Þóra Guðrún Pálsdóttir

18. Árið 1925 - Ferðasaga

Eins og fram kom í kaflanum hér á undan, þar sem fjallað var um útvarpsmálið, fór Arthur til Englands sumarið 1925. Hér birtist brot úr ferðasögu hans er birtist í september-október og nóvember-desember blöðum Norðurljóssins það sama ár:

Ferðasaga.
Eftir ritstjórann.
_____
Snemma dags þ. 5. júlí s.l. fór jeg um borð í "Goðafoss", og lagði af stað í ferð mína til Englands (Ath! Hér virðist vera um prentvillu að ræða, skv. dagbók Arthurs lagði hann af stað 6. júní, ekki í júlí).  Ætlaði jeg að hitta fjölskyldu mína og dvelja með henni í Bristol um tíma og einnig að sjá um útvegun útvarpstækjanna í Radio-stöðina hjer á Akureyri.

Það var tæpast öllu meira en jeg næði í skipið, því að annríkið hafði verið svo mikið nokkra daga áður en jeg fór, að jeg hafði engan tíma til að búa mig undir ferðina, fyr en eftir miðnætti, fáeinum tímum áður en skipið bljes til burtfarar.

Þó gekk allt slysalaust, og Guð gaf okkur ágæta ferð til Skotlands.  Þoka tafði fyrir okkur dálítið, en sjórinn var heldur kyr.

Jeg lenti í miðri "hitabylgju" sem svo er kallað, á Englandi.  Var heitara þar en hafði verið í langan tíma.  Mjer þótti viðbrigðin óþægileg, en Íslendingum á skipinu hefir líklega brugðið enn meir við.

Á leiðinni suður, frá Edinborg til Bristol, tafðist jeg hátt á annan klukkutíma, vegna þess að lítilsháttar járnbrautarslys hafði komið fyrir á sömu línunni.  Vjel ein hafði farið af teinunum og var mikill fjöldi verkamanna að basla við, að koma henni á þá aftur.  Í millitíðinni urðu allar lestir að komast yfir á aðra línu, sem olli auðvitað mikilli truflun.  Beið fjölskylda mín öll á stöðinni í Bristol.  Hafði hún fengið frjettir um orsök tafarinnar og var þess vegna áhyggjulaus. 

Óþarft er að segja frá fagnaðarviðtökunum.  Þær skilja allir feður, allar mæður, öll börn sem unnast.  Innan skamms vorum við öll komin inn í bifreið, ásamt farangri mínum, og sátum þar samanþjöppuð.  Bifreiðin rúmaði okkur naumlega, því að börnin fjögur voru orðin töluvert stærri en þegar jeg var með þeim síðast.  En það sannaðist þá sem oftar, að "þröngt mega sáttir sitja".

Þótti mjer gaman að koma til Bristol aftur, því að það er skemtilegur bær.  Við höfum aldrei sjeð eftir að láta fjölskylduna setjast þar að.  Við kunnum betur við okkur þar, heldur en nokkur staðar annarstaðar þar sem við höfum dvalið á Bretlandi.  Bæði stendur borgin á góðum stað, við bakka hinnar fögru Avon- ár, og umhverfi á allar hliðar töfrandi fagurt, og svo virðist okkur fólkið yfirleitt skemtilegt, og trúarlífið fjörugt og innilegt ...

Fyrir sunnan Bristol eru lág fjöll (Mendip-fjöllin) sem eru frjósöm og að mestu leiti bygð.  Er mikil kvikfjárrækt þar um slóðir.  Malbikaðar brautir liggja í allar áttir um þetta fjalllendi,  Að sunnanverðu er afarlöng gjá, sem farið er eftir ofan í Ceddar-dalinn, sem er einhver fegursti dalur í sýslunni. Gjá þessi er öll vaxin smákjarri og skógi, og liggur í bugðum milli hrikalegra kletta.  Fjölmargir fara þennan veg á sumrin, og þykir einhver mesta skemtun að aka með fljúgandi ferð, eftir  rennisljettum veginum, gegnum þessa töfrandi náttúrufegurð. Einkennilegur bær og snotur liggur við gjáarendann. Virðist hann hafa aðalatvinnu sína af ferðamannastraumnum.

Það, sem dregur flesta þangað, eru hellarnir, sem fundust fyrir aðeins fáum áratugum.  Þeir ná langt inn í klettinn og eru göng tilbúin og handrið og tröppur, svo að menn eigi hægt með að skoða alla hellana, enda eru sumir raflýstir með miklum hagleik.  Það er ógleymanleg sjón að sjá dropasteinssúlurnar, sem hafa framleitt heillandi og einkennilegar myndir, og rafljós hulin á bak við þær, svo að dularfullur bjarmi leikur um þær.  Dropasteinsúlurnar í einum helli líkjast geysistóru orgeli; í öðrum helli hafa droparnir gert mynd af "musteri Salómons", - mjög svo líka, - og margt er þar annað fásjeð og einkennilegt.
Hvenær skyldi verða farið að raflýsa Surtshelli? 
Mig hafði lengi langað að fara í langa hjólreiðarferð með þremur elstu börnunum okkar sem voru orðin allvön að hjóla, svo að jeg notaði fyrsta tækifærið, þegar jeg hafði þrjá daga í röð, sem jeg ekki hafði lofað að prjedika eða halda fyrirlestur.  Reyndar átti jeg að tala á samkomu þriðja kvöldið, en það var ekki fyr en kl.8, og jeg bjóst við, að vera kominn heim fyrir þann tíma.

Við hjeldum af stað í ágætu veðri og gerðum það að gamni okkar, að ákveða engan vissan áfanga, fyrsta daginn, heldur sjá hve langt við kæmumst, og gista þar, sem okkur sýndist skemtilegast að vera.  Unga fólkinu þótti það líka dálítið æfintýralegt, að vita ekki fyrirfram, hvert við ætluðum að fara, eða hvaða leið.  Við hjóluðum um töfrandi landslag, stundum gegnum skóga og stundum hátt uppi, svo að við sáum út yfir víðlend hjeruð.  Nesti höfðum við með okkur og borðuðum í fallegum skógi, meðan stór , einkennilegur, marglitur fugl vakti yfir okkur og hirti smábitlinga, sem við fleygðum til hans.  Börnin skrifuðu hjá sjer nákvæma lýsingu á fuglinum, til þess að geta fengið að vita, seinna í náttúrufræðitímanum, hverrar tegundar hann var, því að við höfðum aldrei sjeð slíkan fugl áður, svo að við vissum. 

Við hjeldum áfram yfir lág fjöll, þangað til við komum að frægum stað, sem við höfðum oft heyrt um.  Það var staðurinn, þar sem hinn heimsfrægi sálmur: "Bjargið aldanna", - í einni íslenskri þýðingu: "Hellubjarg og borgin mín", - var ortur.  Höfundurinn var sveitaprestur, Mr. Toplady, og var hann á ferð í embættiserindum, er feiknamikill stormur skall á.  Hann flýtti sjer að leita skjóls og sá þá, skamt frá veginum, í gilinu, þar sem hann var staddur, stórt bjarg, sem hafði einhvern tíma klofnað, líklega af eldingu, og var ágætt skjól fyrir hann í sprungunni. 

Meðan hann stóð þannig í bjarginu og beið af sjer storminn, kom honum í hug, að Jesús Kristur væri "bjargið", sem elding Guðs rjettlætis hafði lostið, og að hann gæti nú falið sig í honum fyrir öllum stormum lífsins, og jafnvel fyrir stormum dauðans og dómsins,  Þá hugsaði hann um orðin:
"Hellubjarg og borgin mín,
byrg þú mig í skjóli þín!"  
og þegar hann kom heim færði hann sálminn í letur.  Þetta var árið 1776, - fyrir hálfri annarri öld, - og sálmurinn hefir síðan verið með uppáhaldssálmum kristinna manna í ensku-mælandi löndum.  Albert prins, eiginmaður  Viktoríu Bretadrottningar, hafði þennan sálm yfir, hvað eftir annað, í banalegu sinni.  Hann sagði: "Ef  jeg, á þessum tíma, hefði ekkert annað en veraldlegan heiður og tign til að hugga mig við, þá væri jeg sannarlega fátækur!"  Miljónir hafa eflaust öðlast huggun og blessun fyrir áhrif þessa fræga sálms. 

Það er því skiljanlegt, að okkur fýsti að sjá þetta merkilega bjarg, sem sálmaskáldið fól sig í.  Það var á indælum stað, enda var þá enginn stormur, heldur glaða sólskin.. Við klifruðum öll upp  í sprunguna og minntumst þess, að við hefðum líka öll fundið hæli og skjól hjá honum, sem sálmurinn hljóðar um.  Þá tók jeg ljósmynd af börnunum í bjarginu, og þau tóku ljósmynd síðan af mjer. 

Þetta kvöld gistum við á sveitabæ uppi á fjöllunum, og var margt þar skemtilegt að sjá.  Næsta dag fórum við ofan gjána, sem getið var um í síðasta blaði, í Cheddar-dalinn.  Í bænum Cheddar hvíldum við okkur, meðan gert var við reiðhjól drengsins míns, sem hafði bilað ofurlítið kvöldið áður.  Hitinn var mikill, svo að við fórum hægt eftir dalnum að dómkirkjubænum gamla, Wells.  Þar er margt sögulegt að sjá, en við höfðum komið þar áður í bifreiðarferð og stóðum því ekki við nema til að fá okkur hádegisverð. 

Nú vorum við komin nálægt húsi öldungsins, sem gaf okkur hjónin saman fyrir átján árum.  Þótti mjer ekki nema sjálfsagt, að votta honum þakkir fyrir verkið, sem hafði reynst svo vel og enst svo lengi, fyrir Guðs náð, - og láta hann sjá börnin.  Hann hafði lengi starfað fyrir Guðsríki, en nú var hann kominn yfir áttrætt og eyddi kvöldi lífsins í næði á mjög skemtilegum stað, ásamt hjónum, sem hann hafði þekt fjölda mörg ár, og var dóttir hans einnig með honum. 

Hafði bæði hann og hjón þessi komið víða við á hnettinum og sýndu þau okkur minjar og dýrgripi frá öðrum löndum, einkum frá Nýja sjálandi.  Var dvöl okkar þar einkar ánægjuleg. 

Við vorum nú að nálgast ættstöð föðurömmu minnar.  Ætt hennar var mjög fjölmenn um þær slóðir, og jeg hafði gert ráð fyrir að gista hjá frændfólki mínu í sveitaþorpi einu.  Gömlu hjónin, sem tóku á móti okkur, voru ágætt, trúað fólk, og höfðu hjálpað lengi og trúlega að halda uppi merki Krists í sveit sinni.  Jeg hafði vitað ógreinilega um alt frændfólkið í þessari sýslu, en hafði aldrei komið þangað í mörg ár.  En hjón þessi keyptu einn dag eitt af ritum þeim, sem jeg hafði gefið út á ensku, og vissu, að höfundurinn mundi vera frændi þeirra, því að ættarnafnið er afarsjaldgæft.  Þegar þau frjettu, að jeg ætlaði að taka þátt í samkomum nokkrum í nærliggjandi borg, tóku þau sjer ferð á hendur til að hitta mig og láta mig vita, að við vorum ekki aðeins frændur, heldur systkini í Kristi.  Síðan höfum við skrifast á, og var því gleði að koma með litla barnahópinn og sjá gömlu ættstöðvarnar.

Næsta dag var hellirigning allan fyrripartinn, - eins og sagt er í daglegu máli á ensku: "Það rigndi köttum og hundum"! - svo að við sátum kyr, og jeg skemti mjer við að draga upp ættartöluskrá með hjálp nokkurra elstu frændanna, meðan börnin skemtu sjer með nýfundnu frændfólki sínu af yngri kynslóðinni.  Komst jeg eftir því, að ættfaðir okkar hjet Abraham, og var merkur maður í sinni sveit.  Mörg höfðum vjer biblíu-nöfn í ættinni, - Aron, Ísak og jafnvel Faraó!  Mynd af Abraham fjekk jeg að hafa með mjer. 

Þegar klukkan var orðin 3, var ekki um annað að gera en að hjóla heim í rigningunni, því að jeg átti að tala á samkomu kl. 8, og við höfum um 20 enskar mílur að fara, yfir fjöllin.  Vegirnir voru blautir, en Drottinn leiddi okkur slysalaust heim í tæka tíð.

Því miður verður að láta hér staðar numið í ferðasögu Arthurs, því annars er hætt við að enginn endir yrði á þessari bók, það er svo mikið efni eftir.   

Í októbermánuði kvaddi Arthur fjölskylduna sína enn einu sinni og hvarf aftur til Íslands.
 

Strax eftir heimkomuna til Akureyrar í október 1925 fór Arthur að undirbúa útgáfu ævisögu Ólafíu Jóhannsdóttur, " Frá myrkri til ljóss" en hann hafði tekið að sér útgáfu hennnar.

Flettingar í dag: 107
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 249
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 76823
Samtals gestir: 15990
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 22:50:13

Tenglar