Þóra Guðrún Pálsdóttir

1919


Á gamlárskvöldi 1918 hélt Arthur Gook samkomu kl. 11 um kvöldið eins og venja hans var er hann dvaldist hér á landi.  Það var svo til stillt að söfnuðurinn væri á bæn frammi fyrir Drottni er nýárið gengi í garð.  Það var góð samkomusókn um þessi áramót og svo tók bænavikan við 6.- 11. janúar.  Þátttaka var góð, þrátt fyrir að kalt væri í veðri.  Í janúarlok kom pappír í Norðurljósið með skipi frá Bandaríkjunum. Var það merkilegt fyrir þær sakir að pappírinn hafði Arthur pantað heilum þremur árum áður, en stríðið tafið afhendingu hans.

Það er ekki úr vegi að geta þess hér, að í gegnum ferðalög Arthurs um Ísland, kristilegu bókmenntirnar og smáskammtalækningarnar gaf Guð Arthuri hina bestu og traustustu vini víða um land. Þessir vinir hans gengu ötulir í útbreiðslustarfið svo að Norðurljósið, frá 1912 er það hóf göngu sína, varð víða kynnt.  Hann fékk mörg fögur, hjartnæm og kærleiksrík bréf og ég held  að hann hafi uppfyllt þarfir margra fyrir andlega uppörvun, ekki síst í strjálbýlinu, í gegnum bréfin og blaðið.  Einnig vitnaði fólk um að lyfin hafi hjálpað en ekki alltaf.

Þriðja febrúar fær Arthur þær fregnir í síma að Sæmundur komi með póstinum.  Af því að hann átti eftir að verða starfsmaður Arthurs um svo margra ára skeið, held ég að ég verði að geta hans að nokkru þótt þetta sé saga Arthurs en ekki Sæmundar.  Hver var þessi Sæmundur? 

Sæmundur Gísli Jóhannesson
Hann var fæddur 13. nóvember 1899, sonur hjónanna Jóhannesar Jakobssonar bónda og Petreu G. Gísladóttur ljósmóður.  Ólst hann upp á Finnmörk í Vestur-Húnavatnssýslu.  Hann segir sjálfur svo frá í æviminningum sínum:
Árið 1912, minnir mig, var gefin út bók, sem nefndist "Bók æskunnar".  Rituð var hún af dönskum presti C. Skovgard Pedersen ...  Bók þessa hafði móðir mín keypt og gefið mér.  Hún var rituð handa ungum mönnum, minntist á baráttu þeirra við efasemdir um trúna á Guð og Jesúm Krist.  Til þeirra (efasemda) þekkti ég ekkert.  Kafli var þar um ástalífið og brýnt fyrir ungum mönnum, að varast þau sker, sem þeir gætu siglt á og beðið skipbrot á trú sinni, t.d. með því að bindast stúlku, sem ekki á trúna og lífið í Guði.  Þetta varð til þess, að ég tók þá ákvörðun, að konan mín yrði að vera trúuð.
Hvítasunnudag, 11. maí 1913, var ég fermdur í Staðarbakkakirkju ... Fyrir þetta tækifæri þurfti ég að eignast ný föt.  Var ég sendur út á Hvammstanga til saumakonu, sem hét Ósk.  Meðan ég beið þess, að hún gæti sinnt mér, sá ég blað, sem lá þar á rúmi hennar, minnir mig.  Hét það "Norðurljósið".  Á forsíðu þess var stór mynd.  Yfir henni stóðu orðin:  "Garibaldi og lambið".  Undir myndinni voru orðin: "Lambið hefur lent á klettastalli". Sagan sagði frá því hvernig þessi mikla frelsishetja Ítalíu gaf sér tíma til að leita lambs, er fátækur fjárhirðir átti, er menn hans höfðu gefist upp við að finna það.  Auðvitað var svo bent á góða hirðinn, sem kom til þess að leita að hinu týnda og frelsa það.  Varð ég hrifinn af þessu litla blaði.
Á útmánuðum 1916 sat móðir mín yfir konu.  Maður hennar hafði keypt "Norðurljósið".  Fékk hún það lánað.  Nú gat ég lesið af hjartans lyst.  Í blaðinu var greinaflokkur, sem hét "Hið sigursæla líf". Ritstjórinn kenndi þar, hvernig þeir, sem trúa á Drottinn Jesúm, eiga að geta lifað sigrandi lífi.  Ég vissi að syndin hafði náð valdi á mér.  Ég gerði það sem ráðlagt var:  Ég tók á móti Jesú Kristi sem  frelsara mínum.
Eins og hjá mörgum er þá ákvörðun hafa tekið, fylltist hjarta Sæmundar friði og fögnuði sem hann lýsir svo, að í hönd hafi farið dýrlegir dagar.  Ekki verður allt lífið eintómur dans á rósum þegar gangan með Guði er hafin en þá hafa menn ljós sem lýsir þeim fram á veginn. Fljótt eftir þetta virðist Sæmundur hafa komist í bréfasamband við Arthur ritstjóra Norðurljóssins.

Hvernig Arthur uppfræddi ungan mann í trúnni
Sæmundur fær bréf frá Arthuri dagsett 3. ágúst 1916 og aftur 9. september sama ár.  Þar segir Arthur:
Við skulum minnast yðar í bænum okkar, að Guð gefi yður meiri og meiri skilning á ritningunni.  Þegar jeg var ungur, var margt torvelt fyrir mjer og mjer var ómögulegt að samræma margt.  En þolinmæði og trúin báru ávöxt sinn að lokum, og nú hefi jeg alltaf meiri og meiri gleði af Guðs orði ...
Hann skrifar Sæmundi aftur 12. apríl 1917. Svo er að sjá að honum hafi fundist hann þurfa að efla kjark hans og þó um leið að kenna honum að sýna gætni.
Jeg er viss um að þjer takið framförum í þekkingu á Drottni Jesú Kristi, ef þjer vanrækið ekki að lesa daglega í ritningunni og tala við Drottin í bæn.  Látið ekkert annað sitja í fyrirrúmi.  Ef þjer hafið einlægan vilja á að hlýða Drottni hispurslaust í öllu, þá eru engin takmörk fyrir þeirri blessun sem þjer getið orðið þjóð yðar í besta skilningi.  Drottinn notar alltaf það, sem ekkert þykir í varið, til þess að enginn maður stæri sig.  Látum okkur ákvarða það að heiðra hann í öllu lífi okkar og leitast við að leiða aðra menn til hans. Byrjum smátt.  Lærum að ganga áður en við förum að hlaupa.  Það gladdi mig mikið að heyra hvað bækurnar hafa orðið yður til mikillar hjálpar og jeg þakka vorum himneska föður fyrir náð hans, að hann vildi nota þær.

Sæmundur var fljótt kominn á kaf í því að vera milligöngumaður milli Arthurs og fólks í nágrenni við sig, bæði með hómópatalyf og kristilegar bókmenntir, svo og að útvega kaupendur að Norðurljósinu og fleira.  Þeir ræða margt bréflega og Arthur óskar eftir að Sæmundur komi svo þeir geti talast betur við.  Eitt sinn tekur Arthur svo til orða:
Jeg get því miður ekki svarað spurningum þínum með þessum pósti því jeg fjekk 81 brjef með sama pósti og þitt brjef og hefi sjálfsagt ekki tíma til að svara nema 20 eða 30.  Hin verða að bíða. 
Þetta gefur okkur innsýn í að það var mikið að gera á skrifstofu Arthurs, bæði með bréfaskriftir og blaða- og bókaútgáfu.  Hann þráði mjög að Guð gæfi sér íslenskan samstarfsmann en hann mátti bíða nokkur ár enn eftir því.  Að vísu voru hjá honum um tíma tveir ungir bræður, Tryggvasynir frá Kothvammi í Húnavatnssýslu, þeir Ólafur sem seinna varð þingfréttaritari og Helgi sem varð yfirkennari við Kennaraskólann.  Einnig Jón  Jónasson.  Kunna að hafa verið fleiri þótt ég hafi ekki fundið það.

Arthur skrifar til Sæmundar 17. september 1918 en þá hafði Arthur verið í trúboðsferð um Skagafjörð og Húnavatnssýslur.  Það  mun hafa verið siður  hans að hafa jafnan með sér á trúboðsferðum, lyfjakistu sína, bækur sínar og bæklinga. Hann svarar hér spurningu Sæmundar:
Þú spyrð um ferðina.  Þessi ferð var sú blessunarríkasta sem jeg hefi nokkru sinni haft.  Fólkið á Blönduósi, Sauðárkróki, og í Skagafirði yfirleitt sótti samkomurnar mjög vel, og jeg fann það að Andi Guðs talaði til þess.  Jeg held líka að nokkrir hafi fundið Drottin.  Bækurnar seldust allar upp, hjer um bil og jeg hefði getað selt miklu meira af sumum sortum.  Mjer var það ljóst í þessari ferð að Guð hefir blessað blaðið mikið, svo að það hefir orðið til þess að leiða margar sálir til að hugsa um ástand sitt frammi fyrir Guði, sem er auðvitað fyrsta sporið til þess að menn finni frið og sælu í Kristi.
Í einu bréfinu segir Arthur:
Mig langar ósköp mikið að biðja þig að koma og dvelja milli póstferða ...
Nú kemur að því, að því að Sæmundur leggur af stað til að heimsækja Arthur og  er kominn til Akureyrar þann 9. febrúar 1919.  Hann hafði verið landpóstinum samferða eins og oft mun hafa verið venja þeirra sem voru ókunnugir þeim leiðum sem lágu til fjarlægra staða.  Landpóstarnir voru öllum leiðum og gististöðum kunnugir, reyndir í ferðalögum við erfið skilyrði vega og veðra. Það er augljóst að þessi ferð tók lengri tíma en það tekur fyrir póstbílana í dag.  

Þegar komið var til Akureyrar þá hagaði svo til að pósthúsið var beint á móti Sjónarhæð og samkoman þar var að enda er þeir voru þar komnir.  Kom Arthur fljótlega að taka á móti Sæmundi og sagði að fólkið biði eftir að sjá hann.  Sæmundur vildi fyrst hjálpa póstinum að taka ofan af hestunum.  Meðan það var gert, heyrði hann mikinn og fagran söng úr salnum.  

Þá voru til heimilis á Sjónarhæð Arthur og kona hans, alltaf kölluð Frú Gook, og börn þeirra fjögur, Mr. Oram skrifari hans, barnfóstran Kate sem var ensk og Kristín Steinsdóttir sem seinna tók við heimilishaldinu á Sjónarhæð þegar Arthur hafði fundið  fjölskyldu sinni annað heimili í Bretlandi.  Svo þröngt var í húsinu að útvega varð Sæmundi gistingu annarstaðar, hjá Helga Stefánssyni og konu hans Arndísi sem tóku honum vel.  Jóhann Steinsson bauð honum líka einu sinni heim til foreldra sinna og þótti honum vænt um boðið.

Sæmundur segir svo frá: 
Mr. Gook, eins og allir nefndu hann þá, var alúðin sjálf við mig.  Kvaðst hann ætla að taka sér hvíld til þess að vera með mér.  Oft bauð hann mér með sér út á göngu og ræddi þá við mig um marga hluti, einkum þó andlega.  Þetta þótti mér ágætt, meðan við vorum fjarri bænum. Héldu andlegu samtölin áfram, er við komum í bæinn, tók ég að gerast feiminn og fór hjá mér.

Það er svo 25. febrúar sem Sæmundur hverfur aftur heim í sína sveit.

Ekki löngu síðar, eða 2. maí, fór Oram til Reykjavíkur og þaðan til Bretlands. Hafði hann þá unnið þrjú ár hjá Arthuri. Það fækkaði enn á Sjónarhæð eins og sést í bréfi frá Arthuri til Sæmundar, sem er dagsett 9. október 1919:
Konan mín og börnin fóru þann 14. september og fengu góða ferð til Skotlands.  Nú er jeg einn eftir af skyldfólki til, nema systkini mín í Drottni.
Sæmundur hafði sótt um inntöku í Kennaraskólann og fékk þar skólavist. Hefur hann greinilega skrifað Arthúri og sagt honum fréttirnar því seint í nóvember fær Sæmundur bréf frá honum:
Það gladdi mig mikið að lesa það sem þú segir í síðara brjefi þínu, þú ert ungur enn, og jeg álít að það myndi vera góður undirbúningur fyrir þig að gerast barnakennari.  Ef  Drottinn kallaði þig til þess að taka upp eitthvert annað starf fyrir hans ríki, þá myndi reynsla þín sem barnakennari einmitt vera þjer gagnleg, enda álít jeg heppilegast að allir byrji með að kenna börnum, annaðhvort í sunnudagaskóla eða venjulegum skóla.
1920
Arthur er mjög ánægður með aðsóknina á samkomur allt frá byrjun árs og til þess að hann fer út til Englands seint í apríl. Salurinn var nærri fullur hvað eftir annað og sem dæmi má nefna þá voru 102 manns á samkomu sunnudaginn 7. mars.

Eins og áður sagði fór Arthur til Englands í lok apríl og var þar í rúma sex mánuði. Þar var mikið að gera hjá honum við skriftir, ferðalög og ræðuhöld á samkomum en einnig átti hann ánægjulegar samverustundir með fjölskyldunni.

Aftur er hann svo kominn til Íslands og heldur samkomu 5. desember ("blessaður tími" stendur í dagbókinni.) Nær fullur salur og viku seinna var aftur nærri fullt hús.  Söfnuðurinn var svo mættur til kaffidrykkju á gamlaárskvöldi og hafði þá Arthur slidesmyndir og sagði ferðasögu sína.  Hann hélt ekki jól vegna þess að þau ættu ekki kristilegt upphaf og eins og í mörgu öðru var hann ekki að hugsa um hvað yrði vinsælt með mönnum.  Irene dóttir hans sem fluttist áratugum seinna til Íslands varð undrandi að heyra þetta og kannast ekki við, að slíkur strangleiki hafi ríkt gagnvart jólahaldi í söfnuðum í Englandi á sama tíma en þó hélt hún að þeir hefðu ekki haft samkomur á jólum nema þau hafi borið uppá venjulega samkomudaga. 

Segja mætti mér, að eitthvað hafi verið farið bil beggja í sumum barnafjölskyldum í Sjónarhæðarsöfnuði.  Ekki endilega allir hugsað amen og hallelúja við þessum hátíðaniðurskurði.  Eigi að síður er það náttúrlega satt, að er fram liðu stundir frá upphafi hinnar kristnu trúar, þá voru hátíðir sem haldnar voru heiðnum guðum til heiðurs, innlimaðar í kristinn sið með því að færa tilbeiðsluna t.d. frá Díönu eða himnadrottningunni yfir á Maríu móður Drottins og þannig varð kristilegt jólahald til.  Fleira mætti til tína.  Þetta fannst Arthuri sem gat verið mjög nákvæmur, ekki rétt, þótt hann væri ekki af flokki Jehova og hefði margt við þeirra Biblíuútskýringar að athuga.

Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99736
Samtals gestir: 20160
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 14:22:18

Tenglar