Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2009 Febrúar

27.02.2009 21:45

ALFA

                                                Alfahelgi

 

Margar kirkjur hér á landi hafa notfært sér Alfanámskeiðin í kirkjustarfinu.  Hvítasunnukirkjan í Keflavík er núna með eitt slíkt námskeið í gangi.  Venja er á slíku námskeiði að fara eina helgi burt úr bænum til dvalar á einhverjum rólegum stað.  Við sem vorum þátttakendur lögðum af stað frá kirkjunni kl. 15 mínútur yfir sjö á föstudagskvöld þegar við höfðum borðað kvöldmat.  Farð var á einkabílum, en þegar við hjónin komum að kirkjunni á  tilsettum tíma voru þeir síðustu, svo að segja, að renna úr hlaði.  Segið svo að Íslendingar geti ekki verið stundvísir.

 

Við þurftum ekki að taka neinn farþega og fórum bara tvö í okkar bíl og ókum sem leið liggur inn í Hafnarfjörð, gegnum hann og upp hjá Vífilsstöðum, fram með Vífilsstaðavatni og uppá einhverja hæð, svo fram með hesthúsum og þar eftir inn í nýlega íbúðabyggð.  Þetta höfum við oft farið en nú var komið myrkur og naut ekki lengur eðlilegrar birtu heldur aðeins þeirra ljósa sem menn hafa skapað og geta aðeins rofið ríki myrkursins að takmörkuðu leyti.  Það var líka að auki mikil þoka og rigning.

 

Þegar búið er að fara með mig nokkra hringi og beygjur við slíkar aðstæður missi ég allt áttaskin og á allt undir ratvísi mannsins míns hvort ég komist nokkru sinni á leiðarenda.  Hann hafði oft farið part af leiðinni áður en aðeins einu sinni alla leið, þangað sem ferðinni er heitið.  Áfangastaðurinn  heitir Kríunes og stendur nálægt Elliðavatni.  Eitthvað fór hann nú afvega þegar hann var rétt að ná markinu.  Við okkur blasti skilti sem á stóð Kríu.  Það gæti verið þáttur í ratleik ef fólk væri hugmyndaríkt og mætti verðlauna.

                                                                                                                                       Það hafði nú ekkert verið minnst á neinn ratleik áður en við lögðum af stað. svo hann var nú ekkert að láta Þetta brotna skilti trufla sig.  Hann hélt bara áfram og lendum þá í því að menn koma á hestum einn og einn með hund með sér.  Þá ákveður minn maður að snúa til baka.  Við erum nú ekki aldeilis að fara að gista í hesthúsi.  Nú þurftum við að komast í nágrenni við skiltið aftur.  Ekki vildi Ásgrímur samt treysta alveg á þennan gátufulla vegvísi. Hann fór heim að einu húsi, það er fullt af þeim hér allt í kring, og spurði þar til vegar.

 

Við vorum þá skammt frá hótelinu og blessunarlega nær komin á áfangastað.  Þar fengum við að vita að fleiri hefðu átt í erfiðleikum með að finna slotið.  Við höfðum þarna kvöldvöku á tilskyldum tíma og þar eftir var gengið til rekkju.  Við hjónin fengum rosasvítu með stóru rúmi sem minnti mig á rúm sem ég trúi að ég hafi séð á einhverri sýningu út í Danmörku og þar titlað sem drottningarrúm.  Nafn hennar er gleymt.  Ég trúi nú ekki að þetta hafi verið það sama rúm en eflaust einhver merkismannshvíla.

 

Það var með fjórum sterkum stólpum sem tengdir voru saman upp undir lofti.  Hin önnur húsgögn virtust einnig til aldurs komin og til þess fallin að bera virðingu fyrir.  Þessu fylgdi stærðarinnar nuddpottur, ætlaður tveimur í einu sýndist mér.  Það komu menn að kenna okkur á pottinn en mér sýndist hann mundi vera fær um meira en okkur var sýnt.  Ég hefði aldrei þorað að hætta á að skrúfa frá skökkum krana á svo tæknivæddum potti en Ásgrímur er óhræddari við að fikta í hlutum eins og karlmenn eru.  Hann fór í sturtu og naut alls viðurgernings þarna alveg í botn og gladdist eins og barn yfir útsýninu frá slotinu.

 

Við fengum rúmgóðan sal fyrir samkomurnar.  Þarna voru yfir tuttugu manns samankomin.  Það höfðu ekki allir getað komið austur, sem voru á Alfa.  Næsta dag áttum við að mæta í morgunmat kl. 9.  Svo tók lofgerðarstundin við í hálftíma og kennslan þar á eftir. Hún stóð með matarhléum yfir laugardaginn allt til kvölds, að einum tíma undanskyldum.  Hátíðarkvöldverður var kl.7. Þar eftir kvöldvaka og tjáning.  Þetta var góð samvera, sem gott verður að minnast fyrir þá, sem hafa óskert minni.  Vonandi lekur nú ekki allt út hjá okkur þessum eldri heldur.

 

   Tvær stúlkur sem ekki gátu komið á föstudagskvöld voru sóttar á laugardagsmorgun.  Eftir morgunmat á sunnudaginn var haldið heim því ljúka átti samverunni með samkomu í Hvítasunnukirkjunni kl.11.  Þegar við lögðum af stað heim í dagsbirtunni um morguninn, sá ég best, að það er varla ætlandi dauðlegum manni að rata allar þessar beygjur og króka í náttmyrkri.  En allt fór vel.  Guði séu þakkir fyrir góðar stundir.

 

 

 

17.02.2009 19:09

Leikfélagar

                             Vitneskja fengin um málvenju.

 

Það leið ekki á löngu eftir ég skrifaði síðasta pistil að ég hitti konu sem gat sagt mér hver málvenja væri um það, ef farið væri úr Innri-Njarðvík til Keflavíkur.  Við fórum að heimsækja eldri konu, frænku mannsins míns.  Hún hafði búið um margra ára skeið í Innri-Njarðvík.  Hún sagði mér að það hefði heitið að fara út í Keflavík frá þeim.  Þá veit ég það og ætla því aldrei að fara inní Keflavík aftur nema ef ég kæmi utan úr Garði.

                               ________________

 

Ég geri ráð fyrir að yngra skyldfólkið mitt vilji helst heyra sögur úr sveitinni þegar ég var að alast upp, svo ég ætla að týna eitthvað til.

 

                               Leikfélagar.

 

Ég fæddist á Rauðabergi í Austur-Skaftafellssýslu og ólst þar upp.  Ég var yngst þriggja systkina sem upp komust og ellefu árum yngri en bróðir minn sem var næstur mér.  Hafði ég lítið af leikfélögum að segja, þeim er á tveimur fótum ganga.  Hundurinn, kötturinn og kálfarnir urðu mínir leikfélagar.  Þeirra greindastur og skemmtilegastur var hundurinn.  Glói hét hann og var fæddur á Viðborði.  Mjallhvítur var hann á belginn ofulítið hrokkinn, með greindarleg augu og lítið eitt lafandi eyru, sem gáfu honum mildan svip, af því að þau stóðu ekki beint upp.  Þetta var nú kátur hvolpur og við lékum okkur og ærsluðumst alla daga.  Ég hafði band og hélt í annan endann en Glói tók í hinn og svo hófst reiptogið og veitti ýmsum betur, því honum jukust ört kraftar er hann stækkaði.  Ég held að við höfum orðið álíka sterk á tímabyli.

 

Glói urraði og rykkti í reipið sitt til hverrar hliðar og við komumst bæði í vígamóð.  Þannig stóðu leikar eitt sinn er Guðjón á Viðborði bar að garði.  Þá lá bandið yfir vegg sem hafði verið hlaðinn kringum kálgarð og var Glói að reyna að draga mig yfir vegginn.  Færðist hann allur í aukana er hann sá sinn sigur nálgast en Guðjón hvatti mig til að vera nú sterk og hefi ég þá efalaust tekið á því sem ég átti til.  Ég hafði gaman af að henda ýmsum hlutum, sem ég vissi að mundu fljóta, í vatn og atti svo Glóa til að sækja þá sem hann oftast gerði og kom svo með þá sigri hrósandi og kátur.  Seinna þegar bróðir minn skaut ýmsa sundfugla synti Glói eftir þeim og kom með þá til lands.  Hann var líka mjög flinkur í boltaleik.  Lét ég hann óspart iðka þá list að grípa hluti sem mér þóttu tiltækilegir.  Stökk hann þá oft hátt í loft upp er hann tók á móti. Sá ljóður var á ráði hans að hann sóttist eftir að stela af fjárstofni  mínum sem voru kindarhorn og ég geymdi í byrgi nálægt bænum.  Bar hann þau út á víðan vang og nagaði.  Þoldi ég honum það illa.

 

Glói hafði ekki sterka fætur. Þegar hann varð eldri þoldi hann illa fjallgöngurnar, lá þá á eftir og sleikti sína sáru gangþófa.  Þegar hann gerðist gamall og ellimóður var ungur hvolpur fenginn á heimilið er taka skyldi við starfi hans, er hann væri orðinn til þess nýtur.  Hann var hvítur og svartflekkóttur með uppreist eyru og hlaut nafnið Kári.  Nú bar svo við þegar þessi unglingur var kominn á heimilið að hann varð hinum gamla og góða leikfélaga mínum hinn mesti þyrnir í augum.  Aldrei vissi ég þó til að hann reyndi að bola honum burtu, en hann forðaðist hann og lét sem hann sæi hann ekki.  Kári lét sem hann yrði ekki þykkjunnar var og vildi stöðugt reyna að leika sér við hann og liggja hjá honum á næturnar.  Glói flúði þá sitt gamla bæli alveg og þegar Kári vildi fá hann í leik með sér stóð hann bara eins og staur, horfði út í bláinn og virtist sannarlega búa yfir mikilli sorg.  Ef til vill speglaðist í augum hans sársauki þess, sem finnur að hann er af öðrum álitinn ófær um að gegna starfi sínu sem hann er þó búinn að stunda alla æfi.

 

Fór þessu nú fram um hríð en þó lauk því svo að léttlyndi og lífsglaði hvolpurinn vann hylli gamla hundsins  Kári var alltaf tilbúinn að hlaupa fyrir kindur ef með þurfti og ég held bara að Glóa hafi fundist vænt um að hann tæki af sér ómakið og allt í einu sá ég að hann fór að sleikja af hvolpinum leirsletturnar þegar hann kom úr einni sendiferðinni.  Eftir þetta fóru þeir að éta úr sama dalli, leika sér saman og sofa í sama bæli  Vera alltaf saman nema þegar Kári þurfti, í þágu heimilisins, að hlaupa smásprett við skepnur.  Glói var feginn að losna við snúningana.  Hann tók því betur á móti þessum fóstursyni sínum þegar hann kom aftur og sleikti leirsletturnar af fótum hans.  Það gerði hann oft.  Kári virtist kunna því mjög vel enda sjálfur latur að þrífa sig.  Allra daga  koma kvöld og gamli leikfélaginn minn kvaddi sitt líf.  Ég var ekki heima og vissi ekki neitt fyrr en ég kom aftur.  Þá var búið að grafa hann.  Það var í rauninni gott úr því sem vera varð.

01.02.2009 00:34

Ótitlað

                        8. janúar 09 2009-01.

 

Fimmtudaginn hinn 8. janúar 09 fórum við hjónakornin inn í Reykjavík.  Ég ætti nú sjálfsagt að fullyrða, sem minnst um hvað sé inn og hvað sé út, hér á Suðurnesjum.  Þegar við förum til Keflavíkur héðan úr Innri Njarðvík segi ég líka að ég sé að fara inn í Keflavík þótt það sé alveg í öfuga átt við Reykjavíkurleiðina.  Mig vantar að finna einhvern gamalgróinn Innri Njarðvíking.  Hann gæti sagt mér hver málvenjan væri hér.

 

Við ætluðum að vera við jarðarför konu sem við þekktum.  Hún átti að vera kl. 1, frá bænhúsinu í Fossvogi.  Við vorum svo snemma á ferðinni að við notuðum tímann á undan til að fara í heyrnar og talmeinastöð, því Ásgrímur er farinn að hugsa um að fá sér heyrnartæki.  Þessi stöð er til húsa í sjálfstæðishúsinu og þegar þangað var komið var greinilega fundur þar, svo mikið var af bílum í kring.  Þegar inn var komið sást inn í stóran sal fullan af fólki, mest karlmenn, með alvöruþrungin andlit eins og við á, á þessum tímum. Konurnar hafa ef til vill  verið heima að þvo upp ílátin eftir hádegismatinn.

 

   Heyrnarstöðin var á þriðju eða fjórðu hæð og þar þurftum við ekki að bíða lengi. Ásgrímur fékk viðtalstíma á þriðjudag í næstu viku. Fórum við svo aftur í Fossvoginn og vorum við kveðjuathöfnina, sem var látlaus og viðkunnanleg.  Þessi kona var einu ári yngri en ég svo mér kom í hug, að þegar komið er á minn aldur, þá verður að sannmæli sem stendur í ljóðinu. Man ekki fyrir víst eftir hvern það er  ,, Mínir vinir fara fjöld, feigðin þessa heimtar köld. Ég kem á eftir, kannski í kvöld, með klofinn hjálm og rofinn skjöld."  Þessi kona átti skjöld trúarinnar sem talað er um í Efesus bréfinu 6.16. Ég trúi að hún hafi haldið honum órofnum allt til enda.  Hins sama vænti ég mér til handa þegar að mér kemur. 

 

Á eftir fórum við aftur niður í miðbæinn og fórum í búðir.  Ásgrímur gerði góða verslun þá loks er hann lét verða af því að endurnýja eitthvað fatakyns handa sér.  Ég aftur á móti fann ekki það sem ég leitaði að, en fékk aftur á móti góð ráð að taka með mér heim, sem ekki kostuðu neitt.  Svo héldum við heim í rigningunni.  Satt að segja vorum við bæði dauðþreytt og hölluðum okkur upp í rúm þegar heim var komið.

                                       

  • 1
Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99750
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 14:43:33

Eldra efni

Tenglar