Þóra Guðrún Pálsdóttir

25. Árin 1934 - 1935


1934   
    
Hinn  16. september 1934 skrifar Arthur Sæmundi bréf  frá Bristol:
Minn kæri Sæmundur!
Jeg vildi óska að jeg gæti sagt þjer hve mikils jeg met brjefið þitt frá 26. ágúst og fjórða september ... Það liggur á hjarta mínu að fara í langt ferðalag um Vestfirði, eins fljótt og unnt er, ef Drottinn vill.  Jeg held áfram að biðja fyrir því.  En ef þú verður ekki á Akureyri, þá veit  jeg ekki hvernig mjer opnist vegur.  Mig langar ekki til að standa í vegi fyrir þjónustu þinni fyrir Drottin, og algerlega raunsær á þínar gáfur og möguleika.  Á sama tíma, geri jeg mér grein fyrir að Drottinn hefir leitt okkur saman og sameinað hjörtu okkar í að þjóna honum, svo að jeg ann og treysti þjer eins og engum öðrum.  Og raunverulega veit jeg ekki hvað jeg gæti gert án þín á Akureyri, for the present.  Mjer finnst það vera of snemmt fyrir þig að skipuleggja nokkrar framtíðaráætlanir í Reykjavík, áður en við höfum haft tíma eða tækifæri til rækilegs undirbúnings.  Það mundu gefast góð tækifæri til þess næsta vetur, en jeg sje engan veg til þess, frá mínum bæjardyrum sjeð, þennan vetur.  Samt sem áður, ef þú finnur að Drottinn er ákveðið að leiða þig, þá gerðu svo vel og láttu mig vita, og jeg vil leita auglitis hans, til að leiðrétta minn misskilning. ..

1935
Í nóvember skrifar Arthur Sæmundi bréf en Arthur er þá staddur í Reykjavík.  Í bréfinu segir svo:        
Kæri Sæmundur!
Ennþá er rigning öðru hvoru, svo jeg er ekki farinn ennþá austur.  Álít það réttast að fara ekki í slíku veðri, vegna þess það verður svo illt að safna fólki saman enda er mjög mikið að gera hér á meðan.  En það lítur helst út fyrir, að stytti upp bráðum, svo að það getur verið, að ég fari á morgun ef Guð lofar (laugardag).  Þá verður líklega hægt að hafa samkomur á sunnudag á Eyrarbakka og Stokkseyri ...

Í Nóvember-Desember blaði Norðurljóssins 1935 er smágrein sem heitir "Afsökun":
Ritstjórinn biður lesendur afsökunar á drættinum sem orðið hefir á útkomu blaðsins.  Stafar það að nokkru leyti af því að ritstjórinn slasaðist meðan hann var á ferð skammt frá Reykjavík.  Meiddist hann á höfði og fékk mikinn heilahristing, en fyrir Guðs miklu náð, náði hann sér furðanlega fljótt, og er heilsa hans að öllu leyti jafngóð og áður.  Til varúðar varð hann þó að læknisráði, að liggja hálfan mánuð á Sjúkrahúsi og hafa kyrt um sig annan hálfan mánuð, þar sem hann dvaldi.  Hann notar tækifærið til að votta öllum þeim mörgu, sem auðsýndu honum hjálp og samúð á einn eða annan hátt, hjartans innilegustu þakkir (Filipp 4. 13-14).

Arthur hafði verið á ferð á mótorhjólinu er slysið varð.  Hér koma útdrættir úr bréfum sem hann skrifaði Sæmundi af sjúkrahúsinu. Fyrsta bréfið er dagsett þann 25. nóvember 1935.  Arthur byrjar á að nafngreina þau þrjú sem á þeim tíma eru heima á Sjónarhæð:
Jeg sendi ykkur fáeinar línur í flýti, meðan Ólafía bíður eftir þeim (heimsóknartíminn er úti).  Til að láta ykkur vita, að mjer líður ágætlega.  Jeg finn hvergi til, og vildi bara fara á fætur og halda áfram að aka.  Það voru teknar fimm myndir af höfði mínu í morgun.  Veit ekki um árangurinn ennþá.  Allar hjúkrunarkonurnar eru mjög góðar.  Meðal þeirra sem hafa litið inn eru Hulda  Svanlaugsdóttir og Sigríður  Guðmundsd.  Svo er fjöldi heimsækjenda, að minnsta kosti 10 í gær og nokkrir í dag.  Hefi líka mikið að lesa og útvarpið þegar jeg vil.  Má ekki skrifa meira en sendi þetta til þess að þið sjáið að mjer líður vel.  Þessi ferð er öll í Drottins hendi, eigi að síður, og mig langar til að halda henni áfram, þegar hann vill það.
Berið öllum mínum elskuðu trúarsystkinum í söfnuðinum innilega kveðju frá mér í Drottins nafni.  Allt verður þeim til góðs sem Guð elska.  
Ykkar elskandi bróðir í honum Arthur  Gook.

Þann 27. Nóv. skrifar hann aftur:
Kæru samverkasystkini mín!
Jeg vissi ekki fyrr en eftir að jeg skrifaði síðasta bréf að Goðafoss færi ekki fyrr en í kvöld norður.  Nú fáið þið 2 bréf í einu. (Hlé: nú kemur spáný hjúkrunarkona með kaffið, 8 sykurmola, eitt stykki köku og eitt stk. Sæmundarbrauð - sem hann bleytir undir krananum - jeg má það víst ekki...) Jæja, verði mjer að góðu, nú skal haldið áfram.  Hana nú! Meira kaffi... Það er gott kaffi hér, svo að jeg þáði meira.  Allur matur er góður hjer og fólkið allt ágætt.  Mjer líður reglulega vel.  Það er ekki gott að segja hvenær jeg má halda ferð minni áfram.  Prófessorinn sagði í gær, að jeg yrði að liggja í tvær vikur til að vera viss.  En læknirinn, sem kom í morgun sagði það væri vissara, til þess að ekkert kæmi fram seinna, meir, að jeg lægi í mánuð, ekki nauðsynlega á sjúkrahúsinu.  Ólafía Árnadóttir sagði að mjer væri velkomið að vera hjá þeim. ... Ef þá er hægt að ferðast um, langar mig til að halda  áfram að starfa.  Jeg býst ekki við að reyna að komast austur yfir heiðina á bifhjólinu enda sannfærðist jeg um það áður en slysið kom fyrir, og var þá á heimleiðinni ...

Hér er bréfkafli frá 5.desember 1935:
... Hjer er skrá yfir þá sem hafa heimsótt mig hjer:  Breski konsúllinn, síra Matthías frá Grímsey, síra Jón Finnsson (frá Djúpavogi), Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, Hjörtur Clausen, Skúli Bjarnason, Jón Kristófersson (Akranes), Guðmundur Jónsson frá Litlubrekku, Jóhanna Loftsdóttir. Frá Borg, Lárus predikari, Sigurður Hannesson frá Kvíabryggju, Ásmundur Eiríksson, Jórunn Sigurðadóttir, og Þórdís Traustadóttir, Kristín Ikkabóðsdóttir,Vigfús Jónsson, Einþór Jónsson, Sigurleifur Vagnsson og kona hans og svo auðvitað vinir okkar. (Þá koma 6 fangamörk sem hann gerir ráð fyrir að viðtakendur bréfs viti hverjir eru. Þ.P.), þá Magnea, Guðmunda, Kristín Sæm., Ólafía Árnadóttir og Brynjólfur, Jón og Beta.  Jeg fer héðan líklega á laugard.
Þinn einlægur G.

Þetta virðist síðasta bréfið sem Sæmundur fékk frá honum skrifað á Landsspítala. Það er æði margt sem hann þarf að láta þau heima erinda fyrir sig, svo sem að senda lyf og bækur út um land. Og með þessum sendingum þurfti Sæmundur að skrifa bréf.

Næst skrifar Arthur 11. desember 1935 og er þá staddur að Hallveigarstíg 2 í Reykjavík. Í bréfinu skrifar hann meðal annars:

"Esja".  Þegar hún kemur, viltu gera svo vel að finna loftskeytamanninn og taka hjá honum transformatorinn, sem Grímur hefir gert við.  Þá getur þú farið að hlaða háspennubatteríin sem fyrst.  Þú veist sjálfsagt, hvernig á að ganga frá öllu, er ekki svo? ... Jeg ætla að reyna að senda Bænavikuskrána með "Dettifossi", Það er ómögulegt nú með Íslandi?.  En viljið þið hafa allt til taks, svo að þið getið sent mjer svo sem 30 eintök af henni aftur MEÐ SAMA SKIPI!  Þá getum við notað sömu dagskrána og þið, og ef til vill fleiri hér nálægt.  Þetta gefur ykkur ekki mikinn tíma, en mjer þætti vænt um, ef þið viljið reyna, þar sem svoleiðis stendur á, og engin önnur ferð hingað í tíma ... Jeg hefi heyrt, að  "Dronning  Alexandrine" komi til Íslands snemma í janúar og fari þá til Norðurladnsins.  Ætli jeg komi ekki heim með henni?

Það má ef til vill segja að þetta sé óvanalegt í ævisögum, að taka svona smáleiftur uppúr sendibréfum eins og hér er gert uppúr bréfum Arthurs, en mér finnst þau bregða birtu yfir hið hversdagslega ónæði í lífi hans.  hvort sem hann var heima eða að heiman.  Hann hafði sannarlega nógu mörg járn í eldinum þótt útvarpstöðin hefði ekki bæst við.
Flettingar í dag: 65
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 249
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 76781
Samtals gestir: 15990
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 22:14:17

Tenglar