Þóra Guðrún Pálsdóttir

1913

Við lítum í dagbók Arthurs til að sjá hvað er að gerast á samkomum á þessum tíma:
5. 1. Sunnudagur.  Blessaður tími kl. 5. St. viðurkennir Krist.
10.1. Blessaður tími.  Mikil hjálp við að tala um brauð lífsins.
21.1. H. kom, viðurkennir að taka á móti Kristi.
23.2 H.Ó., kom til Krists
2.3. Ræðuefni.Guðspeki. Troðfullt hús.  Hjálp frá Drottni.
4.3. S. vitnar um Krist.
6. 3. Florence hafði samkomur fyrir konur, til að styrkja fátæka með því sem þær unnu.
9.3. Afmælisd. Erics 2. Blessaður tími við borð Drottins.  Með börnunum, góð athygli, blessun að því er virtist.
27.3. Barnaveisla  (árlegur viðburður).
22.4. Fer að Miklagarði.  23.4.til Hóla.
24.4. Samkoma að Hólum og Saurbæ.
26.4. Til Miklagarðs og til baka. Blessaður tími.
12.5.  Að Möðruvöllum innra.


Í júnímánuði ferðast Arthur um Norðurland, leggur af stað til Dalvíkur þann 4. júní og er í Svarfaðardal næstu tvo dagana. Um miðjan mánuðinn er hann svo á Hofsósi og í Skagafirði. Um þetta  leyti hefur Mr. Fiske verið hjá honum sem aðstoðarmaður því kona nokkur sem skrifar Arthur bréf 10. júlí biður hann fyrir kveðju til konu sinnar og Mr. Fiske. Einnig biður hún Drottinn að blessa sjómannahælið eins og hans eigið heimili.  Á hún þar sjálfsagt við Seilors rest sem áður hefir verið getið um.

Það er svo 5. nóvember 1913 að í dagbókinni stendur "little girl born". Það var Mabel. Hér tekur Irene við: 
Þegar móðir mín verður ófrísk í fjórða sinn þá, af því  þetta hafði gengið svo vel með okkur tvö, var álitið að það yrði í lagi að hún fæddi hér á landi.  Svo hún ákvað að vera hérna. Þá gerðist sama sagan og fyrst.  Hún verður svo ógurlega mikið veik og barnið var mikið veikt fyrst en hjarnaði við svo það varð allt í lagi með það.  Það var fætt í nóvember. En móðir mín hélt áfram að vera veik.  Steingrímur læknir sagði að þetta þýddi ekki, hún yrði að fara út því hún væri svo mikið veik. Ég man ekki fyrir víst hve margra vikna barnið var þegar  ákvörðun var tekin  um að móðir mín skyldi fara út til Englands að leita sér lækninga.
Hér verður að skjóta því inní að Mr. Fiske, aðstoðarmaður Arthurs um tíma, fer út með frúnni og börnunum ásamt Guðrúnu Oddsdóttur og hefir eflaust tekið að sér að vera til halds og trausts á ferðinni. Hann hélt dagbók á leiðinni sem hann sendi til Arthurs því hana er að finna í bréfasafni hans.  Dagbókin sú hefst  3júlí 1914. Á því sést að það hafa liðið átta mánuðir frá því barnið fæðist þar til  þau fara út.  Nú heldur Irene áfram ferðasögu sinni:
Þetta var rétt áður en heimstyrjöldin hófst og það voru litlar skipaferðir milli landanna.  Það var ekkert íslenskt skip sem við gátum tekið.  Við fengum ferð með togara.  Það var einhver skipsstjóri sem lánaði okkur koju sína.  Þetta man ég vel.  Móðir mín lá í rúminu með nýfædda barnið og söng alltaf aftur og aftur þetta sálmvers:

Syng them over again to me
Wonderful words of life!  
 Let me more of their beauty see
       Wonderful words of life.
            Words of life and beauty
                  Teach me faith and duty

Kór                                          
Beauteful  words
    Wonderful  world
        Wonderful  words of life.          

Ég verð alltaf svolítið sjóveik þegar ég heyri þennan sálm.  Það var kona með til að hjúkra henni, hún hét Guðrún  Oddsdóttir.  En við bróðir minn höfðum það náttúrlega gott.  Sjómennirnir voru svo góðir við okkur.  Þeir bjuggu til litla pappírsbáta og settu konfekt í og gáfu okkur þetta og léku við okkur. 

Ég man þegar  við komum til Bergen,  þessi togari var að fara þangað, þá gat hann ekki lagst að bryggjunni og við þurftum að fara niður í lítinn árabát.  Þegar móðir mín er að fara niður í bátinn þá missti hún hattinn sinn í sjóinn.  Ég sé þetta fyrir mér núna og einn af sjómönnunum fór að reyna að ná í hann en hún sagði: "Þetta gerir ekkert til". Þá  fórum við á eitthvert hótel og vorum sett út á svalir og fengum mjólk að drekka og sáum þá þessi dásamlegu fallegu fjöll í Bergen, þeim fallega bæ.  Frá Bergen fengum við svo annað skip til lítillar borgar sem hét Peterhead nálægt Aberdeen í skotlandi.  Þá gerðist það sama, það gat ekki lagst að bryggjunni og við þurftum að fara niður kaðalstiga.  Þegar móðir mín er að fara niður þá opnaðist veskið hennar og buddan datt í sjóinn.  Ég man svo vel eftir þessu að ég hugsaði: "Hvað eigum við nú að gera? Allir peningarnir farnir".

Næst man ég eftir að við stóðum á bryggjunni í þoku og út úr þokunni kemur maður og nefnir nafn móður minnar. Mágur móður minnar hafði beðið hann að taka á móti okkur, svo við fórum þá heim með honum.  Er við vorum komin heim til hans og ég horfði upp stigann, sá ég margar litlar tær.  Þar voru komin ein fjögur börn, öll í náttfötum og berfætt, til að sjá þessi íslensku börn. Við gistum þarna um nóttina en daginn eftir fórum við með lest til Edinborgar í Skotlandi til móðursystur minnar og mannsins hennar. Hann vann sem lögfræðingur þar. Við vorum svo þarna hjá móðursystur minni og manni hennar sem áttu þrjú börn. Svo vegna þrengsla var mér og frænku minni komið fyrir á öðru heimili. 

Ég man ekki svo mikið eftir þessu nema að móðir mín veiktist ennþá meira eftir að við komum út og var með óráði.  Hún lá alltaf heima hjá systur sinni.  Eftir nokkurn tíma sagði læknirinn: "Ég get ekki tekið ábyrgð á þessu". Föður mínum var þá sent skeyti eða símað um að koma  og hann kom eins fljótt og hann gat.  Hún lá einhverja mánuði, man ekki hvað við vorum lengi í Edinborg.  Mamma hafði svo miklar áhyggjur af að þetta væri alltof mikið álag á systur sína, að hafa okkur öll.  Í júlí 1914 var hún enn í rúminu og  tuttugasta og áttunda vonaði hún að hún gæti farið á fætur bráðum.  Þá sagði læknirinn "Spurðu mig aftur í ágúst".  Hún fór svo smátt og smátt að reyna að vera lengur á fótum en ég man ekki hvað þetta tók langan tíma.


Getum við sett okkur í annarra spor?

Það væri ekki að undra að þessi sára reynsla hinnar ungu trúboðakonu hefði sett skelk í sálina og varpað skugga fram á veg áframhaldandi dvalar á Íslandi.  Að missa fyrst frumburð sinn jafnframt því að heilsan skerðist þá varanlega og nú lendir hún í þessum hættulegu veikindum í annað sinn svo mánuðum skipti.  Henni fannst alltaf loftslagið hér reyna svo mikið á heilsu sína.  

Arthur segir á einum stað að kona sín hafi ekki getað dvalið mjög lengi á Íslandi.  Hafi hann því orðið að útvega fjölskyldu sinni heimili í Bretlandi og keypt þar hús með þeim skilmálum, að hann greiddi verð þess með mánaðarlegri leigu eða afborgunum.  Florence átti eftir að  fæða  manni sínum tvær dætur  eftir þetta en þær fæddust í Englandi.  Irene segir að hinn 12. júlí 1915 hafi Kate Bargeut komið til þess að passa þau systkinin og hún hafi unnið sem hjálparstúlka á heimilinu í mörg ár. Þegar Irene er spurð hvort þeim systkinum hafi ekki fundist leiðinlegt að pabbi þeirra væri svona langt í burtu þegar þau voru að alast upp, segir hún:
Við vöndumst þessu, ólumst upp við það.  Ég var að lesa nýlega í trúboðsblaði um trúboðsfjölskyldu.  Þau eru búin að vera úti á trúboðsakrinum nærri tuttugu ár og eiga fjögur börn en elsta barnið er fimmtán ára.  Það kemur fram í þessu blaði að þau ætla að koma heim.  Mér finnst þetta alveg stórfínt bæði að þau eru búin að vera svona lengi en líka að þau eru að koma heim um tíma, að minnsta kosti á meðan börnin eru að vaxa og ganga í skóla.  Það var ekki hugsað þannig þegar við vorum börn.  Það er líka sagt í ritningunni að maður skuli búa með konu sinni en þetta var ekki auðleyst þar sem hann vildi vera hér og Guð hafði kallað hann en henni fannst hún ekki geta það heilsu sinnar vegna.  Þau leystu það á þann hátt að hann skyldi vera hér og koma annað hvert ár og vera með fjölskyldu sinni nokkra mánuði.  Þau gerðu sjálfsagt það sem þeim fannst vera réttast eða best.  Ég vil ekki dæma þau en þetta var dálítið erfitt og ábyggilega ekki gott, sérstaklega fyrir sum börnin.  Barbara hún var yngst (fædd 1926) þekkti hann eiginlega ekki neitt.  Hún kom hingað aðeins í heimsókn sem barn en við kynntumst honum fyrstu ár okkar hér og svo komum við af og til hingað.  Barbara var aldrei neitt að ráði hér og hafði dálítið önnur sjónarmið.  
Móðir mín vann líka mikið fyrir starfið hér þótt hún væri úti í Englandi.  Hann sendi alltaf fréttabréf út til hennar og hún sendi það svo út um allt,  e.t.v. hjálpuðu börnin henni en hún hafði þessa ábyrgð.  Fólk var alltaf að spyrja hana hvort fréttabréfið væri ekki komið: "Nei ekki ennþá, en það kemur". Hún var dugleg og var oft að taka kvennasamkomur og tala á þeim í ýmsum hverfum í Bristol, stundum tvisvar í viku og stundum þrisvar og fór víðar að tala.  Hún fór í strætisvagni.  Hún var að gera sína vinnu þar eins og hann hér.

Ég ætla að segja nokkuð sem ég held að hafi ekki birst áður.  Föður mínum var einu sinni boðið að verða forstjóri fyrir stóru fyrirtæki.  Þar voru há laun í boði en hann neitaði.  Hann vildi heldur sinna köllun sinni.

Það var gaman að koma hingað.  Hann vildi alltaf fá okkur og mömmu í heimsókn.  En mamma mín var alltaf treg. Hún var heilsulítil, hjartveik og veik í nýrum.  Þegar Barbara fæddist 1926, þá var afsökun fyrir að fara ekki en 1929 kom hún með Barböru litlu.  Það var í eina skiptið sem hún kom sem barn og var í þrjá mánuði.  Ég fékk að fara með.  Hin voru öll að gera eitthvað. Ég held að Phyllis hafi verið í húsmæðraskóla í Edenborg.  Mabel var að læra að kenna.  Eric var á Íslandi.  Það var sjálfsagt þá sem við bróðir minn gengum austur í Mývatnssveit.  Það var ákaflega gaman.  Við gistum hjá Lizzie á Halldórsstöðum.  Hún var svo hrifin að sjá okkur og lánaði okkur hesta til að fara á næsta stað.  Þá gistum við hjá prestinum á Skútustöðum.  Ég gleymi aldrei hvað sólsetrið var fagurt þegar að við komum niður Vaðlaheiðina.  Þetta var ákaflega skemmtilegt.
Þegar Irene er spurð að því hver hafi tekið við umsjón heimilisins að  Sjónarhæð þegar Florence flutti til Englands ásamt börnunum segir hún:
Kristín Steinsdóttir, hún hefur komið svona 17 ára til móður minnar og lærði ýmislegt hjá henni, ensku og matreiðslu og hvernig ætti að gera hitt og þetta. Soffía systurdóttir hennar (kona Gríms útvarpsvirkja)  var þar líka.  Hún var bara ung þá og var þarna eitthvað til að hjálpa Kristínu. Kristín var fjarska dugleg að vera allan tíman þarna en hún hafði það að sömu leyti gott og hafði margt eins og hún vildi. 
Það má geta þess hér að samkvæmt dagbók Arthurs þann 30. ágúst 1914 tóku skírn þann dag Ísleifur, Aðalbjörn og Kristín Steinsdóttir og 8. október sama ár Jóhann Steinson bróðir hennar sem varð seinna forstöðumaður safnaðarins er Arthur flutti alfarinn frá Íslandi.
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99860
Samtals gestir: 20163
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 16:08:59

Tenglar