Þóra Guðrún Pálsdóttir

1936
Næst má finna bréf frá Arthuri til Sæmundar, dagsett í Reykjavík 24. júní 1936.  Þá er Arthur á leið til Englands.  Hann hefur haldið eina samkomu í Kaupþingssalnum í Reykjavík og skírt eina konu sem átti heima fjarri Reykjavík og bjóst ekki við að verða í Reykjavík um haustið, en þá höfðu tvær systur beðið um skírn.  

Þann fjórða júlí er Arthur kominn til Englands og skrifar Sæmundi frá Bristol:
Drottinn gaf mjer indæla ferð, þá bestu, sem jeg hefi fengið.  Var ekki vitund sjóveikur og borðaði allar máltíðir.  Kom til Leith snemma á laugardagsmorgni 27. júní.  Var hjá tengdafólki mínu þann dag og sunnudag líka, en fór með dagslestinni á mánudag til Bristol.  Í Edinborg frjetti jeg lát móður minnar í Canada, og um leið lát Friðrikku konu elsta bróður míns, í Broydon, eftir uppskurð ...
Rjett áður en jeg kom til Bristol var afskapleg rigning þar, hin versta síðan 1913, svo að gatan var eins og á.  Vatnið fór í mörg hús og margar búðir og gerði miklar skemdir.  Það rigndi í gegnum þakið hjá okkur, því að regnið fjell með svo miklum ofsa.
Sæmundur fær svo alltaf af og til bréf frá Arthuri á tímabilinu frá fjórða júlí til 16. október 1936. Í einu þeirra, dagsettu 29. ágúst segir hann:
Nú er jeg búinn að kaupa bíl, svo jeg býst ekki við að eiga hjól sjálfur, en jeg vildi hjálpa þjer til þess að eiga hjól, ef jeg mætti einstöku sinnum koma á bak?  

Hann gerir ráð fyrir að koma til Íslands með Goðafossi snemma í nóvember:  "Þá væri best að hafa mótið fjórðu viku í nóvember, eða hvað segir þú um þetta?" skrifar hann.

1937
Eftir þetta kemur langt hlé. Líklegast eru þau bréf alveg glötuð. Það eru þó til allmörg bréf sem varðveist hafa frá árinu 1937 en eftir það aðeins sárafá.  Í einu bréfi, dagsettu í Reykjavík 12. júlí, stendur:  
Jeg þakka þjer fyrir brjefin sem þú sendir áfram.  Jeg skal reyna að segja þjer dálítið frá ferðinni seinna í brjefinu, en fyrst verð jeg að ganga frá öllu, sem er áríðandi.
Arthur biður Sæmund að senda sér skrá yfir kaupendurnar, sem hann muni líklega hitta á austurferðinni, (í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og V. Skaftafellssýslu).

Þann 17. júlí skrifar hann Sæmundi og segir þar:
Jeg hefi fengið pappírsleyfi og hefi pantað þessi 25 rís fyrir POB.  Gerðu svo vel að láta Sigurð Oddsson vita það ...  Jón  Betúelsson er töluvert betri og er farinn að vinna nokkuð.  Hann hefur komið á samkomur.  Beta liggur enn og jeg hefi ekki getað talað rækilega við hana.  Hún hefur víst meðul, held jeg. Þóreyju (Sumarliðadóttur) líður vel og býst við að fara heim á miðvikudaginn ... Í kvöld, ef Drottinn leyfir, verða þessi skírð kristilegri skírn: Jónas og Ingibjörg, Agnes, Sigríður Þórarinsd. og Ólafía Árnadóttir.  Eggert Jóhannsson er enn í Grundarfirði, svo hann gat ekki verið með, og Þuríður er veik.
Fer austur eftir Guðs vilja, fimmtudaginn í næstu viku, 22. júlí ... Býst við að verða í Hraungerði 1. eða 2. ágúst, og þar á eftir nokkra daga.
Hann skrifar Sæmundi næst frá Vík í Mýrdal 28. júlí:
Kæri  Sæmundur minn!
Jeg hefi ekki farið lengra en að Vík, vegna ár sem er fyrir austan, sem hefir breytt farvegi sínum og ekki víst að jeg geti ratað yfir hana einn í bílnum, og ekki heldur þó að mjer tækist það, að áin verði fær í bakaleiðinni.  Það verður líklega mjög erfitt líka að safna fólki saman á samkomu, með svo litlum fyrirvara.  Jeg hefi þessvegna tekið það ráð, að fara ekki austar en þetta í þetta sinn.  Jeg hefi lítið herbergi hjer í gistihúsinu, og hefi verið að vinna að ýmsu sem liggur á, svo ætla jeg að skrifa eitthvað í Norðurljósið í dag ef Guð lofar.  Jeg hefi sent dreng kringum bæinn hjer með bækurnar og þær hafa selst heldur vel.  Svo hefi jeg fengið nokkra áskrifendur að blaðinu.  Annars er fólkið fjarska mikið upptekið af slættinum, jafnvel hjer, því að þetta er eins og sveitaþorp, tún allstaðar og heyvinna.

Jeg ætla að skrifa á sjerstakt blað dálítið brot af ferðasögunni, svo að jeg geri það ekki hjer.  En aðalerindið með þessu brjefi er það, að biðja þig að senda mjer hið fyrsta afrit af kvæði mínu, sem jeg orti 1904, áður en jeg lagði af stað í þjónustu  Drottins.  Það er meðal þeirra kvæða, sem þú gerðir afrit af handa Phyllis minni. Jeg þarf að senda þetta einhverjum af sjerstökum ástæðum. 

Jeg býst við að halda samkomu hjer í kvöld og fara hjeðan á morgun til að halda samkomu á Skeiðflöt, sem er stutt hjeðan.  Það er búið að auglýsa samkomuna þar.  Á föstudaginn er samkoma auglýst á Ásólfsskála sem er skammt frá Holti undir Eyjafjöllum.  Jeg á að fara fyrst til Holts og taka eitthvað af fólki þaðan.  En jeg geri ráð fyrir að gista á Holti hjá síra Jóni  Guðjónssyndi, sem jeg hitti á austurleið.  Þá á laugardag á jeg að fara til Þykkvabæjar, sem er fyrir sunnan Ægisíðu ... Jeg talaði í síma við Síra Svein  Ögmunddsson þar, og hann ætlaði að auglýsa samkomuna. Þar er stúlkan á Skarði sem hefir svo lengi keypt Norðurljósið, Magnea heitir hún.  Jeg býst við að hitta hana þar.  Svo var ráð fyrir gert, að jeg færi þá , eftir samkomuna, sem á að vera kl. 9, beint til Hraungerðis.  En það er farið að dimma svo mikið um kl. 10, að jeg veit ekki hvort jeg treysti mjer til að aka í myrkri.  Þá mun jeg annaðhvort gista í Þykkvabæ, eða bíða þar til birtir betur, um kl. 2.  En kl 1. e. h. á jeg að vera kominn í Hraungerði til að halda samkomu.  Önnur samkoma er kl. 3 í Laugardælum en kl. 5 í Villingaholti.  Síra Sigurður  Pálsson ætlar að vera með mjer á þessum stöðum.  Þá er kominn 2. ágúst næsta dag og þá eigum við að byrja verkið með þýðinguna í Hraungerði.  Vona að það verði búið eftir viku.  Þá geri jeg ráð fyrir að fara til Reykjavíkur, ef til vill á laugardag. 7.  En 9. vildi jeg leggja af stað til Grundarfjarðar, ef Guð lofar.  Hinn 12. vildi jeg vera kominn aftur til Borgarness. Þá vonast jeg eftir að vera kominn heim til Akureyrar hinn 13. (föstudag).


 Læt þetta nægja, rétt til að sýna að Arthur var ekki að víla fyrir sér ferðalögin og notaði líka tímann til skrifta, á áningastöðum á leið sinni.

Þann 6. ágúst 1937 skrifar hann Sæmundi frá Hraungerði:
Það hefir verið látlaus rigning, eða sama sem, nú í marga daga, en nú er loksins komið sólskin.  Snemma í morgun enduðum við starfið við að endurskoða þýðingu mína af Jóhannesar guðspjalli, og hefir gengið ágætlega ... Sjerstaklega vorum við allir glaðir yfir 8. kapítulanum.  Drottinnn virtist gefa okkur sjerstaka hjálp við hann.

Nú fer jeg bráðum til Ölfusárbrúar með Síra Guðm. Og S.Á.G. sem fara hjeðan heim til sín.  Á morgun vonast jeg eftir að halda samkomu að Reykjahæli. Segðu Elínborgu það. Þrátt fyrir rigninguna gaf Drottinn mjer góða ferð hingað að austan.  En þrisvar stóð bíllinn fastur í vötnum, og einu sinni þurfti jeg að vaða eitthvað. En alltaf sendi Drottinn mjer einhverja hjálp, svo að allt gekk vel á endanum. Bíllinn gengur ágætlega þrátt fyrir alla hrakninga og bleytuna ... Hlakka til að koma heim og vera við skrifstofustörf mín aftur, og fara aftur, ef Guð vill, eitthvað austur seinna meir.


          Hann virðist hafa komið því í framkvæmd um haustið að komast eitthvað austur aftur, því hann skrifar Sæmundi 27. okt, frá Reykjavík:
Hjer hefir verið mjög leiðinlegt veður undanfarið, ákaflega hvasst og kalt. En í gær var það eitthvað skárra, og nú er gott veður í dag. Jeg hefi talað við Síra Sigurð í Hraungerði, og fer þangað, ef Guð lofar, á sunnudag, og sýni þar, í skólahúsinu, skuggamyndir það kvöld en á mánudagskvöld sýni jeg myndir í samkomuhúsinu við Ölfusárbrú. Vonast eftir að geta auglýst fleiri samkomur þar austur frá, eftir því sem Drottinn hjálpar mjer að koma því í kring. Bifreiðin verður líklega til á morgun. Kassinn utan um gírkassann var brotinn og þurfti að setja nýjan inn. Einnig var nýi rafgeymirinn brotinn.  Viðgerðin kemur til með að kosta nokkuð mikið, held jeg.

Arthur segir ekkert um það þarna, af hverju bíllinn hlaut þessar skrokkskjóður. Hins vegar talar hann annars staðar um hræðilega vegi á Íslandi, þannig að hugsanlega hefur bíllinn ekki þolað vegina hér. 

Þann 29. okt skrifar hann Sæmundi aftur til að biðja hann að reka erindi fyrir sig.  Segist hann ekki hafa komist austur þann dag  sem til var ætlast, því Síra Sigurður hafi ekki getað fengið skólahúsið á þeim degi. Hann muni fara, ef Guð lofar, daginn eftir og hafi þá skuggamyndasýningu í Tryggvaskála. Næsta dag ætlar hann sér að vera á Stórólfshvoli og segir að Sigríður á Dufþekju sé búin að auglýsa samkomuna. Enn sé allt óákveðið með miðvikudaginn en á fimtudag fari hann líklega á Eyrarbakka. Síra Sigurður sje að sjá um það.  Á föstudag mun hann svo vera á Minniborg og ætlar sem Síra Guðmundur Einarsson að sjá um það.  Eftir það geti verið að Arthur komi til Reykjavíkur.

Hann skrifar Sæmundi næst bréf dagsett þann 7. nóvember, eða eftir rúma viku frá síðasta bréfi og segir í því:
Nú er jeg fyrir Drottins náð kominn úr ferðinni austur. Hann hefir blessað ferðina mikið, eins og margir hafa eflaust beðið.  Veðrið hefir þó ekki verið sem æskilegast, þó hefir ekki verið frost eða snjór. Aðeins rigningar stundum og stormur, en ekki afarmikill. Á samkomunni í Tryggvaskála við Ölvusárbrú voru 60 viðstaddir. Orðið virtist hafa áhrif á fólkið. Við Stórólfshvol voru svo margir, að til vandræða horfði. Sigríður hafði auglýst vel og rækilega. Það munu hafa verið 85 viðstaddir. Og þó var mjög dimt og heldur votviðrasamt ... Er jeg kom til Hraungerðis, var Sigurður  Sveinbjörnsson þar fyrir, rjett nýkominn. Svo við vorum þar saman og töluðumst töluvert við, í bróðerni þó. Jeg sýndi skuggamyndir í baðstofunni.

Næsta kvöld hjelt jeg skuggamyndasýningu á Eyrarbakka. Þar var margt fólk, um 76, en áheyrn var ekki eins góð og annarstaðar, erfitt að tala þar. Þó gaf jeg vitnisburð Drottins og við vonum, að hann beri ávöxt. Kl. 12.30 næsta dag (eftir mat með fólkinu), sýndi jeg myndir í Reykjahæli, og virtist fólkið vera þakklátt fyrir. Þá flýtti jeg mjer til Minniborgar, þar skyldi jeg eftir áhöldin fyrir kvöldið og hjelt áfram til Mosfells, og náði þangað fyrir myrkur. Ók þá í þreifandi myrkri með fólki þaðan, til Minniborgar aftur. Var þá rigning og erfitt að ganga í myrkrinu vegna forar. Komu því ekki nema um 23 manns. Þá kom jeg hingað aftur til bæjarins í gær rjett fyrir myrkur. Kom á pósthúsið, en þar var ekkert brjef að norðan, aðeins eitt frá Englandi ... Drottinn varðveitti mig frá öllum hættum á leiðinni og mjer leið vel. Tvisvar sprakk slanga, einu sinni á heiðinni á leiðinni austur, og aftur milli Reykjahælis og Minniborgar. Var gert við í bæði skipti, af bílaviðgerðarmanni við Ölfusárbrú, og bílstjóra á Minniborg. Jeg sendi þjer hjer með nokkra nýja áskrifendur að blaðinu.  Geri ráð fyrir að fara suður með sjó bráðlega, ef til vill á morgun. Ef jeg get lokið mjer af og selt bílinn, vonast jeg eftir að koma heim með Goðafossi ...

Svo skrifar hann mánudaginn 8. nóvember 1937:
Jeg býst við að leggja af stað á morgun, ef Guð vill, og vonast eftir að hafa samkomur á þessum stöðum: Þriðjudag: Sandgerði. Miðvikudag: Keflavík. Fimmtudag: Grindavík. Föstudag: Vatnsleysuströnd. Geri ráð fyrir, að koma þá snemma til Reykjavíkur á Laugardagsmorgun, og fara til Akraness kl. 3 með bátnum. Samkoma þá um kvöldið. En á sunnud. barnasamkoma í kirkjunni og almenn samkoma um kvöldið.  Snemma aftur til Reykjavíkur á mánudag og með "Goðafossi" til Akureyrar.  En ef svo færi, að jeg kæmist ekki með "Goðafossi" þá gæti það komið til mála, að jeg færi aftur til Borgarfjarðar og ferðaðist þar um í vikutíma eða svo, ef veðrið heldur áfram að vera gott ...

Svo koma að lokum bókapantanir sem hann biður Sæmund að senda til Síra Gunnars  Jóhannessonar Skarði.

Þá er líklega búið að taka sýnishorn af ferðum Arthurs um flesta landsfjórðunga og mun þessi þáttur vera einna skilmerkilegastur, þar sem hann byggist á bréfunum en ekki hinni skammstafaríku dagbók.  
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 77350
Samtals gestir: 16077
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 22:43:43

Tenglar