Þóra Guðrún Pálsdóttir

30. Árið 1945. Ferðasaga 1. hluti

Ferðasaga úr Norðurljósinu, eftir Arthur Gook
               (Með þágyldandi stafsetningu.)

   Jeg var lengi hikandi, áður en jeg ákvað að rita þessa ferðasögu, því jeg hafði látið blaðið flytja svo margar ferðasögur á fyrri árum, að jeg var hræddur um, að mönnum kynni að leiðast að fá ennþá eina slíka ferðasögu frá minni hendi.  Ef jeg á kollgátuna í sumum tilfellum, þá bið jeg viðkomandi lesendur að fyrirgefa þetta, hlaupa yfir ferðasöguna og sökkva sjer niður í eitthvað annað.
   En margir hafa skrifað mjer og sagt, að þeir hlakki til að lesa ferðasögu mína, eins og það væri sjálfsagt, að hún kæmi út, svo að jeg get ekki skorast undan að láta hana koma.  Jeg skal þó reyna að stikla á hinu helsta, sem ekki hefir verið lýst áður.  Verður sagan sennilega styttri af þessum ástæðum, því að óhjákvæmilega kom jeg víða við á Englandi, þar sem jeg hefi áður komið og hefi lýst í ferðasögum fyr.  Því miður er sumt af því ekki lengur til, - því hefir verið fórnað á altari stríðsguðsins.
   Ferðin byrjaði seint í júlímánuði.  Mitt síðasta verk hjer á Norðurlandi var að jarðsyngja minn ástkæra vin og trúbróður, Jón Sveinsson frá Lónkoti, sem var kallaður skyndilega burt frá vinnu sinni á Siglufirði til hærri þjónustu í návist Guðs og frelsarans.  Heimili hans var í Ólafsfirði, og þar var hann jarðaður.  Fáir hafa verið jafn trúir vinir "Norðurljóssins" hjer og Jón heitinn.  Frá árinu 1913, er við kyntumst fyrst, höfðum við haft óslitið og innilegt bræðra-samfjelag.  Hann lifði stöðugu bænalífi og virtist ætíð hafa meðvitund um nærvertu síns himneska föður.  Mörgum sendi hann biblíur og "Norðurljósið" og bað stöðugt fyrir þeim, að þeir gætu öðlast þekkingu á Drotni Jesú Kristi.  Jeg man ekki eftir, að jeg heyrði hann nokkurntíma tala ógætileg orð við mig eða nokkurn mann, eða um nokkurn mann.   Með fráfalli hans hefir Ísland mist einn af sínum bestu sonum, og söfnuður Guðs á Íslandi einn af sínum helguðustu börnum, þó að hóglæti hans kæmi í veg fyrir það, að mikið bæri á honum á opinberum vettvangi.  Við, sem elskuðum hann, söknum hans mjög og hlökkum til endurfundanna hjá Drotni.
   Það var því með sorg í hjarta, að jeg lagði af stað til Englands í þetta sinn.
   Jeg hafði fengið loforð um  far með breskri flugvjel h. 1. ágúst.  En flugveður gafst ekki, svo að hægt væri að komast hjeðan til Reykjavíkur.  Fór jeg því h. 30. júlí með langferðabifreið til Akraness og þaðan með skipi til Reykjavíkur.  Eru þessar ferðir orðnar svo algengar nú, að ekki þarf að eyða orðum um ferðina, en hún var í alla staði ágæt.  
   Í Reykjavík átti jeg í mörgu að snúast, því jeg hjelt jeg yrði þar aðeins einn dag.  Einn góður vinur, sem er bifreiðastjóri, gerði mjer þann mikla greiða að flytja mig alstaðar þangað, sem jeg þurfti að fara þennan dag, svo að jeg komst yfir alt, sem mest lá á.  Samkomu hjelt jeg um kvöldið.
   Næstu tvo daga gerði veðrið alt flug ómögulegt, svo að jeg hjelt tvær samkomur enn.  Þó að þetta væri annríkistími, voru þær allvel sóttar, og nokkrir leituðu Drottins.
   Veðrið fór batnandi, og mjer var tikynt, að lagt yrði upp í flugferð til Skotlands næsta morgun, 3. ágúst.  Jeg mintist þess, að 3. ágúst 1905 hafði jeg fyrst stigið fæti á land á Akureyri.  Þá hafði mjer ekki komið til hugar, að jeg mundi, 40 árum seinna, fljúga frá Íslandi til Bretlands!
   Þegar komið var í skrifstofu flughersins breska, varð jeg fyrst, ásamt öðrum farþegum, að fylla út nokkur eyðublöð og taka á móti flugfötum og "bomsum", ásamt björgunarbelti, sem átti að hafa til vara, ef svo óheppilega tækist til, að við "lentum" á  sjónum.  Þá ókum við í bifreiðum til flugvallarins.  Flugvjelin var fjögurra hreyfla "Liberator" sprengjuflugvjel, sem hafði verið eitthvað breytt til þess að flytja farþega í staðinn fyrir sprengjur.  En ekki var ætlunin að skila þeim á viðkomustaðinn með sama hætti!  Nei ferlíkið skilaði mjer upp á þurt land, eins og  stóri fiskurinn skilaði "kollega" mínum Jónasi trúboða á sínum tíma.  
   Þegar jeg stóð hjá þessu mikla bákni, virtist mjer nærri ótrúlegt, að það gæti hafið sig hátt í loft upp, með marga farþega og farangur þeirra, og meira að segja farið alla leið til fjarlægs lands!  Jeg skreið samt upp um opið á kviði ferlíkisins, settist í sæti mitt og beið átekta.
   Kl. 9.05 hófumst við á loft, og ferðin byrjaði.  Jeg gat samt ekki sjeð út, og heldur ekki hinir farþegarnir, því að engir gluggar voru á hliðum klefans, þar sem við sátum.  Vjelin var svo sem ekki útbúin til þess að gefa flugmönnunum skemtilega ferð.  Þeir höfðu víst nóg að gera og hugsa um, sem höfðust við þar inni, meðan á loftárásum stóð.  Hingað og þangað voru takkar og vírar og prentaðar fyrirsagnir um, hvernig ætti að nota þá, og hvað ekki mætti draga út eða skrúfa frá, nema fyrst væri búið að snúa þessu eða hinu, og svo framvegis.  En þó að gluggar væru engir, var vel raflýst.  Sætin voru þægileg, og maður hafði ekkert annað að gera en að halla sjer þar og hvílast.  Eftir nokkra stund læddist hermaður um ganginn og hafði með sjer geysistóran hitageymi, og bauð hann farþegunum heitt te eða kaffi.  Hann helti í ílát að lögun sem vatsglas, en búið til úr pappa.  Þegar jeg hafði drukkið, setti jeg "glasið", sem var mjög ljett, á litla hillu.  Það sýnir, hve lítil hreyfing var á farartækinu, að  þetta ljetta ílát stóð kyrt á hillunni alla leið og datt aldrei.
   Seinna kom hermaðurinn með pappakassa handa hverjum farþega.  Í honum var smurt brauð, með kjöti milli sneiðanna, ein appelsína, einn pakki átsúkkulaði og einn pakki tyggigúmí.  Á fjölrituðu blaði, sem hverjum farþega var fengið, stóð meðal annars, að tyggigúmið væri til þess, að menn fyndu ekki óþægindi í eyrunum vegna hávaðans úr hreyflunum.  Jeg hafði altaf haft ímugust á tyggigúmi, mjer fanst, að menn litu svo kjánalega út, er þeir jórtra á gúminu eins og beljur á töðu!  En jeg var til með að reyna þetta.  Það reyndist alveg rjett, þegar maður byrjaði að japla, hurfu öll óþægindi af hávaðanum.  En svo sem fjórðungi stundar eftir að gúmið var búið, var eins og loka færðist frá eyrunum og maður heyrði hávaðann aftur eins og áður.  Þá var ráðið að taka meira gúm upp í sig.  Þessi leikur hjelt áfram alla leið.
    Einu sinni fór jeg aftur í stjel flugdrekans, og þar var hægt að sjá út.  En þá sást ekkert annað en hvít ský.  Jeg spurði, hve hátt við værum komnir upp í loftið.  "7,500 fet,"var svarið.  Þetta eru 2286 metrar.  Til samanburðar er Öræfajökull, þar sem hann er hæstur, rúmlega 2100 metrar.  Það var nokkuð kalt, þangað til við nálguðumst Skotland, þá fundum við greinilegan mun.  Höfðum við þá sennilega flogið nokkru lægra.
   Jeg leit á klukkuna og sagði við sjálfan mig: "Eftir hálfan tíma erum við komnir!" En stuttu eftir fann jeg að flugvjelin kom við jörðina, og innan skamms stóð hún kyr.  Við vorum komnir til Prestvíkur (Prestwick). Þá fóru menn að týnast út um opið, sem við höfðum farið inn um, á malbikaða sljettu í steikjandi sólskini.  Við höfðum verið nákvæmlega 5 klst. 20 mín. á leiðinni.  En hvað það var heitt!  Mitt fyrsta verk var að rífa þykku, stoppuðu hlífðarfötin af mjer, mjer varð hálfilt í hitanum.  Þá fóru allir farþegarnir í stóra, fallega höll, þar sem öll afgreiðsla fór fram.  Alt var skipulagt með mikilli nákvæmni, svo að alt færi fram án tímatafar.  Vegabrjefin voru skoðuð og farangurinn athugaður.  Þar gátu menn símað, sent símskeyti, keypt farmiða með járnbraut, fengið mat, lesið dagblöðin og hvílt sig.  Þægilegir bekkir og hægindastólar voru hjer og þar í hinni miklu höll og pálmatrje inn á milli.  Mjer var tikynt að "Lúxus"-bifreið mundi flytja farþegana til Kilmarnock kl.9 e.h., og að næturlestin til London mundi taka okkur þar, á leið sinni frá Glasgow.  Ef jeg vildi, gæti jeg fengið svefnklefa.  Þetta þáði jeg, því að jeg var orðinn þreyttur mjög.  Eftir ágæta máltíð í borðsalnum, gekk jeg út til að skoða flugvöllinn, ásamt foringja nokkrum í breska flotanum, sem jeg hafði kynst lítillega.  Flughöllin í Prestvík hafði einu sinni verið höfðingjasetur.  Húsinu hafði verið breytt, og mikill turn bygður upp yfir það, til þess að stjórna lendingu og brottför flugvjelanna, sem komu og fóru við og við, úr öllum áttum og frá mörgum löndum.  Umhverfið var mjög fagurt.  Til dæmis, við höfðingjasetrið var inndæll rósagarður, með gangstígum milli rósatrjánna og sætum hjer og þar.  Þessum garði var haldið við, og þeir, sem störfuðu á flugvellinum, gátu hvílt sig í honum, teigað að sjer ilm rósanna og notið hinnar töfrandi fegurðar.
   Eins og fyr var getið, var flugvjelin af "Liberator" gerð.  Þetta orð er dregið af "Liberty" ("frelsi") og má þýða það "frelsari", enda gefur Geir Zoega þessa þýðingu í orðabók sinni. Það þýðir auðvitað, að þessi flugvjel átti að stuðla að því að þjóðirnar, sem verið höfðu árum saman undir oki kúgaranna, fengju frelsi.
   Ferð þessi minnir mig á aðra ferð, sem jeg á fyrir höndum, ef til vill áður en langt um líður.  "Frelsari" vor, hinn sanni "Liberator", hefir lofað að kalla alla þá, sem gengið hafa honum á hönd, í burtu "til fundar við hann í loftinu", og munum vjer síðan vera með honum alla tíma. (I. Þess 4. 16.-17.)  Engin kenning kemur skýrar fram í nýja testamentinu en þessi, og eigum vjer að lifa eins og þeir, sem bíða herra síns.  Koma hans, sem getur orðið, þegar minst varir, á að varpa birtu sinni fyrir fram yfir allt vort líf, svo að alt sje gert og sagt í hinu bjarta og ósegjanlega fagra ljósi væntanlegrar endurkomu hans.  Hjer skiljast að trúaðir og vantrúaðir, endufæddir og óendurfæddir, því að tilhugsun þessi mun vera afarþvingandi þeim, sem hafa enga þekkingu á honum nema að nafninu til; en hún er hin dásamlegasta öllum þeim, er hafa lært að þekkja hann persónulega.
                            (Framhald).
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 55
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 99529
Samtals gestir: 20082
Tölur uppfærðar: 19.7.2024 10:31:58

Tenglar