Þóra Guðrún Pálsdóttir

23. Árið 1932

Lífið gengur sinn vanagang hjá Arthuri. Samkomur, sunnudagaskóli, samtöl við fólk, skírnir, bréfaskriftir, útgáfa Norðurljóssins og önnur ritstörf. Það er ætíð nóg að gera.

Í byrjun febrúar er þess getið að hann hafi ekið með sunnudagaskóladrengina í smá túra á mótorhjólinu, þeim til skemmtunar. Nokkru síðar fer hann með Helga Helgasyni á mótorhjólinu yfir brýrnar þrjár og ekki löngu seinna ekur Arthur um bæinn á hjólinu og tekur ljósmyndir. Mótorhjólið virðist þannig ekki einungis hafa verið tæki til að komast á milli staða, heldur virðist sem Arthur hafi haft gaman af því að skreppa í stutta túra á hjólinu og taka sér þannig örstutt frí frá amstri dagsins.

Samkomuhald er ekki bundið við Sjónarhæð, til dæmis er samkoma í Glerárþorpi á skírdag, á föstudaginn langa talar Arthur á samkomu í Kristnesi og á sumardaginn fyrsta er samkoma á sjúkrahúsinu.

Í lok apríl er þess getið að skipstjórinn af "Hvíta Birninum", Grove að nafni, hafi hringt. Daginn eftir mætir hann til Drottins borðs á morgunsamkomu.  Eftir samkomuna fer Arthur með honum niður í skip og þiggur þar kaffi. Um kvöldið býður hann skipstjóranum í mat og eftir matinn fara þeir í göngutúr.
 
Þann fjórða maí fer hann til Jóhanns Steinssonar til að helga Drottni dóttur þeirra hjóna, sem var látin heita Marsibil Baldvina.  Eftirá léku Arthur og Jóhann skák sér til skemmtunar. "Fínn tími", segir Arthur í dagbók sinni. (Jóhann og þau höfðu sérstaklega gott lag á að taka á móti fólki.  Því fékk höfundur þessa bókar að kynnast af eigin raun).
 
Enn leggur Arthur af stað í ferðalag, í þetta sinn til Reykjavíkur. Hann siglir vestur fyrir land með Gullfossi og er kominn á áfangastað á hvítasunnudag, þann15. maí. Ólafía Einarsdóttir getur útvegað honum gott herbergi  að Skólavörðustíg 12.  Þann sama dag fer hann að hitta ýmsa vini sína og fer svo um kvöldið á samkomu í Bethaníu þar sem þau tala, Kristín Sæmundsdóttir og Jóhann sjómanna trúboði. Næsta dag fer hann í þónokkrar heimsóknir en um kvöldið hittir hann Grove skipstjóra á "Hvíta birninum". Daginn eftir skrifar hann bréf til Akureyrar og kemur auglýsingum í bæði Morgunblaðið og Vísi. Ekki kemur fram hvað hann var að auglýsa en líklega hafa það verið samkomur sem ætlunin var að halda.
 
Arthur situr ekki auðum höndum í Reykjavík. Hann hittir fjöldann allan af fólki og heldur samkomur á ýmsum stöðum, meðal annars í Keflavík þann 22. maí. Þangað fer hann á mótorhjóli og nefnir að hafa þurft að stoppa á leiðinni til að pumpa í afturdekkið. Hann var engu að síður kominn tímanlega. Á samkomuna sem haldin var í kirkjunni komu rúmlega 150 manns. Um það skrifar Arthur:

Blessaður tími. Jóh.14.6.  Þónokkrir gerðust áskrifendur að Norðurljósinu.

Eftir samkomuna bauð Eyjólfur kaupmaður Arthuri heim til sín og konu sinnar og borðaði hann kvöldmat með þeim. Hann lagði ekki af stað til Reykjavíkur fyrr en klukkan ellefu um kvöldið og var þá frekar dimmt úti. Á leiðinni þurfti hann aftur að pumpa í dekkið en þá vildi ekki betur til en pumpan brotnaði. Tveir menn komu honum til aðstoðar en klukkan var orðin meira en eitt þegar hann var loks kominn heim á herbergi.
 
Næsta dag er Arthur þreyttur en það hindrar hann ekki í að fara með hjólið í viðgerð þar sem gert var við dekkið. Einnig hitti hann Ólaf Ásgeirsson og þeir ræddu saman.

Þann 24. maí fer Arthur með manni, Bjarna að nafni, á hjólinu til Þingvalla.  Þar tala þeir saman, fara í gönguferð og biðja saman. Daginn eftir koma bréf erlendis frá með Brúarfossi og Arthur skrifaði bréf sem áttu að fara utan með Goðafossi. Einnig á hann samtal við konu nokkra og um kvöldið er samkoma í Betaníu. Þar næsta dag á hann tal við Ólaf Ásgeirsson.  Þeir ákveða samkomu að Vífilsstöðum á sunnudag.  Um kvöldið er vakningarsamkoma þar sem kærleiki Krists er umræðuefnið. Margir mæta. Daginn eftir á hann tal við fjóra.  Hann telur að einn þeirra hafi fundið frelsara sinn.

Svona gengur þetta. Dagskráin er þétt skipuð. Margir sýnast vera í þörf fyrir að tala við hann. Sem dæmi má nefna þá ætlar Arthur að nota síðdegi eitt til bréfaskrifta og nær að skrifa bréf til Florence en fær svo margar heimsóknir að hann getur ekki skrifað fleiri bréf þann daginn.

Þann 4. júní fer Arthur með mótorbát upp á Akranes. Þar heimsækir hann Steinunni  Jónsdóttur og heima hjá henni koma nokkrir trúaðir saman.  Daginn eftir, sem er sunnudagur, heldur hann samkomu klukkan ellefu þar sem umræðuefnið er "Kain og Abel". Síðar um daginn er önnur samkoma og þá talar hann um "lögmálið og hvíldardaginn". Um kvöldið býður síra Þorstein Briem honum til kvöldverðar. Í dagbókinni segir Arthur um þennan dag:

Mjög annasamur en blessaður dagur.
 

Daginn eftir fer hann snemma á fætur og heldur aftur til Reykjavíkur.

Þessu næst fer hann til Eyrarbakka og heldur samkomu þar. Um 20 manns mæta. Daginn eftir fer hann í Þrastarlund og ætlar sér að halda samkomu á Stokkseyri en verður að fresta henni vegna úrhellisrigningar. Hann heldur þess í stað áleiðis til Reykjavíkur og ferðin þangað gengur vel þrátt fyrir að hált hafi verið upp Kambana á hjólinu. Bréf biðu hans þá frá Akureyri.
 
Þann 11. júní á Arthur 49 ára afmæli. Hann slappar ekki af á afmælisdaginn frekar en aðra daga, fer og heimsækir konu á Vífilsstöðum og hittir ýmsa. Um kvöldið getur hann þess að hafa fengið ferskjur og apríkósur hjá Ólafíu.
Næstu daga á hann tal við hina og þessa.  Einnig talar hann í Bethaníu fyrir nærri fullu húsi og heldur erindi að Vífilsstöðum þar sem umræðuefnið er "Stefnuskrá Jesú  Krists".

Laugardaginn18. júní fer Arthur að hitta Þorstein Briem ráðherra, eflaust til að tala við hann um útvarpsleyfið. Þorsteinn segist ekki hafa haft tíma til að kynna sér málið.

Daginn eftir heldur Arthur samkomu í Skerjafirði um miðjan daginn og fyrir fullum sal í Betaníu um kvöldið. Eftir samkomuna pakkar hann dótinu sínu og fer með koffort og ferðatösku í skip, því nú er þessi Reykjavíkurdvöl á enda.
 
Mánudaginn 20. júní leggur hann af stað til norður á mótorhjólinu. Veðrið var ekki uppá sitt besta, það var skelfilega hvasst og sandrok gerði honum erfitt fyrir. Ekki er ljóst hvar hann gisti um nóttina. Daginn eftir fer hann með báti yfir Hvalfjörð og drekkur kaffi að Kalastöðum áður en hann heldur áfram ferð sinni. Það rigndi í fyrstu en Guð svarðaði bænum hans og það dró úr regninu. Hann stoppar í Fornahvammi, fær kaffi og hvílir sig um stund. Um nóttina gistir hann hjá Þórði og Guðrúnu á Hvammstanga, sem taka vel á móti honum. Næsta dag heldur hann af stað um eittleytið. Vegirnir eru slæmir og keðjan var sífellt að detta af hjólinu, í eitt sinn gerðist það þegar hann var að aka upp brattann að Vatnsskarði. Hann stoppar að Víðimýri, fær sér mjólk að drekka og setur eldsneyti á hjólið. Áfram heldur hann að Ytri-Kotum þar sem hann þarf að vekja upp heimilisfólkið til að fá mjólk og bensín. Enn heldur Arthur áfram för sinni. Á Öxnadalsheiði er ákaflega hvasst og í Hörgárdal festist keðjan. Sem betur fer á bíll leið þar hjá einmitt á réttum tíma og bílstjórinn aðstoðar Arthur við að koma keðjunni í lag. Hann er ekki kominn heim á Sjónarhæð fyrr en milli hálf fjögur og fjögur aðfaranótt fimmtudags, eftir erfitt ferðalag. Þá fer Kristín á fætur og útbýr máltíð handa þreyttum og svöngum ferðalangi.

Ekki stoppar Arthur lengi á Akureyri í þetta sinn því hann er á förum til útlanda. Dagarnir fram að brottför fara að mestu í að skrifa Norðurljósið en þann 1. júlí pakkar hann dótinu sínu og leggur af stað um miðnætti með Dettifossi. Skipið siglir til Siglufjarðar og þaðan til Ísafjarðar. Á leiðinni lýkur Arthur við að skrifa í Norðurljósið og sendir efnið til Sæmundar G. Jóhannessonar frá Ísafirði. Aftur er stutt stopp í Ólafsvík en þann 4. júlí er Arthur kominn til Reykjavíkur.  Þremur dögum síðar siglir hann af landi brott og heim til Bristol er hann kominn þann 12. júlí. 

Þann 21. ágúst eiga þau hjónin silfur brúðkaup.

Hér verður ekki sagt nánar frá því sem gerðist hjá Arthuri á Englandi í þessari ferð en hann er í burtu í þrjá mánuði og er kominn aftur til Akureyrar 18. október. Ekki eru margar færslur í dagbókinni það sem eftir lifir árs. Þó má sjá að þann 28. október byrjaði "Trúaðra mótið" á Akureyri en ekki er þess getið hvenær það endaði. Í desember getur Arthur þess að Ásmundur Eiríksson hafi komið frá Stokkhólmi og daginn eftir giftast þau Ásmundur og Þórhildur  Jóhannesdóttir. Ásmundur sagði frá Hvítasunnumönnum í Stokkhólmi. (Þau Ásmundur og Þórhildur áttu síðar eftir að verða forstöðuhjón Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík um 25 ára tímabil).

Annan í jólum er skuggamyndasýning kl. 5. Þremur dögum síðar fer Arthur til Jóhanns að "nefna og blessa" dóttur þeirra, sem hlaut nafnið Gígja.

Hvað sem sagt verður um trúboðann Arthur Gook þá verður, að dómi höfundar, ekki sagt að hann hafi etið letinnar brauð.
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99860
Samtals gestir: 20163
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 16:08:59

Tenglar