Þóra Guðrún Pálsdóttir

32. Árið 1945. Ferðasaga 3. hluti

Daginn eftir, að við komum aftur til Bristol, fórum við á samkomu í stóru tjaldi, sem reist hafði verið á bersvæði, sem loftárásir Þjóðverja skildu eftir sig.  Það var við eina aðalgötu borgarinnar, og voru samkomurnar vel sóttar.  Skoskur trúboði stjórnaði þeim.  Þar hitti jeg marga vini, sem komið höfðu saman hvaðanæva úr nágrenninu.
   Næsta dag heimsótti okkur stúlka, vinkona einnar dóttur minnar, sem var píanókennari.  Jeg notaði tækifærið til að fá hana til að leika nokkur lög úr söngdrápunni íslensku "Friður á jörðu".  Leysti hún það prýðilega af hendi, og var unun að hlusta á þau.
   Margar ferðir fórum við til staða, sem jeg hefi áður lýst hjer í blaðinu.  Vil jeg ekki endurtaka þær lýsingar.  Við fórum, til dæmis, tvisvar til hins fagra gils við Cheddar, sem hrífur mann í hvert sinn, sem komið er þangað, og líka til dýragarðsins í Bristol, sem nú hefir framúrskarandi fagran blómagarð í viðbót.  Jeg tók einnig þátt í mörgum fundum og samkomum, bæði í Bristol og nágrenninu.  Hinn 27. september var afmælisdagur Georgs  Müllers, og söfnuðust þá saman fjölmargir trúaðir vinir í barnahæli nr.3, við Ashley  Down.  Þetta hús hefir altaf verið notað sem aðalskrifstofa hælanna, auk þess að margar ungar stúlkur eiga þar heima.  Thomas  Tilsley er nú forstjórinn.  Hann bað mig um að flytja ræðu við þetta tækifæri, og var góð áheyrn veitt.
    Í einu af söfnuðum þeim, sem Georg  Müller stofnaði í Bristhol, var haldin snemma í október skírnarsamkoma, þar sem sex ungir lærisveinar Drottins hlýðnuðust þessu skíra boði frelsara síns og ljetu skírast í nafni hans.  Var jeg beðinn að flytja ræðuna við þetta tækifæri.  Fjölment var mjög, og sjerstök blessun Drottins hvíldi yfir samkomunni, eins og jeg hefi alltaf orði var við, þegar þessi biblíulega athöfn er framkvæmd.
   Jeg hefi áður getið þess, að söfnuðurinn í Stokes Croft missti hið fallega safnaðarhús sitt í loftárásunum.  Húsið, sem hann notaði eftir þetta til bráðabyrgða, var mjög óþægilegt fyrir opinberar samkomur, enda ekki á góðum stað.  Hafði hann þá tekið það ráð að leigja stórt kvikmyndahús við eina aðalgötu bæjarins, til þess að halda í því vakningarsamkomur á sunnudagskvöldum yfir veturinn.  Var mjög vandað til þessara samkoma.  Þær voru vel auglýstar, góðir söngkraftar voru fengnir og valdir ræðumenn.  Hinn góðkunni skurðlæknir dr. Rendle Short, professor við Bristol háskóla, var ræðumaður hin fyrstu tvö sunnudagskvöld, og trúaðir menn í Bristol báðu stöðugt fyrir þessari viðleitni til að vinna sálir fyrir Krist. Þeir urðu ekki fyrir vonbrigðum.  Fólkið stóð í löngum röðum fyrir utan samkomuhúsið, áður en það var opnað, og öll sætin urðu fljótt fullskipuð.  Ræður dr. Shorts virtust hrífa áheyrendurna mjög.  Næstu tvö sunnudagskvöld hafði jeg þá gleði að flytja náðarboðskapinn þar.  Húsið var fullt eins og áður og blessun Drottins með.  Margt benti til þess, að þessi viðleitni safnaðarins væri alls ekki ávaxtalaus.  Samkomurnar hjeldu áfram allan veturinn.
   Jeg hafði pantað bifreið, en þurfti að bíða lengi eftir henni.  Við hjónin vildum samt ekki missa af því að fara nokkrar ferðir út í sveitirnar, áður en tíðin spiltist.  Einn dag fórum við með áætlunarbifreið út úr bænum og gengum svo með fram ánni Avon langa leið.  Við nutum hinnar einkennilegu haustfegurðar, sem sjest í Suður-Englandi.  Í háu runnunum til hliðar við götuna, þar sem við gengum, var mikið af  ágætum berjum, sem kölluð eru "blackberries" (svartber).
   Um miðjan október fór jeg suður í Devon-fylki til þess að tala á trúaðramóti, sem haldið var sjerstaklega fyrir unga trúaða.  Frank Lawes, sem var einn vetur hjá mjer á  Íslandi fyrir mörgum árum, en er nú heimatrúboði á Englandi, hafði lagt fast að mjer að koma og taka þátt í þessum samkomum.
   Þær voru haldnar í bæ, sem heitir Bowey Tracey.  Þar í grend eru mjög margir frjálsir söfnuðir og kom margt fólk saman.  Var mikil ánægja að því að hitta þennan gamla vin og sjá nokkuð af ávexti starfs hans á síðustu árum.
   Tveimur dögum seinna fór jeg upp til London, þangað átti jeg mörg erindi, en þeirra helst var að heimsækja söfnuðinn í Balham, sem var mitt fyrsta andlega heimili, eftir að jeg sneri mjer til Krists.  Samfjelagsböndin hafa aldrei slitnað í þessi 43 ár, sem liðin eru síðan.  Aðeins örfá af hinum gömlu andlitum sáust.  Meiri hlutinn af fólkinu var kominn heim til Drottins og yngri menn og konur komin í staðinn.  En þau höðu tekið að erfðum kærleikann til trúboðans, sem hafði farið frá þeim til að þjóna Drotni í öðru landi.  Eins og nærri má geta var fundurinn mjer mjög blessunarríkur.  En jeg saknaði margra, sem jeg minntist með kærleika.  Þaðan fór jeg til að dvelja nokkra daga hjá syni mínum, sem átti heima í norður-London.
   Í járnbrautarlestinni, er jeg var áleið til London, var fátt fólk í þetta sinn, og eini farþeginn í klefanum var maður á fertugsaldri, sem gaf sig fljótt á tal við mig.  Hann var listmálari og átti heima í Bristol. En hann hafði líka sýningarstofu í London og var á leið þangað.  Auk málaralistarinnar gaf hann sig mjög að heimspeki, og áttum við mjög skemtilegar viðræður þá 2 - 3 tíma, sem lestin var að flytja okkur á milli borganna.  Hann bauð mjer að heimsækja sýningarstofu sína í Bristol við tækifæri.  Seinna fór jeg þangað með elstu dóttur minni, og höfðum við ánægju af að sjá málverkin og ræða við hann um margt milli himins og jarðar.  
   Meðan jeg var í London, heimsótti jeg lyfjagerðarfjelagið, sem framleiðir lyf fyrir Bretlandskonung og fjölskyldu hans.  Býr það til eingöngu hómópata-meðul, því að konungsfjölskyldan hefur í fjölda mörg ár notað þau.  Jeg hefi á seinni árum fengið lyf frá þessu fjelagi.  Framkvæmdastjórinn sýndi mjer alt, sem að lyfjaframleiðslu þeirra laut, og þótti mjer margt mjög fróðlegt.
   Næsta ferð mín var til Cardiff í suður-Wales, þar sem jeg átti að tala á tveimur stöðum og sýna skuggamyndir um Ísland.  Á einni samkomu kom til mín kona, sem var íslensk en hafði gifst þarlendum manni.  Hún hafði sjeð fyirlesturinn auglýstan og kom til að heyra eitthvað um föðurlandið.
   Daginn, sem jeg kom aftur til Bristol, talaði jeg á unglingasamkomu í norður-Bristol.  Margir unglingar komu saman, þrátt fyrir óveður.  Það, sem vakti athygli mína mest á þessari samkomu var, að 11 ára stúlka ljek undir á slaghörpu, þegar sungið var, og leysti hlutverk sitt prýðilega af hendi. Maðurinn sem stjórnaði samkomunum, sagði mjer, að hún hefði lengi gert það.
   Snemma í nóvember á hverju ári heldur Stokes Croft söfnuðurinn sjerstaka samkomu til að styðja starf Drottins í heiðingjalöndunum.  Unnu allir, sem vildu taka þátt í þessu, vikum saman og framleiddu muni, sem mætti selja, og stóð útsalan yfir allan daginn.  En síðustu stríðsárin var mjög örðugt fyrir fólk að útvega efni til þess að baka úr eða vinna úr.  Var því það ráð tekið, að breyta "útsöludeginum" í "gjafadaginn".  Í staðinn fyrir að kaupa og selja muni, voru nokkrir trúboðar fengnir til þess að flytja stuttar ræður við og við, og trúaðir vinir komu og fóru eftir hentugleikum sínum allan daginn.  Menn lögðu gjafir sínar í gjafakassann eftir því, sem hverjum var blásið í brjóst.  Veitingar voru framreiddar ókeypis.  Kona mín stjórnaði þeim, og margar aðrar konur aðstoðuðu.  Sumir spáðu því, að þessi aðferð mundi ekki reynast vel, en reynslan sýndi, að hún var jafnvel betri en gamla aðferðin, því að inn komu nær því fimm hundruð sterlingspund, eða þrettán þúsund krónur, - meira minnir mig, en nokkurntíma áður.
   Bifreiðin kom snemma í október, 8 hestafla "Standard", fyrir fjóra menn.  Reyndist hún prýðilega á öllum ferðum mínum, þangað til jeg hvarf heim til Íslands.  Snemma í nóvember lögðum við hjónin af stað til heimsækja dætur okkar tvær, sem unnu í skólum úti í sveit á Suður-Englandi.  Eftir því sem við nálguðumst sýsluna, þar sem Mabel, næst-elsta dóttir okkar, var, virtist okkur sveitin æ fallegri.  Við ókum yfir fagra brú yfir Thames-ána og um skógiklædda dali og hæðir.  Skólinn var í yndislegu umhverfi.  Húsið hafði í margar aldir verið höfuðsetur hertoganna af Hampden.  Sumir af þeim hafa mjög komið við sögu Englands, og hafa margir frægir menn verið gestir þeirra.  Til dæmis sáum við höllina þar sem Elísabet drotning dvaldi, og er þar nú stórt málverk af henni.  Mörg rúmgóð úthýsi umkringja aðalbygginguna og margir grasvellir og skógargöng hjer og þar.  Núverandi hertogi, sem jeg held að sje einhleypur maður, vill ekki búa í þessum stóru höllum og hefir leigt þær þessum skóla, sem áður var í borg nálægt ströndinni, sem þótti hættulegt á stríðstímanum.  Við höfðum gaman af að skoða alla dýrðina og heimsækja skólastýruna í íbúð hennar.  Maðurinn hennar hafði verið læknir á herskipi og hafði heimsótt Ísland.  Íslensk stúlka frá Reykjavík hafði verið nemandi í skólanum, áður en hann fluttist á þennan stað.  Skólastýran mundi vel eftir henni og sendi henni kveðju.
   Næsta dag fjekk dóttir okkar leyfi um tíma til þess að fara með okkur til að finna Phyllis, þriðju dóttur okkar, sem er umsjónarkona í enn þá stærri skóla í næstu sýslu.  Þessi skóli er eingöngu fyrir börn skipstjóra og stýrimanna í breska kaupskipaflotanum.  Börnin koma þangað mjög ung, og eru umsjónarkonur hafðar til þess að koma þeim í móðurstað, auk kennara og kennslukvenna.  Dóttir okkar hafði margar litlar telpur í "fjölskyldu" sinni og hafði mjög mikla ánægju af þessu starfi.  Að líta eftir þeim í anda og kærleika Krists getur haft ómetanlega blessun í för með sjer.  Geysivíð landareign fylgdi þessum skóla, miklir skógar og stórt vatn.  Fagurt var þar þennan nóvemberdag.  Mikið hlýtur að vera yndislegt þar um hásumarið.  Mjer finst skipstjórar og stýrimenn megi vera vel ánægðir að vita börn sín á þessum stað, meðan þeir sigla um heimsins höf.
   Kvöldið, sem við fórum þaðan, átti jeg að halda samkomu í bæ þar nálægt, en næsta dag fórum við til Croydon til að finna elsta bróður minn.  Hann fór með mjer til að finna tvær gamlar frændkonur.  Var önnur móðursystir, en hin föðursystir okkar.  Eiga þær heima þar sunnan við London.
   Nú var bráðum komið að hverfa heim til Íslands. Það var ekki sársaukalaust að kveðja alla hina mörgu góðu vini í söfnuðinum í Bristol, sem höfðu sýnt mjer svo mikinn kærleika, og ástvini mína eftir svo stutta viðdvöl.  Hinn 23. nóvember lagði jeg af stað áleiðis til Leith, og var elsta dóttir mín með mjer í bifreiðinni.  Tíminn var naumur, svo við ókum til skiptis og fórum nokkuð hratt yfir, enda var lítil umferð og vegirnir ágætir.  Við gistum í góðu bindindisgistihúsi í bæ, sem heitir Whitchurch og hjeldum áfram næsta dag til Skotlands.  Jeg hafði lofað frjálsum  söfnuði í Portobello, sem liggur fyrir austan Edinborg, að halda samkomu með þeim þetta kvöld, og jeg kom að samkomuhúsinu rjett í tíma til að halda ræðuna.  Þá hjeldum við til tengdabróður míns í Edinborg.  Hjá honum dvöldum við næstu þrjá daga, en snemma dags hinn 28. nóvember var jeg kominn um borð í minn gamla vin "Brúarfoss", og við hjeldum út til hafs áleiðis til Íslands. Dóttir mín ók bifreiðinni heim til Bristol, því hún tók við henni til þess að nota í hjúkrunarstarfi sínu.
   Veðrið var gott í  fyrstu en  þegar við nálguðumst Ísland versnaði það, svo að  Brúarfoss varð að snúa undan veðrinu.  Við komumst ekki til Reykjavíkur fyr en að kvöldi hins fimta dags, sem var sunnudagur.
   Þaðan ætlaði jeg að fara norður með fyrstu flugferð, en flugveður gafst ekki fyr en eftir tíu daga.  Það var heldur ekki um neina skipsferð að ræða.  Loksins var hægt að fljúga, hinn 13. desember, og var þá fljótt komist til Akureyrar.
   Þessi ferð var skemtileg að mörgu leyti, eins og nærri má geta, en þó var skuggi hins nýafstaðna ófriðar altaf í baksýn.  Stórborgirnar voru illa útleiknar, og margt fólk bar í hjarta sínu sorglegar endurminningar um horfna vini, sem ófriðaræðið hafði svift lífinu.  Það er erfitt fyrir okkur hjer á Íslandi að gera okkur rjettar hugmyndir um hinar víðtæku afleiðingar stríðsins á öllum sviðum.  Við ættum samt að reyna að skilja hve þungar þær eru erlendis og þakka Skaparanum fyrir náð hans við okkur, sem ekki höfum verðskuldað neina sjerstaka hlífð, nema að það skyldi vera, að forfeður okkar hafa oft tekið út hörmungar, sem aðrar þjóðir hafa lítið þekt.  Hvað sem því líður, eigum við að hafa í hug orð frelsarans, er hann talaði, er lærisveinarnir sögðu honum frjettir af hörmungum annara:  "Ef þjer gerið ekki iðrun, munuð þjer allir fyrirfarast á líkan hátt." (Lúk.13. 5.)
                                       (Endir)
     


            


    
Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99750
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 14:43:33

Tenglar