Þóra Guðrún Pálsdóttir

35. Árin 1949-1950

Breytt staða

Arthur var orðinn ekkjumaður 65 ára gamall.  Þau voru jafngömul Florence og hann, fædd 1883. Nú var lokið langri fjarbúð þeirra hjóna sem upphaflega virðist hafa komið til vegna erfiðleika við að fá enskan kennara fyrir börnin.  Svo hafi þetta þróast svona áfram, ef það var ekki þegar inn í myndinni með tilliti til heilsufars Florence, að þau yrðu samvistum nokkra mánuði annaðhvort ár. Henni fannst hún svo illa þola loftslagið hér á landi.

Irene dóttir þeirra hefur sagt að hún hafi saknað þess mikið að hafa ekki  fengið að ganga í íslenskan skóla og komast almennilega inn í tungumálið. Eftir að móðir hennar dó flutti hún til Íslands og til Akureyrar með það í huga að verða föður sínum til aðstoðar.  Seinna giftist hún Guðvini Gunnlaugssyni kennara, ekkjumanni í söfnuðinum, sem átti þrjú stálpuð börn. Allt fór það farsællega.  Hún var sú eina af systrunum sem giftist og 11. ágúst 2009 var hennar hundraðasti afmælisdagur.

Þegar foreldrar hennar voru að fást við að leysa þessi menntunarmál barna sinna í upphafi þá fannst Arthuri hann ekki geta gefið upp á bátinn köllun sína, sem hann trúði að Drottinn hefði kallað hann til, að útbreiða hans ríki hér á landi. Flestum kann að finnast þetta stór fórn til að færa með tilliti til fjölskyldunnar. Kristur hefur tekið dæmi um miklar fórnir í Matt.19.29. Þar segir:

Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfallt aftur og öðlast eilíft líf.

Frú Florence Gook skrifaði söfnuðinum eftirfarandi bréf  þremur árum eftir að hún flutti út með börnin:

            Edenborg, 17. október 1922.
Til safnaðarins á Sjónarhæð.
            Akureyri.
Kæru trúarsystkini mín í Drottni Jesú.
Ég hefði helst kosið að senda hverjum einum af ykkur dálitla vinargjöf, til að sýna ykkur að ég hefi ekki gleymt ykkur, en það hefir ekki verið mér mögulegt.
          Ég sendi ykkur það, sem mér er mögulegt að gefa, með gleði og án möglunar, -minn ástríka eiginmann.
          Guð mun nota hann til að flytja ykkur andlega blessun sem mun hjálpa ykkur í dimmviðri lífsins. Guð mun blessa hvert einasta af ykkur, með sinni ríkustu blessun.  Ég veit, að þið öðlist stóra blessun þennan vetur.  Guð er ætíð fremur reiðubúinn að gefa heldur en vér að taka á móti.  "Opna munn þinn, að ég megi fylla hann."   (Sálm. 81.11.)
          Ykkar systir í kærleika Krists,                                     
          F.E.Goook.

Þessa afstöðu er ef til vill erfitt að skilja en þegar við hugsum um orð þau er ræðumaðurinn á minningarsamkomunni um hana látna, hafði eftir henni  er hún var að hughreysta hann, þegar honum lá við að gefast upp í starfi sínu fyrir Drottin, þá verður auðveldara fyrir okkur að skilja afstöðu hennar:
 " Ómögulegt fyrir menn en mögulegt fyrir Guð"

Nú var komin breytt staða hjá Arthuri. Honum fór þá eins og mörgum ekkjumanni hefur farið á undan honum.  Hann langaði til að giftast aftur og hafði ákveðna konu í huga. Eftir einhverjar vangaveltur lét hann það berast í tal við samstarfsfólk sitt, Sæmund og Kristínu.  Hann fékk dræmar undirtektir, sem var kannski ekki óeðlilegt.  Að fá svo óvænt tíðindi, sem skipt gátu miklu máli  fyrir þau öll, hvernig við yrði brugðist.  Það var sjálfsagt litlu seinna sem Sæmundur stakk upp á, að hann bæði heldur ráðskonu sinnar, sem verið hafði tengd heimilinu frá unglingsaldri. Þegar hún varð eldri aðstoðaði hún frú Florence Gook og lærði af henni ýmsa hluti viðvíkjandi húshaldi og frúin valdi hana til sjá um heimilið á Sjónarhæð er hún flutti út með börnin svo þau gætu gengið í enskan skóla. Reynt hafði verið að fá enskan kennara hingað til lands en ekki fengist. Nú var Kristín búin að  gegna ráðskonustöðu á Sjónarhæð um árabil. 

Það varð svo útkoman að Kristín varð seinni kona Arthurs.  Ef til vill var það átaka-minnsta ákvörðunin fyrir alla, og hróflaði minnst við hefðum heimilisins sem myndast höfðu í áranna rás, að hann giftist Kristínu heldur en einhverri  útlendri konu. 

Hér kemur útdráttur úr minningargrein um Kristínu, þar sem Sæmundur kynnir æsku hennar og uppruna, og birtist í Norðurljósinu 1968.                                                          

Frú Hólmfríður Kristín Steinsdóttir Gook var fædd 31. október 1896 að Kálfskinni í Árskógshreppi, dóttir hjónanna Steins Jóhannssonar og Soffíu Þorkelsdóttur, sem þá bjuggu þar. Hún fluttist með foreldrum sínum til Akureyrar 1905.
   Meðan fjölskyldan Kristínar bjó í Norðurgötunni bar svo til einn dag að hávaxinn útlendur maður kom þangað.  Hann hét Arthur Gook.  Eftir það fór Kristín að sækja sunnudagaskólann hans að Sjónarhæð og var mjög áhugasöm. Á sumrin var fjölskyldan (hennar) á Bjargi, sem er fyrir utan Krossanes.  Og meðan sunnudagaskólinn var haldinn fram eftir vorinu, sótti hún hann þangað utan að, þótt það sé að minnsta kosti 5 kílómetra vegalengd. Hún taldi ekki eftir sér sporin þangað.  Hún stóð sig vel í skólanum og hlaut verðlaun sem hún átti lengi.  Mr. Gook, eins og hann var alltaf kallaður þá, gaf út mikið af smáritum, sem þurfti að brjóta áður en þau væru send út. Snemma á unglingsaldri Kristínar fékk Mr. Gook hana og aðra stúlku á hennar reki til að koma og hjálpa sér við smáritin.  Þær unnu þetta síðla dags eða að kvöldinu og hann leyfði þeim ekki að fara einum heim heldur fylgdi þeim á víxl, því að hin stúlkan átti heima inn í bæ.  Meðan hann gekk með þeim heim, ræddi hann við þær um frelsarann og það, að snúa sér til hans.  Þær sneru sér báðar til Krists og þannig varð það, að Kristín gaf á ungum aldri Drottni hjarta sitt.  Það er dýrmætasta gjöfin, sem nokkur getur gefið.  Það er gjöf sem engan þarf að iðra, hvorki hér í heimi, né eftir dauðann. Frostaveturinn 1917-1918 var hún í dagvist hjá þeim hjónum Mr. Gook og konu hans.  Þá var oft kalt að fara á milli og kalt að koma inn líka áður en kveikt var upp á morgnana.  Hún var hér einnig veturinn eftir þegar ég kom hingað fyrst.
   Eftir það var hún á Sjónarhæð hátt á fjórða tug ára, með nokkrum úrföllum þó.  Sumarið 1919 fór frú Gook með börn þeirra hjóna heim til Englands.  Henni lá það á hjarta, að einhver góð stúlka tæki við heimilisstjórn hjá manni hennar.  Hún kaus Kristínu til þessa hlutverks og tók af henni ákveðið loforð, að hún yrði kyrr hjá honum, svo lengi sem þess þyrfti með.  Vafalaust bjóst  frú  Gook  ekki við því, að fjarvistir hennar yrðu eins langar sem raun varð á. En Kristín hélt loforð sitt, var alltaf kyrr og vann af trúmennsku og dyggð, eins og sannkristnu fólki ber að gera, sem vinnur hjá öðrum.
"Sá sem þjónar húsbónda sínum með virktum, mun heiður hljóta," segir ritningin.  Guð gaf Kristínu þann heiður, að hún varð síðari kona Mr. Gooks og fór með honum í ferð umhverfis hnöttinn í þjónustu Drottins.  Þau voru saman í hamingjusömu hjónabandi í rúm 9 ár.
S.G.J.

                       

Arthur gengur í hjónaband í annað sinn

Fundin er pappírsörk sem sýnist staðfesta giftingardag  Arthurs og Kristínar
             18. maí  1950.
             Brúðhjónin  Arthur  Gook og Kristín Steinsdóttir,
                                      AKUREYRI!
                                    Kæru systkini!
              Hjálagða upphæð biðjum við ykkur að þiggja sem lítinn vott
              virðingar okkar og þakklætis fyrir langt og óeigingjarnt  starf
             í þjónustu Drottins.
             Megi blessun Guðs ávallt hvíla yfir öllu, sem þið í framtíðinni
             gerið fyrir hann
             Með bróðurkveðju í Kristi  Jesú,
                    Söfnuðurinn á Sjónarhæð og vinir.

 

                                  ----------------------------

Eftirfarandi ferðasögu skrifaði Arthur Gook og birti í Norðurljósinu. 

SUMARFERÐ TIL AUSTURLANDS.

    Snemma í júlí 1950, hófst samkvæmt venju sumarstarfið við Ástjörn í Kelduhverfi.  Drengjahópur var þar fyrrihluta mánaðarins, en stúlkur hinn síðari. Í þetta sinn var ekki ástæða til þess, að við hjónin yrðum þar allan tímann, því að aðrir höfðu gefið sig fram til að hafa eftirlit með drengjunum.  Gátum við því skilið þá eftir í góðum höndum, meðan tveir bræður ein systir og við hjónin fórum í trúboðsferð til Austurlands.
Við höfðum stóra bifreið með sæti fyrir 10 farþega og mikið rúm á pallinum fyrir aftan.  Var tjaldað yfir pallinn, svo að hægt væri að nota hann sem svefnherbergi.  Þetta kölluðum við hjónaherbergið, en í bifreiðinni var baðstofan!
   Áður en við lögðum upp í aðalferðina, skruppum við til Kópaskers og seinna til Raufarhafnar til að halda samkomur.  Hinn 7. júlí héldum við til Grímsstaða, þar sem við höfðum auglýst samkomu um kvöldið- eða við héldum að við hefðum auglýst samkomuna.  Fyrst var hugsað um samkomu hinn 6., en við sendum símskeyti til að tilkynna að hún yrði hinn 7. En  þegar þangað var komið kom í ljós, að símskeytið hafði ekki komið til skila.  Hafði fólkið því komið saman kvöldið áður!  Eigi að síður héldum við samkomu í stofu.
   Næsta dag héldum við til Þórshafnar.  Vegirnir voru ekki vel góðir, en ferðin gekk samt eftir óskum.  Á samkomunni voru sjálfsagt yfir 100 manns.  Nokkur síldarskip lágu í höfninni, og margir sjómenn sóttu samkomuna.  Meðal þeirra var einn bróðir úr söfnuðinum á Akureyri.  Hann tók þátt í samkomunni. Og þótti sjómönnum vafalaust gott að heyra vitnisburð þessa félaga þeirra.
   Við komum ekki heim til Ástjarnar fyr en um klukkan eitt að morgni og þurftum að legga af stað aftur eftir nokkra tíma  svefn, til þess að komast til Möðrudals á leiðinni til Vopnafjarðar.  Þangað vildum við koma og halda stutta samkomu, því að fólkið í Möðrudal hafði lagt á sig að sækja samkomuna sem það hjelt að við ætluðum að halda á Grímsstöðum hin 6.  Í Möðrudal var tekið á móti okkur með hinni alkunnu gestrisni húsbóndans, og við áttum ánægjulega stund þar.
   Þá var haldið til Vopnafjarðar, og við náðum þangað í tíma fyrir samkomuna, sem haldin var í Kirkjunni þar.  Systir í Drottni tók mjög vel á móti okkur.  Við höfðum hugsað okkur að halda ferðinni áfram eftir samkomuna, en hún vildi ekki heyra um annað, en að við gistum öll á heimili hennar, og var það mjög hressandi eftir þetta erfiða ferðalag, að njóta ummönnunar hennar og gestrisni, sem mun seint líða úr minni.
   Það rigndi mikið um nóttina, svo að við hrósuðum happi að hafa ekki þurft að gista í bifreiðinni í óveðrinu.  Vegirnir voru blautir næsta dag, og við fundum ,,Jeppa" bifreið á leiðinni, sem sat föst í aurbleytum.  Gátum við fljótt dregið hana upp á brautina aftur.  Eftir að við komum inn í landið, batnaði veðrið.  Okkur hafði verið boðið kaffi í Möðrudal, svo að við stóðum við litla stund.  Svo var haldið tafarlaust áfram til Fljótsdals.  Var ferðinni heitið til Valþjófsstaðar, en við vorum hrædd um, að ekki mundu margir sækja þar samkomu, vegna þess að mjög fjölsótt héraðsmót hafði verið haldið daginn áður.  Þegar þangað kom, virtust allir sem vettlingi gátu valdið, vera þar viðstaddir.  Var því ekki hægt að halda þar samkomu í þetta sinn.
    Við fengu ágætan beina hjá umsjónarmanninum á Skriðuklaustri, þar sem gaman var að koma og sjá sig um.
   Okkur var boðin gisting hjá ágætu fólki á Hrafnkelsstöðum, og var farið í ferju þangað yfir Lagarfljót.  Næsta morgun höfðum við ofurlitla stund við söng og lestur og fórum svo af stað til Egilsstaða.  Þar er allgott matsöluhús, og þar umhverfis er nú komið dálítið þorp - snotur hús og að minnsta kost tvær verslanir.  Við vorum í boði hjá vingjarnlegu fólki þar og drukkum kaffi.
    Þá fórum við í Skriðdal, en á leiðinni var á, sem nú var orðin töluvert mikil af rigningunni.  Reyndist tafsamt að komast yfir hana, en allt gekk vel að lokum.  Bóndinn á Arnhólsstöðum tók vel á móti okkur.  Hann hafði góðfúslega auglýst samkomuna fyrir okkur og útvegað samkomuhúsið.  En árnar voru nú orðnar svo miklar, að sumt fólk, sem hefði eflaust sótt samkomuna, gat ómögulega komist yfir eina óbrúaða á, sem lá um sveitina, þó var vel fundarfært, og við sungum og lékum á hljóðfæri eins og vanalega og fluttum svo boðskap Drottins.
   Áður en við yfirgáfum Skriðdal, vildum við fyrir alla muni heimsækja mann í Vatnsskógum sem hefir í mörg ár verið tryggur vinur ,,Norðurljóssins".  Hann er nú við aldur, en virðist samt furðu ern.  Hann býr í bæ sem hann hefir sjálfur bygt upp, mig minnir fyrir ellefu árum, og var þetta einn af mörgum bæjum, sjálfsagt fleiri en fimmtíu, sem hann hefir smíðað á sínum tíma. Undurfagurt er í Vatnsskógum.
   Þaðan var ekið beint til Eskifjarðar, þar sem við höfðum auglýst opinbera samkomu um kvöldið.  Nokkuð margt fólk var samankomið, og blessun Drottins virtist hvíla yfir samkomunni.  Þá nótt fórum við út fyrir kaupstaðinn á rólegan stað, og við hjónin gistum í bifreiðinni.
    Næsta dag var ágætt veður og við hugðum  gott til ferðarinnar heim. En þá kom í ljós, að menn vildu fyrir alla muni, að við héldum aðra samkomu um kvöldið.  Við vorum tímabundin, því að bifreiðin átti að vera komin aftur að Ástjörn í tíma til að flytja drengjahópinn heim til Akureyrar næsta dag, og langt var á milli.  Við héldum ráðstefnu okkar á milli, og bifreiðastjórinn tjáði sig fúsan til að leggja þetta á sig.  Hann er sjálfboðaliði og tekur þátt í starfi Drottins með því að aka bifreiðinni.  Við ákváðum því að bíða á Eskifirði þennan dag, halda samkomu fyrir börn kl.4, aðra samkomu fyrir fullorðna kl. 8.30 og leggja af stað undir eins og hún væri úti.
   Meðan við biðum á Eskifirði, skutumst við yfir fjallið til Norðfjarðar, því við höfðum heyrt miklar  sögur um hinn nýja veg milli þessara kaupstaða, sem er víst hæsti fjallvegur Íslands, - yfir 2000 fet fyrir ofan sjávarmál.  Veðrið var ágætt og útsýnið dásamlegt.  Höfðum við mikla ánægju af þessari skemtiferð, en okkur þótti miður, að tíminn leyfði ekki samkomu á Norðfirði.
   Við áttum blessunarríkar stundir með börnum og fullorðnum á Eskifirði, og eftir dálitla hressingu hjá góðum vinum var haldið yfir fjallveginn til Reyðarfjarðar og svo upp Fagradal, síðan yfir Lagarfljót og Jökulsá á Brú.  Þá var orðið mjög framorðið, svo að við námum staðar nálægt Hvanná á Jökuldal og sváfum í bifreiðinni nokkrar klukkustundir.  Snemma næsta morgun héldum við áfram og komum klakklaust til Ástjarnar um kl.1 e.h.
   Drengirnir voru að búa sig undir burtförina, og hélt bifreiðin svo áfram með þá til Akureyrar.  Næsta dag kom stúlknahópurinn.  Konan mín og ég urðum eftir, því að hún átti að veita stúlknastarfinu forstöðu.
   Það tilheyrir ekki ferðasögunni að skýra frá þessu starfi, en ég vil þó geta þess, að börnin skemtu sér ágætlega, þrátt fyrir marga rigningardaga.  Á hverjum degi söfnuðumst við öll saman um Drottins orð, og höfðum við vafalaust öll mikla blessun af  því.
   Þegar stúlkurnar fóru heim, fengum við eina viku til að hvíla okkur.  Svo komu mótsgestirnir.  Umræðuefnið var: ,,Fylling Andans, í ljósi endurkomu Krists." Sunnudaginn 6. ágúst var haldin opinber samkoma við Ástjörn, og komu margir vinir úr Kelduhverfi og Axarfirði.  Þrátt fyrir rigningu annarstaðar í nágrenninu var sama sem engin rigning hjá okkur, sem var skýrt bænasvar, og Drottinn gaf okkur mjög ánægjulega stund.  Mun hún verða okkur ógleymanleg. 
   Tveim dögum síðar ókum við svo heim til Akureyrar.

                                    _____________________
                               
Í  September-Októberblaði Norðurljóssins árið 1950 birtist eftirfarandi auglýsing:


Langferð til Kristniboðsstöðva
Ritstjórinn og kona hans búast við að leggja bráðum upp í langferð í þjónustu Drottins.  Hafa þau fengið köllun til að heimsækja kristniboða í Afríku, Indlandi og öðrum löndum, til að uppörva þá og styrkja hendur þeirra í starfi Drottins.
Tímans vegna verður flogið milli landanna.
   Þau fara væntanlega með flugvél 16. okt. til London, en þaðan snemma í nóvember til Parísar, svo til Rómar, Aþenu, Kípur, Gyðingalands, Egiptalands, Khartoum, Nairobi, Tabora, Lusaka, Levingston, Bulawayo, Jóhannesarborgar og Höfðaborgar.  Svo aftur til Nairobi og þaðan yfir til Mombasa, til Indlands, Kólombo, Singapore, Java, Ástralíu, Nýja Sjálands, Fijieyja, Hawaí, Bandaríkjanna, Canda (til Vinnipeg til að finna landana þar), Bermúda, Azoreyjar, Portúgals, London og svo heim til Íslands.
   Tekur þessi ferð sennilega rúmt ár, því að í sumum löndum ætla hjónin að ferðast um í nokkrar vikur.  Trúaðir vinir eru beðnir að minnast þessa ferðalags þeirra í bænum sínum og biðja um varðveislu og blessun Drottins yfir þau.  Kristniboðar, sem þegar hafa frétt um ferð þeirra, hafa tjáð sig fúsa til að greiða veg þeirra eftir getu, og búast þau við hjartanlegum viðtökum allsstaðar.
    "Norðurljósið"  kemur út í fjarveru ritstjórans, og sér Sæmundur G. Jóhannesson, kennari, um útkomu þess.  Ferðasaga ritstjórans byrjar væntanlega í næsta árgangi.  Ef tíminn leyfir, sendir hann hana jafnóðum til blaðsins.


Flettingar í dag: 52
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 77972
Samtals gestir: 16231
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 08:09:39

Tenglar