Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2009 Ágúst

25.08.2009 10:58

Ótitlað


Jarðarför.

Fimmtudaginn 30 júlí 2009 fórum við hjónin upp á Akranes til að vera við jarðarför Heklu Gestsdóttur fósturdóttur Ásgríms. Hún hafði um tíma
barist við sjúkdóm sem lagt hefur marga landsmenn að velli. Við höfðum nú ekki kynnst mikið því við hittumst ekki svo oft þar sem við bjuggum ekki svo nálægt hvor annari. Hún var alltaf hlý og elskuleg þegar fundum bar saman eins og allt hennar fólk, eiginmaður og afkomendur. Enginn veit fyrirfram hvað okkur er útmælt af dögum. Hún hlaut rúmlega 6o ár. Sumir fá meira og sumir minna. Hún lifði það að koma upp fimm manvænlegum börnum. Það sem mér finnst einkenna þau er hve þau eru dugleg í námi og starfi og barnabörnin lofa góðu. Jarðarförin fór fram frá Akraneskirkju að mörgum viðstöddum og að henni lokinni var þeim öllum boðið til erfidrykkju í Vinaminni.
------------------

Ferð á Kotmót.

Föstudaginn 31júlí að morgni lögðum við af stað austur í Fljótshlíð til að vera þann dag á Sumarmóti Hvítasunnumanna sem var það sextugasta í röðinni frá upphafi. Fólk úr Hvítasunnukirkjunni í Keflavík átti að sjá um tónlistina á föstudeginum og þar sem Ásgrímur er þátttakandi hér heima í tónlistinni í Hvítasunnukirkjunni þá bar honum að mæta þarna með sitt mandólín. Við byrjuðum ferð okkar á að sækja vin okkar Hafstein sem fékk far með okkur. Ég settist við stírið inn að Hafnarfirði því mér finnst nú skömm að reyna ekki að hvíla manninn minn spotta og spotta á langferðum þótt það hafi nú verið næstum orðin regla að hann æki alltaf þegar skemmra væri farið. Það er svo sem áhyggjulítið að láta aðra aka sér en reynir meira á ef maður vill svo breyta til aftur eftir að hafa hvílt sig of lengi.

Þessi kafli inn að Hafnarfirði er auðveldur af því ég er búin að aka hann nokkrum sinnum að undanförnu. Ásgrímur tók svo við og ók austur fyrir Selfoss. Þá tók ég við og ók til Hvolsvallar. Þar fórum við inn í skála og fengum okkur pylsur. Þegar því var lokið vildi Hafsteinn nú koma að einhverjum notum og ók að Kirkjulækjarkoti. Veðrið var með eindæmum gott. Við biðum þar eftir samkomunni í þessu líka glaða sólskini og hita og var múgur manns þar samankominn og sýndist mér lítið vanta á að skemman yrði full. Þó var mótið rétt að byrja. Við vorum aðeins á þeirri einu samkomu. Okkur fannst best að vera ekki allt of seint á ferðinni heim vegna
umferðarinnar sem við álitum að mundi aukast þar sem mesta ferðahelgi ársins var að hefjast. Hafsteinn tók svo stóran hlut í akstrinum á heimleiðinni að mér fannst ég geta alveg sleppt allri þátttöku með góðri samvisku. Mikill var bílastraumurinn á móti en lítill á eftir. Mig hefði ekki langað að vera í lestinni sem var á austurleið. Ég er ekki hrifin af að hafa svo stutt milli bíla. Allt gekk vel og gott var að geta háttað í sitt eigið rúm að kvöldi eftir langan dag þann 29 júlí 2009.
----------------------

Skroppið til Reykjavíkur.
Við héldum nú kyrru fyrir daginn eftir að við komum að austan en annan ágúst 09 sem var Sunnudagur, fórum við inná Reykjavíkurvöll að sækja Önnu mína og Sigurd. Mér finnst nú gott að geta lengt svolítið samveruna með þeim með því að flytja þau og sækja inní Reykjavík. Sigurd finnst auðvitað skemmtilegast að komast sem fyrst til Akureyra og vera sem lengst með frænda sínum og félaga þar. Þau geta auðvitað bjargað sér með rútunni til Reykjavíkur og til baka og hafa gert. Þau gistu svo hjá okkur þá nóttina en snemma morguns daginn eftir fórum við með þau hérna upp á Keflavíkurvöll. Þaðan flugu þau heim til sín.
----------------------
25.08.2009 10:26

Ferðalög

  • 1
Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 55
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 99552
Samtals gestir: 20084
Tölur uppfærðar: 19.7.2024 11:23:00

Eldra efni

Tenglar