Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2006 Ágúst

24.08.2006 01:09

Hreingerning

 Nú er orðið langt síðan ég hefi skrifað. Ég fór að leita í dagbókinni sem stendur illa undir nafni. Hún hefir verið svo vanrækt dögum saman. Því hafa valdið verðugri verkefni. Ég fann í dagbók að við hefðum farið í að mála svefnherbergið þann 13 júlí. Við lukum því ekki á einum degi, ásamt tiltekt í skápum.  Þess þurft nú heldur ekki. En ég hefi tröllatrú á málshættinum: ,,Hálfnað er verk þá hafið er". Við áttum nokkuð eftir af málningu frá því við máluðum stofuna svo það þurfti ekki miklu við að bæta. Þetta framtak gekk nú bara vel, og þar sem húsbóndinn hafði tekið svo vel í þessa framkvæmd þá datt mér í hug að ganga á lagið. Ég þoli samt allra verst þegar mér finnst fólk ganga á lagið gagnvart mér eða mínum, svo mig langar ekkert að verða þannig sjálf og reyni því að hafa hóf á. Næst var það geymslan sem mér fannst vanta einhverja umbyltingu í. Geymslan sjálf er ágæt útaf fyrir sig, loftgóð, hlý, rakalaus og með góðar hillur. Ég er að vísu of hávaxin til að ganga þar upprétt en er nú orðin útfarin í að ganga hæfilega lotin. Á langri ævi gerist .það oft hjá fólki, sem hefir verið í rúmgóðu húsnæði, að ýmsir hlutir safnast upp hjá því, sem það hefir ekkert við að gera lengur. Húsbóndinn átti þarna marga kassa af bókum, kristilegum og minna kristilegum, sem hann var fyrir löngu búinn að ákveða hvað af skyldi gera en ekki komið til framkvæmda af því honum finnast svona verk svo leiðinleg. Mér finnst aftur á móti tilvinnandi að fara í tiltekt því þá sést á eftir að eitthvað hafi verið gert. Öðruvísi en þessi daglegu húsverk. Þá sést aldrei að neitt hafi verið gert, nema þau séu látin ógerð í einhverja daga. Mér mundi samt ekki finnast tilvinnandi að skapa svoleiðis tilbreytingu. Jæja, við fengum okkur nú sinn stólinn hvort til að setja á í geymslunni. Það er ekki hægt að vera að flokka bækur hálfboginn, ekki fyrir svona gamalt fólk. Svo var nú fyrsti bókakassinn dreginn fram og þá þurftum við aðra tóma kassa helst þrjá eða fl. Í einn áttu að fara kristilegu bækurnar norsku eða sænsku og í annan þær sem átti að fleyja af því þær voru orðnar svo óhreinar og gatslitnar af gegnum kynslóðum. Svo komu nokkrar bækur sem ég hafði áhuga fyrir að lesa, áður en þeim yrði fargað og ég reyndi að stinga þeim einhversstaðar í bili. Það er gott að vera búinn að birgja sig vel upp af kössum því líka þarf kassa undir það sem á að fara í Góða hirðinn og annan undir það sem á að fara í Rauðakrossinn. Þetta voru ekki eingöngu bækur sem við fórum gegnum. Ég verð nú að segja það, að þótt bónda mínum leiðist þetta verk þá er gott að vinna með honum. Hann vinnur af skerpu þegar á vígvöllinn er komið og er alls ekki sínkur á hluti. Hann lagði niður aftursætin í bílnum og staflaði þar því sem fleygja skyldi. Við lukum þessu nú ekkert á fyrsta degi en næsta dag fórum við með marga kassa í Kölku Þar næsta dag fórum við en í Kölku með kassa og á fjórða degi það seinasta. Mikið var nú gott að geta þvegið rykið úr hillunum og gólfið og raðað upp í þær aftur vel merktu dóti sem auðvelt verður að finna aftur og látið allt fara vel. Ég álít mjög heppilegt fyrir gamalt fólk að vera ekki að basla með hluti sem komist verður af án. Losa sig bara við þá á meðan maður hefur heilsu til og ekki leggja það á eftirkomendurna. Í Biblíunni segir frá konungi nokkrum sem fékk eftirfarandi boðskap frá Drottni. ?Ráðstafa húsi þínu því að þú munt deyja." Ég hefi ekki fengið þannig skilaboð nema hvað ég veit og allir vita, að það liggur fyrir mönnum eitt sinn að deyja og eftir það er dómurinn. Þegar ég var barn og unglingur var alltaf í mér óhugur við að deyja. Ég fékk einu sinni mjög vondan kíghósta sem barn og ég varð svo hrædd við að deyja að ég bað Drottinn um líf og ég ætlaði að vera betur undirbúin næst. Mér fannst ég ekki vera tilbúin að mæta Drottni. Svo liðu nokkur ár, þá komst ég í lífsháska og fann að ég var ekkert betur undirbúinn en áður. Ég var svo langt frá allri mannlegri aðstoð að ekkert þýddi að kalla eftir henni, enginn gat heyrt til mín. Þá ákallaði ég Drottin og hann bænheyrði mig eins og Hiskía konung. Hann gaf Hiskía 15 ár í viðbót. Hann gerði betur við mig og er búinn að gefa mér 63 ár að mig minnir.

 Fáum árum eftir þessa lífsreynslu las ég grein í Norðurljósinu sem minnti mig á, að ég var ekki enn tilbúin að mæta Kristi. Þá hugsaði ég að best væri fyrir mig að líta í Biblíuna sjálfa og hitti þar á fyrra Pétursbréf og annan kafla 13 vers og las áfram niður úr.  Ég kom að versi 24og 25 sem hljóða svo:

,,Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eru þér læknaðir. Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans sem er hirðir og biskup sálna yðar".

Þessi orð urðu sannleikur lífs míns á þeirri stundu, þannig að þá fann ég mig í lagi til mæta Drottni mínum og óttinn við dauðann hvarf og hefir ekki ánáðað mig síðan. Ég man það að ég teiknaði blóm í litlu dagbókina, sem ég hélt um það leyti, af því ég vildi ekki skrifa með orðum um það sem ég hafði reynt, ef þessi mikla öryggistilfinning mín skyldi gufa upp. Hún hefir ekki yfirgefið mig síðan. Hún var komin til að vera. Ég vil taka fram að það þurfa ekki endilega að vera sömu orðin sem verða öllum til vakningar. Guð valdi bara Pétur til að vera minn andlega föður. Hann gæti alveg eins notað Matteus, Markús eða Jóhannes til að vekja þig lesandi minn.  ,,Leitið og þér munuð finna."

  • 1
Flettingar í dag: 115
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 125
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 78160
Samtals gestir: 16288
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:52:56

Eldra efni

Tenglar