Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2006 Desember

07.12.2006 11:29

Hvíld

Gamli fullveldisdagurinn var fyrsti desember. Það var eitthvað sérstakt við þann dag finnst mér í minningunni frá uppvextinum. Þjóðin mat hann sem sinn frelsis og fullveldisdag en nú er öldin önnur og allar gamlar þrautir gleymdar. Nú finnst ýmsum af þessari sömu þjóð nauðsynlegt að hafa kóng yfir sér eða hans ígildi, sem hafi nógu öflugan her. Hvað um það. Þann fyrsta desember síðast liðinn áttum við hjónin erindi til Höfuðstaðarins. Það var nú aðallega húsbóndinn sem átti erindi og átti að vera mættur kl.1.Ég ákvað að nota ferðina og fara í Rúmfatalagerinn. Þessvegna fórum við fyrir hádegi af stað og stoppuðum í Kópavogi á leiðinni því þar er ein verslun Rúmfatalagersins.

Þegar við komum þar inn fyrir dyr ákvað bóndi minn að fá sér sæti því nóg er af stólum miðsvæðis í þessari byggingu og undirbúa sig undir það sem fyrir honum lægi er hann kæmi á sinn ákvörðunarstað í höfuðborginni. Þetta þótti mér góð ákvörðun sem ég var hæst ánægð með. Nú gat ég alveg verið ein með sjálfri mér við mín erindi. Ég reyndi samt að vera ekki alltof lengi og þegar ég hafði lokið mínum erindum var nógur tími eftir til þess að fá sér eitthvað í svanginn. Á þessum stað er líka úr nógu að velja annars höfum við yfirleitt látið okkur nægja pylsur á ferðalögum þar sem við höfum stoppað og verið ánægð með þær. Augu okkar staðnæmdust þarna við rétt sem þeir sögðu að héti pitsa. Hún var samt miklu þykkri en þær sem við höfðum áður séð og borin fram heit með sósu og salati, virkilega góð. Ég hugsa að ég vilji ekki pylsu aftur ef ég get valið þennan rétt.

Nú kom tími til að halda ferðinni áfram. Húsið sem hann á erindi í er rétt við Grensásveginn og ég vil bara nota tímann og rölta í búðir. En það er ótrúlega kalt. Næðingurinn er svo nístings napur og þótt ég fari annað slagið inn í búðir til þess að hlýja mér helst ekki á mér nógur hiti. Það er líka svo lítið af búðum þarna sem ég hefi áhuga fyrir svo ég ætla heldur að setjast inn í bílinn. En á leiðinni þangað geng ég framhjá húsinu sem maðurinn fór inn í og dettur í hug að líta inn í forstofuna og hvað haldið þið að ég sjái? Ég sé tvo stóla hlið við hlið og ofn á veggnum. Þarna hlýtur að vera hlýrra en í óupphituðum bíl. Það er auðvitað algjört tillitsleysi við andrúmsloftið að setja hann í gang til að láta hann hita sig upp. Nei þarna er upplagt að setjast fyrst einhver hefir hugsað svona hlýtt til fótfúinna gamalmenna. Það er nú það sem vantar svo víða allra helst í búðum því fátt er eins þreytandi og búðarrölt og svo líka að fara á söfn. Það er miklu verra að standa kyrr litla stund heldur en ganga jafnlengi.

Ég hefi verið svo slæm í vinstri fæti um tíma og til að byrja með átt erfitt með að snúa mér í rúmi og upp á síðkastið ekki getað gengið upp stiga nema að láta sama fótinn alltaf fara á undan. Fór til læknis að lokum sem hafði svo góðan endi að hann bauð að tekin yrði mynd og hún sýndi skemmd í mjaðmarliðnum. Hann bauðst til að sprauta í liðinn sem hann og gerði. Það var nú ekki svo mikil breyting eftir fyrstu sprautu en ég átti að fá aðra eftir viku. Eftir hana varð ég allt í einu jafngóð og áður en ég fór að finna til í fætinum. Þetta kemur samt ekki í veg fyrir eðlilega þreytu á mínum aldri sem ég er löngu farin að finna fyrir. Þessi hugulsemi þarna með stólana minnir mig á þann sem sagði:

,,Komið til mín allir sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld"

Ég fæ mér því sæti í öðrum stólnum sem þarna hefir verið settur. Það er talsverð umferð um þessar dyr. Einn eldri maður gengur inn og upp stigann líklega upp á næsta gólf. Annar yngri á líka leið upp og ég heyri hann spyrja:,,Er þetta konan þín sem situr þarna niðri?" Hinn virðist ekki gefa nein svör við því. Ef til vill hefir hann aldrei átt neina konu og finnst þessi spurning ekki koma sér við. Hinn vill nú ekki sæta þessu tómlæti og brýnir raustina og spyr hærra en áður: ,,Er þetta konan þín sem situr þarna niðri?" Mér líst ekki á að bíða þarna lengur ef manninum skyldi finnast ég hljóti að vera í óskilum á þessum stað og það vera skylda sín að finna réttan eiganda að mér eða einhvern sem standi mér næst, líkt og þegar ég hefi lagst inn á sjúkrahús og hef átt að gefa upp aðstandanda, heldur tvo en einn, minnir mig. Hann er líklega óvanur að sjá nokkurn setja í þessum blessuðu stólum. Ef til vill eru allir svo stoltir að enginn vill láta aðra sjá að hann sé haldinn þeim veikleika sem heitir þreyta. Sá sem sagði:

,, Komið til mín allir?og ég mun veita yður hvíld." Hann sagði líka við annað tækifæri:,,Hversu oft hefi ég ekki viljað samansafna börnum þínum eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sér en þér hafið ekki viljað það."

Ég bíð ekki eftir að frekari rekagátt verði út af veru minni hér. Stend nú upp og yfirgef þennan hvíldarstað, rölti upp í bílastæðið og sest inn í bílinn. Ég er í hlýrri úlpu og mér verður ekki kalt. Ég get hlustað á útvarpið og líka lesið blað sem maðurinn minn hafði fengið og sett inn í bílinn. Tíminn hann líður bara eðlilega hratt þar til hann birtist og við getum lokið dvölinni í höfuðstaðnum með því að líta inn til mágkonu hans sem alltaf hefir tekið svo vel á móti okkur. Heimferðin gekk að óskum.

  • 1
Flettingar í dag: 53
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 55
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 99542
Samtals gestir: 20083
Tölur uppfærðar: 19.7.2024 10:58:04

Eldra efni

Tenglar