Þóra Guðrún Pálsdóttir

06.03.2010 11:41

Sjálfstæði

                                                                        Þefhestar

Miðvikudaginn 24 febrúar 2010 birti Fréttablaðið eftirfarandi fyrirsögn:                                                  Björgunarsveit vill þefhesta. Miklir möguleikar eru fólgnir í notkun hesta við björgunarstörf hér á landi. Geta hentað þegar þarf að fara yfir torsótt landssvæði.Talað er um að einn leitarhestahópur sé til í landinu. Framtíðar markmið sé að þjálfa þefhesta. Þetta verkaði nú á mig eins og furðufrétt eða 1.aprílgabb. En  apríl er ekki nærri kominn og þegar ég fór að lesa um almenna leit í torsóttu landslagi þá gat það nú staðist. Oft voru hestar notaðir til smölunar annarra dýra á láglendi, en ég hefi aldrei séð hesta leita eða grafa eftir einu eða neinu eins og hundar gera, nema grasi.  Sagt er í greininni, að ekki gangi að senda hvaða hest sem er til leitar. Meðal annars þurfi þeir að vera sjálfstæðir í hugsun. Einnig kemur fram að notkun hesta til leitar og björgunar sé þekkt víða um heim. Það var þetta með sjálfstæði í hugsun sem tengdi minningar mínar við hest sem ólst upp á æskuheimili mínu.

                                                                                                                                                       Hann var undan Brúnku og brúnn að lit eins og mamman. Hann var kallaður Kolbeinn.  Til hans lágu væntingar nokkrar því talið var, að reiðhestastofnar lægju að honum í báðar ættir. Hann hafði gott sköpulag og fékk gott uppeldi. Hann og félagi hans á svipuðum aldri, léku sér látlaust er þeim var hleypt út að vetri til. Svo kom sá tími að farið var að temja hann fjögra vetra gamlan. Það gekk nú áfallalaust enda folinn mannvanur öll árin fram að því. Reiðhestakostir létu þó á sér standa.  Hann kunni ekkert skeið þótt Blakkur í Árnanesi væri afi hans. Þaðan af síður var nokkurt töltspor að finna. Hann hafði aðeins til að bera hræðilega gróft brokk og ætlaði ég að kreista úr honum valhopp til þess að hann mundi nú ekki alveg liða mig sundur. Þá virtist hann aðeins hafa til að bera svo gróft stökk að ég  var líka fegin að hægja hann niður á því. Mér fannst bróðir minn ekki öfundsverður af þessum reiðhesti sínum

Konur þola svona hlussugang verr en karlmenn vegna þess, að þær hafa brjóst sem tekur í og e.t.v. minna þjálfaða vöðva. Ég ætla rétt að vona að það sé búið núna að rækta þetta grófa brokk út  úr íslensku hestakyni. Þetta er mikill galli og hentar ekki öllum. Fínt brokk er aftur á móti góður gangur til hvíldar fyrir hross frá öðrum erfiðari gangi. Kolbeinn var sá eini af okkar hrossum sem virtist halda að sér bæri að hugsa fyrir þann sem á baki sæti. Ég var að fara til bæjar sem var fjarri okkar heimili og ég  hafði  aldrei farið á honum þangað áður. Hann var ákaflega tregur, eins og hann vildi segja, ,,Viðhöfum aldrei farið þessa leið áður og ég veit ekkert hvar hún endar. Ég legg til að við förum heldur heim". Ekki það að hann yrði staður eða gengi aftur á bak, ekki heldur að hann rifi af mér tauminn með ofbeldi, en það var stöðugt þref útaf stefnunni. Hann lét mig alltaf finna gegnum taumhaldið hvert hann vildi fara. Hann vildi ekkert fara út í bláinn vitandi ekkert hvert leiðin lægi.

                                                                                                                                                             Einhverju  sinni um vetur fór bróðir minn á honum í kaupstaðarferð austur á Höfn. Fljótin voru ísi lögð. Ferðin gekk samkvæmt áætlun en er heim skyldi haldið skall á myrkur. Gerðist Kolbeinn þá þverreiður er komið var á fljótin. Bróðir minn trúði að hann hefði rétta stefnu svo það varð viðloðandi ágreiningur um málið milli þeirra. Þegar yfir var komið áttaði bróðir minn sig á því, að þeir komu ekki alveg á sama stað að landi eins og þeir höfðu farið frá út á fljótin um morguninn.

Það munaði ekki miklu en rétt skal vera rétt sýnist Kolbeinn hafa hugsað.. Hann virtist hafa svona hárnákvæmt staðsetningartæki í hausnum eða hafa hestar svona miklu skarpari sjón en maður í myrkri? Eftir nýjustu fréttum gat það verið þefskynið, að hann hafi fundið lykt úr eigin sporum frá því um morguninn. Hver veit það?,,Engum er alls varnað".

Flettingar í dag: 16
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 125
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 78061
Samtals gestir: 16269
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 04:45:48

Eldra efni

Tenglar