Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2011 Október

14.10.2011 10:05

Pottaplöntur

Þar sem mér hefur stundum fundist loftið í íbúðinni okkar of þurrt, datt mér í hug að leita í gömlum blaðaúrklippum sem ég hafði geymt, til að finna grein sem heitir ,, Í Garðinum heima." Hún er eftir Hafstein Hafliðason. Eftir að hafa farið í gegnum slatta af greinum af mataruppskriftum og öðru tagi  fann ég loks greinina. Skrifuð er hún 5. janúar 2006 en hún er svo knappt klippt að ég sé ekki hvort hún hefur birst í Fréttablaðinu eða Morgunblaðinu. Greinin er vissulega áhugaverð fyrir alla sem hafa áhuga á að breyta umhvarfi sínu til batnaðar. Hann segir að grænar og glaðlegar pottaplöntur geti gert mikið til að lífga uppá heimili okkar og vinnustaði um leið og þær bæti vellíðan okkar til mikilla muna, leynt og ljóst. Hann segir enn fremur:

 

,,NASA og geimferðirnar.

Undanfarna áratugi hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á þýðingu grænna innanhússplantna þ.e. þeirra plantna, sem við köllum í daglegu tali pottaplöntur. Áherslur hafa verið lagðar á að meta hvert gildi þær hafa fyrir fólk í heimahúsum, skrifstofum, sjúkrastofnunum og, en ekki síst, í geimferðum. Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, var lengi í fararbroddi þessara rannsókna og gekk úr skugga um það, að pottaplöntur skiptu miklu máli í vistkerfi geimferja og geimstöðva. Fyrst og fremst með því að draga úr rafmengun (þ.e. Þær binda skaðlega plúsjóna og sleppa hollari mínus-jónum) í vistarverum geimfaranna og stuðla að hreinsun og endurnýjun andrúmsloftsins í geimskipunum auk þess að halda loftrakanum í jafnvægi ".

 

Ég þori nú ekki að hafa meira eftir manninum þótt greinin sé mun lengri, svo ég verði ekki sökuð um ritstuld eða annað óleyfilegt athæfi, þótt ég telji að þessi vísindi ættu að komast til sem flestra. Ég ákvað að gera eitthvað í mínum málum heima fyrir, þótt gluggasyllurnar séu svo mjóar að þar sé útilokað að hafa blaðmiklar jurtir í þeim. Maðurinn minn hafði smíðað tvö lítil, vel frambærileg, blómaborð fyrir mörgum árum og það þriðja var líka nothæft. Með því að raða húsgögnunum öðruvísi gat ég raðað blómaborðunum við gluggann. Nú lagði ég leið mína í blómabúð til að vita hvort ég sæi eitthvað álitlegt í uppvexti þar. Keypti þar eina jurt sem ég gat þó ekki fengið að vita nafn á. Svo var ég á ferð inní Reykjavík og leit inná basar ég held hjá Kristniboðsfélagi kvenna. Þar sá ég þennan yndislega fallega burkna, svona þéttan og þriflegan.  Ég ákvað að kaupa hann á stundinni. Þessi verður áreiðanlega vel fallinn til að halda loftraka í skefjum og draga úr rafmengun hugsa ég.

 

Nú var ég svo heppin að fá eitt pottablóm á afmælisdaginn minn, blómstrandi Ástareld. Svo átti maðurinn minn afmæli og mér fannst upplagt að gefa honum pottablóm. Ekki lakara að það kæmi mér líka til góða að geta notið gjafarinnar til jafns við þiggjandann. Svona fer manni fram með útsjónarsemi með aldrinum. Þetta var blómstrandi friðarlilja, sem spáir góðu um framtíðina. Ég var annars áður búin að farga öllum blómum nema einu af þeirri ástæðu að ég fékk gjarnan í kaupbæti með þeim litlar svartar flugur sem, mér  fundust ekki skemmtilegar í sambúð. Þær eru náttúrlega undraverð sköpun Guðs vegna flughæfni sinnar en hennar vegna verða yfirráð þeirra í lofthelgi heimila svo yfirþyrmandi.  Verð bara að vona að nú takist betur til.

01.10.2011 00:28

Ferð til Hornafjarðar 3.hluti

                                    Ferð til Hornafjarðar framh.3.
 
  Svo rennur upp 10. júlí 1951 Við klæðumst og þvoum okkur úr Fnjóská, borðum morgunmat og tökum okkur upp klukkan hálf tíu. Kaupfélag Svalbarðseyrar hafði útibú við brúna á Fnjóská. Þar keyptum við okkur appelsínur. Þá héldum við um Ljósavatnsskarð. Förum framhjá Hálsi sem er kirkjustaður. Brátt höfum við Ljósavatn á hægri hönd og erum stödd við Goðafoss í Skjálfandafljót klukkan hálf 11. Loft er þykkt en allgott skyggni. Þetta er fallegur foss en ekki feiknarlegur og ljótur eins og Dettifoss. Nú héldum við yfir í Reykjadalinn, þar er Laugaskóli. Svo er komið upp á Laxárdalsheiði, Þar er allstórt vatn á vinstri hönd sem heitir Másvatn( Það gæti heitið Máfsvatn, Hitt gæti verið prentvilla hjá mér eða á kortinu. Svo komum við í Mývatnssveitina um klukkan 12 minnir mig, við vera hjá Skútustöðum. Þar er ljómandi fallegt. Við ókum fram með vatninu allt til Reykjahlíðar en Skútustaðir eru sunnanmegin vatns en Reykjahlíð norðanmegin vatns. Kristín og Gísli voru þar boðin í mat af manni sem ók framúr okkur á Laxárdalsheiði. Við hin ókum afsíðis frá staðnum og borðuðum úti undir beru lofti eins og okkar var vani. Svo sóttum við Gísla og Kristínu og héldum upp frá Reykjahlíð, gegnum Námaskarð og austur örævin í átt til Grímsstaða. Sólskin var ekki en skyggni allgott svo við sáum til Herðubreiðar og tókum af henni myndir.
 
Klukkan hálf fjögur vorum við komin að Jökulsá. Þar fóru allir útúr bílnum og teknar voru myndir af hinni nýju voldugu brú. Sumir gengu yfir hana til að mæla lengd hennar með skrefum sínum en hvort þeim bar öllum saman er annað mál. Ekki er langt frá brúnni heim að Grímsstöðum á Fjöllum en þaðan liggur leiðin til Víðidals og er það löng leið milli þessara bæja. Frá Víðidal fórum við í Möðrudal og keyptum okkur þar kaffi. Mig minnir að klukkan væri þá um 6. Jón í Möðrudal hélt uppi gleðskap fyrir okkur. Talaði margt og söng hátt, ástavísur fyrir ógiftu piltana og sló með bók í höfuð þeirra til frekari áherslu. Benni sagði að hann mundi betri söngvari en Haukur Mortens og samsinnti Jón það. Að lokum sýndi hann okkur kirkjuna sem hann hafði sjálfur byggt. Það var gaman að koma þarna. Eftir það fórum við af stað og ókum lengi, lengi yfir sandauðnir og fjalllendi, allt niður í Jökuldal. Nú fór hugurinn að snúast um mat og hvíld og hugðum gott til að kaupa okkur mjólk á einhverjum sveitabænum, fyrst við vorum komin miður í byggð. Við áttum eftir að komast að raun um það, að á því kvöldi voru seint hýstar kýr á Jökuldal.
 
Á einum bænum var meira að segja látinn í ljós efi um að þær yrðu hýstar það kvöld, vegna annríkis við rúning sauðfjár. Á Hauksstöðum var síðasta tilraun gerð til að fá mjólk keypta en ekki voru kýr þar komnar í hús. Mjólkina getum  við fengið og hana nóga ef bíða viljum og tjaldstæði er okkur vísað á í námunda. En með því að við álitum að tognað gæti á biðtímanum, þá vísum við öllum mjólkurþorsta á bug og sættum okkur við algjört tómthúsfæði þetta kvöld. Við ókum svo þar til við fundum tjaldstæði er okkur leist á, í námunda við yndislegar blágresis brekkur. Ég er annars ekki alltof hrifin af landslaginu þarna. Jökulsáin öskugrá og óreið setur auðvitað sérstakan blæ á þennan dal, bæði í sjón og raun. Bæirnir standa sitt hvoru megin ár og sumir tiltölulega stutt hverjir frá öðrum en bæjarlækurinn (áin) gerir bilið breitt á milli og leiðina langa. Dagurinn næsti 11 júlí varð okkur hagstæður hvað veðurfar snertir, því það er bjart og fagurt. Ég man ekki hvað klukkan var er við tókum okkur upp en þá eigum við stutta leið ófarna að brúnni á Jökulsá. Hróarstunga verður á vinstri hönd en Fellin til hægri. Það styttist óðum að Lagarfljótsbrú. Fljótið er breytt og brúin því löng. Fagurt þótti mér á Fljótsdalshéraði og lögurinn þess stóra prýði. Á Egilsstöðum var verslunarstaður.
 
Þar keyptum við okkur gosdrykki, appelsínur og annað matarkyns. Daníel þurfti að fá gert við bílinn og fékk að vita, að verkstæði sé á bæ talsvert fjær. Þar sem hann býst við að viðgerðin taki nokkurn tíma, talaði hann um að skila okkur fyrst í Hallormsstað sem er 30 kílómetra frá Egilsstöðum en frá því er þó horfið er við höfðum ekið fram að Tunguhaga á Völlum, Þá lýst okkur best á að nota tímann til að sjóða mat og borða hann, meðan gert væri við bílinn. Tunguhagi stendur á bökkum Grímsár. Bárum við nú pjönkur okkar niður í brekkuna við ána og er þaðan til mynd af Sigríði Halldórs og Palla, þar sem þau eru að sjóða kartöflur á prímusnum í réttarskýli nokkru við ána. Búið var að skilja mjólkina í Tunguhaga, því eins og allir vissu var mjólk skilin á morgnanna og kvöldin í sveitum annars á nóttinni ef seint var háttað eins og á Jökuldalnum. Það þurfti því að blanda mjólkina aftur sem við báðum um í Tunguhaga og sú blöndun var ósvikin hvað rjómanum viðkom.

Sólskin var og góður þurrkur á nýslegna töðuna á túninu. Þá lá nú við að mann langaði að taka á hrífu, en við vorum eins og kaupstaðarbúar í sumarfríi og sumir af ferðalöngunum óðu berfættir í Grímsá sér til hressingar og tilbreytni. Er viðgerð var lokið á bilnum ókum við yfir brúna á Grímsá og komum á vegamót. Lék  þá nokkur vafi á hvor leiðin væri sú rétta en aðra hvora urðum við að fara. Er við höfðum ekið nokkurn spöl sannfærðumst við um að við værum á rangri leið og snerum til baka og fórum hina leiðina er lá til norðurs, en um Vallanes er beygt til suðvesturs og ekið meðfram Lagarfljóti til Hallormsstaðar. Það er fögur sjón á slíkum degi að  horfa yfir löginn yfir í Fellin. Við dvöldum æðilengi á Hallormsstað. 

Þar týndum við Ragnhildi og leituðum hennar með hrópum og köllum um skóginn og fundum hana eftir nokkra leit. Við fengum að sjá gróðrarstöðina og sýnumst lítil á myndum sem teknar voru af okkur framan undir trjánum því trén eru svo há. Þar sáum við tré,sem okkur var sagt að væri þá hæsta tré á Íslandi. Áður en við yfirgæfum Hallormsstað fengum við okkur kaffi á hótelinu en kaffisalan er rekin í Húsmæðraskólanum á sumrin. Þá var (Lóa þae)Vilborg komin á kunnugar slóðir því hún hafði áður sótt þangað menntun sína í matargerð og vefnaði og sjálfsagt mörgu fleiru. Þetta voru hinar þörfustu stofnanir, húsmæðraskólarnir. Við risum frá borðum södd og sæl og stigum upp í bílinn, barst þá að eyrum okkar Bjölluhljómur og fengum við brátt skýringu á honum. Kýrnar fikruðu sig niður skógi vaxna hæð og frá þeim barst hljómurinn. Er þetta eflaust gert svo auðveldara sé að finna þær í skóginum. Nú voru þær að koma heim því komið var að kvöldi.

Við ókum svo sömu leið til baka þar til yfir brúna á Grímsá var komið. Nú er Skriðdalurinn fram undan. Við förum yfir Gilsá og framhjá Litla og stóra Sandfelli. Þar sem ég sé hesta á þessari leið gef ég þeim nánar gætur því mér finnst að á þessum slóðum kunni að mega vænta að sjá brúnan hest sem ég þekki en ekki mundi ég hvað bærinn hét sem hann var seldur til. Seinna fékk ég að vita að þetta var rétt hjá mér og þetta voru hans heimahagar. Ég kynntist seinna bóndanum frá þeim bæ og dóttur hans og vann með henni nær heilann vetur. Hún átaldi mig fyrir að hafa farið fram hjá og bauð mér heim og þeim sem með mér kynnu að verða á ferðalagi öðru sinni. Þetta var útúrdúr. Arnhólsstaðir heitir samkomustaðurinn að ég held og er skammt frá Þingmúla. Enn er óákveðið hvort við förum yfir Breiðdalsheiði þetta kvöld en er nær dró heiðinni verður það ofan á. Um það leyti skrifuðu einhverjir í dagbækur sínar. ,, Allur harðfiskur búinn". Það var vani okkar að vera öðru hverju eitthvað að nasla á leiðinni. Sigurjón sá um loftræstinguna í bílnum og hlaut af því viðurnefnið Rúðumeistari.

Brátt lítum við af hárri heiðarbrún og horfum yfir Breiðdalinn. Vatn er á heiðinni sem heitir Heiðarvatn. Mál er að hátta er niður af heiðinni er komið. Þá verður þó fyrst að fá sér einhverja næringu. Við Benni röltum langan veg eftir vatni í kaffi en fáum enga sérstaka viðurkenningu fyrir þann vatnsburð, þótt okkur finnist við eiga það skilið. Ekki tími ég að skríða strax niður í poka minn þegar gengið hafði verið frá eftir matinn, Kýs heldur að reika um brekkurnar og njóta hinnar íslensku sveitanáttúru, fegurðar blágresis og annarra blóma er vitna um hinn mikla Skapara með skrúða sínum. Veðrið helst gott þessa nótt og einnig daginn eftir, sem er 12 júlí. Þá þurftum við líka á sérlega góðu veðri að halda. Þá er fyrst ekið eftir Breiðdalnumí  og mörg eru hliðin sem þarf að opna og loka. Palli frá Holtahólum stendur sig vel í því, bæði að opna og loka. Ekki dugir að skilja opin hlið eftir sig. Í Heydölum tökum við bensín. Þar var verið að byggja íbúðarhús að okkur sýndist. Svo förum við framhjá Eyjum, Skjöldólfsstöðum og Ási og út fyrir Streytishorn.

Skammt frá Fagrahvammi á Berufjarðarströnd tökum við tíma til að matast. Þar fóru Benni og Daníel heim til að fá mjólk, sem þeir fengu gefins og vel úti látna. Líka fregnuðu þeir um veginn fyrir Berufjörð og fengu ekki uppörvandi fréttir af honum.  Samið var við Hjálmar bónda um flutning á dóti okkar yfir fjörðinn svo bíllinn yrði sem léttastur og líka fengum við lánaðar skóflur og önnur vegagerðarverkfæri. Lóa, sem gekk altaf undir því nafni, þó hún héti Vilborg, hafði við orð að fylgja dótinu eftir yfir fjörðinn en Hjálmar sagði okkur að við skyldum vara okkur á því að verða eftir. Þá kæmi ef til vill einhversstaðar í ritgerð, að allur óþarfi hafi verið skilinn eftir.

Við komum snöggvast að Berufirði og var sagt að kaffi væri alveg til, svo að við drukkum það. Þar bjó þá Nanna Guðmundsdóttir sem var kennari minn þegar ég var 9 ára, og þau systkin bjuggu þar fleiri. Svo var haldið áfram og farið yfir Berufjarðará og þá er komið í Selnes. Þar var nýbýli sem heitir Lindarbrekka. Byggingarnar voru fallegar en mér fannst umhverfið voðalega grýtt. Berunessbóndinn leiðbeindi okkur og gekk allt vel yfir Fossána. Eftir það fór vegurinn að versna fyrir alvöru og þurfti að gera miklar vegabætur svo hægt vari að koma  bílnum áfram. Að lokum voru piltarnir orðnir svo þyrstir og slæptir að þeir sendu okkur fram að Urðarteygi til að reyna að fá keypt kaffi, sem  við svo skyldum færa þeim. Við leggjum svo af stað og héldu víst allir að Urðarteigur væri nær en raun varð á. Við gengum lengi,lengi og óðum berfættar yfir á sem á vegi okkar varð. Við vorum alltaf að gá eftir bænum. Loks sáum við kýr á beit og hugðum að nú mundi skammt til mannabyggða en það reyndist langur vegur enn.

Dreifðum við okkur nú svo við sæjum sem viðast yfir og loks sáum við  bæinn þar sem hann stóð niður við sjóinn. Mann sáum við standa að slætti á túninu. Lagði hann frá sér orfið og gekk til bæjar og inn þegar kvennaskarann dreif að. Er við kvöddum dyra kom út unglingsstúlka falleg og bauð okkur í bæinn. Sögðum við okkar farir ekki sléttar og bárum upp erindið, hvort kaffi mundi falt handa vegagerðarmönnum og var það auðsótt. Grennsluðumst við eftir hve langt mundi til Djúpavogs og hvort það mundi bílfær vegur. Fengum við að vita að þangað mundi vera tveggja tíma gangur og ekki allur bílfær en hægt væri að fara á Trillu. Ákváðu þá Sigríður halldórs, Ragnhildur og Lóa að fá Trillu með sig út að Framnesi en við hinar fórum aftur inn eftir með kaffið þegar það var tilbúið og við sjálfar búnar að drekka kaffi og spenvolga mjólk því það var komið kvöld og nýbúið að mjólka. Eldhúsgluggarnir í Urðarteygi voru nýmálaðir og vöruðum við okkur ekki á því þar sem við settumst við gluggana svo olíuflaskan gekk á milli okkar til að þrífa af okkur málninguna. Ein af okkur hafði stutt báðum höndum í gluggakistuna til að horfa út um gluggann. Eg vona að það hafi einhver málning verið eftir til að bæta  hylja fingraförin og bæta skaðann.

Við hinar flýttum okkur  nú með kaffið til piltanna og urðum ekki lítið hissa er við sáum hve vel þeim hafði gengið í vegagerðinni á meðan við vorum í sendiferðinni. Fegnir urðu þeir kaffinu og eftir það mjakaðist hópurinn með bílinn hægt og hægt. Sumstaðar þurfti að hlaða kannt svo hægt væri að koma bílnum áfram en seint og um síðir erum  við komin á ruddan veg og erum þá fegin að setjast inn í bílinn, þótt ekki sé hægt að aka hart því vegurinn var mjög hólóttur. Nú stefnum við til Djúpavogs en viljum  þó hafa tal af fólkinu í Framnesi svo að ferðafélagar okkar, sem þar eru, viti um ferðir okkar. Þar sem við erum ókunnug er farið heim að bæ einum sem við höldum að geti verið Framnes og fólk vakið af værum blundi. Þetta reyndist þá vera Teygarhorn. Næst hittum við á réttan bæ og voru samferðakonur okkar gengnar til náða ásamt öðru fólki þar.

Eftir stutta stund erum við á Djúpavogi og höfum þá verið um 12 tíma úr Berufirði en þar vorum við að mig minnir klukkan hálf fjögur. Nú þurftum við að vekja upp kaupfélagsstjórann því hann geymdi lykla að húsi því, sem geymdi dót okkar. Við spurðum hann eftir tjaldstæði og vísaði hann okkur  á tún nokkurt rétt hjá. Ekkert fundum við vatn í kaffi þá enda vatnsskortur í þorpinu um þetta leyti. Háttum við svo en ekki verður svefntími langur. Við vöknum í glaða sólskini. Það er Föstudagur. Daníel byrjar á því að leita að vatni í kaffi og fær það. Svo fórum við að koma okkur af stað og veitti ekki af, því kona nokkur kom og fór að breiða drílur á túninu við tjaldið og henni fannst víst við ekki eiga að vera þarna. Sagði hún að það ætti að slá túnið aftur. Páll hélt nú að það myndi nú mega slá það aftur, þótt við hefðum tjaldað þar. Hún hefur ef til vill haldið að við ætluðum að vera fram yfir haustréttir. Það má líka draga í efa, að kaupfélagsstjórinn hafi haft nokkra heimild til, að leyfa okkur að setjast þarna að um nóttina.

Áður en við yfirgáfum Djúpavog skrapp ég snöggvast heim til Friðbjargar frænku minnar en það gafst ekki langur tími, því framundan var langt ferðalag. Við ókum  svo inn að Framnesi, til að taka samferðakonur okkar. Þar var okkur boðið uppá skyr og þáðum við það. Klukkan mun hafa verið um 12 þegar við fórum frá Framnesi. Nú ókum við inn fyrir Hamarsfjörð og þá kom Álftafjörðurinn. Við stoppuðum aðeins á hlaðinu á Geithellum og Einar bauð okkur upp á kaffi. Ég hugsaði að ekki vantaði gestrisnina á þeim bæ. Við vildum ekki tefja og héldum áfram og allt að Starmýri. Þar verður alllangt stopp,því nú þarf bíllinn viðgerðar við svo að við getum treyst honum yfir Lónsheiði. Ásta dóttir Guðlaugs á Starmýri bar okkur hinar myndarlegustu veitingar. Ekki man  ég hvað klukkan var, þegar við fórum frá Starmýri en þá var að koma úrfelli og fengum við þoku og rigningu nokkra  yfir Lónsheiði en betra er við komum niður í Lónið. Á Stafafelli bíður okkar kvöldverður og setjumst þar öll til borðs nema Lóa. Hún fór heim til systur sinnar á Brekku. Einnig þar hafði verið hafður viðbúnaður til að taka á móti okkur en við gátum auðvitað ekki borðað á báðum bæjunum. 

Við kveðjum nú Ragnhildi húsfreyju, þar sem hún er komin heim til sín, og þökkum góða samfylgd því hún hefur reynst okkur ágætur ferðafélagi. Er við höfðum þakkað fyrir okkur og kvatt á Stafafelli komum við að Brekku. Sighvatur ætlaði að leiðbeina okkur yfir Jökulsá. Á Brekku er lagt að okkur að taka lífinu með ró og sofa af næstu nótt. Við vildum nú heldur ná lengra á þessu kvöldi. Sighvatur lagði þá á hest sinn og reið á undan okkur til árinnar. Einnig kom stór bíll frá vegagerðinni á móti okkur og ók á undan yfir. Allt gekk vel. Á almannaskarði biðu okkar, Gumundur frá Viðborðsseli, bróðir Sigurjóns,sem var með okkur, einnig Arnór og Einar frá Árbæ  bræður Benedíkts, sem var með okkur. Okkur þótti vænt um að sjá Mýramenn. Við ókum svo niður Almannaskarð og komum í Nesjasveitina sem alltaf er falleg. Nú ríkti þar ró og friður sumarnæturinnar. Í Austurfljótunum var nokkurt skólp en okkur gekk vel og Mýrabílarnir óku á undan. Þeir vissu hvar leiðin lá yfir hvert ræsi. Suðurfljótunum man ég vart eftir, þau hafa víst verið mjög vatnslítil þá. Þá vorum við komin á Mýrarnar. Sigurjón kveður okkur hjá Viðborðsseli því þá er hann kominn heim.

Næst stoppum við, við hliðið á Tjörn til að skila Lóu. Þá kom Benedikt bróðir hennar hlaupandi niður að hliði til okkar og bauð  okkur systkinin velkomin þar að vera. Ekki hægt að hugsa sér betri móttökur. Man ég óljóst eftir hlöðnu borði í eldhúsinu. En nú vorum við orðin syfjuð og gott var að hátta niður í dúnmjúkt rúm með drifhvítum sængum eftir alla útileguna.

Öll eigum við víst ánægjulegar endurminningar úr þessari ferð sem okkur var gefið að vera þátttakendur í á sumrinu 1951. Lokið við ferðasöguna 21 apríl 1952.
                                                                                                Þ.G.P.

  • 1
Flettingar í dag: 27
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 249
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 76743
Samtals gestir: 15987
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 15:09:28

Eldra efni

Tenglar