Þóra Guðrún Pálsdóttir

29. Árið 1936. Ferðasaga 3. hluti

5  Ka.

Nokkrum dögum seinna ók jeg til London aftur, til þess að taka þátt í "trúaðramóti", sem haldið var í Norwood í suðurhluta borgarinnar.  Jeg átti að tala um kvöldið, en jeg kom þangað meðan stóð á samkomunni, sem hafði byrjað kl. 3.  Var ungur maður um þrítugt að tala, er jeg kom inn.  Jeg hafði aldrei séð hann fyr, en varð undir eins hrifinn af krafti þeim, sem hvíldi yfir prjedikun hans, er hann lagði út af Guðs orði.  Þegar samkoman var á enda, kom hann til mín og sagðist lengi hafa haft löngun til að kynnast mjer.  Orsökin var sú, að hann þakkaði það bók minni: "Er biblían ábyggileg?", næst Guði, að hann hefði opnað augun til þess að sjá dásemdir biblíunnar.  Nú væri hann orðinn prjedikari orðsins.  Jeg frjetti, að söfnuðurinn á þessum stað hefði haft sérstaka blessun af starfi þessa manns, og hann átti að halda áfram nokku kvöld enn, þegar mótið væri um garð gengið.  
   Það gladdi mig mikið, að heyra enn um náð Drottins í sambandi við þetta litla rit.
   Sonur minn Eric, sem starfar í London, kom til þess að aka mjer í bifreið sinni til Hornchurch, sem er fyrir norðan London.  Jeg þekti ekki leiðina þvert yfir stórborgina frá suðri til norðurs og treysti mjer helst ekki til þess að aka hana sjálfur á laugardagskvöldi, þegar mikil ös er alstaðar.  Ég skildi bifreið mína eftir í Norwood, en Eric ók mjer að neðanjarðar göngunum við Blackwall, þar sem farið er beint undir Thames-ána, og svo til Hornchurch, þar sem jeg átti að prjedika næsta dag.
   Á mánudaginn fór jeg með járnbraut til Norwood til að ná í bifreiðina og ók í inndælu veðri til suðurstrandar Englands, að Portsmouth, þar sem ég hafði verið vel kunnugur fyrir mörgum árum.  Jeg hafði dvalið þar í nágrenni nokkra mánuði, meðan á stríðinu mikla stóð, ásamt fjölskyldu minni.
   Á leiðinni til Bristol fór jeg framhjá gömlu dómkirkju-borginni Salisbury. Og mjer kom til hugar, að jeg skyldi nota tækifærið til þess að skoða hina þjóðfrægu merkissteina við Stonehengi, skamt frá borginni.  Hvert skólabarn á Englandi veit gerla um þessa steina, en jeg hafði aldrei fyr fengið tækifæri til þess að  skoða þá.
   Stonehengi er á stóru flatlendi um 10 kílómetra fyrir norðan Salisbury.  Margir feiknastórir steinar standa uppréttir, lauslega í tveimur eða þremur hringum, og liggja aðrir steinar flatir ofan á þeim.  Engar fornminjar á Bretlandi hafa orsakað jafnmiklar deilur og þessir steinar.  Á 9. öld staðhæfði velskur sagnfræðingur, Nenníus, að Stonehengi hefði verið reist til minningar um 400 aðalsmenn, sem Hengist hafði myrt á þessum stað. (Hengist var leiðtogi saxneska hersins, sem rjeðist á Bretland).  Velsku skáldin sögðu, að eftirmaður Vortigerns, breska konungsins, sem veitti Söxum viðnám, hefði reist Stonehengi.  Þeir "prýddu" söguna með því að segja, að steinarnir hefðu komið þangað fyrir fjölkyngi Merlins galdramanns.  Tröll hefðu fyrst flutt steinana frá Afríku til Írlands, en þaðan hefði Merlin flutt þá með göldrum sínum!  Annar sagnfræðingur, staðhæfði að Stonehengi hefði verið Rómverskt skurðgoðahof.  Enn þá annar sagði, að það hefði verið reist af dönskum víkingum, eftir að Rómverjar yfirgáfu landið.  Aðrir segja, að það hafi verið helgistaður Drúidanna, presta forn-Breta og að þar hafi farið fram höggormatilbeiðsla.  Enn aðrir segja, að það hafi staðið í sambandi við athugun himintunglanna.  Einn merkur fornfræðingur álítur, að það stafi frá "Brons-öldinni" (1500-1000 árum fyrir Kristsburð).  Aðrir, að Saxar hafi reist steinana.  Hér er ekki um neitt samræmi að ræða.  Það er sjálfsagt réttast að segja, að enginn veit, hvaðan steinarnir eru komnir, eða hvernig þeir komu þangað, eða í hvaða tilgangi.  Leyndardómshjúpur hvílir yfir þeim, og felur uppruna þeirra í algerðu myrkri
   Á einum steini er staður, þar sem maður getur staðið, og þaðan sér hann, milli annarra steina, nokkurn veginn nákvæmlega staðinn, þar sem sólin sést fyrst, er hún kemur upp á lengsta degi sumarsins.  Vegna þessa álíta menn, að steinhvirfingin hafi verið reist í sambandi við sóldýrkun.
   Steinarnir eru mjög stórir, sumir 15 álnir á lengd og mjög þungir, og er ómögulegt að leysa þá gátu, hvaðan þeir hafa komið, því að þeir hafa augljóslega ekki fengist úr flatlendinu þar í nágrenni.  Enn fremur er ekki hægt að giska á, hvernig forn-íbúar landsins hafa getað flutt svo stóra og þunga steina langar leiðir.  Skyldu þeir hafa haft tæki, sem vér vitum ekki um nú á dögum?
   Þegar heim var komið þurfti elsta dóttir mín, sem er hjúkrunarkona, að komast sem fyrst til bæjar, sem heitir Bridgewater, í 30 mílna fjarlægð, þar sem hún átti að starfa um tíma.  Með því að aka hratt tókst mjer að flytja hana þangað og komast aftur til Bristol í tíma fyrir samkomu, sem jeg átti að halda um kvöldið.  Vegirnir voru ágætir og umferðin mjög lítil á þeim tíma dags.  
   Næsta ferð mín var til bæjar, sem heitir Stafford í Mið-Englandi.  Jeg átti að vera gestur gamals skólabróður, sem er yfirskattstjóri þar í borginni.  Sem drengir dvöldum við í sama bæjarhluta í London og gengum í sama skóla.  Þegar jeg síðar meir sneri mjer til Krists og gekk í frjálsan söfnuð, fann jeg að minn gamli vinur var kominn á undan mjer í sama söfnuðinn.  Frá þeim tíma hefir vinátta okkar haldist stöðug.  Breska stjórnin lætur ekki skattstjóra sína starfa nema aðeins fáein ár, þá eru þeir settir til starfa í annarri borg, þar sem þeir eiga enga kunningja.  Er þetta sjáanlega gert í þeim tilgangi, að þeim verði síður freysting, að sýna hlutdrægni í starfi sínu.  Á öllum þeim stöðum, sem vinur minn hefir verið, hefir hann tekið drjúgan þátt í starfi Drottins líka, og mjer hefir verið boðið á flesta þessara staða.  Eins og nærri má geta þótti okkur báðum skemtilegt að hittast aftur, og það var líka mikil ánægja, að tala fyrir hinum mikla söfnuði þar í borginni.
   Næsta dag byrjaði hið árlega trúaðramót í stórborginni Birmingham.  Þar er mikið og fjörugt trúarlíf, margir frjálsir söfnuðir og mörg líknarstörf.  Bæjarstjórinn lánar hið mikla og veglega "samkomuhús  bæjarins" (Town  Hall) ókeypis fyrir þessar samkomur.  Bygging þessi er með hinum stærstu og fullkomnustu, af þessu tagi, í öllu Bretlandi, og þótt víðar væri leitað, og myndi hafa kostað á annað hundrað sterlingspund fyrir daginn, ef leigð vari fyrir peninga.  En það er litið öðrum augum á trúmálastörf, jafnvel frjálsra safnaða, á Bretlandi, heldur en sumstaðar annarstaðar.
Salurinn stendur á besta stað í borginni og liggja aðalgötur við fjórar hliðar hans.  Mótið stóð yfir frá laugardegi til mánudagskvölds.  Jeg átti að flytja ræðu á síðdegissamkomunni á mánudaginn, og jeg tók einnig þátt í kvöldsamkomunni.  Nokkrar þúsundir höfðu komið saman.  Hátalarar voru víða í salnum, svo að allir gátu heyrt vel, án þess að ræðumaðurinn þyrfti að beita röddinni um of.  Jeg talaði í þessum sal fyrir nokkrum, árum, áður en hátalarnir voru til, og þá var erfitt að tala svo, að allir heyrðu vel.
   Á leiðinni heim frá Birmingham heimsótti ég vin í Cheltenham, sem hafði ferðast um Ísland og ritað ágæta ferðasögu.  Hann er fróður maður, grískukennari í guðfræðiskóla fyrir trúboða.  Hann hafði líka skrifað ævisögu Wilsons læknis, þess, sem fór til Suðurpólsins með Scott sjóliðsforingja  og dó með honum á leiðinni þaðan, árið 1912.  Við fórum til að skoða steinmynd af Dr. Wilson, sem reist var í Cheltenham, því hann var úr þeirri borg.  Við ræddum saman um handritið að ferðasögunni um Ísland.  Hún var ágætlega samin og með mikilli sanngirni.  Jeg vona, að hún komi á prent áður en langt líður.  Ferðin heim til Bristol gekk mjög vel, meðalhraðinn var um 50 kílóm. á klukkustund.
   Enn þá var trúaðramót í London, sem jeg átti að sækja og taka þátt í, en í þetta skifti var það í norðurhluta borgarinnar.  Á leiðinni til London nam jeg staðar í mjög skemtilegum skógi við Savernake.  Þannig stóð á, að jeg hafði ekki haft nægan tíma, áður en jeg lagði af stað, til þess að lesa Guðs orð og biðja.  Sálinni er jafn mikil þörf á næringu og líkamanum, og manni líður aldrei vel, ef hún er vanrækt.  Ásetti jeg mjer því, að standa við í þessum skógi, til þess að njóta stundar með Guði í kyrrð náttúrunnar.  Jeg varð ekki fyrir vonbrigðum..  Það var hrífandi nautn, að setja í þessu undurfagra umhverfi,  og teyga lífsins vatnið og komast í innilegt samfélag við skapara allrar þessarar fegurðar, sem jeg sá í kingum mig.  Savernake- skógur  er hinn stærsti skógur á Englandi, þar sem enn þá eru hirtir á sveimi.  Áður fyr var mikið gert að því, að veiða hirti í skógum landsins, en styrjöldin milli konungs og þings á 17. öld leiddi til þess, að girðingarnar voru víða eyðilagðar, hjörtunum stolið, og löndin tekin til nautaræktar.  Jeg  hefi oft farið þjóð veginn um Savernake-skóg, en aldrei orðið var við nokkurn hjört.  Jeg geri ráð fyrir því, að þeir hafist ekki við nálægt veginum, þar sem bifreiðar bruna fram og aftur, heldur í hinum enda skógarins.  Oft hefi jeg lofað sjálfum mjer, að jeg skyldi koma, þegar jeg hefði tíma, til að skoða skóginn allan, sem myndi taka heilan dag eða jafnvel meira, því að jeg þekki ekki fallegri stað.
   Við vorum tveir, sem áttum að flytja ræður á mótinu í London.  Hinn ræðumaðurinn var vel þektur Guðs þjónn, sem ferðast mikið um Bretland og flytur orðið alstaðar með miklum árangri.  Nokkuð af bókum mínum á ensku var á bóksöluborðinu þar, og þegar fólkið hafði sest við tedrykkju milli samkomanna, varð jeg meira en hissa, er þessi maður hélt kröftuga ræðu um bækur mínar og hvatti fólkið mikillega til að kaupa þær og útbreiða.  Hann mintist á mann, sem hann hafði hitt fyrir stuttu, sem hafði frelsast frá algerðri guðsafneitun og snúið sér til Krists, með því að lesa eina af þessum bókum.  Þetta hafði tilætluð áhrif, og margir viðstaddir fengu sér bækurnar.
   Meðan jeg var á þessum stað, komu bæði sonur minn og gamall félagi minn, Mr,  Hogg, til að hitta mig.
Eftir helgina ók jeg hálfan hring um London, að vestan, til þess að komast til Suðvestur-London, þangað sem jeg var boðinn að tala á samkomu á gömlum æskustöðvum mínum í Balham.  Á leiðinni himsótti jeg tvær gamlar frænkur, móðusystur mínar, sem jeg hafði ekki séð í mörg ár.  Jeg hafði myndavél með mér, svo að jeg tók mynd af húsinu, þar sem ég hafði dvalið, frá því jeg var tveggja eða þriggja ára þar til jeg var fullorðinn og allar bernskuminningar mínar eru tengdar við.  Það eru liðin 33 ár, síðan jeg fór þaðan, en mér sýndist alt vera að útliti eins og meðan jeg dvaldi þar.  En miklar breytingar voru víða í umhverfinu.
  Nú tók við átta-daga kafli, sem jeg hafði mjög mikla ánæju af.  Nýstofnaður söfnuður í úthverfum Cardiff, höfuðborgar Wales, hafði mikillega beðið mig um að koma til sín og starfa í hálfan mánuð.  Guð hafði ríkulega blessað starfið, og mjög margt fólk hafði snúið sér til Drottins og gengið í söfnuðinn.  Hann hafði reist sér stórt samkomuhús á góðum stað, og alt var "í uppgangi".  En þá vantaði fræðslu í orðinu.  Allir starfsmennirnir voru ungir og flestir í söfnuðinum líka.  Mjer var ómögulegt að gefa svo mikinn tíma, en jeg gat fengið aðra söfnuði til að sleppa mér eða breyta um tímann, til þess að jeg gæti starfað í Cardiff.
   Það var sannarlega góður jarðvegur og unun að prjedika meðal þessara áhugasömu manna.  Ég hefi sjaldan séð slíkan, lifandi starfandi söfnuð.  Jeg leitaðist við, að flytja þeim viðeigandi boðskap og vona, að Drottinn hafi blessað hann.  Þar eignaðist jeg marga nýja vini, sem jeg mun seint gleyma.  Seinasta kvöldið var jeg beðinn að sýna skuggamyndir frá Íslandi, og þá var stóri salurinn troðfullur.

                --------------
                     6. Ka.
Á leiðinni heim frá Cardiff ætlaði jeg að fara hina vanalegu hringferð kringum Severn-fjörð.  Jeg hafði að vísu heyrt, að til væri ferja, - gufubátur, sem flytti Bifreiðar yfir fjörðinn, - en jeg hafði aldrei séð auglýsingu um hana eða talað við nokkurn sem hafði farið þá leið.  Skildist mjer, að ferjan mundi vera lögð niður.  En mjer datt í  hug að spyrja um hana, er jeg nam staðar í sveitabæ einum til þess að kaupa bensín.  Þá var mjer sagt, að ferjan væri enn í gangi og að hún væri skamt frá; meira að segja, að báturinn væri í þann veginn að fara!  Afgreiðslumaðurinn vísaði mjer til vegar og með því að aka hratt, komst jeg á bryggjuna, rjett áður en ferjubáturinn lagði af stað, og ók jeg beint upp á hann.  Þrjár til fjórar bifreiðar voru þegar komnar um borð.  Með þessu móti kom jeg heim löngu á undan áætlun, því jeg stytti leið mína um 95 kílóm.  Kom mjer það vel, því jeg átti mjög annríkt um þær mundir.  Mjer er það enn þá ráðgáta, hvers vegna ferjan er ekki betur auglýst, svo almenningur viti um hana.
   Severn?fjöðurinn er mjög fallegur á þessum slóðum, og beggja megin við ferjustaðinn liggja vegirnir um mjög fagra sveit, þar sem er lítil umferð.
   Næsta dag þurfti jeg að fara aftur yfir um fjörðinn, en ekki eins langt og til Cardiff.  Jeg hafði lofað að halda fyrirlestur í Newport.  Sumarið 1905 hafði jeg starfað þar um slóðir, rjett  áður en jeg kom hingað til Íslands.  Sá, sem nú tók á móti mjer, var sonur trúboðans sem jeg hafði starfað með þetta sumar, fyrir 31 ári.  Þegar jeg hafði endað fyrirlesturinn, stóð upp gamall maður og kvaddi sér hljóðs.  Var það maður af norskum ættum, en hafði verið lengst af á Bretlandi.  Hann sagði frá því, að síðasta sinn er hann hlustaði á ræðumanninn, var eitt sunnudagskvöld árið 1907, í þessari sömu borg.  Þá hefði hann fengið son sinn, sem var kærulaus, ungur maður, til þess að sækja samkomuna, og var í innilegri bæn fyrir honum, að Drottinn frelsaði hann, meðan ég var að prjedika náðarboðskapinn.  Þá hafði Drottinn svarað bæn margra ára, og ungi maðurinn lagði niður mótstöðu sína og sneri sér af alhug til frelsarans.  Nú vildi hann vitna um það, Drottni til dýrðar, að hann hefði varðveitt unga manninn öll þessi ár á hinum þrönga vegi, og væri hann ennþá áhugasamur í þjónustu hans.  Gamli maðurinn var svo þakklátur fyrir þessa gæsku Drottins við sig og sína, að hann gat ekki orða bundist, og varð að láta þakklæti sitt í ljós.  Þetta varð mjer auðvitað mikil gleðifregn.  Jeg man eftir þessu sunnudagskvöldi.  Það voru líka aðrir, sem leituðu Krists á þeirri samkomu, og ég hefi frjett síðan af einni stúlku, sem þá var mjög ung, og var hún, er ég frétti af henni, áhugasöm starfskona í sunnudagaskóla einum þar í borginni.
   Jeg sleppi nú að segja frá nokkrum dögum.  Þó að margt kæmi fyrir, sem mjer var ánæjulegt og blessunarríkt, er ekkert sérstakt í frásögur færandi, eða að minnsta kosti frábrugðið öðru, sem þegar hefir verið sagt frá.
   Svo kom að því, að jeg átti að fara í síðasta sinn til London, til að taka þátt í miklum samkomum í næststærsta fundarsal höfuðborgarinnar.  En á leiðinni átti jeg að heimsækja tvo staði, Fareham og Brighton, á suðurströnd Englands.  Sama daginn og jeg lagði af stað, ætlaði konan mín að fara til London, svo að ég ók henni til Basingstoke, og þar steig hún í járnbrautarlest, sem fór til London.  Á leiðinni til Basingstoke, stóðum við hjónin við í Savernake-skógi, sem jeg hefi áður lýst, og borðuðum hádegisverð undir berum himni.  Þegar jeg fór frá Brighton, (sem ég hefi líka lýst í þessari ferðasögu), ók ég beint norður til London og fór svo hálfan hring um borgina til þess að komast til Highgate í Norður-London, þar sem við hjónin ætluðum að gista.  Á leiðinni vanst mjer tími til að heimsækja hina heimsfrægu blómagarða við Kew.  Að sumri til eru þeir yndisleg sjón að sjá, og hefi ég oft heyrt dásamlegar lýsingar á fegurð þeirra.  En nú á þessum tíma árs, var auðvitað lítið um útiblóm að ræða.  En inni í gróðurhúsunum voru kynstur af allskonar blómum víðsvegar að úr heimi.  Allir blómavinir, sem leggja leið sína um Lundúnaborg, skyldu gera sjer far um að skoða "Kew Gardens".  Þeim mundi finnast það margborga sig.  
 Jeg skildi bifreiðina eftir í Highgate og fór með neðanjarðarlest inn í miðja stórborgina og að samkomustaðnum.  Í borðsalnum í ?kjallaranum? voru nokkrar þúsundir að drekka te.  Mjer til undrunar sá jeg elsta bróður minn og margt skyldfólk mitt með honum.  Það hafði frétt, að jeg ætlaði að tala þetta kvöld, og því kom þessi stóri hópur.  Það hafði ekki áður sýnt mikinn áhuga fyrir þesskonar samkomum, og það gladdi mig að  sjá það þar.  Það hefir sjálfsagt verið vinum þessum nýstárleg sjón, að sjá nokkrar þúsundir manna samankomnar eingöngu í þeim tilgangi, að heyra um starf Drottins í öðrum löndum.  Þegar samkoman var úti, sátu vinur minn, Mr. Hogg, og sonur minn, Eric, um okkur, og fór hinn fyrnefndi með okkur öll í matsöluhús, svo að við gætum spjallað dálítið saman.  Mótið hélt áfram á sama stað næsta dag.  Salurinn var troðfullur bæði kvöldin.  Næsta dag átti jeg að sýna Íslandsmyndir og flytja fyrirlestur um Ísland í Upminster, sem er norðaustan við London.  Mr. Hogg ætlaði með okkur.  Vegurinn norðaustur er illræmdur á einum parti, vegna þess að þar hafa komið fyrir svo mörg bifreiðaslys.  Yfirvöldin hafa gert hvað, sem þau geta, til að draga úr þeim.  Meðal annars blasa við ökumanninum feikna stór spjöld við og við, og á þeim er sagt  frá því, með stóru letri, hve margir mistu lífið, árið sem leið, á þessum vegarspotta!  Maður skyldi ætla, að enginn þyrði  að brjóta umferðareglurnar eftir slíka áminningu!
   Næsti dagur var síðast sunnudagur minn í Englandi í þetta sinn.  Hér var jeg nokkuð langt fyrir norðan London, en um kvöldið átti ég að prjedika í Stokes  Croft salnum í Bristol.  Það var ómögulegt að haga þessu öðruvísi.  Það var ekki um annað að ræða, en að ferðast þvert yfir England, svo fljótt sem hægt væri, og reyna að komast þangað í tæka tíð.  Mr. Hogg ók bifreiðinni, til þess að jeg hvíldist sem mest.  Við stóðum við nokkrar mínútur í Norður-London, þar sem sonur minn átti heima, til þess að ég gæti kvatt hann, því ég vissi ekki betur þá en að við mundum ekki sjást aftur, í þessari ferð til Englands.  Í fyrstu ætlaði Mr  Hogg ekki lengra, en þegar til kom, vildi hann fylgja okkur dálítinn spöl enn.  Við vildum ekki fyrir nokkurn mun fara á mis við það, að koma til Drottins borðs með lærisveinum Krits einhvers staðar á leiðinni, þennan Drottins dag, eins og hann hefir boðið.  Jeg var lítt kunnur á þessum slóðum, en við töldum, að við mundum koma til borgarinar Reading um það leyti, er slík samkoma mundi byrja, kl. 11. f. h. Milli Reading og London eru góðar samgöngur, svo að Mr.  Hogg ætlaði að fara þaðan aftur heim til sín með járnbrautarlest.  Í Reading vorum við lengi að finna trúaðan hóp, sem kæmi saman til að minnast Drottins, en okkur tókst það samt í tæka tíð.  Jeg þekti engan þar, en kona nokkur öldruð talaði við mig á eftir, og kom það í ljós, að það var ekkja aðalsmanns nokkurs, sem jeg hafði oft heyrt getið, er jeg  var ungur.  Hafði hann  verið áhugasamur lærisveinn Drottins og starfað mikið fyrir Guðsríki.  Jeg man eftir því, að hann hafði hjálpað einum aldavini mínum, sem þá var að byrja að starfa fyrir Drottin, og hafði lánað honum "Biblíuvagn" til að ferðast í og halda samkomur í sveitunum.
   Enn þá vildi Mr. Hogg ekki yfirgefa okkur.  Hann hætti við það, að fara með járnbrautarlest til London, og kaus heldur að "stíga á bensín stillinn" og koma okkur til Bristol sem fyrst.  Við komum í góðum tíma fyrir samkomuna.  Nú var farið að stittast þangað til ég lagði af stað aftur til Íslands, og þar sem það var ómögulegt að finna alla vini okkar heima til  þess að kveðja þá, buðum við þeim öllum til okkar þetta sunnudagskvöld, eitthvað um 20 manns.  Við höfðum mjög ánægjulega stund.
   Næsta dag fórum við öll í bifreiðinni til að heimsækja elstu dóttur okkar, þar sem hún var niðurkomin sem hjúkrunarkona, í sveitahéraði , skamt frá Bristol.  Tveimur dögum seinna lögðum við hjónin af stað áleiðis til Hull, þar sem jeg ætlaði að stíga á  "Goðafoss".  Fyrsta kvöldið gistum við hjá vinum í Stafford, í Mið-Englandi.  Því næst ókum við til Leeds og gistum fyrir norðan borgina hjá gömlum vinum, sem áður höfðu dvalið nálægt okkur í Bristol.  Um kvöldið fórum við aftur inn í borgina, þar sem jeg átti að halda fyrirlestur um Ísland og sýna myndir.  Nú var stutt eftir til Hull, svo að við fórum ekki þangað fyr en síðdegis næsta dag.  Næsta morgun, mjög snemma, urðum við hissa að sjá son okkar koma þangað sem við gistum.  Hafði hann ekið alla nóttina í bifreið sinni til að kveðja mig einu sinni enn og flytja móður sína til vina okkar skamt frá London, þar sem hún ætlaði að dvelja nokkra daga, áður en hún sneri aftur til Bristol.
   Kl. 1 kom skilnaðarstundin, er "Goðafoss" fór hægt frá bryggjunni í Hull, út í fjörðinn og svo til hafs.
   Veðrið var ágætt, og við komum til Reykjavíkur eftir fjóra daga.  Eftir fimm daga dvöl þar, var haldið áfram norður til Akureyrar.
   Það má sannarlega segja, að náð og miskunn Drottins hafi fylgt mjer alla leið á þessari  löngu ferð.  Á 105 samkomum flutti jeg erindi Drottins, og jeg efast ekki um, að hann hafi heyrt bæn og látið blessun sína fylgja orðinu, enda sáust sumstaðar greinileg merki þess.  Hve mikil náð það er, að mega þjóna slíkum herra, sem er ávalt alstaðar og í öllum greinum trúr!  Jeg segi, eins og Davíð forðum:  "Hvað á jeg að gjalda Drottni fyrir allar velgerðir hans við mig?"
 
   

Flettingar í dag: 94
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 77339
Samtals gestir: 16074
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 19:22:12

Tenglar