Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2010 Janúar

24.01.2010 23:52

Gráni

Þegar Gráni var folald keypti faðir minn hann af Jóni Þórðarsyni bónda í Holtaseli og gaf fyrir hann á með lambi. Hann þótti lítill þá og var það alla tíð. Þó hafa nú ýmsir stærri hestar hrokkið undan honum ef hann hefur viljað láta þá kenna á valdi sínu. Þegar hann var trippi þótti hann ódæll og vann það sér til óhelgis að vilja hlaupast út að Hólmi og sjúga þar folaldsmeri í algeru heimildarleysi. Hann var þá settur í haft sem ekki var algengt með trippi. Það var hinsvegar algengt að hefta hross sem nota þurfti, því lítið var um girðingar þegar ég man fyrst eftir, nema kringum túnin. Pabbi vann hnappheldurnar sem notaðar voru til að hefta hrossin með og fleira úr hrosshárinu til dæmis reipi til að binda heybaggana með. Hann vann líka hrosshár fyrir aðra. Ekki var hægt að vinna hrosshárið annarstaðar en í þessari litlu baðstofu okkar. Það komust fyrir þrjú fullorðinsrúm og einn beddi því hlerinn yfir stigaopinu var aftan við eitt rúmið. Milli rúmanna komst fyrir lítið borð. Niðri var eldhús og búr. Ég man að mömmu þótti mikil óþrif fylgja hrosshársvinnunni.


Ég sé það núna að hjá því hefði mátt komast að miklu leyti ef hrosshárið hefði verið þvegið fyrst eins og ullin en það var ekki siður. Svo að sögunni sé snúið að Grána aftur, þá má bæta við, að hann bar litla virðingu fyrir girðingum ef hann hélt að hann hefði það betra innan þeirra. Gráni varð enginn gæðingur. Hann bar sig ekki vel og fór því ekki fallega undir manni og mér fannst hann framlágur er á bak var komið. Gangur hans var brokk og stökk og hvorugt til að hrópa húrra fyrir en hann var alltaf fús til allrar þjónustu eins og ekkert væri sjálfsagðara en að leggja sig allanfram. Með tímanum gerðist hann húsbóndi á sínu  heimili og stóð í því að passa Brúnku sína sem hann var hafður með í stíu á veturna. Þegar vorið var komið og náttúran öll fór að lifna við, vildi Brúnka fara að skreppa á aðra bæi til að lyfta sér upp og hitta skemmtileg hross. Gráni var nú tregur til að skrifa uppá leyfi handa henni til þess. Einu sinni varð  ég vitni að því. Þá var  Brúnka komin niður á aura í átt til Holtasels. Hann hafði víst verið eitthvað annars hugar. Allt í einu verður honum ljóst hvað í býgerð sé hjá merinni. Hann leggur þá af stað og nær henni líklega miðja vega milli bæja og kemur með hana rekandi á undan sér heim aftur.


Einu sinni þegar ég var smástelpa, var ég á ferð á Grána um jarðföllin en um þau liggur leið milli Haukafells og Rauðabergs. Það mun hafa verið eftir rigningu og hlaupið vatn undir jarðveginn og kviksyndi myndast. Dúaði þá jarðvegurinn eins og stigið sé á Gúmmíbelg. Ég hafði ekki lent í því áður en í þessu tilfelli hefðum við þurft að fara allmiklu ofar en hin venjulega leið lá. Hvorugt okkar Grána hafði víst afgangsvisku í kollinum til að ímynda okkur að svona gæti farið á venjulegu götunum. Hann var alltaf svo óragur þegar maður sat á baki hans. Það getur bæði verið kostur og ókostur því að þeim hrossum er hægt að beita á hvaða foræði sem er. Þarna lenti hann niður og sökk uppundir kvið. Hann ætlað nú fljótlega að brjótast upúr en sökk alltaf jafnharðan niður aftur. Varð ég nú alveg dauðhrædd um að hann mundi sökkva alveg eða bilast alvarlega í þessum miklu umbrotum Ég fór af baki og tók beislið út úr honum og hvatti hann vel með því. Hér var um lífið að tefla að hann kæmist á fast land sem fyrst. því mér fannst hann vera að linast í umbrotunum. Að lokum tókst honum að brjótast uppúr og á fast land. Varð ég þá fegnari en frá megi segja að sjá hann ganga óhaltan.


Gráni og Brúnka voru mikið notuð til dráttar og bæði saman drógu þau herfi þegar farið var að rækta kartöflur og rækta tún. Brúnka hafði til að verða fúl í skapi ef upphaf verks fór ekki rétt af stöfnum að hennar dómi. Ég held að hún hafi orðið vond útaf því, að Gráni legðist ekki jafnsnemma í aktaugarar eins og hún, sem gat hafa stafað af því, að hún var stærra hross og hafi staðið aðeins framar honum þegar verk hófst. Hvað sem það var, þá sýndi hún það greinilega að hún ætlaði ekki að fara að draga tveggja hesta æki. Hún hristi sig og  aktygin með og gekk aftur á bak. En þegar hún varð ánægð með upphafið gekk allt vel og bæði gerðu sitt besta. Þau drógu líka allt byggingarefni heim þegar að því kom að endurnýja húsakost yfir menn og skepnur.

18.01.2010 23:25

Mildir vetrardagar.

Það rigndi nokkuð í gær fyrripartinn 16 janúar enn svo varð indælisveður. Ég hafði ákveðið að fara til Grindavíkur. Átti erindi á tvo staði. Hún Rósa, gömul skólasystir mín úr Ljósmæðraskóla hafði orðið 80 ára nýlega. Fyrir tilviljun hafði ég frétt af því, og þótti vænt um það, því sjálf fylgdist ég ekki með. Ákvað nú að fara og óska henni til hamingju. Hún var semsé búin að ganga á undan með góðu eftirdæmi þegar ég átti afmæli.  Það er alltaf léttara að ganga í annarra slóð. Ég ferðast nú oftast með einkabílstjóra eins og forsetinn og maðurinn minn tekur það sem sjálfsagðan hlut og spyr ekki einu sinni að því hvort hann þurfi nokkuð að koma með. Sem betur fór kom nú ekkert alvarlegt uppá hjá okkur eins og hjá forsetanum og hans ferðafélaga, þarna rétt fyrir Indlandsferðina. Höfðum heldur ekki um svo stórt mál að véla, dagana á undan,eins og þeir.


Við hittum Rósu heima og vorum strax drifin að kaffiborði. Maður hennar hafði nýlega gengist undir aðgerð á sjúkrahúsi og var ekki kominn heim. Við höfum nú ekki verið mjög duglegar við að heimsækja hvor aðra, þótt ekki sé langt að fara. Hefði ég sennilega fremur átt að hafa frumkvæði þar sem ég hefði átt auðveldara með það.  Samt fer nú vel á með okkur þegar við hittumst. Við stoppuðum nú ekki lengi hjá Rósu því báðar þurftum við líka að nota daginn í annað. Ég hafði nýlega frétt að ég ætti frænku í Grindavík og ætlaði að heimsækja hana. Það vildi svo til, að hún bjá ásamt sínum manni örskammt frá Rósu. Þar var mér heilsað eins og nánum ættingja sem auðvitað var. Hún heitir Þóra og er dótturdóttir Hallberu sem var systir móður minnar. Sonur þeirra hjóna býr skammt þar frá og annar inn í Hafnarfirði. Sá var nú staddur úti á Haiti með Rústabjörgunarsveitinni íslensku.

Mikið finnst mér virðingarvert að svo margir gefa sér tíma til að vera í þessum björgunarsveitum okkar hér á landi og eru alltaf tilbúnir að veita hjálp þegar háski steðjar að, sem æði oft vill nú verða. Mér finnst þessar Björgunarsveitir og Lögreglan ætti að vera stöðugt í bænum okkar. Hver mundi vilja vera í landi þar sem engin regla ríkti á neinu og sérhver fengi að gera það sem honum gott þætti. Þetta eru hjá hvorum tveggja hættuleg störf. Ég  var auðvitað upp með mér að heyra að ég ætti frænda þarna úti. Það munu nú ekki hafa verið neitt auðleyst eða hættulaus verkefni sem biðu þeirra þar. Við sátum og spjölluðum áfram um liðinn tíma og líðandi. Drukkum aftur kaffi og ákváðum að hafa samband. Lögðum svo af stað heim í indælu veðri.

12.01.2010 22:44

Janúar 2010

Guð er mikill

 Það segir í Ritningunni um Guð: ,,Að sjálfur er hann fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum,, Jesús sagði við saddúkeana sem ekki gátu trúað upprisunni frá dauðum og lögðu fyrir hann snúnar spurningar ef upprisan væri hugsuð til enda.  ,,En Jesús svaraði þeim:,,Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. Mt. 22: 29. Vandi nokkurra við að trúa á yfirnáttúrlega hluti, held ég sé, að þeir hugsa um Guð eins og hann væri aðeins lítið eitt stærri og máttugri en venjulegur maður.  Það gerist margt í veröldinni sem hefði einhvern tíman verið kallað yfirnáttúrlegt. Hvað með skilaboðin sem tölvan flytur á örskotsstundu, heimsálfa á milli. Þú hefur varla tíma til að snúa þér við áður en þau  eru komin á leiðarenda. Fjöldi fólks trúir að þetta sé hægt og hagar sér samkvæmt því, þótt það geti ekki trúað að Guð sé til, sem lagt hefur þessa möguleika í sköpun sína.

 Ég dæmi þetta fólk ekki fyrir trúleysi, því ekki er trúin allra, segir Páll. Hann gat nú trútt um talað. Hann trúði ekki á Jesúm Krist til að byrja með. Við getum ekki séð Guð eða þreifað á honum. Ég hefi ekki séð eða þreifað á rafmagninu sem flýtur eftir línunum frá raforkustöðvunum en ég hefi séð hvað hægt er að framkvæma með því. Það getur lýst upp heilar borgir og þorp svo unun er á að líta þegar skyggja fer. Þannig hefur Guð lýst upp líf margra sem höfðu klúðrað því og sátu í myrkri og skugga dauðans. Þeir hafa risið upp úr myrkrinu fyrir mátt Guðs og sumir þeirra tekið að lýsa öðrum, til að höndla heilbrigt líf og lagt mikið á sig við það.

Þeir á vantrú.is segjast vera á móti öllum yfirnáttúrlegum hindurvitnum og þar á meðal Guði almáttugum og Jesú Kristi. Kalla það kynjasögur og kerlingabækur.  Við eigum margar þjóðsögur til af kynjaverum til lands og sjávar, en það vekur athygli mína  að mér finnst þeir beita sér allra mest móti Jesú Kristi, en forynjur, drauga, afturgöngur og uppvakninga  láta þeir nokkurn vegin sleppa við ávirðingar. Maður gæti haldið að þeim fyndist hann eitthvað fjarskyldari og sér um sefa. Mætti því taka hann fyrir eins og gerist í skólum stundum. Fram kemur í riti þeirra að helst megi jafna Jesú Kristi við Hitler hvað mannvonsku  snertir. Ég hefi samt aldrei heyrt að Hitler hafi arfleitt óvini sína að einu eða neinu. sem þeim mætti að gagni verða, en það gerði Jesús og er bókfært hjá Matteusi 12:32.
,,Hverjum sem mælir gegn mannsyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda"

Fyrst Jesús er svona góður við þá, að fyrirgefa þeim fyrirfram, sem ráðast á hann með tungu sinni, þá verðum við bara að hugsa vel til þeirra líka, svo við fáum ekki Jesú upp á móti okkur. Vonum  að hann eigi eftir að ganga í veg fyrir þá, eins og Sál frá Tarsus forðum. Guð hefur eflaust gefið þeim góða hæfileika líka  eins og honum til að reka sitt erindi, þegar þeir hafa flett sinni blaðsíðu við.

01.01.2010 22:37

Áramót

Kæru vinir sem lítið stundum á síðuna.

Ég vil byrja á að þakka fyrir allar góðar óskir og kveðjur á árinu 2009. Þegar ég kom út í gærmorgun þá var veðrið svo yndislegt hérna í Innri Njarðvík, alveg stillilogn, sem er nú fremur sjaldgæft. Mér fannst bara hlýtt þó að mælirinn væri undir núllinu. Það var sama yndislega veðrið í dag. Hérna sem við búum er svo fallegt útsýni yfir svæðið nýbyggða næst okkur og yfir sjóin hér úr Innri Njarðvík séð. Við búum á efri hæð í tveggja hæða húsi með 20 íbúðum. (Vona að það sé rétt tala hjá mér). Hefi ekki komið í þær allar. Svæðið næst okkur er mikið til byggt einnar hæðar einbýlishúsum svo við sjáum yfir þau og til sjávar og fjalla þegar gott skyggni er.

Við fórum á samkomu klukkan hálf fimm í gær, í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík

Það er viðeigandi að koma saman og  hlusta á uppörvandi orð inn í framtíðina ásamt því að þakka  Drottni allar góðar gjafir á liðnu ári og fela sig honum á komandi tíma. Líka til að biðja fyrir þeim sem þjást og líða. Einnig fyrir þeim sem hátt eru settir og með völdin fara í þessu landi, að þeim mætti veitast viska og náð á þessum erfiðu tímum. Það munu eflaust margir trúaðir hafa gert. Ekki minnst mun  Forsetinn okkar þurfa á visku að halda þegar til hans kasta kemur. Ég lýk svo þessum línum. Með kærri kveðju ásamt Post. 27.   

Guð er enn hinn sami í dag. Þ.P.

  • 1
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99860
Samtals gestir: 20163
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 16:08:59

Eldra efni

Tenglar