Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2010 Desember

06.12.2010 22:14

Skólaganga

Skólagangan hófst hjá mér þegar ég var átta ára og þá undir skólalok að vori. Þessi fræðsla stóð í eina viku að mig minnir. Mig minnir ég vera þá til húsa hjá Sæmundi og Guðrúnu sem bjuggu í Stórabóli. Þetta var fljótt að líða og ég man ekki eftir neinu er festist í mínu minni. Næsta vetur var kennsla í Viðborðsseli fyrir okkur börnin fyrir ofan Djúpá. Þá sá Nanna Guðmundsdóttir úr Berufirði um kennsluna. Ég held að ég hafi nú ekki fengið nema mánaðarkennslu af því ég hafi fengið kíghóstann á þeim vetri. Ég man þó að Nanna kenndi okkur stelpunum útsaum og ég saumaði í puntuhandklæði sem ég átti lengi. Um vorið fór hún með okkur í útsýnisferð uppá Rauðabergsfjall og það reyndist okkur minnisverður atburður. Fórum upp Landamótsgjótu og vestur eftir fjallinu og komum niður hjá Staffelli að mig minnir, allavega komum við Hálsdalsmegin niður.


Næsta vetur var okkur kennt í Holtum bæði af fjallabæjum og  austurmýrum ásamt Einholti  Hólmi og Brunnhól. Mér og Petrínu Steinadóttur á Viðborði var komið fyrir hjá Magnúsi Hallsyni og Guðrúnu Benediktsdóttur er bjuggu í upphúsum í Holtum.  Þau gerðu nú vel að taka okkur tvær til veru. Skólinn stóð þó ekki nema annan hvern mánuð. Hinn mánuðinn áttum við að lesa skólbækur heima. Þetta heimili var rólegt og samanstóð af  húsbændum og dóttur þeirra Álfheiði sem var heimasæta. Á heimilinu var líka Álfheiður móðir húsfreyjunnar. Hún var alveg blind en síprjónandi í höndunum. Ég hugsa að það hefði verið leitun að léttlyndari manneskju en Álfheiður var, þrátt fyrir aldur og sjónleysi. Hjá þeim var líka Hjalti frændi húsfreyju en ég man samt ekki eftir honum á heimilinu svo ég hugsa að hann hafi frekar verið að sumrinu.


Kennarinn hét Hróðmar Sigurðsson frá Reyðará í Lóni. Hann hafði áhuga á að við lærðum fleira en hann gat kennt okkur og fékk stúlku Jonnu í Digurholti til að kenna okkur söng. Hún átti orgel og hafði lært að spila. Svo við löbbuðum einn daginn til hennar inn að Digurholti. Þá kom nokkuð í ljós, sem ég hafði fram að þeim tíma ekki haft neinar áhyggjur af. Ég var semsé laglaus.

Þetta var ekki skemmtilegt og að hlusta á kennarana ræða þetta.  Jonna sagði ,,Já hún heyrir það alveg þegar hún fer útaf." Ég er nú ekki viss um að svo hafi verið. Mér kann að hafa fundist öruggara að láta sem minnst á það reyna. Það virtist alveg vanta í mig þessa móttakara, sem fólk hefur til að  taka á móti mismunandi tónum og geyma þá í höfðinu. Textinn getur setið eftir en tónarnir fljúga burt. Stundum finnst mér í dag, ég geta fylgst með röddum kvenna sem eru á mínu raddsviði.


Þetta hefur nú ekki komið svo mikið að sök síðan ég giftist því mennirnir mínir hafa verið blessaðir með svo sterkri rödd að til mín hefur ekki heyrst þótt ég raulaði með. En svo ég snúi mér aftur að heimilinu sem ég dvaldi á þá var oft sungið á kvöldin og þrátt fyrir fötlun mína á þessu sviði tók ég þátt og Álfheiður yngri sagði undir vorið, að ég hefði mikið lagast en hvort hún sagði það aðeins af góðum hug, til að styrkja sjáfsmynd mína veit ég ekki. En það var annað sem ég lærði. Undir lok skólans um vorið skyldi haldin samkoma og áttum við nemendurnir að taka þátt í henni. Ég átti að lesa upp kvæðið Burnirótina og Magnús húsbóndinn á heimilinu ákvað að leiðbeina mér við að lesa kvæðið. Hann lét mig lesa það svo oft og vel og leiðrétti mig og hvatti til betri árangurs þar til hann var ánægður með útkomuna og ég fékk hrós fyrir eftir samkomuna.


Ég held að einum skólbróður mínum hafi þótt fullmikið í hrósið lagt og sagði að ég læsi ekkert betur en þau hin nema kvæði. Það var alveg rétt hjá honum. Ef til vill hefði ég líka lesið vel annað efni ef ég hefði haft Magnús að kennara þegar ég lærði lestur. Þetta var gott og hlýlegt heimili hjá Magnúsi og Guðrúnu. Að næstu nágrönnum höfðum við Bjarna Þorleifsson og Lússíu konu hans ásamt þeirra börnum.  Þau elstu, Þóra og Guðmundur voru á líku reki og við Petrína. Mig minnir að þeirra bær væri nefndur Austurhús. Allt var nú gott milli þessara bæja og enginn nágrannakrytur en það gegndi öðru máli með hanana á bæjunum. Þá höfðu flest heimili hænur til að verpa eggjum sem voru virkilega blessuð uppbót á fábreitt mataræði hjá fólki í sveitum á þessum tímum. Sjálfsagt þótti að hafa einn hana með, enda hópurinn ekki svipur hjá sjón ef hanann vantaði. Hann færði hópinn i æðra veldi með tignarlegu gali sínu, virðulegu látbragði og litadýrð landnámskynsins.


Nú hittust tveir þessara hópa í Holtum eitt sinn milli bæjanna tveggja og sló þegar í bardaga milli leiðtoganna. Ég horfði í fyrsta sinn á hanaat og aldrei síðan. Þetta var blóðug orusta  og heiftin mikil og ég horfði lengi í forundrun á aðfarirnar sem tóku þó að lokum enda eins og aðrar styrjaldir hafa gert. Ég vissi ekki til að þeim slægi saman aftur.  Þeir hafa ef til vill sæst á það eftir orustuna hvar landamerkin skyldu framvegis liggja milli heimila þeirra, þótt enginn sýnilegur múr væri reistur. Minningin um þessa orustu hefur lifað með mér æ síðan greinilegri en flestar aðrar minningar, rétt eins og minningin um bardagann milli hrútanna tveggja heima hjá mér, sem hleypt var af básum að vori til eftir innistöðu yfir veturinn. Þeir börðust hart en það flaut þó ekki blóð eins og þarna.

  • 1
Flettingar í dag: 14
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 10
Gestir í gær: 5
Samtals flettingar: 75061
Samtals gestir: 15450
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 09:44:46

Eldra efni

Tenglar