Þóra Guðrún Pálsdóttir

14.10.2011 10:05

Pottaplöntur

Þar sem mér hefur stundum fundist loftið í íbúðinni okkar of þurrt, datt mér í hug að leita í gömlum blaðaúrklippum sem ég hafði geymt, til að finna grein sem heitir ,, Í Garðinum heima." Hún er eftir Hafstein Hafliðason. Eftir að hafa farið í gegnum slatta af greinum af mataruppskriftum og öðru tagi  fann ég loks greinina. Skrifuð er hún 5. janúar 2006 en hún er svo knappt klippt að ég sé ekki hvort hún hefur birst í Fréttablaðinu eða Morgunblaðinu. Greinin er vissulega áhugaverð fyrir alla sem hafa áhuga á að breyta umhvarfi sínu til batnaðar. Hann segir að grænar og glaðlegar pottaplöntur geti gert mikið til að lífga uppá heimili okkar og vinnustaði um leið og þær bæti vellíðan okkar til mikilla muna, leynt og ljóst. Hann segir enn fremur:

 

,,NASA og geimferðirnar.

Undanfarna áratugi hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á þýðingu grænna innanhússplantna þ.e. þeirra plantna, sem við köllum í daglegu tali pottaplöntur. Áherslur hafa verið lagðar á að meta hvert gildi þær hafa fyrir fólk í heimahúsum, skrifstofum, sjúkrastofnunum og, en ekki síst, í geimferðum. Bandaríska geimferðastofnunin, NASA, var lengi í fararbroddi þessara rannsókna og gekk úr skugga um það, að pottaplöntur skiptu miklu máli í vistkerfi geimferja og geimstöðva. Fyrst og fremst með því að draga úr rafmengun (þ.e. Þær binda skaðlega plúsjóna og sleppa hollari mínus-jónum) í vistarverum geimfaranna og stuðla að hreinsun og endurnýjun andrúmsloftsins í geimskipunum auk þess að halda loftrakanum í jafnvægi ".

 

Ég þori nú ekki að hafa meira eftir manninum þótt greinin sé mun lengri, svo ég verði ekki sökuð um ritstuld eða annað óleyfilegt athæfi, þótt ég telji að þessi vísindi ættu að komast til sem flestra. Ég ákvað að gera eitthvað í mínum málum heima fyrir, þótt gluggasyllurnar séu svo mjóar að þar sé útilokað að hafa blaðmiklar jurtir í þeim. Maðurinn minn hafði smíðað tvö lítil, vel frambærileg, blómaborð fyrir mörgum árum og það þriðja var líka nothæft. Með því að raða húsgögnunum öðruvísi gat ég raðað blómaborðunum við gluggann. Nú lagði ég leið mína í blómabúð til að vita hvort ég sæi eitthvað álitlegt í uppvexti þar. Keypti þar eina jurt sem ég gat þó ekki fengið að vita nafn á. Svo var ég á ferð inní Reykjavík og leit inná basar ég held hjá Kristniboðsfélagi kvenna. Þar sá ég þennan yndislega fallega burkna, svona þéttan og þriflegan.  Ég ákvað að kaupa hann á stundinni. Þessi verður áreiðanlega vel fallinn til að halda loftraka í skefjum og draga úr rafmengun hugsa ég.

 

Nú var ég svo heppin að fá eitt pottablóm á afmælisdaginn minn, blómstrandi Ástareld. Svo átti maðurinn minn afmæli og mér fannst upplagt að gefa honum pottablóm. Ekki lakara að það kæmi mér líka til góða að geta notið gjafarinnar til jafns við þiggjandann. Svona fer manni fram með útsjónarsemi með aldrinum. Þetta var blómstrandi friðarlilja, sem spáir góðu um framtíðina. Ég var annars áður búin að farga öllum blómum nema einu af þeirri ástæðu að ég fékk gjarnan í kaupbæti með þeim litlar svartar flugur sem, mér  fundust ekki skemmtilegar í sambúð. Þær eru náttúrlega undraverð sköpun Guðs vegna flughæfni sinnar en hennar vegna verða yfirráð þeirra í lofthelgi heimila svo yfirþyrmandi.  Verð bara að vona að nú takist betur til.

Flettingar í dag: 74
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 77856
Samtals gestir: 16191
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 19:52:30

Eldra efni

Tenglar