Þóra Guðrún Pálsdóttir

James L. Nisbet

Árið 1906 er skoskur maður, James  L. Nisbet, skráður til heimilis að Sjónarhæð ásamt Arthuri og konu einni, Guðrúnu Jónasdóttur, og hefir hún að líkindum borið ábyrgð á húshaldinu.  Í ágúst 1906 fékk Arthur bréf frá stúlku sem átt hafði heima á Íslandi en flutt með móður sinni til Danmerkur.  Hún segist vona að hann fái grænmeti með Nisbet, því hann hefði fengið peninga fyrir því.  Það er ljóst að Nisbet hafði þá verið í Danmörku e.t.v. til að læra dönsku en er um þetta leyti á leið til Íslands. 

Nisbet starfaði með Arthuri frá haustinu 1906 til og með 1908.  Hann flutti seinna til Ísafjarðar og starfaði þar um nokkurra ára skeið ásamt systur sinni og seinna konu sinni. Þau sinntu líka smáskammtalækningum, ásamt trúboði, eins og Arthur og kona hans og eins og eflaust margir trúboðar gerðu á þeim tímum í löndum þar sem þeir störfuðu.  Nisbet innritaðist í nám í læknisfræði í Háskóla Íslands árið 1914 og lauk þaðan prófi í greininni 1917.  Hann starfaði sem læknir á Ísafirði sumrin 1917 og 1920 og í Hafnarfirði 1920 - 1921 en þá flutti hann alfarinn til Englands.  Eyjólfur Stefánsson frá Dröngum getur hans mjög lofsamlega í ævisögu sinni.  Hann segir þar m.a.

Nisbet læknir var einn hinn ágætasti maður sem ég hefi þekkt.  Hann var skarpgáfaður, heittrúaður og vildi sýna öllum bróðurþel og kærleika.

Þetta var maðurinn sem kom til Sjónarhæðar um haustið 1906 til að starfa með Arthuri.  Til er lítil örk sem þeir létu prenta og dreifa í desember 1906 í þeim tilgangi að kynna starfsemi þeirra. Hún kemur hér:


Ávarp til Akureyringa

Kæru vinir


Þótt manni sé miður ljúft að skrifa um sjálfan sig, þá finnst mér samt að tími sé til kominn að gera mönnum ljóst starf það, sem við höfum með höndum hér í Akureyrarbæ, þar eð ofurlítill misskilningur hefir átt sér stað hjá fólki því viðvíkjandi.

Í fyrsta lagi óskum við að gera það öllum ljóst, að við ekki tilheyrum neinum sérstökum trúarflokki.

Ekki erum við komnir til þessa lands til að prjedika kreddur nokkurrar sértrúar, heldur til að segja öllum frá þeirra þörf á persónulegri þekkingu á Jesú Kristi, sem frelsara frá sekt, hegningu og afleiðingum syndarinnar.

Við höfum mikla óbeit á þeim hugsunarhætti sem setur kristna menn í flokka, hvern á móti öðrum, og trúum fastlega að hann sé gagnstæður Guðs orði,(1 Kor. 1. 11-13; og 3. 2-5).  Við viðurkennum hina innri sameiningu allra Guðs barna, og tökum á móti, sem bræðrum og systrum,öllum þeim, sem með játningu og líferni sýna merki þess, að þeir hafi snúið sér til Guðs, og sem viðurkenna Guðs orð, - biblíuna, - sem sinn vegvísi, hvaða nafni sem þeir nefnast.

Við vitum að í þessum bæ hafa sumir menn hugsað og sagt að við værum babtistar og við höfum aldrei haft neitt samband við babtista, frekar en við kristna menn í öðrum flokkum.  Satt er það að við trúum því sem Biblían kennir um skírn, nefnilega, að menn eigi að trúa fyrst og skírast síðan, enda finnast hvergi dæmi um annað í ritningunni, og við trúum að menn eigi að skírast á þann hátt sem Biblían kennir, og sem Lúter trúði á, (að mönnum sé dýpt niður í vatnið), en þrátt fyrir það erum við ekki í nánara sambandi við babtistaflokkinn, heldur en við alla aðra sem trúa á Krist.

Við skulum þá, í eitt skipti fyrir öll, slá því föstu, að við höfum ekki verið, og ætlum ekki að vera í þjónustu neins félags, eða vera meðlimir neins sértrúarflokks.  Við erum ekki launaðir af neinum manni né neinu félagi, og við lifum í trú á Guð, að hann uppfylli allar okkar þarfir. Frá því fyrsta að við byrjuðum að starfa fyrir Krist, höfum við aldrei beðið nokkurn mann um peninga eða aðra hjálp þessháttar, og enginn hefur nokkurn tíma skuldbundið sig, eða lofað, að senda okkur einn einasta eyri, en við höfum sannað að orð postulans: "Minn Guð mun uppfylla allar yðar þarfir af sinni dýrðlegu nægt vegna Jesú  Krists" (Filipp.4. 19) séu bókstaflega sönn, og ef með þyrfti, gætum við sagt frá nokkrum undarlegum viðburðum um trúfesti Guðs í þessu efni

Orsökina, til að við erum komnir hingað, getum við skýrt í stuttu máli, með orðum Páls postula: "Kærleiki Krists þvingar oss." Aðra orsök höfum við enga.  Við þekkjum af eigin reynslu kraft elsku Krists,- eins og hún er opinberuð í hans dauða fyrir oss á krossinum,- að skapa í manni nýjan anda, að gefa honum ævarandi frið í hjartað, að sigra yfir freistingum hans, að gera líf hans göfugt, að lyfta honum upp yfir þessa heims muni, og setja hans föstu von á hið himneska,- og stærsta löngun okkar í þessu lífi er að einnig aðrir fái að reyna þennan  kraft. Þetta er kristindómsins sanni tilgangur, eins og ritningin ber fram, en, því miður, er hann svo lítið predikaður og svo illa skilinn.

Eins og flestum er kunnugt, höldum við samkomur á "Sjónarhæð" (í bráðina bæði á íslensku og dönsku) á sunnudögum kl.5 og 8.30  e.h., þar sem verður predikað og sungið um þau mest áríðandi efni, sem menn verða að hugsa um hérna megin eilífðarinnar.  Öllum er hjartanlega boðið að koma sem oftast.  Inngangur er ókeypis, og engin samskot tekin.  Á þriðjudögum eru haldnar samkomur fyrir söng (að læra nýja söngva, o.s.f.), bæn, og útskýring biblíunnar, kl.8.30 á kvöldin.  Mr. Gook er oftast nær heima, og getur því með gleði veitt öllum þeim viðtöku er óska að tala við hann, enda ætlar hann, þegar kringumstæðurnar leyfa, að byrja á húsvitjun.

 Sunnudagaskóli  handa  unglingum

Ef Guð lofar, ætlum við að byrja barnasamkomur á sunnudögum, í næstkomandi mánuði, og við vonumst eftir að foreldrum verði ljúft að senda börnin sín.  Guðs orð og þýðing  kristindómsins fyrir unglinga, verður útskýrt á þann hátt, að unglingarnir geti skilið og haft gleði af því, og við búumst við, fyrir Guðs náð, að börnin læri að uppfylla skyldu sína við Guð, foreldra sína, sjálf sig  og alla menn. Verði það!  Við skulum reyna að gjöra þessar samkomur vel til fallnar fyrir unglinga á öllum aldri, frá hinum yngsta til hins elsta.  Ýmiskonar dæmi verða stundum brúkuð, og svarta taflan mun oft hjálpa til að vekja eftirtekt á kenningum.  Nokkur reynsla sem við höfum fengið í útlöndum verður til hjálpar í þessu efni.

Nýtt  Blað

Um leið og við sendum, út þetta bréf, leyfum við okkur að benda á blaðið sem fylgir með.  "Vort daglega brauð" sem verður gefið út, ef Guð lofar, hvern mánuð ársins 1907, og er tilgangurinn að menn lesi kapitulann tilætlaða fyrir hvern dag, og dálítil útskýring verður gefin í blaðinu; en maður skuldbindur sig ekki neitt með því að kaupa blaðið.  Ætlað er að fara í gegnum Nýja testamentið á einu ári.  Við höfum í huga að láta líka prenta margar gagnlegar og sláandi smágreinar í blaðið.  Árgangurinn kostar 1 kr. 50 aura, og vonandi er að margir noti tækifærið.

                   Yðar í þjónustu  drottins.

        James  L.  Nisbet      Arthur   Gook.


Flettingar í dag: 21
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 145
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 75213
Samtals gestir: 15465
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 08:15:51

Tenglar