Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2013 Nóvember

14.11.2013 16:51

Að opna aftur

Það er orðið langt síðan ég hefi skrifað eitthvað á síðuna mína. Það reynist sumum erfitt að byrja aftur á verkefni sem hefur legið lengi á hillunni.  Ég sé að ég hefi skrifað seinast í október 2012. Það má segja að síðan þá hafi orðið mikil breyting hjá okkur. Eftir að húsbóndinn hafði fengið blóðtappa í höfuðið í Júní 2012. þá hentaði okkur ekki lengur það húsnæði sem við höfðum. Þar voru útitröppur uppá aðra hæð en vegna svimans sem sótti á hann var ég alltaf hrædd um hann í tröppunum. Hann datt þó aldrei þar, sem betur fór. Við fórum svo að skoða ýmsa möguleika. Settum okkar íbúð á sölu. Enn það gekk ekki upp. Þá ákváðum við að leigja íbúðina og það gekk fljótt.

 

Þá fórum við að leita okkur að íbúð, sem væri okkur hentugri, til að taka á leigu. Við fundum hana í húsi sem var byggt 2009 fyrir eldra fólk. Þá erum við líka komin nær kirkjunni sem við höfum sótt og einnig mjög nálægt verslun. Hér þurfum við miklu minna að nota bílinn, sem er gott. Útsýni frá hinum staðnum var nú yndislegt  en það er það líka hér. Þessi íbúð beið víst alltaf eftir okkur, mætti halda, því enginn hafði búið í henni fyrr. Nú skilst mér að næstum allar íbúðirnar í þessu stóra húsi séu komnar í útleigu, svo við vorum heppin og eru bæði ánægð. Af heilsufarsástæðum hefur lítið orðið úr kirkjusókn hjá okkur, því þegar líða tók nær þeim degi er við skyldum flytja fór Ásgrímur að kenna sjúkdóms i maga með ógleði og uppköstum við máltíðir ásamt þrekmissi. Þetta var alveg nýtt fyrir honum því hann hafði ekki verið kvillasamur.

 

Margra vikna bið var eftir að komast hér í magaspeglun en tengdadóttir hans fann til með honum. Hún ákvað að leita uppi lækni í Reykjavík er hún hafði áður haft kinni af og bað hann ásjár.  Það bar þann árangur að Ásgrímur komst mun fyrr í magaspeglun en annars hefði orðið. Úrskurður úr þeirri rannsókn reyndist vera magasár. Þessi læknir vildi fá fleiri blóðprufur og sneiðmynd og var þá gerð önnur ferð. Til að fá úrskurð úr þeim rannsóknum vorum við kölluð til viðtals. Fengum að vita að hér væri illkynja meinsemd búin að hreiðra um sig. Líklega er hún löngu búin að koma sér fyrir, þótt sá sem hýsti hana væri grunlaus um annað en hann hefði góða heilsu þar til þessi vanlíðan kom allt í einu.

 

Við erum nú bæði orðin svo gömul hjónin, að bara þess vegna, gætum við átt von á vistaskiptum hvenær sem væri. Páll postuli óttaðist ekki dauðann. Hann sagði:

   Ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum. Róm 8. 38.-39.

  • 1
Flettingar í dag: 112
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 321
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 31411
Samtals gestir: 2596
Tölur uppfærðar: 7.10.2022 01:55:40

Eldra efni

Tenglar