Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2007 Október

29.10.2007 00:18

Veturinn kom í gær

 Þegar ég leit út um gluggann í morgun var jörð alhvít hér í innri Njarðvík. Nú erum við

búin að eiga heima hér í nokkrar vikur og finnst mér mjög gott að vera hérna. Hæst bera nú held ég þessi dæmafáu rólegheit sem ríkja hér. Auðvitað hafa smiðir verið að vinna hér á daginn við húsið en á kvöldin og næturnar er kyrrt eins og við værum úti í afskekktri sveit. Héðan af efri hæðinni úr okkar íbúð er víðsýnt í góðu skyggni, svo að við sjáum yfir sjóinn til fjallanna í fjarska. Ennþá eru ekki allir fluttir í þetta hús sem hér munu eiga heima i framtíðinni. Við höfum rekist á nokkra af nágrönnum okkar hér úti sem virðast vera vel að sér í góðum siðum. Kynna sig og heilsa með handabandi eins og gestir af næstu bæjum gerðu í sveitinni, þar sem ég er uppalin. Það skal tekið fram að nágrannarnir í sveitinni þurftu ekki að kynna sig. Þetta lofar auðvitað góðu og verður okkur hvatning til að breyta eins og hefja ekki stríð að þarflausu að fyrrabragði.

Hér er næstum eins og við séum í einbýli. Bílskúrar undir íbúðinni og enginn býr fyrir ofan okkur. Ég bað bónda minn um að festa klukkuna mína á útvegg svo hún spillti ekki svefnfriði annarra í húsinu. Vona ég að það gangi eftir þótt hún sé nokkuð hljómmikil. Mér finnst svo heimilislegt að hlusta á hana slá. Uppáþrenging okkar er að venjast innilokuninni. Fyrstu dagana langaði hana að bregða sér út og einu sinni fór hún út um glugga og settist á sylluna utanvið en hún lét það ógert að steypa sé niður. Hún virtist ekki eins lofthrædd eins og eigandinn mundi vera í sömu sporum. Hún bara tók þá ákvörðun að hætta ekki lífi sínu að óþörfu. Ég var ákaflega fegin þegar handriðin komu við tröppurnar hérna.

Guðný dóttir mín og maður hennar Valur komu nýlega á leið sinni til útlanda. Þau gistu hér eina nótt. Það er helst að ég sjái börnin mín er þau eiga leið um flugstöðina í Keflavík. Það er kosturinn við að búa svo nálægt millilandaflugvellinum en ekki einhversstaðar annarstaðar.

Ég hafði losað mig við gamla svefnsófann sem ég hafði notað fyrir gesti áður og ætlað að kaupa venjulegt notað rúm í staðinn í Góða hirðinum. Þegar þangað kom var ekkert rúm þar sem passaði en af því við vorum nú einu sinni komin inní Reykjavík ákvað ég að láta þetta ekki

vefjast lengur fyrir mér og keypti gestarúm í Rúmfatalagernum. Þau eru að vísu ekki nema einn og 80 á lengd. Þegar til kom, kom í ljós að það mátti ekki lengra vera í herbergið en þar með gátum við komið tveimur gestarúmum þar inn, svona fyrir eina nótt. Þannig hefi ég svo oft fundið fyrir æðri handleiðslu í lífinu.

18.10.2007 01:22

Föstudagur

Föstudagur 7. 9.

Daginn þann lögðum við af stað heim eftir að hafa gert hreint í bústaðnum og reynt að skilja vel við. Þá var sæmilegasta veður. Fyrst fórum við niður á Selfoss. Þar hittum við vin okkar Hallgrím Guðmannsson og þágum hjá honum góðgerðir. Létum kisu dúsa í búrinu sínu út í bíl á meðan. Á eftir fórum við að heimsækja Kristinn og Lilju. Kristinn er uppeldissonur Ásgríms frá 12 ára aldri. Þau tóku okkur með virktum og kisu var boðin mjólkurskál sem hún tók þó með fyrirvara en þetta hafði samt góð áhrif. Hún virtist draga það af gestrisni þessa fólks að hér þyrfti engan sérstakan vara að hafa, í viðkynningu við það. Hún er nú samt þeirrar gerðar aðhún flanar ekki í fang ókunnugra.

Eftir að hafa þegið góðgerðir og spjallað nokkra stund, héldum við af stað heim og gekk það vel. Héldum svo áfram að pakka næstu daga og undirbúa flutning.  Veðurspáin mun ekki hafa verið uppörvandi fyrir laugardaginn 14.  Þegar við vöknuðum var ausandi rigning, já hún var mikil. Ég hugsaði að það gæti létt seinnipartinn og það mætti biðja Guð að láta létta. Ásgrímur taldi að ég gæti gert það. Ég vonaði nú bara að hægt yrði að flytja þrátt fyrir allt. Það hafði hlaðist svo mikið upp af smákössum á ganginn svo erfitt yrði að koma stóru hlutunum framhjá nema að flytja kassana fyrst. Ákváðum því að reyna að flytja þá nokkra í okkar bíl því hægt er að leggja sætin niður í honum.

Helga dótturdóttir Ásgríms er nýflutt í Keflavík og hennar fjölskylda var búin að bjóða fram hjálp sína og komu þau fljótlega eftir að Ásgrímur hringdi í þau og einnig komu 2 vinir sonar þeirra. Rigningin fór nú minnkandi þótt eitthvað rigndi allan daginn. Er fram leið færðist kapp í liðið. Helga mun hafa hringt í systur sína Jensey og hún kom og hennar maður. Ekki var hætt við, fyrri en allt var útborið af hæðinni og aðeins eftir í bílskúrnum og geymslunni í kjallaranum, því að bílskúrinn í Engjadalnum var ekki tilbúinn. Þessa nótt sváfum við í nýju íbúðinni sæmilega sátt og sæl yfir framgangi mála og kötturinn líka, yfir að hafa sín venjulegu húsgögn að hnusa af og hátta við og húsbændur líka

15.10.2007 21:37

2 september

Nú er orðið langt síðan ég hefi sest við skriftir. Tíminn hefir farið í að pakka búslóð og gera hreint. Til stóð að flytja um þessi mánaðarmót. Það dregst vegna þess að íbúðin sem við ætlum að flytja í er ekki tilbúin. Við fáum að vera hér hálfan mánuð í viðbót á okkar fyrra heimili. Á morgun ætlum við að fara í sumarbústað sem Kennarar eiga austur á Flúðum og vera þar fram á föstudag. Við höfum hvorugt farið í orlofsbústað áður í okkar félögum. Við ætlum að drasla kettinum með og fórum því með hann í prufutúr í dag í bílnum Hún vældi mestallan tíman í nýja búrinu sem húsbóndinn var búinn að laga handa henni en var afskaplega ánægð þegar við vorum komin lifandi heim aftur úr þessu skelfilega ferðalagi.

Daginn eftir munum við hafa farið austur á Flúðir með kisu í farteskinu sem bar sig þolanlega, þótt ekki verði sagt að hún hafi skemmt sér konunglega. Hún heitir nú reyndar Uppáþrengja en tölvan vill ekki kannast við að það orð sé nothæft sem nafn á skepnu, heldur skal hún heita Uppáþrenging. Kennarar hafa líklega aðeins einn bústað sem leyfilegt er að vera með dýr í. Þegar við báðum um leyfi fyrir kettinum var hætt við að láta okkur fá nýjan bústað. Ég er ekki móðguð út af því, Mér finnst það bara mjög eðlilegt. Við fengum ágætan bústað umlukinn trjám svo rétt sást í heiðan himinn. Það rigndi mikið þessa daga sem við dvöldum þar en við undum rólegheitunum og hvíldumst. Kisa fékk að fara út í skóginn en ekki með mínu leyfi. Ég var búin að sjá marga fugla og var hrædd um að hún sæist ekki meir en hún var vör um sig og fylgist grannt með til að missa ekki af sínu athvarfi og aðstandendum.

11.10.2007 18:59

Þegar vantar verkamenn

...Nú  Drottinn sem forðum þig ávarpar enn;
  ,,til uppskeru verkamenn þarf."
   Sjá, neyðin er mikil og nótt kemur senn,
   þá notast ei lengur þitt starf. Þ.M.J.


  

11.10.2007 00:28

1.september

Ég set hér inn smápistil sem ég skrifaði 1 september.  Þessari nýju tölvu minni hefir ekki þóknast að halda utan um neitt sem ég hefi skrifað fyrst í Wörd.  
 
  • 1
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99807
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:25:46

Eldra efni

Tenglar