Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2010 Mars

18.03.2010 19:24

Síðbúin uppfræðsla

Nú spyr einhver, hversvegna ég komi með þessar æskuminningar á síðuna. Þannig er, að þegar ég lít sjálf til baka þá minnist ég þess að foreldrar mínir sögðu mér svo lítið frá sínum uppvexti og ég spurði heldur ekki en sakna þess nú, að vita svo lítið um bernsku þeirra og æsku. Dætur mínar hafa sagt að þeim þyki skemmtilegast að lesa það sem ég skrifa frá uppvextinum. Útfrá því fór ég að hugsa að ég hafi talað of lítið við mín eigin börn um mína bernsku og ef til vill oflítið yfir höfuð. Ég  heyrði mann nýlega lýsa mælsku sumra manna með því að segja, að þeir hafi komið talandi útúr móðurkviði. Ég fylli ekki þann flokk sem á létt með munnlega frásögn. Kosturinn við tölvurnar er, að það er auðvelt að slökkva á þeim þegar lesanda finnst nóg komið. Ég ætla því að taka til þar sem ég hætti að tala um heyskapinn í Dældinni.

Þótt mér þætti gaman að heyja í Dældinni get ég ekki sagt að góður reiðvegur ætti mikinn þátt í því að gera ferðina skemmtilega. Það var heldur leiðinlegur vegur niður hraunamýrarnar, víða rauðaleirskeldur sem skiptust á við staksteinóttar melgötur. Þegar komið var niður undir Viðborðssel tók við upphleyptur vegur stuttan spöl og með brú yfir einn læk og þar é eftir fórum við yfir Selkílinn og dálitla bakkareim. Þá tók við mýri undir vatni oft milli hófskeggs og hnés sér í lagi eftir rigningar og eftir það kom Borgabakki. Hann var fljótfarinn og þá kom Flóinn. Þegar lítið var í Fljótunum voru þetta aðallega tveir álar sem við fórum yfir og næstum þurr leira á milli. Ég man hve fallegar voru brautirnar í leirunni eftir skeiðhrossin Brúnku og Létti. Áður en farið var út í álinn við Borgabakka stöðvaði ég hestinn til að leyfa hundinum Glóa að stökkva á bak fyrir aftan mig.


Eftir að ég eignaðist rauða hestinn frá Friðriki á Fornustekkum og fór að nota hann til reiðar þá afsagði hann algerlega þessa hundaflutninga.  Hann var aðeins fjögurra vetra, lítið taminn og lítið yfirvegaður en hafði verið reyndur á kappreiðum stuttu áður en hann kom til okkar. Þá var hann svo skelfing kjaftsár eftir keðjuna. Ég gerði mér í hugarlund að það hafi verið erfitt að hægja hann niður eftir sprettina á kappreiðunum og þessvegna særst svona illa. Reyndi ég því að hlífa honum með því að hafa mjög slaka keðju meðan hann var að gróa.  Er ekki frá því, að ég hafi eitthvað misst höfuðburð hans niður út á þessa miskunnsemi. Hann var nú heldur tæpur á taugum svo að þegar ég ætlaði að taka hundinn á bak var klárinn svo snöggur að víkja sér undan þannig að hundurinn hitti aldrei réttan lendingarstað og hafnaði aftur á fósturjörðinni. Þetta endaði hjá mér með fullri uppgjöf. 


Eftir það varð hundurinn að nota sínar eigin lappir yfir Flóann. Ef miklir hitadagar komu þá bráðnaði af jöklinum og þá gat vaxið mikið í fljótunum yfir daginn. Sumstaðar í Dældinni voru harðir valllendisbakkar sem mér þótti gott að raka og engir grasmaðkar. Stundum fórum við, Svanur stórfrændi minn, sem var þremur árum yngri en ég,  að vaða berfætt í flóum og lænum, í matartímanum. Þetta fannst okkur gaman þegar hlýtt var í veðri. Jökulleirinn var mjúkur í botni ræsanna. Einu sinni held ég að við höfum vaðið alla leið austur í Þjófasker. Það var spennandi. Við sáum ekki til botns í jökulvatninu, urðum bara að prófa okkur áfram. Þetta var ekki hættulegt því að við þekktum orðið umhverfið. Svanur átti heima á Eskifirði og var hjá okkur nokkur sumur. Seinna kom svo Viðar bróðir hans og var hjá okkur fleiri sumur.


Í Dældinni var ekki þegjandalegt því að oftast létu fuglarnir til sín heyra. Stundum sungu álftir á flóanum en það var lítið um þær en kríurnar görguðu og kjóarnir vældu yfir höfðum okkar af og til. Lómarnir syntu á álunum og ekki var væll þeirra minni. Sitthvað var að sjá, meðal annars fagran fjallhring. Nesjafjöllin öll og Mýrafjöllin og jöklana bláhvíta. Víða sást fólk á engjum á Holtateigum ásamt hestum og tjöldum í fjarska..  Heima á bæjunum sáust reykir líða upp í loftið. Allstaðar líf og starf  Venjulegast um klukkan nýju að kvöldi var verki lokið nema um þurrkdaga. Það var hvíld að komast á hestbak aftur ef hesturinn var góður. Einu sinni fékk ég gigt eftir að hafa rakað blautt hey. Þá varð erfitt að þurfa að nota aðra vöðva til að komast á bak heldur en ég hafði notað allan daginn við rakstur. Reyndar varð ég ekki alveg laus við gigtina fyrr en slætti lauk.                                                      

                                   

06.03.2010 11:41

Sjálfstæði

                                                                        Þefhestar

Miðvikudaginn 24 febrúar 2010 birti Fréttablaðið eftirfarandi fyrirsögn:                                                  Björgunarsveit vill þefhesta. Miklir möguleikar eru fólgnir í notkun hesta við björgunarstörf hér á landi. Geta hentað þegar þarf að fara yfir torsótt landssvæði.Talað er um að einn leitarhestahópur sé til í landinu. Framtíðar markmið sé að þjálfa þefhesta. Þetta verkaði nú á mig eins og furðufrétt eða 1.aprílgabb. En  apríl er ekki nærri kominn og þegar ég fór að lesa um almenna leit í torsóttu landslagi þá gat það nú staðist. Oft voru hestar notaðir til smölunar annarra dýra á láglendi, en ég hefi aldrei séð hesta leita eða grafa eftir einu eða neinu eins og hundar gera, nema grasi.  Sagt er í greininni, að ekki gangi að senda hvaða hest sem er til leitar. Meðal annars þurfi þeir að vera sjálfstæðir í hugsun. Einnig kemur fram að notkun hesta til leitar og björgunar sé þekkt víða um heim. Það var þetta með sjálfstæði í hugsun sem tengdi minningar mínar við hest sem ólst upp á æskuheimili mínu.

                                                                                                                                                       Hann var undan Brúnku og brúnn að lit eins og mamman. Hann var kallaður Kolbeinn.  Til hans lágu væntingar nokkrar því talið var, að reiðhestastofnar lægju að honum í báðar ættir. Hann hafði gott sköpulag og fékk gott uppeldi. Hann og félagi hans á svipuðum aldri, léku sér látlaust er þeim var hleypt út að vetri til. Svo kom sá tími að farið var að temja hann fjögra vetra gamlan. Það gekk nú áfallalaust enda folinn mannvanur öll árin fram að því. Reiðhestakostir létu þó á sér standa.  Hann kunni ekkert skeið þótt Blakkur í Árnanesi væri afi hans. Þaðan af síður var nokkurt töltspor að finna. Hann hafði aðeins til að bera hræðilega gróft brokk og ætlaði ég að kreista úr honum valhopp til þess að hann mundi nú ekki alveg liða mig sundur. Þá virtist hann aðeins hafa til að bera svo gróft stökk að ég  var líka fegin að hægja hann niður á því. Mér fannst bróðir minn ekki öfundsverður af þessum reiðhesti sínum

Konur þola svona hlussugang verr en karlmenn vegna þess, að þær hafa brjóst sem tekur í og e.t.v. minna þjálfaða vöðva. Ég ætla rétt að vona að það sé búið núna að rækta þetta grófa brokk út  úr íslensku hestakyni. Þetta er mikill galli og hentar ekki öllum. Fínt brokk er aftur á móti góður gangur til hvíldar fyrir hross frá öðrum erfiðari gangi. Kolbeinn var sá eini af okkar hrossum sem virtist halda að sér bæri að hugsa fyrir þann sem á baki sæti. Ég var að fara til bæjar sem var fjarri okkar heimili og ég  hafði  aldrei farið á honum þangað áður. Hann var ákaflega tregur, eins og hann vildi segja, ,,Viðhöfum aldrei farið þessa leið áður og ég veit ekkert hvar hún endar. Ég legg til að við förum heldur heim". Ekki það að hann yrði staður eða gengi aftur á bak, ekki heldur að hann rifi af mér tauminn með ofbeldi, en það var stöðugt þref útaf stefnunni. Hann lét mig alltaf finna gegnum taumhaldið hvert hann vildi fara. Hann vildi ekkert fara út í bláinn vitandi ekkert hvert leiðin lægi.

                                                                                                                                                             Einhverju  sinni um vetur fór bróðir minn á honum í kaupstaðarferð austur á Höfn. Fljótin voru ísi lögð. Ferðin gekk samkvæmt áætlun en er heim skyldi haldið skall á myrkur. Gerðist Kolbeinn þá þverreiður er komið var á fljótin. Bróðir minn trúði að hann hefði rétta stefnu svo það varð viðloðandi ágreiningur um málið milli þeirra. Þegar yfir var komið áttaði bróðir minn sig á því, að þeir komu ekki alveg á sama stað að landi eins og þeir höfðu farið frá út á fljótin um morguninn.

Það munaði ekki miklu en rétt skal vera rétt sýnist Kolbeinn hafa hugsað.. Hann virtist hafa svona hárnákvæmt staðsetningartæki í hausnum eða hafa hestar svona miklu skarpari sjón en maður í myrkri? Eftir nýjustu fréttum gat það verið þefskynið, að hann hafi fundið lykt úr eigin sporum frá því um morguninn. Hver veit það?,,Engum er alls varnað".

  • 1
Flettingar í dag: 106
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 78026
Samtals gestir: 16256
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 20:46:22

Eldra efni

Tenglar