Þóra Guðrún Pálsdóttir

28. Árið 1936. Ferðasaga 2. hluti

                         3. Ka.
   Næsta dag fórum við hjónin með áætlunarbifreið aftur til Brighton.  Um kvöldið fylgdi okkur dóttir okkar út á skemtibryggjuna, sem nær langt fram í sjóinn.  Þar er alt mögulegt til skemtunar, meðal annars er mjög langur pallur, þar sem margir menn stóðu í löngum röðum og skemtu sjer við að fiska með stöng.  Varð mjer starsýnt á þolinmæði þessara íþróttamanna, því að þótt þeir væru 30 eða 40, sem voru að fiska, kom það mjög sjaldan fyrir, að nokkur fiskur veiddist, og bæri svo til, þá var hann mjög lítill.  En það kann vel að vera, að undrun mín stafi af því, að jeg kann ekki listina.
   Svo fórum við norður til London, sömu leið og við komum, sintum ýmsum erindum í borginni og héldum svo áfram til Bristol sama kvöldið.
   Þessa síðustu daga hafði jeg verið að skrifast á við mann í Tavistock í Devonsýslu, sem átti bifreið, einmitt við mitt hæfi og vildi selja hana ódýrt.  Vinur minn, Mr.  Hogg, þekti hann að góðu og hafði komið okkur í kynni hvorum við annan.  Maður þessi átti stóra bifreiðastöð, og var líka trúaður maður.  Hann tók mikinn þátt í starfi Drottins þar um slóðir.  Hann bauð mjer að gista hjá sjer, meðan jeg dvaldi í Tavistock og lærði að stjórna bifreiðinni, ef jeg vilji kaupa hana.
   Jeg fór því næsta dag til Tavistock með járnbrautarlest, fann manninn og skoðaði bifreiðina.  Mér líkaði hún vel.  Einn bifreiðastjóri hans fór með mjer langa leið út í sveitina og kendi mjer rækilega meðferð bifreiðarinnar.  Vorum við því nær án afláts við það þetta kvöld og allan næsta dag.  Þá töldu þeir óhætt að sleppa mjer með bifreiðina heim til mín, enda var jeg vanur við bifhjólaakstur áður.
   Konu minni var það mikið kappsmál, að jeg skifti á bifhjóli og bifreið, einkum vegna slyssins, sem jeg varð fyrir í nóvember 1935.  Jeg hafði því selt bifhjólið, þótt ég sæi reyndar eftir því.  Nú bauðst mér þessi bifreið fyrir mjög sanngjarnt verð, og ég rjeðist í það, að kaupa hana, til þess að nota hana á trúboðsferðum mínum hjer á Íslandi.  Daginn, sem jeg þurfti að ákveða, hvort jeg vildi kaupa hana eða ekki, kom innflutningsleyfið frá Reykjavík, sem jeg hafði sótt um, svo jeg taldi víst, að jeg gerði rjett að slá kaupinu föstu.   
   Jeg gleymi seint þessari fyrstu ferð minni.  Það var illa ráðið hjá mjer, að aka bifreiðinni heim á laugardegi, um hádegi, því að einmitt þá er endalaus straumur af bifreiðum á þjóðveginum í áttina til sjávarins.  Jeg þurfti líka að fara í gegnum borgina Exeter, sem liggur við fjarðarenda þannig, að hvert einasta farartæki, sem vill komast að austan til Suður-Devo- eða Cornwallsýslu, verður að fara um hana.  Og það var einmitt á þeim tíma, er mjög margir voru að fara í sumarleyfi sitt og margir að koma heim úr sínu leyfi.  Svo mikla ös hefi jeg sjaldan eða aldrei sjeð.  Í borginni Exeter sjálfri stóð allt fast um langan tíma, og lögreglan var nær uppgefin við að stjórna umferðinni.  Hún lét nokkrar bifreiðir fara um hliðargötur, hringferð um bæinn, en þetta bætti ekki ástandið mikið, því að flestir bílstjórarnir voru langt að og ókunnugir í borginni.
   Mjer var ómögulegt að taka annan tíma til þessarar ferðar; jeg varð að nota þennan dag.  En það var mjög mikil áreynsla óvönum ökumanni.  Fyrir Guðs náð komst jeg heim heill á húfi, en var svo þreyttur, að jeg notaði bifreiðina ekkert næstu daga.
   Þriðja daginn lögðum við hjónin af stað, í bifreiðinni, ásamt tveimur dætrum okkar, til Ermington, þar sem jeg hafði dvalið með syni mínum nokkrum vikum áður.  Þar hafði jeg fengið lítið hús til afnota í viku handa fjölskyldunni.  Nú var ólíkt betra að fara um Exeter-borgina.
   Besti tími ársins var nú kominn.  Við ókum nær því á hverjum degi til ýmissa staða á ströndinni, þar sem unga fólkið gat leikið sér á söndunum í sundbolum sínum, eða synt í volgum sjónum.  Devonsýsla er af mörgum talin fallegasti hluti Bretlands.  Vegirnir í uppsveitunum voru samt mjög mjóir og stundum erfitt fyrir bifreiðar að mætast.  En þar var lítil umferð, svo að engin vandræði hlutust af því.  Stundum hafði jeg ritvélina mína með mjer og sat tímum saman á söndunum og sinti störfum mínum.  Höfðum við öll mikið gagn af  þessari skemtilegu tilbreytingu.  Fólkið, sem við kyntumst, var hið skemtilegasta.  Þegar jeg ætlaði að borga húsaleiguna, vildi fólkið alls ekki taka grænan eyri fyrir hana.  Jeg hélt nokkrar kvöldsamkomur þar um slóðir, og konan mín hélt samkomur fyrir kvenfólk.  Á níunda deginum lögðum við af stað norður til Bristol aftur, öll mjög ánægð yfir dvöl okkar í Devonsýslu.
   Þremur dögum seinna fór jeg suður til Burnham-on-Sea til að dvelja þar yfir helgina og prjedika sunnudags- og mánudagskvöld.  Burnham er hér um bil 30 mílur fyrir sunnan Bristol og liggur við Severn-fjörðinn.  Þar eru fallegir sandar, og margir leita þangað til að hvílast og skemta sér í sumarleyfinu.  Hjer hitti jeg nokkra gamla vini og kyntist nýjum.  Meðal annarra var þar trúboði, sem starfar í Egiptalandi, en var að hvíla sig á Englandi um tíma.  Hann hafði mjög mikinn áhuga fyrir því, að starfa meðal barna, og þar sem engar samkomur voru haldnar þar á söndunum, eins og víða er gert annarstaðar, kom hann því til leiðar, að barnasamkoma var haldin um nónbil á sunnudeginum fyrir börn og unglinga.  Margir komu saman, og við töluðum þrír eða fjórir.
   Á mánudaginn notaði jeg tækifærið til að heimsækja nokkra fjarskylda ættingja mína, af því jeg var ekki mjög langt frá sveitinni, þar sem amma mín fæddist og ólst upp.  
Jeg ók um 20-30 kílóm. gegnum undurfagra sveit í indælu sólskini.  Alstaðar voru græn engi eða aldingarar eða blómreitir.  Varla getur maður hugsað sér skemtilegri dvalarstað.  
   Svo komu nokkrir dagar eins og farið var að tíðkast hjá mjer, - bréfaviðskifti allan daginn og samkomur á kvöldin, - og þá kom sá tími, sem jeg hafði hlakkað svo mjög mikið til, er ég átti að fara til Norfolk  Broads og taka þátt í siglingum "Krossfaranna" frá Eastbourne, eins og fyrir tveimur árum.  Í síðustu ferðasögu minni lýsti jeg þeirri ferð.
  Þá hafði jeg farið á bifhjóli og haft ungan Íslending með mjer.  Í þetta skifti var jeg einn í bifreiðinni.  Jeg get varla hugsað mjer skemtilegri og tilbreytilegri ferð á Englandi, en að ferðast þvert yfir landið, frá Bristol til Norfolk, frá Vesturlandinu  til Austurlansins.  Útsýnið er stöðugt að breytast, stundum fer maður um langa dali, stundum á fjallhrygg, stundum gegnum skóga, stundum um bersvæði, stundum hjá afskektum sveitaþorpum, stundum um gamlar frægar borgir, eins og Oxford og Cambridge og Norwich, eða um iðnaðarborgir eins og Dunstaple og Luton.  Eftir að jeg hafði staðið við á yndislegum stað til að drekka te, gerði þrumuveður mikið og kom hellirigning.  Þá fyrst fann jeg verulega til þess, hve miklu betra það var að vera í bifreið en á bifhjóli.  Jeg var kominn á bersvæði, hátt uppi, og meðan vatnið heltist niður, hugsaði jeg með mjer, hve óskemtilegt hefði verið að vera á hjóli.  En ég sat og þaut gegnum storminn með 50 km. hraða og brosti að rigningunni.
   Kl. 6.30 var jeg kominn á staðinn, þar sem hið stóra tjald "Krossfaranna" var reist.  Í því borða þeir og halda samkomur sínar.  Skammt frá lágu skipin fimm við árbakkann.  Jeg þurfti undir eins að taka til starfa, því að eftir kvöldverð var haldin stutt guðsþjónusta.  Þá fóru allir að hátta í skipunum í fyrsta sinn og hlökkuðu til vikunnar, sem lá framundan okkur.
   Næsta dag var sunnudagur, og fórum nokkrir til safnaðar þar nálægt, til að taka þátt í minningu Drottins  Jesú, eins og hann lagði fyrir postula sína og lærisveina.  Eftir hádegi fórum við allir gangandi til að skoða leifarnar af gömlu klaustri frá miðöldunum.  Þá sátum við allir í grasinu, og jeg sagði þeim sögur frá Íslandi, bæði frá fortíðinni og nútíðinni.  Um kvöldið átti jeg að prjedika hjá söfnuðinum, sem við höfðum heimsótt um  morguninn.  Salurinn var troðfullur, sumir komu langt að.  Við fundum, að blessun Drottins hvíldi sérstaklega yfir þessari samkomu enda hitti ég mann, viku seinna í Norwich, sem tjáði mér, að hann hefði verið á þessari samkomu, og hefði þá snúið sér til Krists.
   Næsta dag var hvassviðri og rigning, svo að "flotaforinginn" okkar þorði ekki í fyrstu að leyfa, að skipin sigldu.  En þá batnaði veðrið svo, að við lögðum allir af stað.  En þá hvessti aftur, svo að erfitt var að stýra skipunum.  Á rúmsjó hefði það verið auðvelt, en áin var heldur mjó, þar sem við þurftum fyrst að sigla, svo að tvö af skipunum skemdust eitthvað, en ekki svo, að þau gætu ekki siglt áfram.  Skipið sem jeg var farþegi á, sigldi nokkuð langt, og allt gekk vel, en þar sem hin skipin komu ekki á eftir, héldum við ekki til áætlunarstaðarins.  En þá batnaði veðrið næstu dagana, svo að við skemtum okkur ágætlega.  Einn dag var jeg á skipi, sem ungur læknir stjórnaði.  Hann var í þann vegin að fara til Afríku sem trúboði, hinn sami sem getið var um í síðasta tölublaði.  Glæsileg framtíð blasti við honum á Englandi, hefði hann kosið að vera kyrr.  En "kærleiki Krists knúði hann".  Í staðinn fyrir að auðgast og komast áfram í heimalandi sínu, kaus hann heldur að fara til lands, þar sem alls konar erfiðleikar og hættur liggja é leið trúboðanna, og sinna sjúklingum kauplaust.  Eins og Georg Muller gaf mönnum dæmi  til á síðustu öld (en postularnir á fyrstu öld!), ætlaði hann ekki að starfa í sambandi við neitt trúboðsfélag eða sértrúarflokk, en fylgja samt orðunum í þriðja bréfi Jóhannesar postula, að "þiggja ekki neitt af heiðnum mönnum".  Við höfðum ánægjulega stund saman og margt sameiginlegt að ræða um þann dag, er jeg var á skipi hans.  Auk stóra tjaldsins var annað minna, sem notað var sem búr.  Þá var einnig skip af þeirri tegund, sem kölluð er "houseboat" á ensku (húsbátur).  Því er ekki  siglt, heldur dregur vélbátur það.  Það er í raun og veru fljótandi hús.  Hjónin sem matreiddu fyrir okkur, dvöldu í því.  Síðast, en ekki síst, var "eldhúsbíllinn".  Félag, sem seldi sérstaka tegund af eldavélum, hafði látið útbúa afarstóra bifreið sem eldhús, með einni af eldavélum þess í og með öllu tilheyrandi.  Það hafði lánað okkur þetta ágæta tæki, til þess að greiða fyrir matreiðslunni.
                -------------------
                    4. Ka.
   Við höfðum tekið eftir því, að einn af aðstoðarmönnunum hefði verið nokkuð dulur með sig, hefði oft farið í leyndardómsfullar ferðir, meðan piltarnir voru bundnir við annað, og vildi ómögulega gefa neitt upp um það, hvert hann hefði farið eða hvað hann hefði aðhafst.  En einn daginn komst það allt upp.  Hann hafði verið að undirbúa ágætan leik, sem hét:  "Leit eftir leyndum fjársjóði", og átt það að taka flotann allan daginn að leika hann.  Hann lagði fram skjal, sem virtist gamalt handrit, og átti það að vera erfðaskrá gamals sjóræningja.  Hann hafði falið fé sitt á leyndum stað, en til þess að finna þann stað, þurftu menn fyrst að leita að "lyklum", sem veittu óljósar leiðbeiningar um það, í hvaða átt skyldi fara.  Fyrsti  "lykillinn" væri í stóru tjaldi "Krossfaranna".  Þá hentust piltarnir hingað og þangað um allt tjaldið til þess að finna hann.  Loksins fundust, bundin við fótskörina á orgelinu, nokkur spjöld, sitt með hverjum lit og var nafn eins skips á hverju spjaldi. Hvert skip hafði sinn einka lit.  Á spjöldunum stóð: "Í  skóginum vestan við tjaldið."  Nú var enginn skógur vestan við tjaldið, nema langt í burtu hinum megin við ána.  Nú hlupu allir til skipanna, drógu upp akkerin og settu upp seglin, og síðan hófst kappsigling að staðnum, þar sem skógurinn var.  Hann var afar þéttur, og menn voru lengi að leita í grasinu og klifra upp trén, til þess að reyna að finna "lykilinn."  Þá sáust skipsmenn af einu skipinu flýta sér í burtu og sigla af stað.  Þá vissu menn, að þeir höfðu fundið ?lykilinn? og hófst nú leitin með meira kappi en nokkurntíma áður á þeim stað, sem þessi skipshöfn hafði verið að leita seinast.  Þá fundu allir hinir "lykla" sína.  Á þeim öllum stóðu orðin: "Witch on Board", sem virtust þýða: "Nornin á skipsfjöl."  Nú voru allir í ráðaleysi, þeir, sem fyrst höfðu fundið "lykilinn", ekki síður en aðrir, og fóru menn að brjóta heilann um það, hvaða "norn" væri á skipi sínu, og fóru sumir að leita í klefunum, til að vita, hvort nokkuð, sem heitið gæti "norn" hefði verið falið þar.  En mjer kom til hugar, að skipin hefðu farið framhjá ármótum fyrir nokkrum dögum, þar sem hafði verið auglýsingaspjald um eitthvert efni eða vöru, og minti mig, að mynd af galdrakonu stæði á spjaldinu.  Þá skyldi jeg að hér var um orðaleik að ræða, því að "board" gat líka þýtt "spjald" í annarri merkingu.  Lykillinn átti þá við staðinn, þar sem nornin var á spjaldinu.  Nú var um að gera, að koma mönnum okkar á skipið, svo að ekki bæri á, og sigla þangað, sem spjaldið var, nokkrar mílur í burtu.  En hina grunaði, að við myndum hafa fundið þýðingu lykilsins, og fóru þeir allir að elta okkur.  Þeir sáu til okkar líka, þegar við settum mann á land, sem átti að hlaupa til spjaldsins og rannsaka það.  Sendiboðar þeirra voru á hælunum á honum og fengu allir næstu "lyklana".  Þeir vísuðu á brú langt í burtu í annarri átt, og öll skipin flýttu sér þangað.  Það má nærri geta, hve mikið kapp var í piltunum, að komast fyrst þangað, sem lyklarnir voru, og ná loksins í "fjársjóðinn", hver svo sem hann kynni að vera.  En nú var vindurinn á móti okkur, og ferðin gekk ákaflega hægt.  Með því að athuga kortið, sá jeg, að það mundi vera hægt að komast að brú þessari án þess að sigla alla leið þangað, með því að setja mann á land á vissum stað og láta hann hlaupa þangað.  Meðal skipshafnar okkar var ágætur hlaupari, þaulæfður og seigur.  Við reyndum að skjóta honum á land, svo að ekki bæri á því, og hann átti að stökkva yfir læki , vaða yfir sprænur og komast sem fyrst að brúnni og taka lykilinn.  En hinir skipsmennirnir, sáu, hvað við höfðum tekið til bragðs, og settu þeir þá menn líka á land.  Þá hófst kapphlaup á landi.  Þannig gekk það til allan daginn; skipin sigldu fram og aftur á stóru svæði, og drengirnir skemtu sér hið besta.  Síðasti lykillinn hafði marga bókstafi á víð og dreif á spjaldinu, en þegar búið var að raða þeim rétt, bentu orðin á "eldhúsbílinn", og undir honum, bundinn við öxulinn, minnir mig, var   "konfektkassi",  - "Fjársjóðurinn".
    Síðast daginn sigldum við þangað, sem áin var mjög breið.  Þar hófust kappsiglingar í smá bátum og kappsund.  Þá höfðum við og  "Spurninga-samkomu" úti.  Við sátum eða lágum á árbakka, og piltarnir komu með alls konar spurningar, sem þeir vildu fá lausn á.  Af þessu leiddi mjög skemtilegt og gagnlegt samtal um mörg mál, sem koma við daglegu lífi og andlegu lífi ungra manna.  Fundum við greinilega handleiðslu Drottins á þessari samkomu.  Þetta síðasta kvöld var einnig blessunarrík samkoma haldin í tjaldinu.  Þrír menn töluðu áður en jeg endaði samkomuna, og nokkrir af piltunum vitnuðu um, að þeir hefðu meðtekið Drottinn  Jesúm  Krist sem frelsara. Eftir á kom einn af eldri piltunum til mín, til að tala um trúmál, og sátum við lengi í bifreið minni og töluðum saman í næði þar.
   Næsta morgun voru allir snemma á fótum, því að þennan dag áttum við að skila skipunum og ferðast heim.  Vélbátur kom til að draga öll skipin inn í borgina, þar sem þau voru leigð.  Þá fóru flestir piltarnir með járnbraut til London og þaðan til Eastbourn á suðurströndinni.  Sjálfur fór jeg ekki langt þann dag, því að jeg hafði verið beðinn að prjedika í borginni Norwich, þar i sömu sýslu, á sunnudaginn, sem var næsti dagur.  Jeg fór því heim til mannsins, sem hafði boðið mjer að koma, og við fórum síðdegis til að skoða borgina og gamlan kastala, sem einu sinnim var miðdepill hennar.  Byggingin er enn þá svo traust, að það mátti nota hana sem safnahús.  Var þar margt einkennilegt að sjá frá miðöldunum.  Við fórum í marga klefa, sem notaðir höfðu verið til að geyma í pólitíska fanga.  Norwich er ein af elstu borgum landsins, og eins og í öðrum gömlum borgum er göturöðunin mjög bágborin og illa fallin til bifreiðaumferðar.
   Næsta dag var jeg á safnaðarsamkomu við Drottins borð.  Um nónbil hélt jeg fyrirlestur um Ísland, en um kvöldið prjedikaði jeg náðarboðskapinn fyrir fjölmenni.
   Ferðin heim næsta dag, þvert yfir England frá austri til vesturs, var mjög skemtileg.  
Meðal annars hafði jeg gleði af að hitta nokkur áður óþekt trúarsystkini í búð, sem jeg gekk inn í til að kaupa ofurlítið í nesti.  Eins og jeg er vanur, er jeg greiddi verðið, fjekk jeg búðaþjóninum dálítið smárit til að lesa.  Kaupmaðurinn stökk upp úr sæti sínu til þess að vita, hvað það var, sem jeg hafði fengið manninum.  Þegar hann sá á smáritinu, að það var kristilegs efnis, (aðrir en trúaðir menn gefa sjaldan smárit eða bækur, nema það sjeu auglýsingar), kallaði hann til mín, um leið og  jeg var að hverfa út úr dyrunum. "Fyrirgefið þér, en við höfum áhuga fyrir þessu hér," sagði hann.  Jeg sneri við, og við hófum samtal um áhugamál okkar.  Þetta var kristinn maður í frjálsum söfnuði þar í borginni, og hann hafði oft heyrt mín getið sem Drottins þjóns. En við höfðum aldrei hist.  
Hann vildi, að ég kæmi inn til að þiggja góðgerðir, en tíminn leyfði það ekki.  Jeg lofaði að koma við, næsta, sinn er jeg æki um borgina.  Það sannaðist, eins og oft áður, að þeir, sem elska Drottin  Jesúm, eru bræður og elska hver annan hans vegna, þó að þeir hafi ekki haft tækifæri til að kynnast.
   Jeg dvaldi ekki heima í Bristol , eftir að jeg kom að austan, nema nokkrar klukkustundir.  Þá varð jeg að leggja af stað, í vesturátt í þetta sinn.  En það bætti mikið úr skák, að jeg gat haft konu mína með mjer.  Við áttum völ á aka meðfram austurströnd  Wales, eða fara yfir fjallveginn, gegnum mörg kolanámuhverfi og koma að áfangastað okkar, Swansea, að norðan,  Við kusum síðari leiðina, fórum kringum Severn-fjörðinn, sem er mjög langur, og svo upp yfir fjöllin.  Þar var mjög skemtilegt og víðast hvar fallegt útsýni.  Vinir okkar í Swansea tóku vel á móti okkur, og um kvöldið var farið í samkomusalinn, þar sem jeg átti að flytja röð fyrirlestra um biblíuleg efni.  Það var stór og þægilegur salur og margt fólk í söfnuðinum.  Sérlega var söngurinn góður, eins og búast mátti við í Wales, söngvanna landi.  Það er einkennilegt, að fjallabúar eru vanalega söngmenn yfirleitt.  Þó eru undantekningar.  Wales-búar eru frægir um allan heim fyrir söng sinn, og er yndislegt að heyra stóran söfnuð þar syngja fjöruga sálma.  Hvert mannsbarn virðist taka þátt í söngnum af alhuga, og oftast er sungið fjórraddað.  Jeg byrjaði samkomuna með fögrum sálmi, sem jeg hjelt að allir mundu kunna.  En jeg varð hissa á því, að hann var ekki þektur þar um slóðir.  Lét jeg syngja hann eigi að síður, því að mig grunaði að Wales-búum þætti hann góður.  Það reyndist rétt, þeim þótti hann ágætur og tóku sjer tíma til þess síðar meir, að læra hann rækilega.  Hann hjálpaði til að bræða ísinn, svo að segja, og það varð fljótt góður skilningur milli fólksins og ræðumannsins, sem komið hafði til þess að, skýra fyrir þeim "hinn órannsakanlega ríkdóm Krists".
   Næsta kvöld sýndi jeg skuggamyndir frá Íslandi, og var mikill mannfjöldi samankominn í salnum, margt frá nærliggjandi þorpum og borgum.
   Eftir fjóra daga varð jeg að fara norður til Wednesbury (Óðinsborgar) í  Mið-Englandi.  Kona mín gat ekki verið lengur burtu frá heimilinu, svo að jeg ók henni til Newport, og þaðan fór hún til Bristol með járnbraut undir Severnfjörð, en jeg fór þá beint norður gegnum fallegar sveitir, til áfangastaðar mín.  Í Wednesbury átti að vera mikið trúboðamót, og voru trúboðar frá  mörgum álfum heimsins þar samankomnir.  Jeg var gestur safnaðar eins í Wallsall, sem er nærliggjandi borg, og var beðinn að prjedika hjá þeim á sunnudaginn.  Jeg var mjög hrifinn af hinu fjöruga safnaðarlífi, sem allt starfið bar vott um.  Meðal annars talaði jeg um nónbil á mánudaginn til mæðranna, sem þá komu saman.  Þær hafa sína samkomu einu sinni í viku.  Um kvöldið fór jeg aftur til Wednesbury fyrir síðustu samkomu mótsins, sem var mjög vel sótt og virtist hafa mikil áhrif.
   Leið mín lá næsta morgun gegnum stórborgina Birmingham, og um það leiti dags er umferðin afar mikil og er erfitt fyrir ókunnuga að rata og gæta allra hinna flóknu umferðareglna.  Varð jeg því feginn, er ungur maður bauðst til að vísa mjer leið gegn um þvöguna með því að aka sinni bifreið á undan mjer, svo að jeg þyrfti ekki annað en að fylgja honum eftir í blindni.  Það reyndist ágætlega, og hann kvaddi mig, er við vorum komnir vel útúr borginni að sunnan verðu.  Jeg kom snemma heim til Bristol, og um köldið fór jeg með fjölskyldu minni stutta ferð út í sveitina.
   Næsta dag buðum við hjónin nokkrum vinum okkar að aka með okkur.  Það var kaupmaðurinn, sem við höfðum skift mest við i Bristol undanfarin ár.  Saga hans er merkileg,  Faðir hans hafði verið trúaður maður, en sjálfur hafði hann komist út í vantrú og lifað sem vantrúarmaður allmörg ár.  Kona mín hafði oft talað við hann um Drottin og lánað honum bækur og rit.  En alltaf virtist hann jafn kaldur fyrir trúarlegum áhrifum.  Var hann þó vinsamlegur við okkur hjónin persónulega, og þegar jeg var á Englandi töluðumst við stundum við um eilífðarmálin.
   Okkur hjónum fannst hann mundi vera einlægur maður í hjarta sínu, og báðum oft fyrir honum, að hann mætti rata til ljóssins, áður en það yrði um seinan.
Árin liðu, og lítil breyting virtist vera á manninum.  Þá breyttist hagur hans sviplega.  Hann gekk í félagsskap við efnaðan mann, og hélt hann, að það myndi verða til þess að   auka mjög viðskifti hans.  En félagi þessi reyndist hinn mesti svikari.  Með alls konar brögðum tókst honum að ná versluninni algerlega á sitt vald og vísa hinum rétta eiganda á bug.  Hann var svo slunginn, að forðast allt, sem gæti varðað við lög, að það er  nærri því ótrúlegt, hvernig hann gekk frá málunum.  Kaupmaðurinn varð allslaus og átti í mikilli baráttu fyrir sínu daglega brauði.  Þegar öll sund voru lokuð, hrópaði hann til Drottins.  Hinar dásamlegu leiðir, sem Drottinn notaði til þess að hjálpa honum í neyð hans, sannfærðu hann um, að hjer væri Guðleg hönd að verki, og hann kannaðist hreinskilnislega við það.
Þá kom loksins að því, að hann leitaði Drottins fyrir alvöru og sneri sér af heilum hug til hans.  Nú er enginn vafi á því, að hann er orðinn, eins og ritningin kemst að orði "ný sköpun".
"Hið gamla er horfið, allt er orðið nýtt."   Hann á ennþá í töluverðri baráttu í viðskiftalífinu, en alltaf batnar hagur hans nú.  Það var unum fyrir okkur hjónin, að hafa samfélag við hann og konu hans, því hún er líka orðin Drottins.  Þau eru eins og börn í trúnni, en eru að vaxa daglega í náð Guðs.

Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99860
Samtals gestir: 20163
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 16:08:59

Tenglar