Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2011 Janúar

30.01.2011 00:15

Skúffur

                                      Skúffur eru góðar geymslur

Það er orðið langt síðan ég hefi haft mig upp í að skrifa nokkuð á síðuna. Driftin í lágmarki því giktin hefur bara viljað eiga mig ein og sagt að ég eigi bara að liggja í rúminu því við það hverfi bakverkurinn, sem hann og gerir en hann er ekkert fluttur að heiman. Ég hefi nú samt getað eldað matinn og reynt að fara með rykmoppu yfir gólfin og það er í lagi fyrir mig að setja í bíl. Hefi vonað að þetta fari að batna.

Nú hefi ég þó komið einhverju í verk sem lengi hefur dregist. Þannig var að dóttir mín sendi mér eitt sinn peninga í jólagjöf með tilmælum um að ég keypti mér   eitthvað fallegt. Ég sá nú ekkert á þeim tíma sem mig langaði í svo ég stakk umslaginu niður í skúffu og þar fékk það að liggja æði lengi

Um þessar mundir hefur gamla fólkið í landinu almennt komist að því, að hvergi sé fé þess betur borgið en einmitt niður í skúffu eða undir koddanum eins og fólk gerði áður fyrr. Peningar geta nefnilega smitast af sjúkdómi sem gengur í bönkunum og er einhverskonar uppdráttarsýki og þess vegna er gömlu fólki ráðlagt að varast bankana.  Þetta kom líka vel út hjá mér því að seint og síðarmeir sá ég fallega rauða úlpu létta og sæmilega hlýja sem smellpassaði. Ég var svo mörg ár búin að eiga svarta sem var farin að láta ásjá. Nú var tíminn kominn að nota gjöfina og hana gat ég keypt mér hér í Keflavík. Fékk afgang og lét í skúffuna.

Svo komu fleiri jól og fleiri gjafir bættust við í skúffuna. Ég gerði nú ráð fyrir að gefendurnir vildu nú heldur að ég keypti eitthvað eigulegt utan á mig fyrir peningana svo þeir gætu séð að þeim hefði verið vel.varið. Ég var nú helst að hugsa um kjól en hafði ekki fundið neinn hér í nágrenninu, sem mér þótti henta. Þá var bara að drífa sig í höfuðstaðinn. Þá langaði mig líka að heimsækja kunningja mína um leið sem mér finnst ég sjá alltof sjaldan. Nú frétti ég allt í einu að kunningjafólk ætlaði í bæinn og ég gat fengið far. Ég hringdi í bróðurdóttur mína og bað um gistingu og maðurinn minn sagði að ég skyldi bara hringja þegar ég ætlaði heim.(framh.)

a

  • 1
Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 55
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 99529
Samtals gestir: 20082
Tölur uppfærðar: 19.7.2024 10:31:58

Eldra efni

Tenglar