Þóra Guðrún Pálsdóttir

21. Árin 1930 - 1931

1930  Mikið að gera

Þar stendur í dagbók 23. janúar:
Vakti í næstum alla nótt við bréfaskriftir. 
Tveimur dögum síðar fer Arthur í heimsókn til Steins og Soffíu og á með þeim ánægjulegan tíma. Lagarfoss kemur 2. febrúar með mikinn póst til Arthurs og þann 5. má sjá eftirfarandi færslu í dagbókinni:
 Guðrún Sæmundsdóttir og  Jón  Stefánsson gengu í hjónaband.  Skemmtilegur tími á eftir.  
Stuttu síðar er Arthur hins vegar lagstur í rúmið með hita og er lasinn í nokkra daga.
Svo virðist sem fimm daga samkomuherferð hefjist 24. mars og fimm daga eða kvöld  eru að minnsta kosti samfelldar samkomur.  Jóhann Steinsson og Sæmundur G. Jóhannesson taka þátt sem ræðumenn á tveimur þessara samkoma svo líklega er þá Arthur ræðumaður á hinum sem ekki er um getið hver talað hafi.  Ef til vill er Sæmundur þá alkominn að sjónarhæð.  Að minnsta kosti skrifar Arthur honum frá Bristol 14. júlí þetta sama ár og fær Sæmundi ýmis erindi að reka fyrir sig á Akureyri.  Arthur hafði lengi beðið Guð að senda sér íslenskan samverkamann og haft ýmsa unga menn tíma um tíma sem tengdust söfnuðinum.  Nú var sá kominn sem átti eftir að staldra lengst við.

Þann 8. maí eru þrjú sem taka skírn og 18. maí einn maður að auki.

Snemma í júnímánuði fer Arthur til Ólafsfjarðar eins og sjá má í dagbókinni:
7. júní: Lagt af stað að kvöldi til með opnum mótorbáti til Ólafsfjarðar. Kom þangað kl. tvö um nóttina. Fór í háttinn kl.   þrjú.  Svaf lítið um nóttina.  
8. júní: Fór ríðandi að Kvíabekk.  Vingjarnlegt fólk þar. Reið fljótt tilbaka. Kirkjan full, mjög góð athygli.  Samtöl á eftir.  Seint í háttinn.
9. júní: Lagði af stað til Dalvíkur um ellefuleytið. Frekar slæmt í sjóinn. Var boðið að far með vörubíl að Tjörn þar sem sundlaugin er. Aftur tilbaka og í bátinn. Sjóveikur. Mjög kalt. Ánægður að komast aftur til Akureyrar.
Tveimur dögum eftir heimkomuna á Arthur afmæli og fær góðar gjafir en getur þess jafnframt að hafa mikið að gera þennan dag.
 
Þann 13. júní kemur Kr. Dýrfjörð og þeir Arthur eiga langt samtal í sambandi við útvarpsmál og fleira. Sama kvöld vakir Arthur til að verða fimm um nóttina við bréfaskriftir. Ekki fékk hann mikinn svefn þessa nótt því hann fór aftur á fætur klukkan hálf níu til að ljúka við bréfin fyrir skipsferð.

Þann 21. júní leggur Eric af stað á mótorhjóli til Reykjavíkur. Arthur er einnig á leið suður og leggur af stað tveimur dögum síðar:
23. júní: Lagt af stað frá stöðinni kl. 6.30.  Stoppað á Blönduósi til að borða. Síðan haldið áfram að Fornahvammi. Gist  þar um nóttina.
24. júní: Á fætur um níuleytið. Lagt af stað um tólf. Stoppað að Reykholti og Húsafelli. Farið í gegnum Kálfadal til Þingvalla og þaðan til Reykjavíkur.
Arthur segir ekkert um náttstað sinn þar en morguninn eftir fer hann til Helga kl.10 og svo með honum aftur til Þingvalla um kvöldið. Þar er hann í nokkra daga en fer 29. júní aftur til Reykjavíkur. Um kvöldið fer hann á samkomu hjá Hjálpræðishernum og í gönguferð.
Daginn eftir leggur hann svo af stað með skipinu Rodney áleiðis til Englands, er kominn til Bristol þann 4. júlí og fær hjartanlegar móttökur hjá fjölskyldunni.

Arthur kominn til Englands
Arthur er á Englandi í þrjá mánuði.  Eins og venjulega er nóg að gera hjá honum við ræðuhöld, samkomur, ferðalög og fundi.

Vafalaust hefur tíminn liðið alltof hratt en hann virðist hafa lagt áherslu á að vera sem mest með fjölskyldunni á þessum stutta tíma. Í dagbókinni má sjá að þau hafa farið í gönguferðir, útreiðartúra, leikið tennis og gert ýmislegt fleira saman. Þó hlýtur alltaf að vera erfitt að kveðja ástvini sína og þegar Arthur leggur af stað til Íslands þann 4. október segir hann í dagbókinni:
 Lagði snemma af stað í ausandi rigningu. Mabel kom til ... með mér.  Himininn og ég grétum saman.
Aftur á Íslandi
Arthur fer ásamt Eric syni sínum með Dettifossi og eru þeir komnir til Reykjavíkur þann 10. október. Fjórum dögum síðar heldur hann samkomu í S.A. Hall. Hét erindið "Ósýnilegur heimur". Hlaut hann góða athygli.


Til Akureyrar er hann svo kominn þann 18. október. 
Meðan Arthur var á Englandi keypti hann sér Douglas mótorhjól og þann 27. október fer hann til Veigastaða á hjólinu. Nokkrum dögum síðar ekur hann ásamt Eric fram í Kristnes á hjólinu.

Annan nóvember byrjar svo sunnudagaskóli í Glerárþorpi og haldinn þar annan hvern sunnudag. Þann 14. nóvember kemur "utanáskriftavél".  Er ekki að efa að það hefir verið mikill tímasparnaður að henni í sambandi við afgreiðslu Norðurljóssins. Sunnudaginn 16. kemur kona og óskar eftir skírn og fer hún fram að tveimur dögum liðnum.
Sunnudaginn 7. desember var samkoma á Sjónarhæð að venju. Þannig skrifar Arthur um samkomuna þann dag:
 Góð mæting. Guðmundur bróðir Sigurðar varð eftir, held að hann hafi komið til Drottins.

1931   Nóg að starfa

Arthur var duglegur að skrifa í dagbókina þetta árið og birtist hér útdráttur úr henni. Eins og sjá má eru þetta afar knappar frásagnir en gefa þó góða innsýn í líf Arthurs á þessum tíma.

Febrúar
5.2. Guðmundur tekur skírn.
6.2. Skipbrotsmenn af "Frobisher" komu.
8.2. Fundur með skipbrotsmönnum af Frobisher. Blessaður tími.
14.2. Laugardagur. Áhöfnin af Frobisher fór með Íslandi.
19.2. Sameiginleg samkoma með Árna Jóhannessyni og Hjálpræðishernum í samkomuhúsinu. Góður tími. Margir viðstaddir.
27.2. Sæmundur fór til Grenivíkur (eflaust til að innheimta, safna áskrifendum eða að selja bækur, því hann kemur ekki heim fyrr en 6. mars).

Mars
1.3. Sunnudagur. Grímur Sigurðsson skírðist í samkomu kl. 8.30.
5.3. Grímur fór.
6.3. Sæmundur kom heim. Shenton kom.  Langt samtal varðandi vinnu ofl. 
7.3. Upplífgandi bréf frá Selskerjum greinir frá blessun frá bókum.
8.3. Sunnudagur . Mjög blessaður tími við borð Drottins.  Salurinn nærri fullur.
9.3. Afmælisdagur Erics. 20.
10.3.  Phyllis tók skírn í Bristol. (Það var dóttir Arthurs. Þ). Sæmundur lagði af stað í ferð til Öxnadals. Eric keyrði hann áleiðis á mótorhjóli.
13.3.  Sæmundur kom aftur. Vakti lengi frameftir við bréfaskriftir.
14.3. Dettifoss kom seint. Pappír frá Hull.
15.3. Sunnudagur. Samkomur. Góð mæting og athygli. 
21.3. Útvarpsstöðvar getið í þingfréttum.
22.3. Sunnudagur. Brotning brauðsins. Ágæt mæting, ýmsir tóku þátt.
24.3. Heyrði að útvarpsmálið hefði verið rætt á Alþingi. Stormur og rafmagnstruflanir komu í veg fyrir að hægt væri að hlusta á útvarp frá Reykjavík. Ekki vel frískur.
25.3. Fór seint á fætur, leið betur. Engar fréttir af útvarpsmálinu.
26.3. Frétti að leggja ætti útvarpsmálið fyrir Efri deild á morgun.
27.3. Óvenju annasamur dagur.
28.3. Seint á fætur, óvenju þreyttur.
29.3. Sunnudagur. Blessaður tími á samkomum. Samtal við Jón  + Ferndínand. Gönguferð.

Apríl
2.4. Samkoma klukkan þrjú á sjúkrahúsinu. Blessaður tími. Safnaðarfundur kl.7.
5.4. Páskadagur.  Brotning brauðsins.  Herrann + 45 viðstaddir. Sunnudagaskóli á Sjónarhæð. Á eftir til Glerárþorps á mótorhjólinu. Góður félagsskapur þar. Tilbaka á samkomu kl. 5. Margir viðstaddir.
6.4.  Út að keyra á mótorhjólinu. Vegirnir mjög slæmir ennþá. Safnaðarfundur kl. 3-4.30.  Samkoma. "Frá jötunni til krossins". Um 70 manns mættir. Góður tími.
9.4. Póstur kom frá Englandi.
10.4. Út að keyra á mótorhjólinu. Fór yfir þrjár brýr. Vegirnir miklu betri, en holóttir. Sigríður  Björnsdóttir kom, langt samtal.
11.4. Hólmfríður Guðmundsdóttir leit inn.
12.4. Sunnudagur.  Sæmundur talaði við börnin í sunnudagaskólanum.  Langt tal við tvær safnaðarsystur.
18.4. Jensey kom frá Siglufirði.
19.4. Með Jensey og öðrum á göngutúr. (Jensey var kona Stefáns  Ásgrímssonar)
20.4. Fór á Mótorhjóli fram að Grund ásamt tveimur öðrum. Vegurinn slæmur á köflum en gekk ágætlega. Helga bað um skírn.
21.4. Skírn klukkan 8. Jensey og Helga.  Eb. Eb.talaði.
23.4. Sumardagurinn fyrsti.  Allir fóru á mótorhjólum upp í brekkurnar hinum megin við fjörðinn. Var í fyrsta skipti með farþega. Allt gekk vel. Skemmtilegur tími.

Maí
11.5.  Ásmundur  Eiríksson kom og sagði frá því að 16 manns í Fljótum þrá skírn.
13.5. Sérstaklega annasamur dagur.  Margir komu, símhringingar ofl.
14.5. Uppstigningardagur.  Til Bægisár.  Lögðum af stað um 10 leytið. Um 23 í allt. Sumir fóru í bíl + 7 fóru á fjórum mótorhjólum.  Fínt veður, ekki margir á samkomu en góð athygli. Kaffi á eftir.  Til baka kl.7.
23.5. Annasamur dagur. Svanlaug Jónsd. og Jón Jónasson gift.
25.5. Dalvík 12.30. Hrísey 2.30. Svalbarðseyri 5.30. Gott veður.  Með mótorbáti til Svalbarðseyrar. Hélt samkomu þar. Skemtilegur tími. Með hesti upp á þjóðveginn. Eric beið þar með mótorhjólið. Komum heim um hálf tólf. 

Júní
11.6.  Kaffiboð í safnaðarsal í kvöld.  Var gefið kaffisett, diskar, skeiðar o.fl. Kort af Íslandi + 65 kr. Vingjarnleg orð í mín garð. (Mun hafa verið afmæli Arthurs. Þ.P.) Mikil fyrirbæn fyrir ferðalaginu.  Mjög ánægjulegur tími.
17.6. Lagði snemma af stað. Borðaði hádegismat á Öxnadalsheiði.  Vondur vegur í Hólmum.  Kom seint til Sauðárkróks.  Gisti á hótelinu.
18.6. Hvíld og göngutúr.  Samkoma um kvöldið, nokkuð margt fólk.  Mikil hjálp.   Komst ekki til Eggjar.
19.6. Kona kom til að fá fyrirbæn fyrir heilsu sinni. Fór með mótorbát til Hofsóss.  Samkoma í Þinghúsi - fullt. Blessaður tími.  Fór með Einari til Mýrarkots.  Jón frá Lónkoti var þar. 
20.6. Fór til Lónkots í kaffi. Hélt þaðan til Reykjarhóls.  Ásmundur og Þórhildur voru þar. Hlýjar móttökur. 
21.6. Sunnudagur. Til Haganesvíkur. Með í för voru K.S., Eric, Svanfríður og Grímur.
Hádegisverður á skírnarstað. 13 skírðir. Blessaður tími.  Þá Brotnig brauðsins. Undursamlegur tími.  Heim til Reykjarhóls.
22.6. Til Austara hóls.  Tveir litlir drengir helgaðir Drottni.  Þá dásamleg samkoma að Neskoti frá kl. 3-10.30.  Yndislegur tími við orðið, þá spurningar.  Svo kaffi, þá kveðjur.  Svo riðið heim til Reykjarhóls
23.6. Upp á hól til að sjá laug í góðu veðri. Teknar myndir.  Þá að Felli. Full kirkja. Síðan til Lónkots.
24.6. Gönguferð með Jóni. Hestarnir sendir af stað. Farið til Málmeyjar. Góðar móttökur. Gekk í norðurenda eyjarinnar. Fór seint í háttinn. (Samkoma eftir kvöldmat, fékk mikla hjálp).
25.6. Samtal við húsráðendur. Þá með mótorbáti til Hofsóss. Enginn kom frá Egg. Engir hestar. Maður á leið til Sauðárkróks svo ég fór þangað. Gisti á hótelinu. "Skeljungur" kom.
26.6. Leit út fyrir rigningu. Tók boði um að fá far. Lagði af stað um eittleytið. Kominn til Akureyrar um miðnætti. Framkallaði myndir samstundis.
30.6. Samkoma.  Sagði frá ferðalaginu.  Margir viðstaddir.

Júlí
13.7. Fór á mótorhjólinu í Vaglaskóg. Góður tími. Mikil hjálp.
15.7. Dick  Andreas kom með Dettifossi.
16.7. Annríkisdagur. Sigurður frá Egg kom. Sigríður og Filippía skírðar.
19.7. Norðurljósið sent í prentun.  Reið með Shenton áleiðis að Vaðlaheiði.  Kalt. Langt samtal þegar komið var til baka.
27.7. Sæmundur fer til Miðfjarðar.
31.7. Lagði af stað klukkan fimm. Kom seint til Silfrastaða.

Ágúst
1.8. Lagði af stað klukkan þrjú. Kom á Blönduós kl 8.10. Samkoma kl. 8.30.
2.8. Sunnudagur. Fór frá Blönduósi um 12.30. Hringdi í Jón Kr. Fer til Kothvamms.
3.8. Lagði af stað að Fornahvammi um 5 leytið.
4.8. Lagði af stað um 12 leytið. Góðir og slæmir vegir. Gírarnir bilaðir á hjólinu.
5.8. Til Akraness.  Samkoma um kvöldið í kirkjunni.  Góður tími.
6.8. Snemma með báti til Reykjavíkur.  Til Hjálpræðishersins, komst þar í bað og fékk máltíð.
7.8. Hitti nokkrar manneskjur í Alþingishúsinu. Fór til Ólafíu Einars.  Langt samtal.  Til frá Önnu Thóroddsen, langt samtal.  Kynntur fyrir Valgerði  Einarsdóttur,  konu Bjarna Jónssonar.
8.8. Fundur með allsherjarnefndinni og Gunnlaugi Briem.
9.8. Sunnudagur. Brauðsbrotning á gistihúsinu kl. 11. Vígsla Trúboðshússins  kl.3. (Hér er held ég átt við Bethaníu. Þ.P.) Talaði í stutta stund. Löng samkoma.  Þá til Helga og Magneu.  Þá kvöldverður. Næst á Hjálpræðisherinn. Samkoma. Beðinn að tala.
10.8.  Fékk vörur frá Akureyri og bréf að utan. Nokkrir komu til samtals.
13.8. Hitti þrjá þingmenn.
16.8. Sunnudagur. Brauðsbrotning kl. ellefu. Tíu viðstaddir. Fór á mótorhjólinu til Vífilsstaða að hitta Guðmund  Einarsson frá Stykkishólmi.  Skemmtileg ferð.  Þónokkur fjöldi á K.F.Ú.M. samkomu kl. 8.30. Mikil hjálp. Gísli kom og Filippía.
17.8. Til Hafnarfjarðar kl. 8.30. Kl. 10. Þórey Gunnarsd.. Kl. 4 Bíll til Vífilsstaða. Hittir þar konu og hefir bæn með henni.
20.8. Jónas Lárusson hringdi varðandi ferðaþjónustu. Hringdi til Akureyrar. Ó.E. kom. Til Ríkisspítala, hitti konur frá Akureyri. Til Magneu. Hitti Margréti Tryggvad. Löng gönguferð með Anedrési Björnssyni. Kom seint heim.
21.8. Heimsótti Guðrúnu Sveinsdóttur.  Fínt samtal. Þá til Þorbjargar og Elísabetar um kvöldið.  Fínn tími. (Þetta mun hafa verið sú Elísabet sem giftist Jóni  Betúelssyni.  Þau gáfu seinna Íslenska Biblíufélaginu húseign sína, Bræðraborgarstíg 34, sem þau höfðu byggt til samkomuhalds. Þ.P.) 
 22.8. Útvarpsmál kom úr nefnd. Nefndin klofin. Heyrði um kvöldið að málið væri tekið af dagskrá.  (leturbreyting höfundar)
24.8. Með Jónasi  Lárussyni til Gullfoss og Laugarvatns.  Fínn tími. 
25.8. Sá heita hveri við Laugarvatn. Með Guðmundi Ólafssyni og Bjarna Bjarnasyni skólastjóra.  Sá Flateyjarbók. Hádegismatur og svo farið til Þingvalla. Drukkið te að Valhöll. Góður tími. Svo til Reykjavíkur aftur.
28.8. Fer með Suðurlandi til Borgarness, midegisverður.  Þaðan til Stykkishólms.  Kom um kvöld og gisti á hóteli.  Gekk aleinn í tunglsljósi eftir kvöldmat.
29.8. Talaði við Sigurð Lárusson varðandi kirkjuna. Tók myndir. Fékk samkomuhúsið og auglýsti. Útreiðartúr og berjatínsla. Samkoma um kvöldið. Góð mæting. Blessaður tími.
30.8. Sunnud. Hvíld og gönguferðir. Fór til Aðalbjargar. Kona Guðmundar Einarssonar kom í kaffi. Samkoma um kvöldið, um 120 komu.  Mikil hjálp.
31.8. Tók á móti sjúklingum o.fl.

September 
1.9. Heyrði um bát til Bjarnareyja.  Lagði af stað um 9 um kvöldið. Gott ferðalag. Tungl og norðurljós.
2.9. Kristján Sveinsson kom og bauðst til að fara með mig til Skálaness. Fín ferð. Blessaður tími með Jóni E. Jónssyni og hans fjölskyldu.  Tók myndir. Til Skáleyja til Skúla og Kristínar.
3.9. Samkoma að Skáleyjum. Góður tími. Svo fylgdu Skúli og tvær stúlkur mér á róðrarbáti að Hvallátri. Tvö börn sýndu mér eyjuna. Annað þeirra var frá Reykjavík. Indælt barn. Samkoma um kvöldið.
4.9. Fór til Flateyjar. Tók myndir. Guðsþjónusta í kirkjunni. Veitingar. Máltíð með séra Sigurði Haukdal og konu hans. Samkoma klukkan átta. Góð mæting og athygli. Gaf smárit. Sigldi með séra Sigurði og fleirum að Stað á Reykjanesi. Indæl ferð en hávaðasamur bátur. Góðar móttökur hjá séra Jóni Þorv.
6.9. Sunnudagur. Yndislegt veður. Séra Sig. messaði og bauð mér að tala. Þá haldið af stað til Reykhóla með þeim og áfram að Borg. Kom þangað um 7.30. Indælt samtal við Jóhann og Sólveigu.
7.9. Snemma á fætur. Samkoma kl. 9.30. Nokkuð góð mæting. Þá máltíð. Samtal við Þorleif og Bjarna. Lagði af stað ásamt Jónasi Sv. til Barmahlíð en fór einn að Stað. Reið að bátnum. Ferðin tók stutta stund, meðvindur og flóð með okkur. Kominn til Flateyjar um 8.30. Kvöldmatur með séra Sig. og konu hans.
8.9. Lagði af stað klukkan 9.35. Slæmt veður. Sjóveikur. 11/2 tími að Bjarnarey. Kaffi og bið. Báturinn lagði brátt af stað. Slæmt  í sjóinn til Stykkishólms. Lá í hnipri. Kom um klukkan 4. Undirbjó ferðalagið. Skrifaði bréf. ...
9.9. Lagði af stað klukkan 10. Gekk vel yfir skarðið. Hljóðkúturinn losnaði. Bráðabirgðaviðgerð á bensínstöð. Hélt áfram í Borgarnes. Rigndi lítillega. Gert við hljóðkútinn og borðaði hádegismat. Hélt áfram að Fornahvammi. Ók nýjan veg í nágrenni við Fornahvamm og þurfti að fara yfir ána. Skrifaði nokkur bréf um kvöldið. 
10.9. Lagði snemma af stað. Braut bremsupedalann og fótstigið á leiðinni yfir Holtavörðuheiði. Hélt áfram á fullri ferð að Stað og Melstað. Talaði við séra Jóhann.
Fór að Hvammstanga til að finna Sæmund. Fylgdi honum eftir nokkurn tíma. Fór með honum til Blönduóss.  Gisti á hóteli. Sæmundur hjá Jóni Kr.
11.9. Snemma af stað. Kom við að Bólstaðarhlíð en Klemens var ekki heima.  Fór yfir Vatnsskarð og þaðan í Skagafjörð.  Hvíld og mjólk að Ytrakoti. Á Öxnadalsheiði slitnaði kúplingsvír. Töf. Áfram til Bakkasels í lægsta gír. Hringdi. Hressing og haldið hægt áfram að Steinsstöðum. F.L.H. kom á móti okkur.  Sæmundur gisti yfir nóttina. Við komum heim í myrkri. Gengum frá Bandagerði (hvers vegna þeir gengu heim er ekki upplýst um. Þ.P.)
12.9. Seint á fætur.
20.9. Sunnudagur. Sæmundur predikaði um kvöldið.
23.9. Á mótorhjóli að Munkaþverá með Shenton.  Fínt veður.  Skemmtileg ferð.

Október
5.10. Til tannlæknis.
29.10. Hjónavígsla.  Hafliði  Eiríksson og Ólöf  Björnsdóttir.
30.10. Mótið byrjaði.  (Ekki kemur fram um hvaða mót var að ræða.) Eric og Kjartan fóru um kvöldið með "Þormóði". 

Nóvember
16.11. Fórum að Kristneshæli 18 saman.  Blessaður tími. 
18.11. Filippía og Svanfríður komu til að kveðja. Tók mynd með flassi.

Desember
14.12. Kjartan kom með "Þormóði".

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99777
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:04:37

Tenglar