þær að vera samlyndar vegna Drottins.  Páll hefir þekkt þær báðar að því að elska Krist, því þær höfðu barist með Páli við boðun fagnaðarerindisins ásamt Klemens og öðrum "og standa nöfn þeirra í lífsins bók" segir hann.  Páll virðist hafa vonað að helst mundi duga að biðja þær að laga stöðuna sín á milli vegna Krists, því hann elskuðu þær báðar. 

Um miðjan apríl skrifar Arthur bréf til Sæmundar Jóhannessonar sem um þær mundir er kennari á Sveinsstöðum eða í Sveinsstaðahreppi í Húnavatnssýslu og segir:

Nú er Ólafur að fara en Jón Jónasson kemur í staðinn í bráðina.  Ég geri ráð fyrir að fara sjálfur til útlanda seint í næsta mánuði.
Það er svo 1. júní sem Arthur leggur af stað áleiðis til Englands.  Skipið fór vestur um frá Akureyri og hlaut gott veður. "Lof sé Guði." segir Arthur.  Hann virðist hafa verið næmur fyrir sjóveiki alla jafna.  Á  Ísafirði minnist hann á að hafa hitt tvær konur sem hann nafngreinir.   Þegar til Reykjavíkur taka Ólafía og Georg, sem líklega voru mæðgin frá Akureyri,  auk Helga Tryggvasonar sem hafði áður unnið hjá Arthuri, á móti honum þegar skipið leggst að bryggju. Þann 3.júní fer hann frá Reykjavík í fínu veðri og er kominn heim til Bristol fjórum dögum síðar. Um heimkomuna segir hann í dagbók sinni:  "Hlýjar móttökur, barnið mjög áhugavert." Þá er litla Olive orðin rúmlega tveggja ára.
 
Þann 11. júní er fertugasti og fimmti afmælisdagur Arthurs.  Kona hans gefur honum skrifborð í afmælisgjöf, svokallað "Roll-top desk".  Um kvöldið fara þau hjón út að ganga og eiga góða stund saman.

Að öðru leyti verður ekki greint frá þeim tíma sem hann er úti því sennilega er hann skráður sem ferðasaga í Norðurljósinu.  Arthur er kominn aftur til Íslands 9. nóvember, ásamt Eric syni sínum.

1929
Hin árlega bænavika er haldin snemma í janúar samkvæmt venju."Blessaður tími" stendur í dagbók Arthurs.

Í bréfi sem Arthur skrifar Sæmundi 22. janúar segir svo:

Jeg hefði beðið þig að koma til mín í vetur, en það er tvennt sem hamlar því.  Annað, að jeg hefi ekki ráð til þess að hafa fullorðinn mann og borga honum sæmileg laun, en vil ekki hafa hann án þess.  Hitt er, að hér er ekki rúm til að hafa mann, til að sofa.  Drengurinn minn Eric og Mr. Poole, raffræðingurinn, eru hér.  En ef það væri hægt að yfirstíga þessa erfiðleika, þætti mér mjög kært að hafa þína góðu hjálp.

Í byrjun febrúar heldur Ólafur Ólafsson Kínakristniboði vakningarsamkomur á hverjum degi í heila viku í Samkomuhúsinu.  Síðan er sameiginleg samkoma haldin þann 25. febrúar. Þar töluðu Ólafur Ólafsson, Árni Jóhannsson og Arthur Gook. Nokkrir játuðu Krist. Daginn eftir talaði Ólafur á Sjónarhæð og næsta dag eða kvöld var haldið kveðjusamsæti fyrir hann . Þessir andlegu höfðingjar náðu vel saman enda áttu báðir þá sameiginlegu reynslu að Drottinn hafði kallað þá til að útbreiða fagnaðarerindið í framandi löndum, frá þeirra heimahögum séð.  

Hinn 26 mars stendur í dagbókinni:
Snemma á fætur, skrifa bréf allan dag áður en skipið fer.
Ein kona hafði þó komið þennan dag til að fræðast um skírn.  Daginn eftir er það einn maður sem leitar Drottins.  
Þann 14. apríl fer Arthur á hjóli að Þinghúsi Glæsibæjar og heldur samkomu þar. Auk Arthurs og nokkurra annarra úr Sjónarhæðarsöfnuðinum voru 29 viðstaddir og ein kona viðurkenndi Krist.  

Hinn 19. apríl stendur í dagbókinni:
Notalegt spjall við Eric um morguninn. Ísland kom með dínamó og mótorvél.
Þetta eru greinilega hlutir fyrir útvarpsstöðina og hlýtur Arthur að hafa glaðst yfir því. Fleira er að gerast sem gleður, því 19. maí eru þrjár konur sem taka skírn og 9. júní er einn maður sem viðurkennir Krist og óskar skírnar og samfélags.  Einnig er Arthur skipaður breskur varakonsúll á Akureyri í lok maí.

Ferðalag
Þann 21. júní leggur Arthur af stað með Esju til Siglufjarðar.  Fljótlega eftir komuna þangað fer hann í heimsóknir, fyrst til Sigurlaugar og síðan heim til Stefáns Ásgrímssonar. Um kvöldið heldur hann samkomu í norska sjómannaheimilisinu:  "Fullt hús blessaður tími."

Eric sonur Arthurs er með í för. Hann fer í sinn fyrsta bókasölutúr um allan bæ og gengur nokkuð vel. Aftur er haldin samkoma um kvöldið og 59 mæta á hana. Þann 25. júní getur Artur þess að hafa tekið myndir af fjölskyldu Stefáns og er þess oftar getið í dagbókum hans að hann hafi verið að taka myndir. Bæði á ferðalögum sínum og eins í starfinu á Sjónarhæð. Á samkomunni þetta kvöld eru fáir.

Daginn eftir fer hann að Bakka. Soffía Sveins býðst til að auglýsa samkomurnar og einnig virðist hún hafa verið að selja bækur fyrir Arthur.  Hann á andlegt samtal við mann sem honum virðist snúa sér til Krists.  Klukkan hálf níu um kvöldið er samkoma en aðeins 25 manns eru viðstaddir. Næsta dag vaknaði Arthur snemma og fór upp í Hvanneyrarskál. Um þá ferð stendur í dagbókinni:

Yndislegur tími.  Sólbað + snjóbað.
 
Einnig mætti hann manni sem hann nafngreinir og segir: "Hann hefir endurfæðst. Lof sé Guði.  Blessaður tími."  
Þann 28. júní fer hann til Björns, Stefaníu og Sigurlaugar og á góðar stundir með þeim. Samkoma um kvöldið, 34 mæta.

Daginn eftir fer Arthur til Málmeyjar á Skagafirði. Það er vont í sjóinn og hann finnur fyrir sjóveiki. Ekki kemur fram hvar hann gistir en næsta dag getur hann þess að hafa farið í göngu með Frans og allri fjölskyldunni. Því næst virðist hann hafa haldið samkomu því hann minnist á söng og tal. Einnig getur Arthur um gott samtal við Grím en hann hafði frelsast við að lesa Sæluríkt líf sem Arthur gaf út.  Þeir áttu eftir að kynnast betur og Grímur varð stólpi í söfnuðinum á Sjónarhæð.

1. júlí fór Arthur frá Málmey. Það virðist hafa gefið á bátinn á leiðinni því Arthur getur þess að hafa blotnað. Með fast land undir fótum á ný fer hann til Lónkots og þaðan upp til Skálá til samkomuhalds:  "Þinghús troðfullt." Um nóttina gistir hann í Lónkoti hjá Jóni  Sveinssyni en daginn eftir er haldið á Hofsós.  Þar er haldin samkoma í þinghúsinu og var það líka troðfullt:
Góð athygli. Margar bækur seldust.
Eftir samkomuna kom hann við að Hofi þar sem hann sinnti hómópatastörfum.  Þriðja júlí fór hann til Lækjar og var með samverustund þar en aðeins fáir mættu. Daginn eftir fer hann til Eggjar í Hegranesi.  Þar sækir hann þannig að, að Þórður er ekki heima, heldur er staddur í Reykjavík, veikur.  Arthur gistir að Egg en fer um morguninn til Sauðárkróks, eftir að hafa haft bæn með fjölskyldunni og tekið ljósmyndir.  Í dagbókinni stendur að hann hafi dottið af hestbaki en ekkert er meira um það skráð svo hann virðist hafa sloppið við meiðsli. Arthur heldur samkomu á Sauðárkróki og 25 manns mæta. Líklega hefur honum þótt það fremur dræm aðsókn því hann getur þess að stór glímusýning hafi verið í bænum á sama tíma og samkoman var haldin.

Kona Arthurs ásamt tveimur dætrum kemur til Íslands
Næst er skrifað í dagbókina þann 29. júlí.  Þá er kona Arthurs komin til Íslands með tvær dætur þeirra hjóna, þá elstu Irene og yngstu Olive.  Fimmta ágúst fara þau ásamt fleiri trúuðum fram í Garðsárdal:  "Gott veður.  Mjög blessaður tími."  Þann 10. ágúst fara þau Arthur og Florence saman í heimsókn til Guðbjargar Sig.  Tveimur dögum síðar fóru þau uppá sjúkrahús þar sem þau hittu Svövu, Málfríði og Sigurð vini sína, sem að líkindum lágu þar sjúk.  Svo fellur dagbókin niður í nokkrar vikur.
 
Brottför
Florence og dætur hverfa aftur til Englands 9. október.  Þær fara með Brúarfossi.  Þann 30. október stendur í dagbók að Jóhanna litla hafi komið að sjónarhæð.  Líklega er hér um að ræða dóttur Jóhanns, sem seinna varð forstöðumaður safnaðarins.  Hún segist hafa komið þar oft og stundum verið send með mjólk því foreldrar hennar áttu kýr og munu hafa látið trúboðaheimilið njóta góðs af. Í nóvember skráir Arthur í dagbókina að fjórða dóttir þeirra Jóhanns og Sigríðar sé fædd.

Þann 31. október voru Þorsteinn Sigvaldason og Þórhildur Jóhannesdóttir skírð. Í nóvember byrjaði Arthur að undirbúa "Úrvalskafla úr Guðs orði"  til prentunar.  Þann 10. desember taka Hólmfríður Guðmundsdóttir og Eric Hogg skírn.

Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99807
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:25:46

Tenglar