Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2008 Október

15.10.2008 10:52

VATNASKÓGUR

Föstudaginn 19 september 2008 lögðum við hjónin af stað upp í Vatnaskóg.  Þar átti að halda landsmót Gideonfélaganna þetta árið, 19-21 september.  Þoka var og rigningarsúld er við lögðum af stað.  Við ákváðum að koma við í leiðinni hjá systur Ásgríms Jenseyju,sem býr í Reykjavík.  Sonur hennar og kona hans voru stödd hjá henni er við komum þangað og var hann búinn að baka vöfflur handa okkur öllum. Guðrún systir hennar sem býr á Akureyri var líka  stödd hjá henni.  Eftir að hafa drukkið miðdagskaffi þar og spjallað um hríð, kvöddum við og héldum ferðinni áfram.  Við fórum ekki göngin heldur Hvalfjörðinn eins og í gamla daga og fannst mér það skemmtilegt þótt þoka væri. Það sem mér fannst skemmtilegast var að það var svo lítil umferð.  Það var eins og að vera komin út í sveitir fyrir sextíu árum eða svo.  Aðeins fáum bílum mættum við og enginn sem færi fram úr að ég muni. 

 

Þetta reyndist fljótfarnara en við gerðum ráð fyrir, svo að við biðum drjúgan tíma áður en sá kom sem úthlutaði herbergjum en okkur var boðið upp á kaffi og að bíða í borðsalnum og þáðum við það .  Það var orðið langt síðan ég kom fyrst í Vatnaskóg.  Þannig var, að þegar ég var innan ið fermingu þá urðu ábúendaskipti á jörð í nágrenni við okkur austur í Hornafirði og þangað flutti fólk úr Reykjavík. Þetta var fimm manna fjölskylda og þar á meðal stúlka jafngömul mér.  Við vorum því saman í skóla og urðum vinkonur,  báðar af fjallabæjunum sem svo voru nefndir. Við áttum líka stundum samleið um helgar.  Þá máttum við fara heim eftir kennslu á föstudögum, annars urðum við að búa nærri skólanum á meðan hann stóð yfir.  Við urðum að vera komnar til baka á sunnudagskvöld.                                                                                                                                       Ég man nú ekki eftir að við ættum í neinu harki í skólanum, utan einhverrar smástríðni einu sinni.  Man ekki fyrir víst hvort það var verið að finna uppnefni á alla í hópnum og einhver af skólafélögunum fann upp að við dömurnar af fjallabæjunum gætum heitið Lappalengja og  Innskeif.  Við vorum nú báðar háar til hnésins. Það voru svo sem dæmi fyrir því áður í Íslandssögunni að slíkt þætti tiltökumál, samanb. Hallgerði langbrók húsfreyju á Hlíðarenda. Ég heyrði  þessi nöfn aldrei aftur notuð á okkur, ekki heldur að neinir aðrir væru uppnefndur, en samt hefi ég aldrei gleymt því, líklega af því að þetta var svolítið fyndið og ekki alveg meinlaust.  Þegar við fórum heim til okkar um helgar fengum við stundum að verða samferða Bjarna  Þorleyfssyni sem hafði fjárhúsin sín fyrir ofan Djúpá og þurfti því að fara yfir ána til að hirða um féð á hverjum degi á veturna.  Hélt hann þá á okkur yfir ána því hún mun sjaldan hafa verið væð á lágstigvélum.  Eftir það vorum við fullfærar að koma okkur hver heim til sín.

 

Svo leið nú tíminn og vinkona mín flutti aftur til Reykjavíkur áður en hún fermdist.  Hún komst fljótt í kynni við K.F.Ú.M.og K. því systir hennar var komin í það félag.  Hún fékk þarna þann neista sem kveikti trúna í hjarta hennar, eða lífgaði hana. Hún skrifaði mér um þetta sem gerðist hjá henni. Ég skrifaði henni aftur og fagnaði því sem hún hafði eignast en fannst ég gæti ekki sagt það sama um mig.   Það átti þó eftir að gerast nokkru seinna og var það eftir að ég hafði lesið hvetjandi grein í kristilegu blaði sem barst á heimili mítt.  Þá ákvað ég að leita í Biblíuna sjálfa, sem var til vegna þess að bróður mínum hafði verið gefin hún í fermingargjöf.  Það sannaðist á mér að, sá finnur sem leitar.  Seinna sendi þessi vinkona mín mér Biblíu í skinnbandi og gyllta í sniðum.  Hana á ég enn.  Mér þykir þó betra núorðið að nota  Biblíu með stærra letri og neðanmálstilvitnunum. Vegna kunningsskapar við þessa vinkonu og fjölskyldu hennar lá leið mín nokkru  seinna í Vatnaskóg á kristilegt sumarmót með þeim, er ég var gestur í Reykjavík.  Það voru yndislegir dagar á þessum fagra stað.

 

Sama er að segja um þetta mót, sem við vorum nú stödd á og haldið svona mörgum áratugum seinna. Það var um leið aðalfundur Gídeonfélagsins á Íslandi þar sem kosið var í stjórn og fleira tekið fyrir ásamt því að hlusta á uppbyggilega fyrirlestra.  Konurnar voru nú að rýmka sinn starfsvettvang.  Það kemur vonandi eitthvað gott útúr því.  Á  laugardagskvöldið var okkur búinn hátíðakvöldverður.  Það rigndi allan tíman eitthvað og líka á heimleiðinni.  Við héldum heim á leið, eftir að hafa borðað hádegismat á sunnudaginn og fórum aftur Hvalfjörðinn til baka.  Ferðin endaði farsællega.

  • 1
Flettingar í dag: 108
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 125
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 78153
Samtals gestir: 16285
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 20:53:58

Eldra efni

Tenglar