Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2007 Maí

07.05.2007 10:54

Annað afm.

Annað afmæli.

Daginn eftir lögðum við af stað í annað afmæli. Það var ögn lengra að fara. Hekla fósturdóttir Ásgríms sem búsett er á Akranesi átti 60 ára afmæli. Það vill nú þannig til að við búum líklega á einna skjólsælasta staðnum í Keflavík svo við vitum ekki hvernig viðrar annarstaðar í bænum eða á Reykjanesbrautinni þegar komið er útúr bænum. Við fengum bara að kynnast því þegar við vorum komin vel af stað að veðrið var síst betra en daginn áður á sama tíma. Veðrið var þungbúið og dimma í lofti, engin þó rigning en rosalega hvasst lengst af leiðinni til Hafnarfjarðar. Þegar verst lét vildi ég að hringt væri upp á Akranes til að vita hvort veðrið væri þar, ef til vill, ennþá vitlausara. Ég hafði heyrt að stundum er hættulega hvasst á þeirri leið. Húsbóndinn hummaði það nú fram af sér og allt varð nú veðrið betra eftir að við nálguðumst Hafnarfjörð.

Eftir það var ekki yfir neinu að kvarta leiðina sem eftir var. Ég er alveg ánægð með jepplinginn okkar en hefi ekki trú á að hann sé bíla bestur í hliðarstormi því hann er fremur hár en stuttur, lítill og léttur.

Alltaf er dálítið sérstakt fyrir mér að aka framhjá, á hægri hönd, þorpinu fyrir neðan Lágafellskirkju. Þar átti ég heima um þriggja ára skeið þegar ég var innan við þrítugt. Þangað fluttum við bróðir minn ásamt móður okkar austan úr Hornafirði. Þá stóðu þarna tvö stór hús. Thór Jensen hafði áður rekið stórt kúabú á Korpúlfstöðum og þessi hús höfðu tilheyrt þeirri útgerð eða þannig held ég að það hafi verið. Annað húsanna var gríðarstór hlaða með súrheyisgryfjum í öðrum endanum. Þær voru nú komnar í aðra notkun. Búið að saga úr fyrir hurðum og gluggum og innrétta í þeim tvær íbúðir. Hinn endinn sem hafði áður verið heyhlaða hafði nú verið tekin undir bílaverkstæði Áætlunarbíla Mosfellsveitar. Bróðir minn fékk vinnu hjá bróður sínum og meðeiganda hans, á verkstæðinu og við fengum aðra íbúðina til afnota og einn af bílstjórunum fékk hina. Kýrnar og kötturinn fluttu líka í Mosfellssveitina.

Kýrnar fengu bása í stóra fjósinu sem var tómt. Við héldum þær bara til haustsins. Önnur hélt sínu lífi áfram á einu af nýbýlunum hinumegin við veginn og kom þar áreiðanlega í góðar hendur. Rauður foli fagurskapaður en ótaminn kom líka og tilheyrði mér. Ég kynntist engu hestafólki í Mosfellssveitinni og sá ekki leið til sjá um hann svo endirinn varð sá að ég lét fella hann sem var ef til vill mest eftirsjáin í. Það komst nú samt svo langt að það var lagt við hann nokkrum sinnum og virtist hann ætla að verða sjálftaminn svo þægur var hann. Bóndi austur í Hornafirði spurði mig seinna hvort hann hefði ekki orðið gæðingur. Það urðu allt gæðingar sem undan Churchill komu, sagði hann. Eigandi hans átti heima í Nesjunum. Við fylgdumst svona með heimspólitíkinni að vissu leyti í fjarlægðinni þarna austur frá og létum ,á sumum bæjum, blessuð saklausu dýrin okkar heita í höfuð æðstu þjóðaleiðtoga. Einn veturinn fæddust þrír kálfar hjá okkur

Sá elsti var svart og hvítflekkóttur og hann var látinn heita eftir forsætisráðherra Bretlands. Annar var svartur og fékk nafnið Hitler. Sá þriðji var rauður og fékk því nafnið Stalinn. Ég er nú ekki viss um að tveir þeir síðarnefndu hefðu fengið þessi nöfn ef við hefðum þekkt betur fyrirmyndirnar á þeim tíma er nöfnin voru gefin.

Mig minnir kisa mín hafi nú ekki lifað lengi eftir að hún kom suður. Hún fékk einhverja vesöld og sálaðist. Henni hafði aldrei orðið misdægurt áður um ævina það ég man til. Að líkindum hefur hún étið einhverja óhollustu eða bara verið búin að fylla tölu daga sinna.

Jæja, við vorum nú annars á leiðinni upp á Akranes nú í meinlausu veðri. Ferðin gekk því vel og við sáum afmælisblöðrur hangandi við íbúðina þegar í bæinn var komið. Hittum þar afmælisbarnið, eiginmann og hinn álitlega af komendahóp sem virðist hafa bæði dugnað og drift til að bera. Við nutum góðrar stundar með þeim og ríkulegra veislufanga. Að því loknu lögðum við af stað heim og ekkert sérstakt frá því að segja en fengum þó nokkrar snarpar vindhviður stuttu eftir að við lögðum af stað. Svo var því lokið og eftir það aðeins gott veður.

  • 1
Flettingar í dag: 76
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 77996
Samtals gestir: 16241
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 14:26:46

Eldra efni

Tenglar