Þóra Guðrún Pálsdóttir

22. Viðtal við Jóhönnu Jóhannsdóttur

Þann 10. febrúar árið 1932 má sjá eftirfarandi færslu í dagbók Arthurs:

Smá samtal við Jóhönnu Jóhannsdóttur í sambandi við Drottin. Vona  að hún treysti honum.


Hér er upplagt að fá smáhvíld frá dagbókarlestrinum og láta koma vitnisburð Jóhönnu Jóhannsdóttur sem hér er getið. Hann er að vísu talaður inn á segulband áratugum seinna en ekki rýrir það gildi hans.

Minningar  Jóhönnu  Jóhannsdóttur um Arthur Gook

"Hverjar eru þínar fyrstu minningar um  Arthur Gook?"


Mér er sagt að ég hafi farið tveggja ára á sunnudagaskóla til hans.  Þessi maður var í mínum augum alveg sérstakur og bar höfuð og herðar yfir alla menn, fannst mér.  Þegar ég var í sunnudagaskólanum hjá honum, þá fannst mér ég fá meira að læra um Drottin en nokkur staðar annarstaðar.  Hann útskýrði þetta efni svo nákvæmlega og svo vel að það var eins og hann væri að mála málverk.  Það festist í huga mínum og ég á það ennþá, og það er satt að segja mín dýrmætasta eign.  Fyrst voru það þessar hetjur Gamla testamentisins, Móse, Jósúa, Daníel og margir fleiri. 

Ég var í sunnudagaskóla hjá honum þangað til ég var 16 ára en þá fór ég að gæta flokkanna sem kallað var.  Börnunum var skipt í flokka.  Í einum flokknum voru börn frá tveggja til sjö ára.  Það voru nú ekki margir tveggja ára.  Í öðrum flokki sjö til nýju ára og svo frá nýju ára og uppúr.  Ég tók við sjö ára deildinni og passaði að börnin hefðu ekki hátt.  Ef þau fóru að hvíslast á þá klappaði maður á öxlina á þeim og það virkaði óskaplega vel.  Ég var þarna við sunnudagaskólann alveg þangað til Arthur flutti burtu.  Mér fannst skólinn ekki vera sá sami þegar hann var ekki, því hann var með látbragðsleik og hálfgert lék persónurnar fyrir framan mann en það voru engin skrípalæti.  Hann gerði svo mikið að því að undirstrika með handabendingum.  Þetta var svo eðlilegt og engin tilgerð.
 
Mínar minningar um Arthur eru mest úr sunnudagaskólanum og svo náttúrlega þegar ég var orðin uppkomin og gengin í söfnuðinn.  Þá sótti ég söfnuðinn og það var meiriháttar í mínum  huga.  Hann predikaði orðið og opnaði það svo vel fyrir manni að hver maður skildi.  Ég man eftir því þegar augu mín fóru að opnast fyrir því að ég þyrfti að taka skírn, þá dró ég það fram undir vor, var alltaf að geyma það.  Arthur var þá farinn í ferðalag.  Ég man að ég fór að hugsa: "Ef Kristur kæmi nú áður en Arthur kemur aftur?"  Því ég var opin fyrir því að Kristur gæti komið hvenær sem væri, en svo kom nú Arthur áður og þá dembdi ég mér strax í að taka skírn.  

En svo er annað sem ég hefði gaman af að minnast á.  Ég átti skólasystir sem stríddi mér oft mikið.  Hún var árinu eldri og sterkari en ég og hafði yfirhöndina í flestu.  Þegar ég hafði ákveðið að taka skírn þá var þetta manneskjan sem ég hræddist mest, ef hún færi nú að taka mig í gegn.  Ég tek nú samt í mig kjark og fer til Arthurs og segi honum að mig langi til að taka skírn.  Hann varð glaður við og tók þessu mjög vel.  Eftir þetta var ég eitt sinn að vinna í fjósinu, því við vorum með skepnur heima.  Þá stendur þessi stúlka allt í einu fyrir utan dyrnar og ég skil ekkert í því og hugsa hvort hún ætli að fara að pína mig strax.  Mig minnir að hún hafi spurt mig: "Ætlarðu að láta skíra þig?"  Ég segi henni það, að ég ætli að láta skíra mig.  Þá segir hún: "Ég líka." Þá var björninn unninn því þetta var manneskjan sem ég hræddist mest.  Mér fannst þetta alveg stórkostlegt og það eiginlega er það, að við skyldum báðar taka ákvörðun á sama tíma, svo að þetta gekk nú allt vel.

"Hvernig kom það svo út í barnaskóla, að eiga foreldra í sértrúarsöfnuði eins og það var kallað?"

Ja, það er ekki of sterkt að segja, að ég hafi verið tekin fyrir, fyrir það að vera hjá Gook  Það var bara svoleiðis að ég var alltaf dregin inn í einhvern sér dilk.  Ég var alltaf nefnd hjá Gook.  Það var einn strákur í sama bekk og ég.  Það var alveg snjallræði hjá honum að kalla mig óskírðu því að hann vissi að við vorum ekki skírð sem ungbörn.  Ég var bara kölluð óskírða og það var nú ekkert notalegt skal ég segja þér.  Þegar ég hugsa um þetta núna þá fer hryllingur um mig.  Síðan fór ég að segja mömmu frá þessu og þá segir hún: "Þú skalt ekki vera neitt sorgmædd útaf þessu því að þegar þú birtist fyrir Drottni þá mun hann launa þér fyrir að hafa tekið á þig niðurlægingu fyrir hann."  Þetta þótti mér vænt um og ég hefi hugsað um það alla tíð síðan.

"Vissu kennararnir af þessu?"

Það held ég ekki, þetta fór fram úti, ekki inni.  Strákarnir pössuðu sig á því.  Kennarinn minn hét Helgi, afskaplega góðlegur maður.  Ef krakkarnir voru með einhver leiðindi þá sussaði hann alltaf á þau og hann hefði gert eins með þetta, hann hefði ekki leyft það, en þetta var rosaleg kvöl gegnum allan barnaskólann.  Það fer auðvitað mikið eftir börnunum í bekknum á hverjum tíma, hvað þau gera.  Ég fann að margar stelpurnar tóku ekki þátt í þessu og vildu vera með mér en það voru vissir strákar sem tóku sig til og bara níddust á mér.  En þetta náttúrlega gengur yfir alla held ég, sem eitthvað eru sér, að þessu leyti.  Maður þekkir þetta fólk ekki núna og veit ekki hvernig væri að tala við það.  Það er ýmist dáið eða hinum megin á landinu.

"Manst þú eftir fyrri konu Arthurs ?"

Ég man eftir að hún kom í heimsókn.  Hún kom í heimsókn með Barböru dóttur sína sem var yngst og dvaldi nokkurn tíma hér, mér finnst að Írene hafi líka verið með.  Ég man sérstaklega að frúin sat við endann á stofuborðinu.  Ég man þegar drukkið var te á Sjónarhæð þá sat Arthur alltaf við endann á stofuborðinu, ég sat til hliðar.  Frúin sat við enda borðsins við hliðina á honum og hélt svona yfir höndina á honum.  Ég man hvað mér fannst þetta fallegt.  Hún var eitthvað svo innileg og þannig er myndin af henni í mínum huga.  Svo kom hún aftur seinna og dó þá austur við Ástjörn.  Það var sorglegt en auðvitað er gott að deyja svona eins og hún gerði.  Hún varð bráðkvödd og hneig bara útaf.

"Þið voruð nú svo náin fjölskylda þar sem pabbi þinn var næstur honum í stjórn safnaðarins. Var ekki mikill samgangur?"

Jú það var það.  Ég man sérstaklega eftir því þegar Eric sonur hans var hjá honum.  Eric var 17 ára þegar hann fór aftur og ég hefi verið svona 10 ára.  Þegar hann fór kom hann út í Samtún og kvaddi okkur.  Hann var óskaplega barngóður og skemmtilegur.  Hann átti mótorhjól og hann kom stundum með hjólið.  Þá tók hann okkur allar fimm systurnar eftir röð og ók með okkur á mótorhjólinu tangahringinn sem svo var kallaður.  Gígja hefir nú ekki verið með  því hún er yngst og hefir þá ekki verið nema árs gömul.  Þetta var sko mesta upplifun í þá daga.  Mér er það svo minnisstætt að við gengum með honum um túnið og hann lét okkur syngja eitthvað sem við höfðum uppáhald á og sló taktinn alltaf með hendinni og við sungum af öllum mætti.  Ég held að Gígja hafi verið á öxlunum á honum.  Hann var alltaf með okkur á öxlunum og í fanginu.  Hann var afskaplega líflegur strákur og skemmtilegt að fá hann í heimsókn.  Ég held að hann hafi verið  meira en eitt ár hér á landi. 

Heimilið var þannig á Sjónarhæð að Arthur var mikið á kontórnum uppi.  Kristín ráðskonan, var í eldhúsinu eða þá niðri í vefstofunni eða blómastofunni, sem hún hafði fengið leyfi til að byggja  við hliðina á íbúðarhúsinu.  Hún var feikilega handlagin og hugmyndarík manneskja, tók mig í læri og kenndi mér að vefa og ég óf  borðdregla og seldi um tíma.  Hún framkallaði og stækkaði myndir og kenndi okkur það.  Hún var virkilega fjölhæf í verkum.  Hún hafði mikla blómarækt og stallarnir á bak við húsið voru fullir af blómum.  Didda systir var hjá henni mikið á sumrin og svo eitt ár alveg.
Það var oft fólk þar.  Ég man eftir Bjarkeyju, hún var þar um tíma.  Lengra aftur var einhver Heiðbjört þar.  Svo var Guðrún Árnadóttir, hún var mikið þar og þvoði þvottana og hjálpaði þeim mikið við verkin.  Svo voru systur frá Valshamri, fyrst Jóhanna og svo Guðbjörg.  Ég var þarna aldrei sjálf en við drukkum oft te með þeim á kvöldin.  Þá kynntumst við heimilisfólkinu.  Arthur fór stundum með okkur inn á skrifstofu.  Hann sýndi okkur myndir í bókum og sagði okkur frá ýmsu.  Hann er bundinn mér með svo mikilli væntumþykju að eiginleg geri ég ekki mikinn mun á honum og pabba mínum.  Hann var svo innilega góður við okkur og virkilega mikill faðir. 

Ég man einu sinni að það var eitthvert fólk heima og verið að ræða um Passíusálmana.  Þá segir Arthur að það hefði nú alveg mátt laga Passíusálmana í sambandi við dönsk orð og svo framvegis ef höfundur hefði ekki sett það skilyrði að þeim skyldi ekki breytt:  Þá sagði ég:  "Ja, hvernig heldur þú að Passíusálmarnir væru núna ef hann hefði ekki sett þessi skilyrði?"  Það er satt, ég held nefnilega að ef hann hefði ekki sett þessa loku fyrir að þeim mætti ekki breyta, þá væri búið að umsnúa þeim rækilega.  Mér líkar það ekki að verið sé að breyta sálmum, þegar maður er búinn að læra þá, þó að mönnum líki ekki við eitthvert orð.  Það er búið að breyta ýmsum sálmum sem ég kann frá gömlum tíma og svo syng ég alein einhverja vitleysu. 

En ég segi það alveg af heilum hug að Arthur Gook hann var stórmenni í mínum huga og það hafa ekki aðrir menn enn farið í fötin hans.  Hann var kærleiksríkur, hreinskilinn og mildur maður svona persónulega.  Hann gat ábyggilega verið harður í átökum en það kom aldrei fram við mig.  Hann varð líka fyrir stórkostlegu mótlæti og ósanngjörnum árásum.
 
Með þeim orðum lýkur Jóhanna  Jóhannsdóttir sínum vitnisburði.

Flettingar í dag: 24
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 116
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 77385
Samtals gestir: 16094
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 04:49:39

Tenglar