Þóra Guðrún Pálsdóttir

1907

Á hinu nýbyrjaða ári 1907 héldu þeir Gook og Nisbet sameiginlega bænaviku með Hjálpræðishernum

Sáning  í fjarlægð

Arthur fær bréf dagsett 24. janúar 1907 frá presti á Norðurlandi. Hér má sjá útdrátt úr því bréfi:

Herra trúboði Arthur  Gook!
Ég hefi fengið frá yður góð bréf, frá 25/9 og 29/10 f.á. sem ég þakka yður fyrir.  Með fyrra bréfinu fékk ég send 60 eintök af "Kristur, biblían og vantrúin", og í síðara bréfinu var sagt, að selja mætti myndalausu N.Testamentin á o/50 hvert.  Ég hefi selt öll þessi 60 eintök ... Tæplega get ég selt fl. og bið því ekki um fl. ... Ef þetta væru ekki guðsorðabækur, væri ég ófáanlegur til að standa í þeim óþægindum, sem sölu þeirra er samfara. En bækurnar eru mér kærar ... Ýmsir tala mjög vel um bókina:  Kristur, biblían og vantrúin, og þykir mikið varið í hana, eins og mér.  Mér þykir margt í henni mikið gott, og bókin kemur á hentugum tíma , sem er vantrúartími ...

     Næst lítum við í dagbók Arthurs 20. janúar 1907. Dagbókin er ekki margorð frekar en fyrri daginn. Þar stendur:

Yndislegur tími með Drottni.  Tveir viðurkenna að hafa tekið við Kristi.

Á samkomu að viku liðinni er troðfullur salur.  Næsta sunnudag þar á eftir hefjast barnasamkomur og þar mættu 50 börn. Barnaveislan sem alltaf var haldin einu sinni á vetri í sunnudagaskólanum varð mjög vinsæl meðal barna. Þá var farið í skemmtilega leiki og svo var veisla. Í þetta skiptið var hún haldin þann 20. mars.  Þá mættu 70 börn og 18 fullorðnir. Viku seinna tekur Arthur fram að Nisbet hafi í fyrsta sinn predikað á íslensku. Það virðist staðfesta það sem Eyjólfur frá Dröngum segir í sinni ævisögu, að maðurinn hafi verið gáfaður. Ein kona er nafngreind er frelsast hafi í það sinn. Fjórum dögum seinna er fullt hús kl. 5 og góð þátttaka kl.8.30 um kvöldið. Í dagbókinni má sjá þessar athugasemdir:

Andans kraftur.  Kona J. J. frelsast.  Lof sé Guði!

Nokkru síðar, eða þann 31. mars, eru páskar og þá má sjá eftirfarandi færslu í dagbókinni:

Góður tími, blessaður tími.  Brauðsbrottning kl.11.30.  Barnasamk. kl.12. Samkoma aftur kl 5 og 8.30.

Í lok apríl fara þeir Nisbet í reiðtúr saman. "Mjög skemmtilegt" skrifar Arthur. En eftir tæpan mánuð týndist hesturinn Jo.  Arthur segir hann hafa villst.  Að líkindum hefur komið strok í hann, eins og sagt hefði verið í sveitinni, og hann  ráfað af stað að leita átthaga sinna en auðvitað hefur hann getað horfið af fleiri ástæðum. Mánuði síðar er Jo aftur kominn heim og Arthur talar um að indælt hafi verið að ríða honum.  Þetta var ein helsta skemmtunin, að fara á hestbak eða á skauta.

Nokkru fyrr, eða 19. apríl, fær Arthur bréf frá konu sem átti eftir að verða hjálparhella í sambandi við að selja blaðið Norðurljósið og að þýða efni í það.

Kæri bróðir í Kristi!                        
Hjartans þakkir fyrir allar yðar alúðlegu leiðbeiningar, og góðvild er þér hafið sýnt mér.  Ég fæ aldrei fullþakkað það, að þér urðuð til þess að leiða mig til Drottins  þegar ég lærði að trúa réttilega á Krist og hans friðþægingu, þá lærði ég um leið að biðja og að treysta guði, áður gat ég hvorugt. J.J.

Hún hafði haft til útsölu bækur frá Arthuri og er að gera grein fyrir þeim.  Í  þeim flokki eru Nýja testamentið, Kristur, biblían og vantrúin, Sjónarhæðarsálmar, Jóhannesar Guðspjall, Þýðing bænarinnar, Frelsun, fullvissa og fögnuður, Sex dagar sköpunarinnar og Sálmar þýddir úr ensku. Svo snemma byrjaði hann að koma boðskapnum til Íslendinga í gegnum hið ritaða orð.

Fyrstu skírnþegarnir
Það er  svo 6. júní 1907 sem fyrsta skírn, svo vitað sé, fer fram í Glerá fyrir ofan Akureyri. Það voru fimm konur og einn karlmaður sem skírn tóku. Í dagbókinni stendur:

Ein klst. að ganga.  Ekki kalt, margt fólk kom. Dýrðleg stund.  Allt fór vel fram Guði til dýrðar.  Fólk sýndi virðingu.

Einhverjir komu á hestum, því þeir sjást á mynd sem tekin var við þetta tækifæri, einir átta dreifðir um brekkuna. Myndin minnir svolítið á frásögur Nýja testamentisins um samveru Jesú með fólkinu út í hinni ósnortnu náttúru.  Á fimmta degi þar á eftir getur hann um að vond grein hafi birst í Norðurlandi en ekki getur hann um efni hennar. 

Næst getur Arthur um ferð sína til Reykjavíkur og þar dvelur hann frá 15. júní til 1. júlí.  Hann nefnir samkomu í Y.M.C.A. sal og getur þess að hann hafi gefið smárit. En á sama tíma þráir hann hina trúuðu á Akureyri.  Finnur sig tóman, leitar Drottins og fær styrk.  Hann þarf bæði að skrifa bréf og virðist heimsækja marga og hafa ýmis erindi að reka í Reykjavík. Aðrir heimsækja hann. 
Arthur er annars á leið til Englands til að giftast unnustu sinni  Florence  Palmer.  Þann 5. júlí er hann kominn til Leith og þremur dögum síðar virðist hann kominn heim. Daginn eftir hittir hann svo unnustuna, fólkið sitt og vini.

Brúðkaup
Arthur og Florence voru gefin saman þann 21. ágúst 1907.  Daginn áður talar hann um  lestur og bæn.  Dagbókin er fáorð á þessum dögum, eins og reyndar alltaf, og sleppt úr dögum.  Á sunnudeginum næsta talar hann um blessaðan tíma og að tveir hafi leitað Drottins á samkomu.  Þann 1. september sýnist hann tala á samkomu sem hann  segir að mikil hjálp hafi veist frá Drottni og mikil bæn hafi verið eftir samkomu þar sem átta manns ákveða að taka á móti Kristi.  Dagana 15.-21. september er mikið að gera við að pakka niður og heimsækja vini.  Kveðjusamkoma er svo haldin í söfnuðinum þeirra þann 24. sama mánaðar. Áfram eru samkomur á ýmsum stöðum. 
Það er svo 9. nóvember sem þau leggja af stað til Færeyja og daginn eftir eru þau komin þangað til Mr. Sloans og þar næsta dag til Paulsen´s til Skay. Arthur talar á ýmsum samkomum í Færeyjum og þau leggja ekki af stað til Íslands fyrr en 30. nóvember.  Þá sendir Daníelson, sem þau virðast þá vera hjá, skeyti til  James Nisbets að Arthur Gook komi með Ingólfi. Þá er eftir að koma við á fleiri stöðum í Færeyjum því þau koma ekki til Íslands fyrr en 8. desember og eiga þá eftir að ferðast með ströndinni til Akureyrar.

Ungu hjónin komin heim til sín
Arthur getur þess að 19. desember hafi þau hjónin byrjað borða heima hjá sér. Nisbet er einnig hjá þeim í fæði en ekki alveg ljóst hverjir aðrir hafi  þar verið til húsa. Þó segir í dagbókinni hinn 1. janúar 1908 að Guðrún sé veik og Þóra hafi komið til hjálpar svo að líklega hefur Guðrún verið ráðin þar hjálparstúlka. 

Irene segir að þegar foreldrar hennar komu hingað og settust hér að hafi móðir hennar haft nóg að gera. Hún hafi t.d. alltaf spilað undir sönginn á samkomum og þau hafi unnið saman. Samkvæmt dagbókum Arthurs virðist unga frúin hafa verið önnum kafin suma daga að sinna lækningum og hann hjálpað henni og það eru annríkisdagar að hans sögn. 

Veikindi virðast þó hafa hrjáð Florence því hún er veik og liggur í rúminu 12. janúar og þann 21. er líka tekið fram að hún sé veik.  Í lok mánaðarins virðist hún þó vera hressari því þá halda þau samkomu í kirkjunni á Svalbarðseyri og er kirkjan nærri full. Morguninn eftir er Florence þreytt en daginn eftir fer hún í sinn fyrsta reiðtúr á íslenskum hesti og allt gekk vel.  Hún verður aftur veik 24. febrúar og 4. mars er Hólmfríður Sveinsson fengin til að líta á hana. En rúmri viku síðar fór Arthur með hana í sleðaferð og það var "mjög skemmtilegt" er athugasemdin sem fylgdi. 

Daginn eftir sem er sunnudagur segir hann: ,"Blessuð samkoma, James talaði mjög vel."  James fer stundum að heiman og er í fríi tíma og tíma.  Hann kann þá að hafa verið í útbreiðslustarfi. Arthur getur þess að Nisbet sé kominn með Úranusi frá Ísafirði að kvöldi þess 18. júní.  Þeir fara saman í útreið nokkrum dögum seinna.  Um mánaðarmótin júní-júlí fór fram skírn tveggja kvenna í sundpollinum:

Mikill fjöldi kom. James veitti hjálp við að tala.  Fólk sýndi lotningarfulla athygli. Haft var te á eftir.


Fæðing 4. júlí 1908
Það er 1. júlí sem Arthur getur um að þau hafi fengið senda hluti fyrir barn með skipinu Ingólfi og þann 3ja byrjaði Florence að fá verki. Eftir langar og strangar fæðingarhríðir fæddist litli sonurinn andvana þann 4. júlí og hefur að líkindum dáið um nóttina. Florence hefur greinilega komið hart niður því í dagbókinni stendur að hún hafi mátt þola hinar hræðilegustu sinateygjur og krampa (hún hefur eflaust haft fæðingareitrun á háu stigi. Þ.P.) Um þennan atburð segir Arthur:

En Guð varðveitti líf hennar. Lof sé honum! Næstu dagar urðu erfiðir og angistarfullir fyrir elsku Florence.  En Guð svaraði bænum (að henni varð sjálfri bjargað á hann við Þ.P.).  Lofað sé hans nafn! 

Það er svo 7. júlí sem í dagbókinni stendur:

Tók litla líkaman og bar hann (í litla stokknum) upp höfðann í kirkjugarðinn, frumburð minn, dáinn.  James aðstoðaði mig, bað og söng sálminn "Thy vill be done". Florence lá fárveik heima í rúminu.

Næstum ekkert var skráð í dagbókina það sem eftir var af júlí. En þann 28. júlí stendur:

Smurði  Florence með olíu alveg eftir orði Drottins.  Blessuð fullvissa gefin.

Og daginn eftir:

Augu Florence miklu betri og allsherjar líðan betri.  Lof sé Guði! Hún getur lesið 2. kap. í "Ritualism  Abandoned" án þess að hika, með mínum gleraugum.

Sunnudaginn 9. ágúst, þegar rúmur mánuður var liðinn frá fæðingunni, var Florence fyrst fær um að vera með í salnum á samkomu.

Geislar í gegnum myrkrið
Kona í öðru héraði virðist vera búin að fá fréttirnar af fæðingunni um viku eftir að hún átti sér stað því hún skrifar samúðarorð:

Elskaði bróðir í Kristi.
Algóður Guð huggi þig og styrki í reynslu þinni, og láti ljós síns kærleika eyða myrkri sorgarinnar.  Ég sendi þér hér með sálma, sem ég skrifaði upp í þeirri von, að þú myndir ef til vill geta notað þá í sálmabók einhvern tímann.  Ég held að þú hafir ekki séð þá fyrr og ég get líka ímyndað mér að þér geðjist vel að þeim.  Ef þér væri ánægja að því að fá þá í hendur, eða þú gætir notað þá til einhvers gagns, þá þættist ég hafa varið vel þeirri stund sem ég notaði til að skrifa þá.
Hjartanlega þakka ég þér fyrir hestlánið.  Ég vona að hann hafi komið til þín með góðum skilum.  Mér kom hann sannarlega í góðar þarfir, því ég fann fljótlega að ég hefði tæplega haft með það að gjöra, að ganga heim til mín.  Mikla blessun hefi ég haft, í andlegu tilliti af þeim leiðbeiningum, sem þú gafst mér er við töluðum saman ... Mér finnst að umhugsunin um það, að engin yfirsjón eða afbrot getur svipt mig náð Guðs og eilífri sáluhjálp ætti að glæða margfaldleg hjá mér löngunina að gera hans vilja, sem sýnir mér þvílíkan kærleika.  Ég lifi í því trausti að hann fullkomni það verk sem hann hefir byrjað ... Drottinn miskunni þér og konu þinni, og gefi henni heilsuna aftur.  Hans speki veiti ykkur allt það, sem hann sér að er sannarlega gott.  J.


Arthur heldur samkomu á Hjalteyri þann 14. ágúst, jafnframt því að selja bækur. Þremur dögum síðar er hann aftur á ferð, í þetta sinn í Fagraskógi og Stærra Árskógi . Tók það hann hálfan annan tíma að ríða frá Möðruvöllum til Akureyrar og voru hrossin í góðu formi.  Sunnudaginn 30. ágúst á hann góða stund við borð Drottins.  Þá fara þau tíu saman á tveimur bátum í eftirmiðdag til Kaupangs. Snemma í september er hann ráðinn enskukennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar. Stuttu síðar fór fram skírn og tóku þá sex manns skírn. Hinn 21. sama mánuðar má sjá í dagbókinni að kona sem hann nafngreinir:

Keypti bækur á samkomu á Svalbarðseyri í vor, hefur lesið Nýja testamentið og fundið Frelsarann. Lofað veri hans nafn! Fólk er að frelsast.

Í byrjun október er Arthur farinn að kenna í Gagnfræðaskólanum og 13 nóvember má sjá að hann er byrjaður að spila fótbolta með drengjum.  Á þessum tíma er hann einnig farinn að vinna að blaðinu Northern  Light, sem var gefið út á ensku um tíma og sem hann sendi út til Englands.  19. október getur hann um að kona Sveins hafi vitnað um að hún hafi komið til Krists.  Þetta var Ólafía Einarsdóttir sem síðar átti eftir að verða mikil hjálparhella við blaðið Norðurljósið. Hún tók við greiðslum fyrir blaðið í Reykjavík og dóttir hennar Soffía eftir hana. 

Arthur tekur fram góða aðsókn að samkomunni sem haldin var klukkan fimm sunnudaginn 25. október.  Þau höfðu verið að biðja fyrir samkomunni á undan og Guð sendi marga og marga af skóladrengjunum (sennilega þá sem hann hafði verið að kenna og kynnast í fótboltanum).  Það er í mörgu að snúast en stundum fara þau út að ganga hjónin, eftir að hann kemur úr skólanum.  Áfram er góð aðsókn að samkomum.  Það er líka barátta.  Hann rís á opinberum vettvangi á móti því sem hann álítur ókristilegar stefnur eins og andatrú, guðspeki og nýguðfræði. Það var nú ekki hans stíll að fara með veggjum.  Hann fær stundum heimsóknir fólks sem vill fræðast um þessi mál og  ræða þau við hann.  Hann virðist og heimsækja sjúkrahúsið öðru hverju eða jafnvel reglulega.


Flettingar í dag: 226
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99889
Samtals gestir: 20163
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 16:30:16

Tenglar