Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2012 Júlí

28.07.2012 21:52

Ótitlað

                   27 júlí 2012

 

     Hættu að lesa og farðu að skrifa smá pistil á síðuna þína, segi ég við sjálfa mig. Það er eitthvað sem hefur verið fjarlægt mér að undanförnu enda orðið langt síðan ég hefi reynt að skrifa.

  Það er helst í fréttum að 16 júní kom það fyrir bónda minn að hann átti í erfiðleikum með að rísa uppúr sófanum sem hann sat í. Mér brá því að þetta var alveg nýtt. Ég reyndi að hjálpa honum og það hafðist. Hann komst í rúmið þótt hann svimaði mikið. Stuttu seinna var hann aftur kominn fram og allt virtist í lagi.

Morguninn eftir kvartaði hann um svima, sjónskerðingu og höfuðþyngsli. Ég varð smeyk og hringdi strax í sjúkrahúsið þótt helgidagur væri, bæði sunnudagur og 17 júní. Ég fékk mjög hlýleg og hvetjandi andsvör í símann. Mikið var ég fegin. Við máttum koma strax. Við af stað og þurftum að bíða um stund því fleirum þurfti að sinna þennan morgunn. Svo birtist ungur læknir og umsvif hans vöktu mér traust. Hann lét  engan drátt á verða er hann hafði skoðað hann og sendi hann þegar í blóðprufu og myndatöku sem ekki sýndi neina blæðingu. Hann sagði að hár blóðþrýstingur gæti gefið öll þessi einkenni sem um væri að ræða en útilokaði ekki að um annað gæti verið að ræða. Hann pantaði með hraði tíma fyrir hann hjá augnlækni í Reykjavík sem tæki á móti honum um hádegi á mánudegi.

 

Ég er nú ekki vön að aka inní Reykjavík en treysti því að Ásgrímur gæti sagt mér til. Ég vil alltaf leggja snemma af stað ef eitthvað kæmi uppá í ferðalaginu svo við vorum komin langt á undan tímanum. Settumst bara inn og biðum en þurftum ekki að bíða lengi því fljótlega var kallað á hann. Af einhverjum ástæðum virtist sá tími vera laus. Þannig komumst við fyrr að. Útúr þeirri skoðun kom að hann væri með gláku á byrjunarstigi. Það var að vísu gott að vita það sem fyrst. Það er víst mikils um vert til að geta hafið  lyfjagjöf án tafar. Læknirinn skrifaði uppá glákudropa og boðaði hann aftur í viðtal 4. júlí. Þá bauðst vinur okkar til að aka honum inn eftir og þáðum við það. Sagði þá læknirinn að þrýstingurinn í auganu hefði minkað mikið.

Gott var nú að heyra það. Honum hafði liðið svona upp og ofan og áfram verið með þyngsli í höfðinu og svima öðru hverju. Þann fimmta júní fór ég með hann á heilsugæslustöðina til að láta  mæla blóðþrýsting. Læknirinn sem skoðaði hann fyrst hafði   mælt svo fyrir, þar sem hann var að láta hann prófa Blóðþrýstingslyf.

 

Þann sjöunda júlí voru komin ný einkenni. Þá var hann búinn að fá dofatilfinningu í tungu og munn og víðar í vinstri hlið. Vorum sammála um að hringja í sjúkrahúsið og máttum koma strax. Minnir að mér væri ráðlagt að kalla á sjúkrabíl. Allavega gerði ég það. Sjúkrabíllinn kom innan stundar og þeir leiddu hann niður tröppurnar. Okkur var svo boðin hvíldarinnlögn fyrir hann og þáðum við það. Hann missti aldrei mál eða hugsun og lamaðist ekki. En jafnvægið raskaðist og sjónin  skertist. Hann var svo rannsakaður frekar og tekinn mynd aftur. Eftir það kváðu þeir þetta vera blóðtappa í höfði. Hann var svo aftur sendur inní Reykjavík miðvikudag 18 júlí til frekari myndatöku og einhverrar annarar ransóknar í Dómus Mediga. Sonur hans fór með hann. Mikið er gott að eiga svona góð sjúkrahús og yndislegt fólk sem vinnur þar. Ásgrímur hefur verið í alveg markvissri þjálfun hér á sjúkrahúsinu í Keflavík og farið ótrúlega mikið fram með jafnvægið þótt svimi og höfuðþyngsli geri vart við sig.  Nú telja þau ekki lengur þörf á að hann gangi með grind og stafur látinn nægja. Í dag kom Ásgrímur heim í  helgarleyfi.og verður fram á sunnudag. Svo á ég von á að hann komi fljótt alkominn. Margir hafa beðið fyrir honum og okkur báðum og hringt og spurt um hann. Þeim eru færðar bestu þakkir og fyrst og fremst þeim Guði sem hlustar á bænir barna sinna.

 

  • 1
Flettingar í dag: 119
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 125
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 78164
Samtals gestir: 16289
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:05:07

Eldra efni

Tenglar