Þóra Guðrún Pálsdóttir

Um Arthur Gook

Arthur Charles Gook var fæddur í London þann 11. júní árið 1883.  Hann var þriðji í röð fimm bræðra, sem allir urðu vel gefnir og gjörvilegir menn.  Faðir hans, Charles, var skólakennari og seinna fasteignasali.  Hann var enginn trúmaður, ól ekki son sinn upp við kristileg áhrif og lét ekki ferma hann.  Móðir hans, Mary, var dóttir bankastjóra London banka sem hélt mikið uppá þessa dóttur sína en hún var há og glæsileg  ásýndum og skilaði þeim arfi vel til sonar síns Arthurs, ásamt fleiri ættarþáttum. Mary giftist gegn vilja föður síns sem áleit ekki jafnræði með hjónaefnunum.  Annarsvegar var hin fallega og fyrirmannlega dóttir og hins vegar maður sprottinn úr jarðvegi bónda og verslunarmanns. Ekki skipti máli þótt hann yrði síðar skólastjóri í framhaldsskóla í Chelsea (Heimild: Að miklu leyti unnið upp úr Norðurljósinu).

 

Sjálfsagt kom þarna sterk stéttarvitund hjá honum til greina.  Annað eins og þvílíkt átti sér og stað í okkar landi áður fyrr, svo sem sögur okkar herma, að feður töldu sig eiga að hafa mikið um þau mál að segja.  En það vill svo til að dætur ráðríkra feðra erfa stundum eitthvað af stórlyndi feðra sinna svo þær eru ekki nógu lúpulegar innaní sér til að samþykkja hvað eina, sem þeir af sínu besta viti leggja til mála, samanber ljóðlínurnar „Blóðið sama er í okkur, dropar tveir en sami sjór“.

Við sem nú lifum erum heldur ekki fyllilega dómbær á svo löngu liðna atburði. Við þekkjum þá ekki nægilega vel niður í kjölinn. Hér kemur smá innskot frá æsku Arthurs, skrifað af honum sjálfum á blað fyrir löngu en nýlega fundið.  Hvort það hefur áður komið einhverjum fyrir augu öðrum en honum sjálfum er ekki vitað en frá þessum atburðum var hann búinn að segja Sæmundi samstarfsmanni sínum.

 

 


Arthur segir frá

Ég hitti aldrei móðurafa minn, þótt hann lifði þar til ég væri uppkominn. Hann átti heima um kílómeters leið frá heimili okkar. Hann var bankastjóri Londonbanka. Hann var svo reiður útaf því, að dóttir hans skyldi eiga þann mann sem hún giftist, sá maður var samt skólastjóri í framhaldsskóla í Chelsea.
Móðuramma mín var hinsvegar indæl kona. Hún og frændfólk mitt gerðu allt sem þau gátu til að bæta fyrir þennan hroka en það þurfti að vera í leyni. Við máttum aldrei fara í heimsókn nema þegar afi var í vinnunni. Hann vildi ekki sjá okkur. Samt áunnum við okkur námsstyrk allir þrír elstu bræðurnir til að fara í framhaldsskóla.  Okkur var jafnvel ekki leyft að vera við jarðarförina þegar elsku amma okkar, konan hans var jörðuð.
Föðurafi minn var allt öðruvísi og ég minnist hans og konu hans með ástúð og virðingu.  Ég held ég hafi verið eftirlætis sonarsonur hans.  Hann var bóka unnandi og stofnaði bókasafn sem hann kallaði Gooks Library fyrir utan sín venjulegu viðskipti.  Föðursystir hans var mér eins og móðir og ég eyddi mörgum hamingjustundum á heimili hennar.
Faðir minn var mjög strangur og ég man ekki eftir neinu nánu sambandi eða viðræðum við hann.  Ég get ekki sagt að ég hafi átt hamingjusama bernsku.  Ef til vill var það leiðin sem Guð notaði til þess að ég skyldi sækjast eftir andlegri gleði og líf mitt hefir verið hamingjusamt síðan ég fór að heiman. Faðir minn lítillækkaði allt sem var trúarlegt og biblíulegt og þegar hann vissi að ég var kominn undir trúarleg áhrif, fannst honum að hann ætti að leiðrétta mig.  Hann kom oft seint heim á kvöldin og drengirnir fimm vildu helst vera háttaðir þegar hann kom.  Stundum dró hann mig út úr rúminu og ég þurfti að hlusta (skjálfandi af kulda í náttfötum mínum) á ræður hans um ósannindi í biblíunni eins og um Jónas í hvalnum og örkina hans Nóa og flóðið mikla.  Á meðan borðaði hann kvöldmatinn sinn.  Það sem ég hafði lært um Drottin, varð til þess að ég varð eins og svartur sauður í fjölskyldunni.  Bræðurnir fengu að vita, að það borgaði sig ekki að styðja mig.  Einu sinni reyndi annar eldri bróðir minn það en aldrei aftur.  Seinna þegar unnusta mín talaði um Krist við yngri bróður minn sagði hann: Nei, ég gæti aldrei verið kristinn í þessu húsi, ég gæti aldrei þolað allt það sem Arthur þurfti að þola-aldrei.
Nokkrum árum seinna þegar ég var að fara til Íslands, fylgdi faðir minn mér á járnbrautarstöðina, mér til mikillar undrunar.  Á leiðinni gaf ég honum bók eftir Dr. Torrey um sannleiksgildi Biblíunnar.  Mér til mikillar gleði lofaði hann að lesa hana og með kjökrandi röddu sagðist hann sjá eftir því, hvað harður hann hefði verið við mig.  Ég sá hann aldrei aftur en ég trúi því að hann hafi tekið sinnaskiptum og tekið trú á hið óumbreytanlega Orð Guðs.  Nokkrum árum seinna sendi hann mér bækling sem hann hafði skrifað um undursamlegt orð Guðs.  Hann dó í Vancouver  og móðir mín flutti þá til Villie bróður míns í Windsor Ontarió, þar sem hún andaðist nokkrum árum seinna.

Arthur Charles sem var þriðji í röðinni, fann sig lítið eitt eins og vaxa upp í skugga eldri bræðra sinna tveggja þar til fjórði og því næst fimmti bróðirinn bættust við.  Þegar aldur fór að færast yfir Arthur veitti hann því athygli með blendnum tilfinningum að hann fór að líkjast afa sínum bankastjóranum meir og meir.  Hefir hann mátt vel við una að því er útlitinu viðvék því margir þeir er séð hafa Arthur telja hann glæsimenni mikið verið hafa  Kann hann að hafa erft fleira en útlitið frá afanum.  Staðfesta lundarinnar erfist frá einum ættlið til annars og getur orðið ýmist til tjóns eða happs eftir því hvernig úr spilast hverju sinni.  Þá staðfestu hafði Arthur til að bera að halda út, í trúboðsstarfi á Íslandi, lungann úr ævi sinni þrátt fyrir ýmsar hömlur ytri aðstæðna til að sinna því starfi.  Hvað var það sem batt hann svo föstum böndum við þetta litla land og á þeim tímum fárra tækifæra á okkar landi?  Svarið er að finna í Norðurljósinu júlí-ágúst 1935.  Þar skrifar Arthur grein um 30 ára starf sitt á Íslandi.   

 

 

 


Endurfæðing
Í greininni kemur fram að Arthur hafi snúið sér til Drottins á unga aldri.  Þegar hann var um 15 ára aldur bauð skólabróðir hans, Alec að nafni, honum í biblíunámsflokk sem haldinn var í einkahúsi á sunnudagskvöldum fyrir skólapilta í framhaldsskóla.  Irene, dóttir Arthurs, telur að það hafi verið maður að nafni Mr. Ahier sem leiddi biblíunámsflokkinn.  Fékk Arthur þar að heyra boðskap þann er Biblían flytur um frelsara vorn, Jesúm  Krist og þörf okkar mannanna á honum.  Arthur sá að sér væri þörf á honum eins og fólkinu sem kom með vandkvæði sín og þrár til hans meðan hann var sýnilegur hér á jörð. Þannig kom Arthur til Krists, bað hann að vera frelsara sinn og veita sér viðtöku.  Þessa bæn heyrði Drottinn Jesús af því að hann hefur sagt: "Þann sem til mín kemur mun ég alls ekki burt reka".  Ekki varð þó Arthur styrkur í trúnni þegar í stað.  Efasemdir sóttu að honum á þá lund, að hann var ekki viss um að hann væri orðinn Guðsbarn, svo að hann kom þannig oftar en einu sinni til Krists.  Efasemdir hurfu og fullvissan kom er hann tók að treysta betur fyrirheitum Drottins en tilfinningum sínum.

Afturhvarfinu fylgdi vandi. Einn  vandinn var félagslífið.  Hann var góður félagi í glöðum hópi og söng gamanvísur í þá daga.  Félagarnir ætluðu nú að "lækna" hann.  Ung og falleg frænka hans var fengin til að biðja hann að koma og syngja söngva sína.  Hann kvaðst skyldi koma ef hann mætti ráða hvaða söngva hann syngi.  Það var að sjálfsögðu velkomið.  Hann kom og söng sálm, vitnisburð um Drottin.  Hann var hvorki beðinn að syngja meira né boðið aftur. Þannig leystist sá vandi, er sumum öðrum hefur orðið ofraun, að losna úr gálausum léttúðarfélagskap.  Sá lyftir ei öðrum úr foraðsfeni er flatur liggur þar sjálfur. Hann verður að standa föstum fótum á traustum grundvelli.

Sá sem leiddi Biblíunámsflokkinn gerði enga tilraun til að hafa áhrif á hvaða kirkju drengirnir sæktu.  Eftir afturhvarfið ákvað Arthur að fara í kirkju. Hann byrjaði að fara sunnudag eftir sunnudag í Englandskirkju sem var nálægt heimili hans en hann fann ekki það sem fullnægði honum.  Þegar hann las Nýja testamentið sá hann að hinir fyrstu kristnu höfðu komið saman til tilbeiðslu.  Hann varð fyrir hálfgerðu áfalli þegar hann gerði  sér grein fyrir að þetta varð ekki fundið í kirkju Englands.  Hann byrjaði að horfa frekar í kringum sig og fara í kirkju Meþódista, Presbýtara og fleiri kirkjur í röð. 

Dag nokkurn rakst hann í leit sinni á litla byggingu sem kölluð var Balham Grove Hall og með eftirvæntingu gekk hann inn.  Honum var ljóst um leið að þetta var það sem hann hafði verið að leita að.  Hann hafði fundið sitt andlega heimili.  Hann var boðinn hlýlega velkominn og í framhaldinu boðin þátttaka í starfsemi unga fólksins sem var í því fólgin að hafa útisamkomur.  Þá um veturinn byrjaði hann að tala á samkomum og í námsflokkum en 19 ára gamall, þann 11. apríl 1902 tók hann niðurdýfingarskírn. Tveimur dögum seinna segir í dagbók hans:

 

 

Mr.  Jones talaði á kvöldguðsþjónustu. 
Í júlí það ár eyddi Arthur fríi sínu í smáritatrúboð og ferðaðist einn á reiðhjóli sínu 275 mílna vegalengd. Á leiðinni heim aftur heyrði hann ávarp eða ósk frá hinum sama Mr. Jones um þörf  trúboðs á  Íslandi.

Kall til  þjónustu
Það mun hafa verið 25. ágúst 1902 sem Arthur fékk ákveðna köllun frá Guði til að helga sig þjónustu fagnaðarboðskaparins á Íslandi.  Í tvo daga leitaði hann vilja Guðs og að því loknu skrifaði hann Mr. Jones og sagði honum frá. Í ákafa sínum vildi hann fara strax af stað en faðir hans sem var vantrúarmaður setti sig mikið á móti þessu og fyrirbauð honum stranglega að fara.  Um þetta leyti talaði Arthur á samkomu og varð verkfæri í að leiða sál til frelsis.  Það gaf honum óumræðilega gleði og virtist eins og innsigli á hans framtíðar þjónustu fyrir Drottin. Arthuri hafði gengið vel í skóla og áunnið sér skólastyrk til háskólanáms en faðir hans tók hann frá námi og lét hann fara að vinna, fyrst hjá sér en síðan hjá bókaútgáfu af betra tagi. 

Arthuri varð afar þungbær þessi ákvörðun föður síns en síðar skildi hann að Guð hafði stýrt þessu þannig með framtíðarstarf hans fyrir augum, því hann gerðist áhugasamur útgefandi kristilegra rita og bóka er hann var farinn að starfa hér á landi sem trúboði og hóf sjálfur að gefa út blað. Eins og áður hefir verið sagt voru faðir hans og bræður honum andsnúnir í fyrstu.  Oft var hann spurður hvort hann tryði þessu  eða hinu í Biblíunni.  Hann kvað já við slíkum spurningum því að Biblían var honum orð Guðs, en ekki manna.  Varla leikur vafi á því að uppúr þessum jarðvegi er bók hans sprottin: "Can a young man trust his Bible?" sem nefnd var á íslensku: "Er Biblían áreiðanleg?" Hana reit hann ungur.  Hún fór sigurför um heiminn, var þýdd á flestar tungur norðurálfu og jafnvel austræn mál.  Guð hefir notað þessa bók, látið hana styrkja hina veiktrúuðu og snúa mörgum vantrúuðum.


Biðtíminn
Kristnir vinir ráðlögðu honum að hlýða föður sínum og bíða einhver ár með burtförina.  Hann féllst á það og hann var hamingjusamur í safnaðarlífinu og honum voru fengin verk að vinna á bókmenntasviði og tækifæri til að tala og tveimur mánuðum seinna sneri önnur sál sér til Drottins. Það var í þessum söfnuði, Balham  Grove  Hall sem hann mætti og seinna giftist Florence Ethel Palmer. Hver var hún? Hér verður Irene dóttir hennar fyrir svörum:
 
Hún var fædd 1. desember 1883 og var því jafnaldra Arthurs.  Faðir hennar var bóndi fyrst og rak verslun líka. Afi var miklu eldri en amma og ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma séð hann en hann var lifandi þegar foreldrar mínir giftu sig.  Hann var tvígiftur og átti 5 börn, son og tvær dætur með fyrri konunni og aðrar tvær með þeirri seinni.  Ein af þeim var forstöðukona við eitt af Mullers-heimilunum. Georg Muller var stofnandi heimila fyrir munaðarleysingja og ákvað að biðja aldrei menn um peninga heldur Drottin (Arthur gaf ævisögu Mullers út hér á landi).
Fyrst heyrði ég að þau ættu heima í Ashbey-De-La-Zouch þorpi í Leicestershire í Mið-Englandi.  Þá munu þau hafa flutt til Lewies sem er aðalbær í Eastussex í Suður-Englandi.  Einhvern tíma fluttu þau til Balham í Suðvestur-London, því að þar áttu þau heima þegar foreldrar mínir hittust og seinna  giftu sig.  Elsti bróðir föður míns hét Herbert og hann gifti sig um líkt leyti og foreldrar mínir.  Hann átti alltaf heima í Suður-London og við höfðum alltaf samband við þau.  Eldri dóttir hans var tveimur mánuðum eldri en ég.  Hann var mikill skákmaður og hitti Friðrik  Ólafsson á skákmóti.  Foreldrar föður míns og bræður hans, nema Herbert sá elsti, fluttu öll seinna til Kanada og við höfðum ekkert samband við þau.  Ernest  var sá eini sem ég þekkti svolítið fyrir utan Herbert, því hann kom aftur til Englands á gamals aldri og andaðist þar.  Það var eftir að faðir minn fluttist til Englands og þeir hittust þar, sennilega á heimili bróður míns.

Þessi ár biðar og undirbúnings notaði Arthur til að þjálfa sig í að biðja og treysta Drottni til að opna veginn til Íslands ef það væri hans vilji. Hann varðveitti samband við trúboðann á Íslandi, Mr. Jones, og byrjaði að aga sjálfan sig á ýmsan hátt, til dæmis sleppti hann morgunverði um tveggja mánaða tíma.  Líf hans og óhagganlegt traust til Drottins bar þann ávöxt að hann hlaut bænasvör.

Leiðin opnast
Senn kom tími Drottins að taka hann frá útgáfustarfinu og senda hann til Íslands. Að liðnum þremur árum sagði faðir hans við hann að nú ætlaði hann ekki að standa í vegi fyrir honum lengur. Hann gaf honum leyfi og með fögnuð í hjarta yfirgaf Arthur starf sitt er hann hafði haft. Hann bjó sig undir Íslandsferðina eins og best hann kunni og fór meðal annars til Danmerkur og nam þar dönsku, því að hvergi þar sem hann þekkti til í Bretlandi gat hann fengið að nema íslensku.  Í dagbók sinni frá þeim tíma talar hann um að þar hafi hann fundið sig aleinan en þetta var í fyrsta sinn sem hann fór að heiman. Í Danmörku talaði hann við mismunandi fólk um Jesúm.
Drottni sé dýrð!
Hann virðist svo blessaður í Andanum að slíkar upphrópanir eru afar algengar í hans annars ákaflega fáorðu dagbókum.  Þann 11. mars 1905 má sjá að hann hefur fengið tíu krónur frá Berlitz skóla.  Allan þann dag er hann á bæn til Guðs og segir í dagbók:
Yndislegur tími með Drottni.  Hann hressir sál mína.

Einnig kynnti Arthur sér smáskammtalækningar og vann um hríð á sjúkrahúsi í London. Maður nokkur trúaður sem bjó þar í borginni gerði mikið í þágu þeirra sem fóru út til að boða fagnaðarerindið.  Hann leyfði trúboðum að búa ókeypis í húsi sínu meðan þeir voru að læra.  Arthur naut þess og einnig Florence sem síðar varð kona hans.  Hún gekk í þennan sama skóla smáskammtalækna í um tvö ár.  Irene segir að hann hafi mikið lært af konu sinni í þessum fræðum svo líklega hefir hún haft lengri skólagöngu í þeim efnum heldur en hann.

Að auki stundaði Arthur tannlæknaám á árunum 1902,1907 og 1909. Hann sótti um leyfi til tannlækninga hér á landi árið 1912 en landlæknir hafnaði umsókninni vegna ófullnægjandi skilríkja um námið (Heimild: Tannlæknatal).  Irene dóttir þeirra segir að Arthur og Florence hafi bæði stundað tannviðgerðir og gerði hún meðal annars við tennur í manni sínum.  Þau höfðu tannlæknastól í móttökustofunni í trúboðshúsinu og höfðu börnin gaman af að skemmta sér í honum.  Kom þessi kunnátta þeirra hjóna mjög að gagni er þau voru komin til Íslands.

Meðan Arthur átti enn heima á Englandi ferðaðist hann eitt sumar með trúboða sem starfaði í Wales og notaði hvert tækifæri til að þjálfa sig í trúartrausti til Drottins, að hann sæi fyrir öllum þörfum hans og  starfsins. Arthur var ekki sendur né kostaður af nokkrum manni, stofnun eða félagsskap sem tekið hefði að sér að sér að bera ábyrgð á starfi hans.  Auðvitað hefir trúað fólk styrkt hann í gegnum árin þótt það hafi ekki skuldbundið sig til þess. Á þessum tíma var mikill áhugi á trúboði bæði á Englandi og öðrum fleiri löndum, þar sem miklar vakningar höfðu gengið yfir.


 
 


 

Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99750
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 14:43:33

Tenglar