Þóra Guðrún Pálsdóttir

19.06.2022 14:28

Þóra Guðrún Pálsdóttir, lést þann 9. mars árið 2022, 95 ára að aldri. 

Árið 2017, þá rúmlega níræð, gaf hún út bókina „Arthur Gook: Trúboðinn á Akureyri“ og var það bókaútgáfan Tindur sem gaf út. Innihald bókarinnar er það sama og er hér á síðunnni, nema í prentformi, og það gladdi hana mjög að sjá textann í bókarformi. Til að lesa um Arthur Gook þá þarf að setja músarbendilinn yfir "Bók um Arthur Gook" og sjást þá undirkaflar þar fyrir neðan.

Hér á síðunni er líka að finna bloggfærslur Þóru. Hún hafði gaman af því að koma hugsunum sínum í orð og sést það berlega í skrifum hennar. Ýmist fjalla færslurnar um daglegt líf eða atburði fortíðar. Til að lesa bloggfærslur þarf að fara í valmyndina hér til hægri og velja mánuð og ár. Síðustu bloggfærsluna skrifaði Þóra í nóvember 2013 og var þá Ásgrímur seinni maður hennar orðinn veikur af krabbameini. Hann lést í janúar 2014.

Skömmu síðar datt Þóra og mjaðmarbrotnaði og fór heilsu hennar smátt og smátt hrakandi eftir það. Í júlí 2019 flutti hún á hjúkrunarheimilið Hrafnistu á Nesvöllum og átti heimili þar til dánardags.  

 

18.03.2022 12:10

 

Kæru vinir og vandamenn mömmu, Þóru Guðrúnar Pálsdóttur.

Elsku mamma okkar fékk langþráða hvíld snemma að morgni miðvikudags 9. mars. Hún lést á Hjúkrunarheimlinu Nesvöllum eftir að hafa hrakað smám saman síðustu vikur.

Útförin verður haldin frá Ytri Njarðvíkurkirkju föstudaginn 25. mars kl. 13.

Með kærleikskveðju,

Palli, Anna og Guðný

 

P.S. Síðasta bloggfærsla mömmu er árið 2012, þannig að það þarf að skrolla langt niður í "Dagatalinu" hægra megin í valmyndinni til að finna eldri færslur. 

 

 

 

11.01.2014 20:55

Kæru vinir og vandamenn

 Guð gefi ykkur öllum gleðilegt nýtt ár. Þökkum liðin ár. Ég skrifaði seinast smápistil á síðuna þann 14 nóvember 2013. Af Ásgrími er það helst að frétta að hann átti bókaðan tíma 12 desember hjá lækni, sem tekur á móti sjúklingum suma daga hér í næsta húsi. Þá höfðu hjúkrunarkonur frá heimahjúkrun komið til hans daglega um skeið til að sprauta hann við blóðtappa í vinstra fæti. Sem betur fór hafði hann ekki haft verk í fætinum þrátt fyrir mikinn bjúg eða bólgu.

   Aðfaranótt þess 12 des var hann slæmur af verkjum innvortis, svo hann treysti sér naumast að fara til læknis um morguninn, þótt í hjólastól væri, í næsta hús. Heimahjúkrunarkona hafði þá samband við lækninn og þau komu svo bæði. Læknirinn sendi hann þá beint í sjúkrahúsið.

Eftir myndatökur varð ekkert úr því að hann kæmi fljótt aftur. Hann var settur á sýklalyf um tíma en hættur á þeim núna. Líkamlegri færni hans hefur frekar hrakað, getur ekki auðveldlega snúið sér í rúminu hjálparlaust. Hann virðist ekki hafa orku til að líta í bók eða horfa á sjónvarp. Var líka að mestu hættur því hér heima. Hann þekkir samt alla og gleðst við að sjá vini sína.

   Oftast segir hann að sér líði vel og hann hefur alltaf hrósað umönnuninni á sjúkrahúsinu. Við erum ykkur öllum þakklát sem minnist hans í bænum ykkar og hann sendir ykkur öllum kæra kveðju sína.

 

14.11.2013 16:51

Að opna aftur

Það er orðið langt síðan ég hefi skrifað eitthvað á síðuna mína. Það reynist sumum erfitt að byrja aftur á verkefni sem hefur legið lengi á hillunni.  Ég sé að ég hefi skrifað seinast í október 2012. Það má segja að síðan þá hafi orðið mikil breyting hjá okkur. Eftir að húsbóndinn hafði fengið blóðtappa í höfuðið í Júní 2012. þá hentaði okkur ekki lengur það húsnæði sem við höfðum. Þar voru útitröppur uppá aðra hæð en vegna svimans sem sótti á hann var ég alltaf hrædd um hann í tröppunum. Hann datt þó aldrei þar, sem betur fór. Við fórum svo að skoða ýmsa möguleika. Settum okkar íbúð á sölu. Enn það gekk ekki upp. Þá ákváðum við að leigja íbúðina og það gekk fljótt.

 

Þá fórum við að leita okkur að íbúð, sem væri okkur hentugri, til að taka á leigu. Við fundum hana í húsi sem var byggt 2009 fyrir eldra fólk. Þá erum við líka komin nær kirkjunni sem við höfum sótt og einnig mjög nálægt verslun. Hér þurfum við miklu minna að nota bílinn, sem er gott. Útsýni frá hinum staðnum var nú yndislegt  en það er það líka hér. Þessi íbúð beið víst alltaf eftir okkur, mætti halda, því enginn hafði búið í henni fyrr. Nú skilst mér að næstum allar íbúðirnar í þessu stóra húsi séu komnar í útleigu, svo við vorum heppin og eru bæði ánægð. Af heilsufarsástæðum hefur lítið orðið úr kirkjusókn hjá okkur, því þegar líða tók nær þeim degi er við skyldum flytja fór Ásgrímur að kenna sjúkdóms i maga með ógleði og uppköstum við máltíðir ásamt þrekmissi. Þetta var alveg nýtt fyrir honum því hann hafði ekki verið kvillasamur.

 

Margra vikna bið var eftir að komast hér í magaspeglun en tengdadóttir hans fann til með honum. Hún ákvað að leita uppi lækni í Reykjavík er hún hafði áður haft kinni af og bað hann ásjár.  Það bar þann árangur að Ásgrímur komst mun fyrr í magaspeglun en annars hefði orðið. Úrskurður úr þeirri rannsókn reyndist vera magasár. Þessi læknir vildi fá fleiri blóðprufur og sneiðmynd og var þá gerð önnur ferð. Til að fá úrskurð úr þeim rannsóknum vorum við kölluð til viðtals. Fengum að vita að hér væri illkynja meinsemd búin að hreiðra um sig. Líklega er hún löngu búin að koma sér fyrir, þótt sá sem hýsti hana væri grunlaus um annað en hann hefði góða heilsu þar til þessi vanlíðan kom allt í einu.

 

Við erum nú bæði orðin svo gömul hjónin, að bara þess vegna, gætum við átt von á vistaskiptum hvenær sem væri. Páll postuli óttaðist ekki dauðann. Hann sagði:

   Ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum. Róm 8. 38.-39.

27.10.2012 22:27

Kýr eru merkilegar

Við fengum nokkra góða gesti frá Danmörku í heimsókn á liðnu sumri. Meðal þeirra var sonarsonur minn, sem hefur alist upp í Danmörku og er nú orðinn fulltíða maður. Faðir hans fór á sínum tíma til Danmerkur að læra mjólkurfræði. Hann settist þar að eftir að námi lauk, við það starf sem hann lærði en var alltaf með íslenska hesta á sínum snærum í hjáverkum. Ég var búin að heyra að sonur hans sækti ekki í það tómstundagaman fjölskyldunnar þótt systur hans gerðu það. Nú gafst mér tækifæri að spyrja hann sjálfann hver væru hans uppáhaldsdýr, fyrst hann hefði ekki áhuga á hestum. Það kom alveg flatt uppá mig er ég heyrði hann segja að það væru kýr. Reyndar vissi ég að pilturinn var búinn að mennta sig til að verða bóndi og ef til vill gefur sú menntun fleiri möguleika. Mér hafði þótt mjög vænt um öll dýrin sem voru á heimilinu sem ég ólst upp á. Hestar og kettir voru held ég efstir á vinalistanum hjá mér. Þar næst held ég hundurinn en kýrnar lentu í númer 4.

 

 Frá kúnum fannst mér samt alltaf stafa miklum friði og ró. Mér leið bara vel í návist þeirra en ég hafði aldrei lesið neinar frægðarsögur af þeim á borð við hesta, sem höfðu bjargað mönnum úr lífsháska í hættulegum vatnsföllum og leitt knapann heilan heim þegar hann var orðinn alveg rammvilltur í myrkri og hríð og sá þann kost einan, að láta hestinn sem hann reið ráða för. Þannig var líka með forustusauði.

Þeir gátu bjargað heilli hjörð með sér frá að farast í stórhríðum, með því að spá rétt í veðrið og halda til húsa í tæka tíð. Kettir gátu líka spáð. Það voru öðruvísi spár. Þeir spáðu gestakomum. En ég trúði víst ekki nóg á þeirra spár til þess að fylgjast með hvort þær rættust, enda hafði ég ekki séð neitt skráð í bækur um að þær hefðu yfirleitt ræst. Hundar voru mikil nytjadýr á heimili til að hjálpa mönum að hafa stjórn á hinum dýrunum. Ef til vill hefur þá dreymt fyrir gestakomum. Ég sá hundinn okkar dreyma og urra uppúr svefni en hann gat ekkert sagt frá neinu þegar vaknaði.

 

Svo ég snúi mér að öðru. Síðan húsbóndinn hér á heimilinu fékk þetta áfall sem ég hefi áður lýst hér á blogginu, þá getur hann ekki fengist vil allt það sama og áður. Þessvegna hefi ég reynt að fara oftar í bókasafnið og velja þjóðlegan fróðleik og ævisöguþætti sem hann hefur helst gaman af að lesa og ég líka. Seinast fékk ég bók sem heitir, Á lífsins leið" þar sem fjöldi þjóðþekktra manna segja frá, þeirra á meðal Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Honum var sem unglingi komið í sveit eins og tíðkaðist hér á landi á þeim tíma er hann var að alast upp.(Bls.153 Hjá góðu fólki.) Hann var í fimm sumur á bænum Hæli í Flókadal.  Greinilega hefur hann lifað sig inní hlutverk sitt þar. Hann segir: Þótt réttarferðir væru skemmtilegar og ég yrði fjáreigandi, var ég lítið fyrir sauðfjárbúskap. Á Hæli tók ég ástfóstri við kýr og mér þótti fjósið skemmtilegasti vinnustaðurinn. Enn þann dag í dag líður mér bezt í fjósinu á Hæli. Mér fannst gaman að mjólka og skemmtilegt að moka flórinn.

 

 Ég rak kýrnar á morgnanna og sótti þær á kvöldin. Flutti mjólkina á hestvagni hálftímaleið til móts við mjólkurbílinn.. Svo telur hann upp þá, sem hann hitti og voru í sömu erindagjörðum að flytja mjólk frá sínum bæjum.. Þá segir hann: ,,Ég fylgdist vel með mjólkurbókhaldinu, þar sem skráð var nytin í hverri kú og fitumagnið í mjólkinni. Ég kynnti mér skírslurnar yfir kýrnar mörg ár aftur í tímann. Ég las mér til um kýr í Búnaðarblaðinu Frey.. Áhugi minn á kúm hefur ekki minnkað með árunum. Það yljar mér alltaf um hjartaræturnar, þegar Morgunblaðið birtir fréttir og myndir af nythæstu kúm á landinu." Þetta sagði Styrmir og það gleður mig að lesa þetta og ég sé að Drengurinn minn er í góðum málum, að þykja vænna um kýr en önnur dýr.

14.09.2012 22:39

Hvað er að frétta

                             Hvað er að frétta?

 

Það er helst að frétta að Ásgrímur útskrifaðist af sjúkrahúsinu og kom heim mánudaginn þrítugasta júlí. Hann fer í sjúkraþjálfun tvisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga klukkan 12. Af því ég þarf að bíða eftir honum þá datt mér í hug að fá að gera eitthvað á meðan hann er í boltaleik við sjúkraþjálfarann til að styrkja jafnvægið, þá fæ ég að ganga á bretti sem á stendur: Bannað að hlaupa á þessu bretti". Ég passa því að stilla það á ekki of mikinn hraða svo ég skemmi nú ekkert í tækjasalnum, annars veit ég ekkert af hverju þetta bann er sett á þetta eina bretti. Ég er nú ekki meira en fimm sex mínútur á brettinu og fer þá í fleiri tæki. Þessi hálftími líður nú fljótt og á eftir förum við heim og þá er að leggja í stigann upp á aðra hæð. Hann er frekar ógnandi fyrir þá sem ekki hafa gott jafnvægi eða hættir til svima. Þetta hefur gengið slysalaust hér heima en húsbóndinn varð nú samt fyrir því 1. september að hrasa í lágum stiga í öðru húsi en slapp furðulega vel miðað  við að stakkurinn hans skarst sundur yfir vinstra herðablaði og hann fékk rauða rönd þvert yfir bakið sem blæddi þó ekki úr. Hann hefur ekki haft nein óþægindi af þessu. Neðri vörin sprakk og þurfti að sauma einhver spor en það var svo lystilega gert að enginn tekur lengur eftir því. Það má því segja um slysin hjá okkur báðum að þau hafi frekar verið sýndarslys en veruleika. Samt orðið til þess  að mér finnst ekki svo eftirsóknarvert að búa í húsi með útitröppum lengur. Breyting gæti þýtt að fórna fögru útsýni en ávinna annað í staðinn.

 

En svo ég snúi nú að öðru þá sá ég auglýsta dagsferð eldri borgara á Suðurnesjum. Ég fékk áhuga fyrir þessari ferð. Það átti að sækja um far fyrir þriðja september en ferðin skyldi farinn þann 6. Ég renndi upp að skrifstofu SBk fyrir hádeigi þann 1.Sept. Það fór eins og mig grunaði, að skrifstofan var lokuð. Ég var orðin of sein. Ég ákvað samt að prófa á mánudag, sem ég og gerði. Þá var allt upp pantað en ég var sett á biðlista. Svo hringdi konan í mig sama dag og sagði ég gæti fengið pláss. Þetta var ákveðið og greitt samstundis. Ég mætti svo á Nesvelli þann 6. September. Við brunuðum svo af stað þaðan í gríðar stórri rútu og héldum sem leið lá í átt til Reykjavíkur. Beygt var við ákveðin gatnamót þar sem leiðin lá til Bessastaða og sá vegur valinn, því hér var höfðingjadjarft fólk á ferð sem heimsækja vildi æðsta mann þjóðarinnar. Hann sýndi okkur þann heiður að vera heima en frúna sáum við ekki. Hún hefur ef til vill verið í útlöndum að mæta í hans stað þar sem viðeigandi hefði verið að hann mætti. Þetta er getgáta.

 

 

Þegar til Bessastaða kom var okkur fyrst skipt í tvo hópa þar sem annar átti að skoða kirkjuna á meðan hinn hópurinn skoðaði kjallara hússins. Svo var skipt aftur svo enginn gat sagt að hann hefði farið nokkurs á mis. Eftir það fór svo aðal móttökuathöfnin fram í stórum sal þar sem forsetinn heilsaði okkur öllum með handabandi og bauð okkur velkomin. Það fannst á að honum þótti við ætla okkur lítinn tíma því margt væri að sjá og skoða. Hann drap á ýmislegt úr sögu þessa merka staðar og að lokum var okkur boðið uppá kaffi og köku. Þá vorum við þegar orðin á eftir áætlun. Næst lá fyrir að koma sér til Reykjavíkur og skoða Alþingi og Landnámsgarðinn. Þar var sami háttur hafður að hópurinn skipti sér og sumir fóru í Alþingi og aðrir í Landnámsgarðinn. Það var nú bara gaman að koma í Alþingishúsið fannst mér. Allt var svo fágað og friðsælt. Engir þar til að kasta milli sín fjöreggi þjóðarinnar, Ég á við sjálfstæði þessa lands. Það var sem sé sumarfrí. Það hæfir ekki að varpa  rýrð á þá þjónustuna sem þar fer fram, miklu heldur eigum við að biðja fyrir þeim sem þar starfa, að Guð snúi verkum þeirra til góðs fyrir land og lýð. Ekki vantar þá nú eljuna suma hverja að minnsta kosti.

 

 

Svo lá nú leið okkar þangað sem við áttum að fá súpu. Einhvern vegin kom það svo fyrir mínar sjónir að við hefðum átt að vera fyrr á ferðinni. Það var komið svo margt fólk. En þetta hafði nú allt góðan endi og við fengum ágæta súpu og gátum valið á milli tveggja tegunda. Við áttum að skoða Sjóminjasafnið en ég kom mér nú hjá því. Það er langt síðan mér fannst ég verða svo þreytt í fótum við að ganga um og skoða söfn og standa kyrr við að lesa áletranir o.s frv. Leið okkar lá nú líka að Vesturgötu 7, Félagsmiðstöð eldri borgara þar sem við fengum kaffi og kræsingar. Svo áttum við eftir að fara aftur niður að höfn og þeir sem vildu eða treystu sér gátu farðið um borð til að skoða eitthvert skip. Ég fór nú ekki og það voru fleiri sem ekki lögðu í það. Fyrir bragðið veit ég ekki hvað skipið hét. Þetta var full dagskrá hjá okkur þótt einhverju væri sleppt. Heimferðin gekk ljómandi vel og við vorum svo heppin með veðrið. Ég var svo næstum fyrirfram viss um að Guð mundi gefa gamla fólkinu gott veður. Bestu þakkir fyrir samveruna. Þóra Pálsdóttir.

 

06.08.2012 18:10

Ný reynsla

                                                Ný reynsla

 

Þið eruð búin að lesa um það sem kom fyrir húsbóndann en hann er nú ekki einn um það að prófa eitthvað nýtt. Það varð nú samt ekki eins alvarlegt hjá mér eins og honum. Þann 11 júlí var ég að koma frá því að heimsækja hann og hugsaði mér að líta inní blómabúð á leiðinni heim. Það var nú lítið að sjá innandyra en útandyra var mikið samsafn af blómum. Þau voru nú mörg hver vesöl og vindbarin að sjá og ekki virði verðmiðans, útsalan kemur ekki til með að bjarga þeim en önnur voru nú sprækari. Ég ætlaði ekki að kaupa nein dýr blóm en mér finnst gaman að horfa á þau. Mig dreymdi um það fyrr i sumar að kaupa fáeinar stjúpur í kassa til að hafa á svölunum en af því ég frestaði framkvæmdinni þá voru allar stjúpur uppgengnar í landinu er ég ákvað mig. Samt fannst mér þó ekkert orðið áliðið sumars en það er ekki alltaf gróði að vera lengi að hugsa sig um. ,,Sá sem sífellt horfir í skýin sáir ekki." Nú ég endaði þarna með því að velja nokkrar fjólur í potti, fór svo og borgaði og ætla á eftir að ganga út um dyrnar eins og vanalega. Ég hefi aldrei séð eða tekið eftir að þessar dyr væru lokaðar.

 

Búmm. Ég Hafði í staðinn gengið á lokaðan glervegg og kastast frá honum niður í gólfið. Það hópaðist þarna að mér fólk sem fór að bisa við að koma mér á fætur aftur. Þetta var mikið högg heyrði ég einhvern segja. Það staðfestist með því að það þaut strax upp stærðar kúla til hægri við hvirfilinn. Ég skil ekki hvernig ég fór að því að fá áverka á þennan stað en hvergi annarstaðar á líkamann. Ég man nú ekki fyrir víst hvort það var þarna eða á sjúkrahúsinu eða hvoru tveggja að ég var spurð hvort ég ætti ekki börn, sjálfsagt til að, þau gætu tekið einhverja ábyrgð. Jú sagði ég, eitt í Danmörku, eitt í Noregi og eitt á Akureyri. Ég hefði nú getað sagt að ég væri  ekki alveg umkomulaus samt, þótt ættingjarnir væru ekki alveg í handraða en ég var ekki alveg viss um að ég væri nógu veik til að fara á sjúkrahús. Þetta er rosastór kúla segir einhver. Ég þreifaði og fann það og hún var rök. Einhver smá vilsa kom í hendina en ekkert blóð. Einhver viðstaddra tók á sig ábyrgð fjarverandi ættingja og hringdi á sjúkrabíl. Svo var farið að spyrja mig ýmissa skynsamlegra spurninga eins og um ártal, nafnúmer og fleira sem ég svaraði óhikað.

 

Svo kom sjúkrabíllin. Þeir hefðu nóg að gera, hugsa ég,ef öll heimili hefðu jafnmikla þörf fyrir þjónustu þeirra eins og mitt heimili, það er svo stutt síðan þeir fóru með manninn minn á sjúkrahúsið. Það var ung stúlka á vaktinni sem tók á móti mér. Hún fór nú líka að prófa hvað ég vissi mikið um sjálfa mig og umhverfið sem ég hrærðist í. Mér fannst hún hefði viljað láta taka mynd. En nú eru röntgenfræðingar ekki á vakt eftir klukkan 4 á daginn á þessu sjúkrahúsi. Það þyrfti þá að fara til Reykjavíkur. Mér fannst nú það liggja fyrir að ég fari heim og bið um að fá lánaðan síma. Hún vildi vita í hvern ég ætli að hringja og ég segist ætla að hringja í tengdadóttur mannsins míns, sem ég og gerði. Bað hana að koma og sækja mig. Hún sagðist koma strax og stóð við það eins og vænta mátti. Það varð að samkomulagi þeirra á milli að hún tæki ábyrgð á mér yfir nóttina. Svo ég fór með henni heim. Háttaði í góðum tíma en sofnaði ekki blund. Var eitthvað svo uppveðruð þótt ég finndi ekkert til. Ég hugsa nú að Dísa hafi heldur ekkert sofið. Hún hefur ábyggilega tekið ábyrgðina alvarlega. Um morguninn bað ég hana að aka mér heim og síðan hefur þetta gengið ágætlega. Kúlan enn ekki horfin en er horfin til betri vegar.

                                   ´´

28.07.2012 21:52

Ótitlað

                   27 júlí 2012

 

     Hættu að lesa og farðu að skrifa smá pistil á síðuna þína, segi ég við sjálfa mig. Það er eitthvað sem hefur verið fjarlægt mér að undanförnu enda orðið langt síðan ég hefi reynt að skrifa.

  Það er helst í fréttum að 16 júní kom það fyrir bónda minn að hann átti í erfiðleikum með að rísa uppúr sófanum sem hann sat í. Mér brá því að þetta var alveg nýtt. Ég reyndi að hjálpa honum og það hafðist. Hann komst í rúmið þótt hann svimaði mikið. Stuttu seinna var hann aftur kominn fram og allt virtist í lagi.

Morguninn eftir kvartaði hann um svima, sjónskerðingu og höfuðþyngsli. Ég varð smeyk og hringdi strax í sjúkrahúsið þótt helgidagur væri, bæði sunnudagur og 17 júní. Ég fékk mjög hlýleg og hvetjandi andsvör í símann. Mikið var ég fegin. Við máttum koma strax. Við af stað og þurftum að bíða um stund því fleirum þurfti að sinna þennan morgunn. Svo birtist ungur læknir og umsvif hans vöktu mér traust. Hann lét  engan drátt á verða er hann hafði skoðað hann og sendi hann þegar í blóðprufu og myndatöku sem ekki sýndi neina blæðingu. Hann sagði að hár blóðþrýstingur gæti gefið öll þessi einkenni sem um væri að ræða en útilokaði ekki að um annað gæti verið að ræða. Hann pantaði með hraði tíma fyrir hann hjá augnlækni í Reykjavík sem tæki á móti honum um hádegi á mánudegi.

 

Ég er nú ekki vön að aka inní Reykjavík en treysti því að Ásgrímur gæti sagt mér til. Ég vil alltaf leggja snemma af stað ef eitthvað kæmi uppá í ferðalaginu svo við vorum komin langt á undan tímanum. Settumst bara inn og biðum en þurftum ekki að bíða lengi því fljótlega var kallað á hann. Af einhverjum ástæðum virtist sá tími vera laus. Þannig komumst við fyrr að. Útúr þeirri skoðun kom að hann væri með gláku á byrjunarstigi. Það var að vísu gott að vita það sem fyrst. Það er víst mikils um vert til að geta hafið  lyfjagjöf án tafar. Læknirinn skrifaði uppá glákudropa og boðaði hann aftur í viðtal 4. júlí. Þá bauðst vinur okkar til að aka honum inn eftir og þáðum við það. Sagði þá læknirinn að þrýstingurinn í auganu hefði minkað mikið.

Gott var nú að heyra það. Honum hafði liðið svona upp og ofan og áfram verið með þyngsli í höfðinu og svima öðru hverju. Þann fimmta júní fór ég með hann á heilsugæslustöðina til að láta  mæla blóðþrýsting. Læknirinn sem skoðaði hann fyrst hafði   mælt svo fyrir, þar sem hann var að láta hann prófa Blóðþrýstingslyf.

 

Þann sjöunda júlí voru komin ný einkenni. Þá var hann búinn að fá dofatilfinningu í tungu og munn og víðar í vinstri hlið. Vorum sammála um að hringja í sjúkrahúsið og máttum koma strax. Minnir að mér væri ráðlagt að kalla á sjúkrabíl. Allavega gerði ég það. Sjúkrabíllinn kom innan stundar og þeir leiddu hann niður tröppurnar. Okkur var svo boðin hvíldarinnlögn fyrir hann og þáðum við það. Hann missti aldrei mál eða hugsun og lamaðist ekki. En jafnvægið raskaðist og sjónin  skertist. Hann var svo rannsakaður frekar og tekinn mynd aftur. Eftir það kváðu þeir þetta vera blóðtappa í höfði. Hann var svo aftur sendur inní Reykjavík miðvikudag 18 júlí til frekari myndatöku og einhverrar annarar ransóknar í Dómus Mediga. Sonur hans fór með hann. Mikið er gott að eiga svona góð sjúkrahús og yndislegt fólk sem vinnur þar. Ásgrímur hefur verið í alveg markvissri þjálfun hér á sjúkrahúsinu í Keflavík og farið ótrúlega mikið fram með jafnvægið þótt svimi og höfuðþyngsli geri vart við sig.  Nú telja þau ekki lengur þörf á að hann gangi með grind og stafur látinn nægja. Í dag kom Ásgrímur heim í  helgarleyfi.og verður fram á sunnudag. Svo á ég von á að hann komi fljótt alkominn. Margir hafa beðið fyrir honum og okkur báðum og hringt og spurt um hann. Þeim eru færðar bestu þakkir og fyrst og fremst þeim Guði sem hlustar á bænir barna sinna.

 

20.05.2012 23:36

Laugardagur

Laugardagur

 

Laugardagsmorgunn 5.Mai 20l2 lögðum við hjónin af stað uppí Vindáshlíð á landsmót Gídeonfélaga á Íslandi. Við vorum vöknuð klukkan hálf sjö. Áætlunin var að leggja af stað hálf átta. Ég er ekki vön að fara svona snemma á fætur, er meiri seinniparts manneskja. Veðrið var alveg unaðslega fagurt, glaða sóskin og heiður himinn. Frekar lítil umferð var á Reykjanesbraut á þessum tíma. Klukkan rúmlega 8 höfðum við Hamrahlíðina í Mosfellssveit á hægri hönd. Hammrahlíðin vekur upp þægilegar minningar  því að þar settumst við að um tíma er við, móðir mín og bróðir fluttumst austan úr æskusveitinni okkar á sínum tíma fyrir margt löngu.

 

Ætlunin var að fara uppúr Mosfellssveit og þá leiðina í Vindáshlíð. Ég hafði aldrei farið þá leið áður eða komið í Vindáshlíð. Ásgrímur hafði aftur á móti farið þangað á mót fyrir allmörgum árum. Þar sem hann er oftast svo ákaflega minnugur á leiðir sem hann hefur farið áður þá var hann alveg öruggur og datt ekki í hug að tefja sig á að lesa á leiðarmerki, sem sett höfðu verið upp vegfarendum til leiðbeiningar. Ég aftur á móti er ekki frábitin að vilja lesa þann fróðleik, sem sannmálugt fólk hefur sett upp á svona vegvísa til að varna einföldum frá að villast af réttri leið.

 

    Tilraunir mínar til þess runnu nú allar út í sandinn því auðvitað var bílstjórinn að flýta sér. Þetta fór allt vel og við náðum því að geta borðað morgunmatinn með þeim fyrstu í Vindáshlíð. Svo var bænastund í salnum klukkan 10.                   10.15. flutti Bill Valters, framkvæmdastjóri. Alþjóðaútbreiðsludeildar erindi sem hann nefndi. Vinna fólk fyrir Krist. Klukkan 11 15 var Vitnisburðarstund. Klukkan 12 Hádegisverður. Klukkan 13 Aðalfundur Gideonfélagsins á Íslandi.                 Það sem honum tilheyrði og á eftir kom entist til kl.15. Þá var kaffi.

 

  

 Þar eftir fundir nýrra stjórna.

 Á meðan máttu þeir sem engu þurftu að stjórna, um frjálst höfuð strjúka, fram að hátíðakvöldverði k 7. Það var ágætt að geta aðeins heilsað kunningjum sem við höfðum ekki séð lengi. Eftir kvöldmat átti að vera hátíðasamvera. Við ákváðum að fara heldur heim strax eftir matinn, þar sem við erum ekki svo ung lengur. En ferðalagið gekk ágætlega fram og til baka.

04.04.2012 19:26

Blóm vaxa önnur deyja

Það er nú orðið langt síðan ég hefi haft drift til að taka pennann. Ég verð nú annað hvort að taka mig á eða hætta. Það er nú af gæludýrunum að segja, að Ástareldarnir halda áfram að vaxa, hver í sínum potti og er farið að glitta í smá óútsprungna blómknappa á einum þeirra. Burknarnir halda áfram að vaxa. Þó er ég ekki alveg ánægð með þá , finnst þeir leggja allt í lengdina en finnst þeir hugsa minna um þversum blaðvöxtinn sem hefur svo mikið að segja uppá fegurðina. Friðarliljan er eðlilega heilbrigð að sjá. Svo keypti ég Hortensíu mest af því að mér fannst hún svo ódýr. Hún var í uppvexti með 4 blómbrúska sem enginn vissi hvernig yrðu á litinn. Ég lifði í voninni um að þeir yrðu bláir enda sagt í bókinni Trivsel med stueplanter að þeir gætu orðið það en því aðeins, að moldin væri blönduð með alominium sulfat Ég mundi aftur til minna unglingsára þegar ég dvaldi um tíma á Háteigsveginum hjá bróður mínum og mágkonu.  Þá stóð á skrifborðinu hans Hortensía með undurfögrum og stórum og bláum blómbrúskum. 


Þessi Hortensía heima hjá mér stækkaði nú líka, aðallega þó blómbrúskarnir sem voru í upphafi eitthvað út í grænan lit urðu hvítir og mjög fallegir en ég beið eftir bláa litnum. Ég hafði stjanað við hana og passað að hún hefði nóg vatn enda sagt í bókinni að hún gæti þurft vökvun tvisvar á dag. Einn daginn sá ég að henni var brugðið eins og hún hefði fengið slag. Henni versnaði sjúkdómurinn meir og meir. Seinast var ekkert eftir nema fimm blöð með litlu lífi og einn deyjandi blómbrúskur sem bíður sinnar aftöku. Þetta fannst mér nú heldur dapurt að missa helstu skrautjurtina úr hópnum. Það minnti mig á að meira þurftu margir foreldrar að reyna áður fyrr eða uppúr næstsíðustu Aldamótum, þegar fjöldi af ungu fólki og efnilegu var lostinn af berklaveikinni. Margir féllu, eða urðu ekki samir síðan. Þá varð mikil sorg á mörgum heimilum.


Á því tímaskeiði var berklahælinu á Vífilsstöðum komið á fót og seinna öðru á Kristnesi í Eyjafirði. Enn er hægt að rekast á fólk sem gekk í gegnum þetta erfiða tímabil. Ég held að fólk sem gengið hefur í gegnum mikla erfið leika, hafi oft meiru að miðla af lífsvisku.

23.02.2012 21:55

Til Siglufjarðar

                                       Siglufjörður

 

Daginn eftir jarðarför Irene fórum við til Siglufjarðar. Ásgrím langaði auðvitað að skreppa þangað og var búinn að hugsa sér að taka bílaleigubíl en vinur hans bauðst til að fara með hann og var ég ákaflega fegin því. Fyrir mér var nú spursmál um gott veður og færi. Ég ákvað að fara líka þótt við værum hjá dóttur minni sem ég sé ekki mjög oft. Ferðin gekk mjög vel en mikill var nú snjórinn á Siglufirði og verið að ryðja götur um kvöldið. Fyrst fórum við á sjúkrahúsið að hitta Elínu sem orðin er háöldruð og Ásgrímur búinn að þekkja lengi. Viðdvölin á sjúkrahúsinu varð nú ekki löng því við fórum að hitta vinafólk okkar á eftir. Urðum að haga því ferðalagi eftir hvaða götur væri búið að ryðja. Við höfðum ekki setið lengi á þeim áningarstað þegar þurfti að færa bílinn svo ítan gæti athafnað sig í götunni. Það styttist svo í að við legðum af stað til baka.

 

Ferðin gekk nú vel til að byrja með en ekki leið á löngu þar til bíllin fór að andvarpa og endaði fljótlega með hjartastoppi, svona eins og gerist stundum hjá bílum. Bílstjóranum tókst að hnoða honum í gang og það entist nokkra metra, misjafnlega marga í hvert skipti. Það var eingöngu fyrir óþreytandi og nær óteljandi uppvakningar tilraunir Bílstjórans, að við að lokum náðum til Ólafsfjarðar og lögðum  bílnum þar við bílaverkstæði, stórlega fegin að vera þó þangað komin og setja ekki eftir á óheppilegri stað, eins og inni í göngum. Það var náttúrlega enga þjónustu að fá svo seint að kvöldi á verkstæðinu. Þá var um það að ræða að fá einhvern bíleiganda frá Akureyri til að sækja okkur. Ásgrímur talaði við vin sinn á Akureyri, sem reyndist fús til að vinna miskunnarverkið með því að koma og sækja okkur. Segja mátti að þessum degi lyki nú vel, að því leyti, að við gátum sofið um nóttina í góðu rúmi og öruggum  kringumstæðum.

 

 Morguninn eftir, sem var laugardagur, ók dóttir mín okkur út á flugvöll og gekk sú flugferð samkvæmt áætlun. Bíllin beið okkar þar sem við höfðum skilið við hann við flugvöllinn. Það er alltaf samkoma hjá okkur í Keflavík kl.11 á sunnudögum. Morguninn eftir fannst okkur við vera orðin svo mikil gamalmenni, svo við héldum áfram að sofa ögn enn, blunda ögn enn, eins og segir á einum stað í Biblíunni og þar er það talið hafa válegar afleiðingar, en þar er nú víst átt við, ef það væri gert að reglu. Svo kom nú mánudagurinn og þá styttist í næstu jarðarför.

                                   

 

 Þriðjudaginn 10 janúar átti að jarða Jón Arndal Stefánsson bróður Ásgríms. Hann fæddist í Reykjavík 7, desember 1920 en andaðist 26. desember 2011.  Jarðaförin fór fram frá Dómkirkjunni að viðstöddu fjölmenni. Veðrið var nú ekki sérlega gott um morguninn hér í Keflavík, næstum því blindbylur.  Kristinn sonur Ásgríms og kona hans ætluðu líka að fara og  við fengum að vera með þeim svo það var nú gott, þar sem þeirra bíll er stærri og stæði betur í storminum.

Auðvitað hefur Guðs varðveisla mest að segja við slíkar kringumstæður.

 

Ekki var nú hægt að aka hratt til að byrja með, vegna þess að skyggni var svo lítið, allt þar til komið var inn fyrir Kúagerði. Eftir það var sæmilegra veður til Reykjavíkur. Við komum auðvitað allt of snemma en það gerðu fleiri. Betra að ætla sér nógan tíma eins og veðrið var um morguninn. Hægt að dvelja við minningar frá liðnum samverustundum, þegar við litum inn til þeirra hjóna, Jóns og Auðar í Reykjavík er við vorum þar á ferð. Jón ólst up á Siglufirði og Akureyri  og gekk þar í Barnaskóla. Stundaði nám einn vetur í Iðnskólanum á Akureyri, Þar eftir í Bændaskólanum á Hvanneyri. Það var 1947 að hann braust í að komast til Bandaríkjanna, til Tulsa Oklahoma til að læra flugvirkjun og réðst eftir það, til Flugfélags Ísland og sinnti þar hinum margvíslegustu störfum til 1990.

 

 Það er víst óhætt að segja að þau hjón hafi lagt ást á Norðurlandið sérstaklega  Hrísey því þar hafa þau lengst af dvalið á sumrin hin síðari ár. Við höfum oftar en einu sinni heimsótt þau í Hrísey. Þar áttu þau hús og gátu boðið gestum sínum gistingu, sem við höfum þegið. Þeim virtist hvergi líða betur en í eyjunni sinni. Ótrúlegt hve Jón náði sér eftir áfall sem hann varð fyrir svo að hann þurfti að læra málið upp á nýtt. Það leyndi sér ekki að þar fór viljafastur maður og mér fannst það undravert að sjá hann geta ekið traktornum um eyjuna sína. En svo kom kallið er hann var heim kominn úr síðasta sumarleyfinu.

 Alltaf var jafn indælt að  koma til þeirra. Ekki varð þeim hjónum barna auðið en ólu upp fjögur fósturbörn. Sem betur fór eignuðust þau á þann hátt fjölskyldu, sem mun láta  sér annt um Auði í ekkjudómi hennar. Eftir athöfnina í kirkjunni var erfidrykkja á Flughótelinu. Veðrið mátti heita þokkalegt og okkur gekk vel heim.

18.02.2012 21:08

Kveðja

                               Að kveðja

 

Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma Préd. 3:2. Vinkona okkar á Akureyri Irene Gunnlaugsdóttir Gook  sem fæddist í London 11ágúst 1909 lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð Akureyri 19 des 2011. Hún var jarðsett frá Akureyrakirkju 5. janúar 2012. Fórum við hjónin norður að útför hennar.

Foreldrar hennar voru Arthur Charles Gook trúboði. Hann fékkst við margt á langri leið. Aðal verkefni ævi hans var að boða trú á frelsarann Drottinn Jesúm Krist. Arthur var vararæðismaður Breta til margra ára á Akureyri og svo Irene dóttir hans eftir hann. Móðir Irene var Florence Ethel (fædd Palme) kona Arthurs. Hún lenti í mjög   erfiðri fæðingu að fyrsta barni þeirra. sem kom andvana og að líkindum náði hún ekki fullri heilsu. Henni fannst loftslagið eiga illa við sig. hér og varð það að ráði með þeim hjónum að hún flytti út með börnin, líka til þess, að þau gætu gengið í enskan skóla. Hann leit svo alvarlegum augum á köllun sína frá Drottni um að þjóna honum á þessu landi að hann kaus heldur að lifa hér á landi aðskilinn fjölskyldu sinni löng tímabil, en þau heimsóttu hvort annað og sameinuðu fjölskylduna þannig með löngum hléum. Má því segja að þau hafi kostað miklu til og að Þeir sem nutu ávaxta af  starfi þeirra hér, skuldi þeim þakkir.

 

Börn þeirra hlutu svo menntun sína í Englandi. Irene útskrifaðist með hjúkrunarmenntun 1935 og þar eftir fór hún í ljósmóðurfræði, heilsufræði og heimahjúkrun. Hún starfaði svo í Englandi og mikið var að gera á stríðsárunum. Þegar móðir hennar lést 1938 ákvað Irene að flytja til Íslands til að aðstoða föður sinn. Með tímanum þvarr heilsa föður hennar og hann þoldi illa hið kalda loftslag og taldi sér líða betur úti. Hann flutti svo út til Englands ásamt seinni konu sinni. Irene giftist 1961, ekkjumanni í söfnuðinum Guðvini Gunnlaugssyni kennara og fékk með honum þrjú stjúpbörn, 15,18 og 20 ára. Það var yndislegt að lesa það sem Auður Guðvins svo og börn hennar og barnabörn skrifuðu um Irene og Morgunblaðið birti daginn sem hún var jörðuð.  Þar birtist Irene svo ljóslifandi fyrir augum að betur verður ekki lýst. Mér fannst svo mikið til um hve þau létu sér annt um hana  stjúpbörnin hennar og þeirra fjölskyldur, sem sýnir mér að þau vináttufræ, sem hún sáði í sálir þeirra báru ríkulegan ávöxt henni sjálfri til heilla. er halla fór degi.

 

 Ég er þakklát fyrir árin sem ég átti með þessu fólki. Þegar ég flutti til Akureyrar þá leigði ég fyrst hjá Guðvini og Þóru fyrri konu hans en hún var systir Sæmundar fyrri mannsins míns. Þau voru þá að flytja frá Svalbarðseyri til Akureyrar þar sem Guðvin var búinn að fá kennarastöðu. Þau höfðu tekið á leigu stóra hæð og leigðu okkur mæðgum 2 herbergi útfrá sér. Þakka Guði fyrir gott fólk sem ég fékk að kynnast frá því fyrsta er ég kom norður, þeirra á meðal var Irene Gook.

                                      ______________  

15.01.2012 17:04

Ótitlað

                                HEILSA  GÆLUDÝRANNA

 

Kæru vinir, það er orðið langt síðan ég skrifaði síðast. Allt gott að frétta af nýju gæludýrunum mínum, það er blómunum. Burknarnir eru duglegir að koma með nýja sprota og þeir lengstu hafa sumir náð meira en hálfum metra á lengd.

Friðarliljan mín var að keppast við að koma  blómum á legg en ég vildi heldur að hún að hún legði meira í grænu blöðin svo að ég klippti blómin niður við rót. Ég veit ekki hvort hún er að reyna að leika á mig  af því að ég eyddi hvítu blómunum. Nú blómstrar hún  grænum blómum að hluta til en það leynast nú ekki fræknúbarnir innan í blöðunum. Þeir sýna að hér eru ekki  blöð ein á ferðinni, en hvítu blómin sem komið hafa í bland eru agnarlítil og pervisin. Það er ef til vill óþarfa bjartsýni að halda að blóm og jurtir geti hugsað og villt um fyrir vörslumanni en ég yrði ekkert hissa þótt það ætti eftir að koma í ljós.

 

  Ástareldurinn sem ég fékk í afmælisgjöf í september hefur vaxið og er farinn að blómstra í annað sinn en grænu blöðin eru sum að verða gulleit og veit ég ekki hverju sætir eða hvort það geti verið af ofvökvun.

 Við fórum norður í land og ég tók hin blómin og setti í vatn í baðkerið en skildi Ástareldinn eftir í stofunni því hann er ekki drykkfeldur og dugar eitt staup í nokkra daga. Honum hefur ef til vill leiðst einsemdin í húsinu. Það er allt of þröngt um hann í pottinum og ég verð að reyna að skipta honum.  Upphaflega hafa verið settir þrír afleggjarar í pottinn. Burknarnir voru aftur á móti svo greinilega glaðir yfir að fá að fara í alvörubaðker og þeim hefur farið mikið fram.

                                                                                                                                 Ég er að lesa skemmtilega bók sem heitir ,,UNDRAHEIMUR DÝRANNA". Eftir MAURICE  BURTON, Dr.  Sc. Hún er þýdd af Dr.Brodda Jóhannessyni  og Guðmundi Þorlákssyni, prentuð á Akureyri 1955. Þar segir ,, Sannleikurinn er sá, að ekki verða sett skörp mörk, sem geta staðist, milli plantna og dýra, því að engin slík mörk er að finna í náttúrunni. Enda þótt við tölum um grasafræði og dýrafræði sem tvær aðskildar fræðigreinar, þá getum við þó ekki aðgreint þær til fulls, en stundum er þó þægilegra að hafa þessa skipting".

09.11.2011 23:45

Blóm í stað dýra

         Nýmóðins  gæludýr

 

Ég er uppalin á heimili þar sem venjulegt var að hafa einn til tvo ketti og einn hund. Þetta voru ekki bara gæludýr heldur þátttakendur í rekstri heimilisins. Kötturinn sá um að vernda heimilið fyrir músum og hundurinn sá um að hjálpa til við rekstur á sauðfé og einnig að tilkynna um gestakomur. Okkar hundur fór þó aldri með offorsi móti  gestum eins og mér finnst vera alltof algengt. Eigendur þeirra virðast ekki hugsa um að kenna þeim neina mannasiði. Aumingja póstarnir sem vita ekki hvort heldur þeir megi vænta sér lífs eða dauða þegar villidýrin eru utan dyra er þá ber að garði. Ég mundi gjarnan vilja hafa kött ef maður væri ekki svo bundinn yfir þeim. Þá getur maður ekki farið að heiman í neina langferð. Ég hefi því hugsað mér að hafa blómin mín nýkomnu fyrir mín gæludýr. Samt  þurfa þau nú að drekka.

 

 

Mér var sagt um burknann að hann þyrfti ekki svo mikla birtu né mikla vökvun en honum finnst líklega eins og mér að loftið vera heldur þurt, því hann er duglegur að drekka og líka duglegur að koma með nýja sprota. Ég er búin að skipta honum í tvennt og það líður varla langt þangað til að hann verði kominn í þriðja pottinn. En svo ég minnist nú aftur á vandkvæði þess að hafa venjuleg gæludýr, þá búum við hér í fjölbýlishúsi og rétt utan við stéttina á neðri hæðinni er leiksvæði fyrir börn. Þar er meðal annars sandkassi sem ég óttaðist að minn köttur, ef ég ætti, mundi álíta vera náðhús fyrir ketti hússins. Útaf þeim misskilningi gæti komið óþarfa nágrannakrytur og leiðindi, sem ég væri þá orðin orsök í. Salómon segir í Orðskviðunum: ,,Deil ekki við neinn að ástæðulausu, ef hann hefur ekki gjört þér neitt mein". Ég held að í því felist að maður eigi ekki að ögra nágrönnum sínum.

 

 

              

 

 

14.10.2011 10:05

Pottaplöntur

Þar sem mér hefur stundum fundist loftið í íbúðinni okkar of þurrt, datt mér í hug að leita í gömlum blaðaúrklippum sem ég hafði geymt, til að finna grein sem heitir ,, Í Garðinum heima." Hún er eftir Hafstein Hafliðason. Eftir að hafa farið í gegnum slatta af greinum af mataruppskriftum og öðru tagi  fann ég loks greinina. Skrifuð er hún 5. janúar 2006 en hún er svo knappt klippt að ég sé ekki hvort hún hefur birst í Fréttablaðinu eða Morgunblaðinu. Greinin er vissulega áhugaverð fyrir alla sem hafa áhuga á að breyta umhvarfi sínu til batnaðar. Hann segir að grænar og glaðlegar pottaplöntur geti gert mikið til að lífga uppá heimili okkar og vinnustaði um leið og þær bæti vellíðan okkar til mikilla muna, leynt og ljóst. Hann segir enn fremur:

 

,,NASA og geimferðirnar.

Undanfarna áratugi hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á þýðingu grænna innanhússplantna þ.e. þeirra plantna, sem við köllum í daglegu tali pottaplöntur. Áherslur hafa verið lagðar á að meta hvert gildi þær hafa fyrir fólk í heimahúsum, skrifstofum, sjúkrastofnunum og, en ekki síst, í geimferðum. Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, var lengi í fararbroddi þessara rannsókna og gekk úr skugga um það, að pottaplöntur skiptu miklu máli í vistkerfi geimferja og geimstöðva. Fyrst og fremst með því að draga úr rafmengun (þ.e. Þær binda skaðlega plúsjóna og sleppa hollari mínus-jónum) í vistarverum geimfaranna og stuðla að hreinsun og endurnýjun andrúmsloftsins í geimskipunum auk þess að halda loftrakanum í jafnvægi ".

 

Ég þori nú ekki að hafa meira eftir manninum þótt greinin sé mun lengri, svo ég verði ekki sökuð um ritstuld eða annað óleyfilegt athæfi, þótt ég telji að þessi vísindi ættu að komast til sem flestra. Ég ákvað að gera eitthvað í mínum málum heima fyrir, þótt gluggasyllurnar séu svo mjóar að þar sé útilokað að hafa blaðmiklar jurtir í þeim. Maðurinn minn hafði smíðað tvö lítil, vel frambærileg, blómaborð fyrir mörgum árum og það þriðja var líka nothæft. Með því að raða húsgögnunum öðruvísi gat ég raðað blómaborðunum við gluggann. Nú lagði ég leið mína í blómabúð til að vita hvort ég sæi eitthvað álitlegt í uppvexti þar. Keypti þar eina jurt sem ég gat þó ekki fengið að vita nafn á. Svo var ég á ferð inní Reykjavík og leit inná basar ég held hjá Kristniboðsfélagi kvenna. Þar sá ég þennan yndislega fallega burkna, svona þéttan og þriflegan.  Ég ákvað að kaupa hann á stundinni. Þessi verður áreiðanlega vel fallinn til að halda loftraka í skefjum og draga úr rafmengun hugsa ég.

 

Nú var ég svo heppin að fá eitt pottablóm á afmælisdaginn minn, blómstrandi Ástareld. Svo átti maðurinn minn afmæli og mér fannst upplagt að gefa honum pottablóm. Ekki lakara að það kæmi mér líka til góða að geta notið gjafarinnar til jafns við þiggjandann. Svona fer manni fram með útsjónarsemi með aldrinum. Þetta var blómstrandi friðarlilja, sem spáir góðu um framtíðina. Ég var annars áður búin að farga öllum blómum nema einu af þeirri ástæðu að ég fékk gjarnan í kaupbæti með þeim litlar svartar flugur sem, mér  fundust ekki skemmtilegar í sambúð. Þær eru náttúrlega undraverð sköpun Guðs vegna flughæfni sinnar en hennar vegna verða yfirráð þeirra í lofthelgi heimila svo yfirþyrmandi.  Verð bara að vona að nú takist betur til.

Flettingar í dag: 79
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 125
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 78124
Samtals gestir: 16281
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 14:24:43

Eldra efni

Tenglar