Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2009 Október

19.10.2009 20:13

Fíngerð sjöl

Þar sem ég hefi nú loksins hætt við það verkefni sem ég er lengi búin að dunda mér við, að tína saman mola úr ævi Arthurs Gook. þá ákvað ég að snúa mér að smá handavinnu og reyna að rifja upp að taka lykkjuna. Ég hafði keypt mér barnavettlinga út í Hrísey í sumar, sem mér hafði litist mjög vel á. Þeir báru vitni um vandað handbragð sem kann að liggja í ættum á þessum slóðum. Kona ættuð úr Svarfaðardal hafði fyrir mörgum árum gefið mér prjónað sjal, unnið úr íslenskri ull. Ég hefi nú ekki oft skreytt mig með því en hefi alltaf vitað að ég á gersemi. Einhvern tíman

hafði ég heyrt eða séð, að þá þættu sjöl vel unnin úr íslenskri ull þegar hægt væri að smeygja þeim gegnum giftingarhring. Gætið að, þetta var ekki eingirni sem sjalið var prjónað úr, heldur tvinnað band. Ég prófaði sjálf og mikið rétt, mér tókst að smeygja því inn í og draga það gegnum hringinn. Þetta er svo sannarlega handbragð sem hægt er að bera virðingu fyrir.

Jæja, vettlingarnir náðu nú ekki fyrirmyndinni hjá mér en þetta kæmi nú aftur ef ég legði mig niður við það. Það þarf auðvitað að passa uppá að prjónastærðin hæfi garninu og svo f.r.v.

Það ætti nú að auka áhugann hjá mér að eiginmaðurinn er líka sestur í stól með prjóna. Hann hefur nú verið að minnast á það að undanförnu að sig langaði til að læra að prjóna. ,,Enginn er of gamall gott að læra". Svo ég náði í þrefaldan lopa og tvinningasnældu sem Jón sjúkrahúsráðsmaður á Akureyri hafði smíðað handa mér fyrir margt löngu og ber hún því snilldar handbraði hans vitni. Þær voru svo góðar vinkonur Sólveig dóttir þeirra hjóna og Anna dóttir mín. Það er auðveldara fyrir óvana að prjóna úr tvinnuðum lopa, þá klofna lykkjurnar síður. Ég valdi svo prjóna nr.5. Til að hlífa nemandanum við því sem erfiðara var, fitjaði ég upp á einn prjón til að byrja með.

Þá gat nemandinn tekið við og spreytt sig á garðaprjóni. Tilraunin heppnaðist vel þegar horft er á hendur okkar og bornar saman, hvað hans eru miklu stærri og þykkri en mínar. Ég var sjálf hrædd um að helst mundi handstærðin hefta námið en þetta gekk framar björtustu vonum.

Svo við eigum ef til vill eftir að setja saman prjónandi og hlusta á útvarpið. Ég hugsa nú ekki svo hátt að við næðum þeirri leikni að geta prjónað og horft um leið á sjónvarp, minnsta kosti ekki ef um rósaprjón yrði að ræða.

  • 1
Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 53
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 29459
Samtals gestir: 2424
Tölur uppfærðar: 28.9.2022 12:28:35

Eldra efni

Tenglar