Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2008 Maí

21.05.2008 22:20

NOREGSFERÐ

                        Ferðalag

 Að undanförnu er ég búin að ferðast heilmikið.  Við fengum heimboð frá Önnu dóttur minni í Noregi, í því tilefni að þriðja maí ætluðu þau á Briskivegi 3 að halda veislu fyrir son sinn, eins og fleira fólk gerir fyrir börn sín sem komast á fermingaraldur, og bjóða bæði fjarlægum og nálægum ættingjum.  Það varð útkoman að ég færi þangað með Guðnýju dóttur minni og sá hún um að kaupa farseðlana á netinu. Ég hafði ekki komið til Noregs í tæp sex ár.  Þessi dóttir mín sem býr þar hefur nú alltaf verið svo dugleg að koma í heimsókn, yfirleitt tvisvar á ári meðan á námi hennar í Bókasafnsfræðum stóð, og mjög oft eftir það, svo mér fannst nú tími endurgjalds væri kominn.

 Nú skeði það, að Guðný mín lendir á sjúkrahúsi á Akureyri með brjósklos og fer í aðgerð, svo mér sýndist nú ólíklegt að úr ferðalagi yrði hjá henni.  Þá var spurning hvort ég treystist til að fara ein.  Mér hafði nú ekki dottið það í hug, en þegar svona var komið sýndist mér ekki annað fært en að halda áfram með það.  Nú vissi ég að Bogi  Pétursson á Akureyri var dáinn og sýndist mér viðeigandi að ég sýndi þann virðingarvott að fylgja honum til grafar.  Guðný mín pantaði farseðil á netinu og ég fór norður með flugvél daginn áður en átti að jarða.  Ásgrímur ók mér inn á Reykjavíkur flugvöllinn.

 

Þegar til Akureyrar kom var ég sótt á flugvöllinn af Eiði Stefánssyni, því Guðný gat ekki ekið bíl, þótt hún væri komin heim úr aðgerðinni og farin að gera hitt og þetta.  Ég stoppaði svo nokkra stund hjá þeim hjónum Eiði og Helgu.  Sú fjölskylda var alltaf með okkar bestu vinum.  Svo skilaði hann mér í Stekkjargerði 7. Daginn eftir fór jarðarförin fram frá Glerárkirkju að fjölmenni viðstöddu.  Erfi var drukkið í Brekkuskóla.  Ég sá og gat heilsað ýmsum kunningjum.  Svaf  svo aðra nótt í Stekkjargerð.  Daginn eftir  kom Eiður og ók mér út á flugvöll.  Það var kominn 30 apríl, miðvikudagur.

 

  Daginn  eftir, sem var fimmtudagur, gat ég verið heima hjá mér en föstudaginn 2. maí átti ég pantað far til Noregs með morgunflugi.  Veðrið var dásamlegt.  Hún Þórdís Karlsdóttir tengdadóttir mín í þykjustunni (veit ekki hvort eitthvert sérheiti er til yfir það þegar kona er gift stjúpsyni manns.)  Jæja, hún var búin að skrá mig inn daginn áður svo ég þurfti ekki að fara eins snemma til að standa í biðröð.  Þetta gekk allt vel og flugið líka. Ég tryggði mér það að mega verða samferða konu einni úr flugvélinni þangað inn sem töskurnar yrðu afhentar.  Þegar við erum að ganga útúr flugvélinni koma ósköp elskulegar flugfreyjur til mín og bjóða mér hjólastól því gangarnir séu langir.

 Ég þekki hjólastóla af nokkra ára viðkynningu, meðan móðir mín og fyrri maðurinn  lifðu en er naumast viðbúin því á nokkrum sekúndum að endurnýja kynnin með öfugum formerkjum.  Mér hefur aldrei verið boðið þetta áður.  Hér er nú að hrökkva eða stökkva og ég vel stólinn.  Þær eru líka hvetjandi þessar elskulegu konur.  Annar farþegi er líka fluttur í stól.  Það er rétt, þetta eru langir gangar.  Þegar við komumst á leiðarenda þá er að finna út á hvaða bandi töskurnar frá Akureyri snúist.  Ég sé ekki betur en að þau séu fimm þessi bönd.  Þetta hefst með tíð og tíma og þá kemst ég fljótlega inn í biðsal móttakenda.  Þar bíður Anna mín til að taka á móti mér.  Það er líklega um klukkutíma akstur þangað sem hún á heima.  Ég hefi nú nokkrum sinnum komið til þeirra áður.  Sonur minn er líka kominn frá Danmörku með dætur sínar tvær, Söru og Önnu 16og13 ára, fallegar stúlkur.                                                                                                                                            Sumt norska ættfólkið er líka komi og annað á leiðinni.  Einhverjir koma alla leið frá Budu  en aðrir norðan úr Þrændalögum.  Tengdasonur minn norski á hvorki föður né móður á lífi og Sigurður á aðeins eina ömmu og engan afa á lífi en náið frændfólk er samt komið til boðsins, sem fer fram í ráðhúsi bæjar í nágrenninu.  Tengdasonur minn hefur útvegað sínu fólki gistingu þar á hótelinu en við gistum heima hjá þeim.

 Mér þótti mikið til koma að sjá fólkið í norsku þjóðbúningunum.  Þeir eru virkilega fallegir og það vakti mér öryggi að sjá, að það heldur þó enn í nytsamar hefðir genginna kynslóða að  þessu leiti.  Það sýnir að það tilheyri þjóð og jafnvel sérstöku héraði lands. Það á ættjörð.  Ég sakna þess að nú heyrist svo lítið í dag  talað um ættjarðar ást og ef það er, þá undir allt öðrum formerkjum en áður.   Ég skildi nú lítið af því sem fram fór við athöfnina sem höfð var um morguninn því hún fór fram á norsku.  Eftir hádegi voru svo myndarlegar veitingar fram bornar.  Matur og seinna kaffi og kökur.  Nokkrir fluttu ávörp og  drengurinn sjálfur þakkaði foreldrum sínum fyrir uppeldi sitt.  Svo leið nú þessi dagur.

 Daginn eftir var enn gott veður.  Mér datt í hug að fara á smá göngutúr ein því ég hefi komið hér áður og kynnst umhverfinu.  Á að geta ratað þá leið sem þá var gengin niður brekkuna í verslunina.  Nú er verslunin komin mun nær, líklega önnur verslun.  Ég taldi mig örugga um að finna Briskivegen aftur þegar ég kæmi til baka en það reyndist ekki svo.  Hvorki kunni ég að spyrja til vegar á norsku eða ensku.  Ég hafði verið smátíma úr vetri í þýsku, fyrir mörgum árum en ekkert haldið henni við.  Nú sem ég sé mann einn vera að bjástra við hús líklega sitt,  í námunda við mig, kemur fram á varir mínar þessi orðblanda á þýsku.

 ,,Kannst  dú  mir sagt hvar Briskeveginn er??  Maðurinn skilur þetta á stundinni og leiðbeinir mér með bendingum hvert halda skuli.  Með það fer ég.  Maðurinn hefur víst fengið eftirþanka um að hann hafi ekki vísað þessum vegvillta sauði nógu skilmerkilega á rétta leið,  því hann kom seinna hlaupandi á eftir mér til að útskíra betur.  Staðurinn reyndist þá rétt í nágrenninu.  Anna mín var fegin að ég var komin.  Næsti dagur var heimferðadagur.  Þá var ofurlítil súld.  Dóttir mín ók mér nú aftur á flugvöllinn og leiðbeindi mér eftir því sem í hennar valdi stóð og varð svo að vona að allt færi vel.

Hún hafði sagt mér að gangurinn væri langur sem ég þyrfti að ganga.  En að lokum þótti mér ég vera komin alla leið.

 Þar sátu þrjár persónur, ein hjón eða hjónaleysi (hver veit það?) og ein ung stúlka  vel útlítandi og fallega klædd.  Svona til öryggis langar mig til að spyrja eitthvert þeirra hvort þau séu ekki að fara til Íslands.  Valdi ég nú stúlkuna sem reyndar svarað mér ekki á íslensku en afburða alúðlega samt.  Eitthvað hefur hún misskilið mig því nokkru seinna stendur hún upp, bendir hún mér að koma en hitt fólkið situr sem fastast.  Maðurinn á móti okkur fylgist með og spyr hvort við séum eitthvað að villast.en ég ætlaði ekkert með henni þótt ég stæði upp.  Ég reyni að segja henni að ég sé að fara til Íslands en hún var víst að fara til Frakklands.  Eftir þetta lá nú allt ljóst fyrir mér.  Stuttu seinna var ég komin um borð í íslenska flugvél. Allt gekk vel á leiðinni.

 Þegar út úr flugvelinni kemur er eitthvert spursmál um, hver hafi pantað hjólstól og ég er spurð en ég neita því.  Það var satt, ég hafði ekki gert það.  Það hvarflaði að mér seinna að ef til vill hafi einhver mér velviljaður lagt drögur fyrir stólinn, einhver sem vildi að ég kæmist sem áreynslu og áhyggju minnst innan flugstöðvabygginganna. En nú er ég  líka komin heim og nú get ég gert mig skiljanlega á móðurmáli mínu ef eitthvað fer úrskeiðis. Svo ég vil heldur ganga.  Ég missti nú einhvern veginn af þeim hópi sem ég ætlaði að verða samferða og er ég kom gegnum dyrnar sýnist mér hann stefna í öfuga átt við það sem mér finnst passa.  Ég ákveð þá að fara mína leið og lengi mátti ég ganga.

 Ég fer framhjá mörgum borðum sem mér fannst fólki væri ætlað að sitja við til að hafa samskipti við farþega.  En seinna sagði mér einhver að svo myndi vera þegar fólk væri að fara frá Íslandi en ekki öfugt.  Loksins kem ég að borði þar sem sitja tvær persónur og önnur er karlmaður með eitthvert glæsilegt höfuðfat, sem ég álít sýna að sá sem það beri sé í hárri stöðu og hljóti að vera vel fær um að segja fólki til vegar á þessum stað.  Það reyndist rétt og mikið var ég fegin.  Ég hefði ef t.v. átt að þiggja  stólinn. En tölta mátti ég alla leiðina til baka og meira til. Þar fann ég töskuna og nú ætlaði ég að fara út úr byggingunni og hringja í manninn minn.  Þá er hann allt í einu þar kominn og innan stundar erum við heima. 

 

 

 

12.05.2008 22:57

Bogi Péturson

                                                                                                                                                   Þegar fólk hefur náð mínum aldri verð ég þess vör að vinaflokkurinn þynnist ört.  Þetta er gangur lífsins.  Samferðamenn um langan aldur hverfa af sjónarsviði.  Nú hefur Bogi  Pétursson lokið sínum starfsdegi.  Hann var safnaðarbróðir minn um áratugi á Akureyri.  Hann var fæddur á Eskifirði þriðja febrúar 1925 en lést á sjúkrahúsi Akureyrar 17 apríl  2008 og var jarðaður frá Glerárkirkju 29 sama mánaðar.

 Það sem mér fannst einkenna Boga öðru fremur var fúsleiki hans til starfa. Ævi hans hefur verið gerð góð skil i blöðum og margir hafa minnst hans.  Ég held að ég hafi kynnst Boga fyrst sumarið 1955 er ég kom til Skjaldarvíkur til afleysinga á elliheimilinu en þar var þá starfandi hjúkrunarkona,trúsystir mín og vinkona Sóley  Jónsdóttir.  Hún notaði sitt sumarfrí til að vinna við Ástjörn.  Þegar hún kom heim þaðan fór ég austur þangað, til að vinna þar.

 Þá var verið að skipuleggja hverjir væru fáanlegir úr söfnuðinum til að vinna við heimilið yfir sumarið.  Drengirnir voru 18 minnir mig og starfsemin fór fram í gömlum hermanna bragga sem Arthuri hafði verið gefinn.  Margt var heldur frumstætt sem ekki var óeðlilegt þar sem þetta var ung starfssemi.  Ég var þarna með systur Boga sem María hét og var afar rösk og dugleg eins og Bogi og eflaust fleiri af þeim mörgu systkinum þótt ég kynntist þeim ekki á sama hátt og þessum tveimur sem  voru í Sjónarhæðarsöfnuðinum.

 Í einni minningargreininni um Boga í Morgunblaðinu stendur að hann hafi starfað í 54 ár við sumarbúðirnar, þar af í 40 ár sem forstöðumaður.  Aðalstarfsemin fór að vísu fram yfir sumarið.  Þá fórnaði hann sínu sumarfríi og varð að auki að fá sig lausan úr sinni vinnu á verksmiðjunni í viðbót.  Það var eflaust oft erfitt að safna nógu fólki til starfa, því söfnuðurinn var alltaf fámennur en alltaf  rættist úr þessu með fólki héðan og þaðan.  Ekki minnst hafa Færeyingar komið þar við sögu, svo Ástjörn hefur getað haldið áfram.

 Guð gaf honum Boga mikið úthald og ódrepandi þrautseigju bæði við þetta starf og önnur sem hann tók sér fyrir hendur, svo sem sunnudagaskólstarf og fangaheimsóknir um margra ára skeið og skátastarf.  Guð gaf honum líka umburðarlynda konu sem stóð með honum í anda í því starfi sem hann vann fyrir Drottinn þeirra beggja.  Slíkir menn, sem eru svo störfum hlaðnir í þjónustu Guðsríkis, hafa oft minni tíma afgangs fyrir sín heimili,  heldur en aðrir, en ekki hefi ég heyrt óánægju hjá henni í sambandi við það.

 Við getum þakkað Drottni fyrir að gefa þjóð okkar slíka menn, sem eru fúsir að leggja sig fram í þjónustunni, og gefa þeim burði til þess bæði andlega og líkamlega.

  • 1
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99860
Samtals gestir: 20163
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 16:08:59

Eldra efni

Tenglar