Þóra Guðrún Pálsdóttir

16. Árin 1923 - 1924

1923
Arthur hefir nóg að gera.  Það er mikil aðsókn að samkomunum og fullt hús hvað eftir annað á sunnudagssamkomunum. Þann 15. apríl skrifar hann í dagbókina: "Yndislegur kraftur frá Drottni."  Einnig eru sex skírð í apríl. 

Arthur fæst við margt annað en það sem snýr að safnaðarstarfinu. Í maí sýnist hann hafa byrjað að kenna hraðritunarkerfi það, er hann kenndi hér á landi.  Hann hefir og bréfaskipti við marga. Sæmundi skrifar hann 30. maí 1923:

Jeg samgleðst þjer hjartanlega yfir þeirri hjálp sem Drottinn veitti þjer við prófið, svo að þú, þrátt fyrir lasleikann, náðir svo góðri einkunn.  Það var trúarraun á meðan á þessum lasleika stóð, en Drottinn hefir gefið þjer sigur á endanum.  Honum sje lof og þökk.

 Í næsta bréfi, tæpum einum og hálfum mánuði seinna, skrifar Arthur:
Það hryggði mig mikið að lesa brjef þitt frá 19 júní og heyra að þú sjert orðinn veikur.  Þótt þú segir ekkert um það, veit jeg að þetta hlýtur að vera þjer voða þung vonbrigði.  En jeg veit að Drottinn stjórnar þessu eins og öðru, "allt verður þeim til góðs sem Guð elska".
Á þessum tíma var Sæmundur í Kennaraskólanum og var svo óheppinn að veikjast af berklum meðan á námi hans stóð.

Þann 11. júní þetta ár verður Arthur fertugur. Hann heldur upp á afmælið með því að fara í útreiðartúr ásamt Helga Tryggvasyni frá Kotkvammi og fleira fólki og skrifar í dagbókina: "Minn fertugasti afmælisdagur.  Skemmtilegur tími."

Í byrjun júlí getur hann um að hann hafi farið í reiðtúr á Heiðbergs hrossi, og aftur skömmu síðar, í það skiptið á hesti Garðars. Útreiðartúrar virðast hafa verið í miklu uppáhaldi hjá honum og þrátt fyrir annir hefur hann gefið sér tíma til að ríða út sér til skemmtunar.

Enn leggur Arthur af stað í ferðalag. Í þetta sinn fer hann með Esjunni til Siglufjarðar og er þangað kominn 15. júlí. Um leið og hann kemur til bæjarins heimsækir hann norska sjómannaheimilið og skipuleggur samkomu þar klukkan sex um kvöldið. Um hana segir hann: "Góður tími þrátt fyrir að ég væri þreyttur. Predikaði þeim Krist."  Næsta dag er önnur samkoma en fáir mæta. Þá grípur hann til þess ráðs að prenta auglýsingar sem tvær konur dreifa í hús fyrir hann. Það virðist hafa virkað því mun fleiri mæta á samkomuna það kvöldið og enn fleiri kvöldið þar á eftir. Hann dvelur enn um sinn á Siglufirði, heldur samkomur flesta daga, hittir margt fólk og sinnir einnig hómópatastörfum.

Það er ekki fyrr en 24. júlí sem hann fer yfir Siglufjarðarskarð og inn í Fljót.  Þar hittir hann vin sinn Jón Sveinsson sem fer með honum til Óss. Þá til Haganesvíkur og Brúnastaða þar sem haldin var samkoma. Daginn eftir heldur hann aftur tilbaka yfir Siglufjarðarskarð en lendir í því skömmu eftir brottför að baggarnir á hestinum losnuðu. Nefnir í dagbókinni að hjónin á Illungastöðum ásamt dóttur sinni hafi hjálpað sér. Á Siglufirði notar hann enn tímann til að hitta fólk en fer svo með skipinu Íslandi til Akureyrar þann 30. júlí og hefir þá verið um hálfan mánuð í ferðinni.

Um miðjan ágúst kemur maður að nafni Watts til Akureyrar. Í dagbók Arthurs eru engar nánari upplýsingar um hann, ef til vill er þetta trúbróðir frá Bretlandi. Hvað sem því líður þá fer Arthur með honum í ferðalag austur á land. Fyrsti áfangastaður er Ljósavatn og daginn eftir eru þeir komnir að Gautlöndum í Mývatnssveit. Næsta dag, sem er sunnudagur, fara þeir til Reykjahlíðar þar sem haldin er samkoma klukkan fimm. Enn halda þeir áfram í austurátt og fara til Grímsstaða og uppá Möðrudal þar sem þeir gista eina nótt áður en þeir fara til baka til Grímsstaða og er samkoma þar um kvöldið. Næsta dag ferðast þeir til Víðihóls og einnig þar er samkoma klukkan átta um kvöldið. Síðan liggur leiðin til Kelduhverfis þar sem þeir gista nokkrar nætur á hinum ýmsu bæjum áður en þeir koma aftur til Akureyrar þann 28. ágúst. Samkvæmt dagbókinni virðist Arthur hafa haft  andlegar samverustundir með fólkinu á þó nokkrum af þeim bæjum er þeir komu á í þessari ferð sinni. Watts fer svo aftur um miðjan september. 

Arthur fer til Englands
Arthur fer með Botníu 31. október áleiðis til Englands og er kominn í faðm fjölskyldunnar mánudaginn 5. nóvember. Eins og getur nærri taka Florence og börnin vel á móti honum, og í dagbókinni stendur: "Hlýjar mótttökur".  Arthur er svo með fjölskyldunni fram yfir áramótin og allt fram á vor 1924.

Við sjáum að Arthur hefur mörg járn í eldinum og málshátturinn segir: "Það er torvelt að hafa tvö járn í eldi", hvað þá fleiri.  Ferðalög hans gátu tafið útkomu Norðurljóssins og bréfaskriftir. Þegar hann var á Englandi tók við sífelld þátttaka í samkomum hér og þar og fyrirlestrum.  Vinir hans á Íslandi hafa án efa saknað hans og sendu honum bréf til Englands og biðu óþreyjufullir eftir svari, sem honum vannst ekki tími til að senda.  Þegar hann var á Íslandi urðu hans nánustu í fjarlægðinni fyrir sömu reynslu.  Hann fann sig oft einan í of miklum störfum og þess vegna þráði hann svo mjög og bað Guð að gefa sér íslenskan aðstoðarmann. Arthur sá líka fyrir sér þörf á fleiri trúboðum, duglegum mönnum, sem yrðu staðsettir í öðrum landshlutum.

Um þetta leyti virðist hann vera að hugsa um að kaupa húseign í Reykjavík því hann fær tilboð frá eiganda Bárunnar í Rekjavík.  Það er tímasett 30. nóvember 1923.  Þar vísar eigandinn til samtals sem þeir hafi átt árið áður um þessi hugsanlegu kaup.  Ekkert varð þó af þessu.

1924
Arthur segir í Norðurljósinu að það hafi verið vegna veikinda á heimili sínu, að hann komst ekki nógu snemma til Íslands til að geta gefið út blaðið fyrir árið 1924.  Í dagbókinni má sjá að í kringum 20. janúar er Arthur í Liverpool og fær þá skilaboð um að veikindi séu heimafyrir og hann aflýsir frekari fundahöldum og hraðar sér heim. Þegar hann kemur heim eru Florence, Irene, Mabel og þjónustustúlkan öll veik og hann þarf að annast sjúklingana og sinna húsverkunum. Ekki er alveg ljóst hvað þessi veikindi stóðu lengi en í byrjun febrúar fer hann aftur að tala á samkomum hingað og þangað, svo gera má ráð fyrir að mestu veikindin hafi verið um garð gengin á þeim tíma. Þann 25. tekur hann sér hins vegar alveg frí frá fundum og ræðuhöldum og fer með öll börnin í dýragarð.

Þann 21. maí setur hann í dagbók: 
Irene og Eric skírð ásamt sjö öðrum. (Ég skírði). Mjög blessaður tími.

Tæpum mánuði síðar er kveðjusamkoma. Seinna það kvöld fóru þau Florence í skemmtisiglingu með gufubát á einhverri á og nokkrum dögum síðar er komið að aðskilnaði enn á ný. Öll fjölskyldan fylgdi honum á lestarstöðina þegar hann fór og varla hefur verið auðvelt fyrir þau að kveðjast.

Aftur til Íslands
Þann 5. júlí er Arthur í Færeyjum og hittir þar Frú Sloan, Jens af Reyni og Daníelsen.  Hann kemur til Akureyrar viku síðar og hafði hann þá farið vestur um land og norður með skipinu.  Hann heimsækir marga eftir heimkomuna.  Hinn 7. ágúst um kvöldið kemur Helgi Tryggvason með Esju.  Og daginn eftir kom Stefán Ásgrímsson: "Sannur trúmaður"  voru ummælin sem fylgdu, er hans heimsóknar var getið. 

Á þessum tíma er Arthur töluvert að hlusta á erlendar útvarpssendingar, bæði breskar og bandarískar, og getur þess sérstaklega í dagbók sinni. Nefnir til dæmis að hann hafi hlustað á Big Ben klukkuna slá tólf á miðnætti í London þann 9. ágúst og 21. september hlustar hann á messu frá Newcastle.

Í byrjun október fer Arthur til Siglufjarðar, síðan til Hofsóss og Sauðárkróks þar sem hann fer í land og skráir sig inn á hótel.  Daginn eftir fór hann í gönguferðir og spjallaði við fólk á förnum vegi, rakst á nokkra sem hann þekkti. Á sunnudeginum hélt hann svo samkomu klukkan fjögur. Góð aðsókn var á samkomuna og komu 146 manns. Tveimur dögum síðar var önnur samkoma og þá komu 152 manns.  Það kvöld fór hann til Kimbastaða um kvöldið en næsta dag fór hann að heimsækja Sigurð frá Egg sem virðist hafa komið eftir honum til að fá hann heim til sín:
Skemmtileg reið í góðu veðri.  Skemmtilegur tími með Sigurði.
Hann gistir að Egg og er með samverustund þar morguninn eftir þar sem hann talar út frá Jóh. 21. Seinna um daginn ríða þeir Sigurður aftur til Sauðárkróks. Næsta kvöldið heldur hann enn samkomu og í þetta sinn er húsið troðfullt, 174 mættir.  Það mun hafa verið á föstudegi en á sunnudegi er farið til Sauðárkrókskirkju  klukkan fjögur: "Góð athygli og Guðs kraftur með." Einnig sinnti hann hómópatastörfum inn á milli samkomanna. Arthur fer svo með skipinu Bisp heim til Akureyrar þann 14. október.

Eins og fyrri daginn er nóg að gera á Akureyri.  Arthur er að byrja með eitthvað sem heitir Nautons Musícal Course.  Alltaf eru samkomur, tveir einstaklingar leita Krists og margir vilja samtal.  Svo hafði varðskipið Þór dregið breskan togara til hafnar og Arthur sem var breskur ræðismaður þurfti að mæta hjá sýslumanni og túlka í sambandi við það. Mörg úr söfnuðinum fara upp í sjúkrahús þann 20. nóvember til að syngja fyrir sjúklingana og aftur hálfum mánuði síðar.
Flettingar í dag: 24
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 116
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 77385
Samtals gestir: 16094
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 04:49:39

Tenglar