Þóra Guðrún Pálsdóttir

34. Árið 1948. Andlát Florence

 Sumarið 1948 fór fram samskonar starfsemi við Ástjörn og árið áður, bæði fyrir börn og svo mótið fyrir trúaða. Þetta sumar hafði Florence kona Arthurs komið til Íslands og hafði þá ekki komið lengi.  Irene dóttir hennar notaði sitt sumarfrí og fékk það lengt, til að koma með henni, því Irene sagði að móðir sín hefði ekki getað farið ein.  Irene varð nú samt að fara heim á undan henni til að sinna sínu starfi, áður en mótið við Ástjörn skyldi hefjast. Þau fóru svo hjónin austur að Ástjörn til að vera þar á meðan starfið með telpunum stóð yfir.  Þau fara um Mývatnssveit og ætlaði Arthur efalaust að sýna konu sinni fegurð þeirrar sveitar í sumarskrúði.  Hann var alltaf svo opinn fyrir fegurð náttúrunnar og umhverfisins.  Það kemur í ljós í öllum ferðasögum hans.  Þau ætluðu að gista í Mývatnssveit en fengu ekki herbergi í gistihúsi vegna þess að allt var fullt.  

Á sama tíma er Sæmundur er heima á Akureyri og sér um að senda matvörur með rútunni austur til Ástjarnar, aðrar en mjólk. Hún fékkst hjá bændum í nágrenni  Ástjarnar.
Arthur skrifar Sæmundi frá Ástjörn 23. júlí 1948.                     
   Kæri bróðir í Drottni!....
   Jeg sje ekki nokkra leið til að auglýsa hina fyrirhuguðu barnasamkomu hjer, þar sem við höfum haft sífeldar rigningar síðustu þrjá daga, og slík samkoma er að mestu leyti háð góðu veðri, þar sem við getum varla haft öll börnin hjer inni ef rignir.  Við verðum að bíða þar til Drottinn gefur okkur viðeigandi veður fyrir slíka samkomu, eða að minnsta kosti útlit fyrir góðu veðri.
   Guð gefi að veðrið batni fyrir mótið!  Þegar veðrið breyttist, breyttist heilsufar konu minnar, og nú hefur hún legið síðan á mánudag og jeg vona, að henni batni einnig, þegar veðrið verður betra.  Annars hafði hún gaman af ferðinni um Mývatnssveit og hingað því þá var veðrið hið besta .
   Börnunum líður öllum vel og hafa hagað sjer ágætlega yfirleitt, þrátt fyrir rigningarnar ...  Nú rignir ekki í dag og Kristín og Magga eru farnar með telpurnar niður á tjörnina.
   Á hverjum degi hefur verið mikið að gera, svo jeg hefi ekki skrifað mörg brjef, enda ekki gott að skrifa á ritvjel meðan konan liggur lasin. Hef reynt að skrifa innan um börnin.  Berðu öllum systkinum mínum innilega kveðju frá okkur öllum.                                                                                        (Undirskrift vantar Þ.P.)
Til skýringar
Skálinn rúmaði aðeins svefn- og mataraðstöðu fyrir börnin og lítið herbergi fyrir umsjónarmann barna auk eldhúss.  Þess vegna hefur Arthur reynt að skrifa í salnum.  Aðrir starfsmenn urðu að sofa í tjöldum á þessum tíma, eða eins og undir þessum kringumstæðum þegar frú Gook varð svona veik, þá svaf ein stúlka í eldhúsinu til að halda eldinum logandi í vélinni um nóttina. Þetta sagði mér Margrét Magnúsdóttir, sem varð kona Boga Péturssonar er seinna meir varð rekstrarstjóri sumarbúðanna um margra ára skeið.  Um þetta leyti var Margrét vinnukona á Sjónarhæð og var því sjálfsögð að fylgja þeim til Ástjarnar, er þau fóru þangað til að vera með stúlknaf lokknum. Margrét dásamaði mjög framkomu Arthurs gagnvart sér á því tímabili sem hann var húsbóndi hennar.  Þegar hún var orðin gift kona og bar barn undir belti, bað hún Arthur um leyfi til að láta heita í höfuðið á honum. Hann var um það leyti á förum til útlanda.  Hann gaf henni leyfið og  nokkru síðar fæddist  drengurinn sem fékk nafnið Arthur  Bogason. Ég trúi að beiðnin hafi glatt Arthur Gook því sjálfur eignaðist hann aðeins eitt barnabarn, dreng sem var látinn heita Símon.  Hann fæddist með hjartagalla og dó um 12 ára aldur.  (Heimild: Margrét Magnúsdóttir, 7. febrúar 2009).
 
Svo líður nú seinni vikan sem  telpurnar áttu óverið í sumarbúðunum. Trúaðramótið stóð svo frá 31.júlí til 2. ágúst.

                             Andlát frú Florence Ethel Gook
    Þann annan ágúst, eftir að flestir þátttakendur mótsins voru farnir heim, ætlaði Arthur að taka konu sína með sér út á tjörnina í báti.  Hún hefur þá verið orðin eitthvað hressari fyrst hún treysti sér til þess.  En  rétt þegar hún er komin út fyrir skálann var þrekið þrotið og hennar veiklaða hjarta brast. Hún hneig niður, og þar með var hennar lífsgöngu lokið á þessari jörð.  Þetta var óvæntur atburður fyrir alla viðstadda, nema ef til vill fyrir hana sjálfa. Ég hefi heyrt að hún hafi verið spurð, eftir að hún kom til Íslands, hvort hún hefði ekki farið til læknis áður en hún kom.  Svarið var "Nei, þá hefði ég aldrei fengið að fara".
Jarðarförin fór fram frá Sjónarhæð og var hún lögð til hinstu hvíldar í Akureyrarkirkjugarði, eins og frumburður hennar sem fæddist andvana eftir mjög erfiða fæðingu. Um þann atburð hefur áður verið getið í sögunni.

Minningarsamkoma
Minningarguðsþjónusta um Florence Ethel Gook, var haldin að Stokes Croft Chapel þann 12. ágúst 1948. Hluti þessar minningarguðsþjónustu hefur verið þýddur á íslensku og kemur hér:
 Mr. Price ávarpaði áheyrendur fyrst og mælti:
Sálmarnir sem við syngjum, voru í uppáhaldi hjá Mrs. Gook.  Hún söng oft þegar hún var að vinna heima hjá sér: "Þegar jeg leystur verð þrautunum frá" og sjerstaklega- "er jeg skal fá Jesú auglit að sjá, það verður dásamleg dýrð handa mjer."      
Það var erfitt að skipuleggja þessa minningarsamkomu.  Mrs. Gook var svo mikils metin og svo ástkær í þessum söfnuði að mörgum mundi þykja það heiður að mega flytja ræðu hjer í kvöld.  En Mrs. Gook þjónaði mörgum fleiri söfnuðum víðs vegar og margir mundu telja það forrjettindi að mega flytja hjer ræðu.
Mrs. Gook var í söfnuðinum hjer með okkur í 25 ár og hafði brennandi áhuga á alheimskristniboði en þó sjerstaklega á Íslandi, þar sem maðurinn hennar var starfandi.  Jeg vil nefna eitt dæmi um áhuga hennar: Hún var við bænasamkomu fyrir hádegi, borðaði ljetta máltíð einhversstaðar og fór svo og stjórnaði kvennasamkomu hinumegin í borginni og svo var hún á safnaðarfundi um kvöldið.
(Hér virðist vanta framhald. Þ.P.)
 
 Þá flutti Barret ávarp:
Við erum hjer í kvöld til að þakka Guði fyrir gjöf, sem þessi kirkja hefur fengið í starfi Mrs. Gook, sem var sannarlega eftirtektarverð kona og erum við hjer til að heiðra minningu hennar.  Mrs.  Gook var sannur þjónn þessarar kirkju.  Jeg veit ekki hvort jeg ætti að nefna Föbe (Róm. 16. 1.) eða Maríu eða Mörtu. Hún líktist þeim öllum og eiginleikar allra þessara kvenna lýsa henni.  Jeg hefi verið að hugsa um bænalíf hennar.  Hún var aldrei í vafa um trúfesti Guðs nje tilgang hans.  Undirstaða alls lífs hennar var fullkomið og algjört traust á Guði í hverju smáatriði í lífi hennar, dag og nótt.
   Ef við vorum í einhverjum erfiðleikum og töluðum við Mrs Gook var hún vön að segja:
"Jeg er viss um það að Guð hefur í hyggju að eitthvað gott verði afleiðing af þessari reynslu.  Það mun verða lán í óláni. Við vitum að- "þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs." Hún sagði okkur það hreint og beint og trú hennar var alltaf sigursæl.  Það var vegna trúar hennar að hún vann svo margar sálir fyrir Jesúm Krist.  Hún var hrifin af öllum kristilegum samkomum og mótum og ýmsum fjöldasamkomum í borginni - og að vinna í tjöldum er ekki auðvelt.  Þegar við höfðum samkomur í kvikmyndahúsum var Mrs. Gook þar og var alltaf að athuga hvor hún gæti veitt hjálp.  Kvennasamkomur hafa verið nefndar.  Hún annaðist fjórar kvennasamkomur vikulega.  Það reyndi mikið á hana líkamlega.  Alltaf fór hún með strætisvagni eða gangandi.  Á sunnudögum var Biblíulestrarhópur fyrir konur, konan mín ætti að tala um það, þær hafa unnið saman í 25 ár. Þegar kirkjan var eyðilögð með sprengju opnaði hún heimili sitt og komu þær saman í stofu hjá henni í 5 ár.  Þá voru samtöl við fólk, þar á meðal voru smákaupmaðurinn og kona hans þar sem hún keypti matvöru.  Hún bað mikið fyrir þeim og bakaranum, mjólkurpóstinum og fjölda einstaklinga.
   Hún áleit að maður ætti að reyna að ná sambandi við fólk og hún var vön að tala við það um sálarástand þess og afstöðu þess til Guðs.  Hún hikaði ekki við að tala á mjög  kærleiksríkan hátt.  Og ekkert mátti hindra þessar tilraunir.  Jeg man sjerstaklega að jeg sagði einu sinni við hana: "Ertu aldrei þreytt Mrs. Gook, viltu ekki sleppa viðtölum í dag?"
Og hún svaraði: "Guð gefur mjer styrk ef hann ætlar mjer að gera þetta."
   Samúð hennar á sorgarstund leiddi í ljós trú hennar.  Venjulega var hún fyrst til að veita huggun og það er margt fólk sem þakkar Guði fyrir uppörfandi orð frá Mrs. Gook þegar það var í erfiðlekum.  Jeg man eftir að einu sinni var jeg sjerstaklega niðurdreginn yfir kirkjustarfinu og jeg ræddi það við Mrs. Gook og hún sagði: ,"Jæja, þú heldur áfram, Guð mun hjálpa þjer og jeg skal biðja fyrir þjer." Og jeg hjelt áfram og Guð hjálpaði - og hún hjelt áfram að biðja.  Hún var mikil bænakona og skrifaði mörg brjef.  Þeir sem hafa fengið uppörfandi brjef frá henni munu hafa varðveitt þau.  Einu sinni hitti hún konu sem þá var nokkuð döpur, úti á götu og sagði hún Mrs. Gook frá erfiðleikum sínum.  Jeg held að innan sólarhrings hafi Mrs.  Gook sent kort sem á var skrifað: "Ómögulegt fyrir menn en mögulegt fyrir Guð."   
   Þessi trú hennar gerði henni kleift að þreyja öll þessi ár aðskilnaðar frá manni sínum og alltaf var trú hennar sterk og óbifanleg.  Jeg vil segja þetta um bænalíf hennar: Hún var alltaf á bænasamkomum, sama hvað kvöldið var dimmt og votviðrasamt - ekkert mætti koma í veg fyrir að hún kæmi á bænasamkomu og opinber bæn hennar var frábær. Jeg veit hún sagði ætíð: "Færið það í tal við Drottin, spyrjið Guð um það". Það var meginregla og tilgangur lífs hennar.
   Allir hæfileikar sem Guð hafði gefið henni og persónuleiki voru helgaðir þjónustu við Krist, málstað hans og söfnuð hans. Óteljandi vinnustundir fóru í fjelagsstarf, skemmtiferðir fyrir konur, sem komu á samkomur hennar, góðgerðarútsölu með hádegisverði og kaffi.  Og á stríðsárunum þegar sykur, kaffi og kjöt var skammtað og erfitt var að útvega veitingar vildi hún aldrei biðja fólk  um neitt.  Trú og bæn voru alveg fær um að útvega slíkar nauðsynjar og verkið var framkvæmt með engu fjaðrafoki.  Trú hennar og bæn  hennar. -Hve við munum sakna hennar.
 
Eftir jarðarförina, líklega í byrjun september, mun Arthur hafa lagt af stað til Englands. Sæmundur skrifar honum 11. september 1948, þar sem hann segist vona að Guð hafi gefið honum góða ferð, þrátt fyrir lægðirnar, sem útvarpið hafi verið að tala um að væru á hafinu milli Skotlands og Íslands. Arthur ákveður, sjálfsagt með samþykki barna sinna, að selja húsið í Englandi.  Salan gekk ekki svo fljótt.  Hann skrifar Sæmundi 18 október:
Mikið að gera, húsið ekki selt ennþá.  Menn eiga svo erfitt að ná í peninga til að kaupa hús.  Nú ætla jeg að selja það á opinberu uppboði, en auðvitað ekki fyrir minna en sæmilegt þykir. Menn segja að þetta sje allrabesta aðferðin nú sem stendur.
Húsið seldist 25. október en ekki fyrir þá upphæð sem Arthur gerði sér vonir um.  Það var samt ekki mjög slæmt eftir ástæðum og gott fannst honum að losna við umstangið. Nú geti hann hugsað um heimferðina.  Hann býst við að geta lagt af stað um miðjan nóvember.

Í september - Októberblaði Norðurljóssins birti Arthur eftirfarandi auglýsingu:

Afsökun og þakkarorð.
   Ritstj. biður velvirðingar á því, að enn einu sinni hefur orðið dráttur á útkomu blaðsins.  Eins og margir lesendur munu hafa frjett, varð hann fyrir þeirri sorg í ágústmánuði að missa konu sína, sem varð bráðkvödd, meðan þau dvöldu í sumarheimilinu við Ástjörn.  Hann hafði ekki gert ráð fyrir að fara til útlanda þetta sumar, en í þessum kringumstæðum varð hann að fara til að ráðgast við börn sín á Englandi.  Hann kom ekki heim fyrr en seint í nóvember, og biðu þá mörg verkefni, sem höfðu safnast fyrir.  Hann leggur alt kapp á að koma út sem fyrst tölublöðunum sem vantar.
   Hann notar tækifærið til að þakka af hrærðum hug öllum góðum vinum og trúsystkinum, sem sýndu í svo ríkum mæli hluttekningu og allskonar hjálpsemi á sorgartímanum.  Sjerstaklega minnist hann með þakklæti hinnar framúrskarandi hjálpsemi og kærleika, sem vinir og nágrannar í Kelduhverfi og Axarfirði sýndu, þegar mest lá á.

Arthur stoppaði 10 daga í Reykjavík þegar hann kom til baka frá Englandi. Sæmundur skrifar honum til Reykjavíkur 18. nóv. 1948. Þar segir hann:

Mænuveikifaraldur, en vægur þó, geisar hjer.  Var skólum lokað hjer í morgun vegna þess. 

Þann 25. sama mánaðar skrifar hann aftur:

Eins og stendur er hjer algert samkomubann, skólar lokaðir og kaffistofur.  Veikin virðist vera yfirleitt mjög væg, í flestum aðeins lítilsháttar höfuðverkur og dálítill hiti, er mjer sagt.  Bannið á að standa til 3. des. -hefi jeg heyrt.

(Margir sem fengu þessa veiki áttu samt eftir að bera lengi afleiðingar hennar.(Þ.P.)                                                                                                  

Arthur var kominn heim til Akureyrar seint í nóvember.  Þá hafa tekið við hin venjulegu daglegu störf, vinna við Norðurljósið og við samkomuhöld, lækningar og bréfaskriftir. Hann skrifar í febrúar 1949 fréttabréf til safnaðar sem heitir  Vineyard.  Hann segir þeim nánar frá dauða konu sinnar um sumarið og að hann hafi þurft að skreppa til Englands í sambandi við það.  Hann segir að hópur trúaðra í Reykjavík  komi saman í góðu húsnæði og hafi þar aðstöðu til skírnar.  Ein systir hafi komið langt að til að fá skírn og daginn eftir kom ungur maður til að fá sömu þjónustu, áður en Arthur færi aftur  norður til Akureyrar. Auk þess hafði hann þá gleði að gifta trúuð hjónefni.  Bauð maðurinn honum afnot af bifreið sinni, en hann var leigubílstjóri, í allar hans heimsóknir til mismunandi staða í borginni segir Arthur.

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99777
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:04:37

Tenglar