Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2006 Apríl

09.04.2006 00:38

Ryk

Ryk Ég rakst á skrítlu í bók. Þar var barn að spyrja mömmu sína. Mamma, hvað verður eiginlega af fólki þegar það deyr? Það verður að dufti - ryki.barnið mitt. Það er skelfilegt. Það eru þá margar dauðar manneskjur undir rúminu mínu.

Í þessu sambandi dettur mér í hug að ég fékk nýlega óvenjulegt dugnaðarkast að þrífa í kringum mig. Kom sér nú heldur en ekki vel nýja fína málningartrappan úr Húsasmiðjunni. Hún er létt eins og fis. Við keyptum hana fyrir nokkru síðan og er eins og ný. Bóndinn hafði reyndar verið að vinna með hana utandyra í einhverju moldarverki svo hún hafði orðið grútskítug um fæturna og upp á leggi. Ég var búin að þvo hana og pússa og gera hana eins og nýja aftur. Svona miklum nytjahlutum er ég fús að sýna mikinn sóma.. Hún var líka nægilega há þegar ég fór að ná niður stofugardínunum þar sem kapparnir eru festir uppi við loftið. Ég ákvað að handþvo gardínurnar í baðinu og hugðist spara þann tíma sem tæki annars að losa plastkrókana úr þeim. Þorði ekki að eiga á hættu að þeir brotnuðu í þvottavélinni og skemmdu kannski vélina. Svo gæti verið að gardínurnar hefðu brunnið á laun af sólarhitanum og kæmu sjálfar í tætlum útúr vélinni. En þetta reyndist gott efni og næst mundi ég þora að setja þær í vél. Þetta fór allt vel og þær eru komnar á sinn stað aftur. Bóndinn lagaði gluggakisturnar með málningu. Ég fór ekki fram á meira. Það er ókristilegt að ofgera gömlu fólki með óhæfilegri kröfugerð. Við máluðum veggina fyrir nokkru og sér ekki á þeim.

Mikið megum við vera Guði þakklát að geta haft fótaferð og séð um okkur á þessum aldri. Því fremur dettur mér það í hug þegar ég ber mig saman við sama sem jafnöldru mína og samsveitung í æsku. Hún veiktist sem ungt barn og varð þess ekki umkomin að sjá sér farborða í lífinu. Þó er hún ríkari en margur er í dag að hún á trúna á Frelsara sinn.

Jæja, við vorum í hreingerningum og þegar kemur að eldhússkápunum þá kom í ljós að nýja fína trappan mín kom mér ekki að notum. Þegar ég var komin upp í hana þá var ég svo langt frá því að ég ná inn í skápinn. Litla trappan úr Rúmfatalagernum var of stutt til þess að ég næði úr henni. Hvað var nú til ráða? Jú, bóndinn án umhugsunar að því er virtist, hvað annað, vatt sér upp á eldhúsbekkinn sem nær líklega sporlengd fram fyrir efri skápana og náði þannig með hendinni inn í efri hornskápinn. Ó, þetta hefði ég aldrei þorað. Ég hefði getað dottið af hræðslunni einni saman aftur yfir mig niður í gólfið. Mér líður heldur ekki vel að sjá hann þarna en hann er gamall trésmiður og ýmsu vanur. Þeir fara nú ekki alltaf gætilega held ég, ef dæma skal eftir þeim slysum sem stundum fréttist af. Allir geta náttúrlega orðið fyrir slysi. Ég sem bið Guð alla jafna á hverjum morgni að varðveita okkur yfir daginn og hefi ekki haft neinar áhyggjur af því meir. Ég mundi ekki einu sinni eftir því, er ég stóð svo óvænt andspænis hættunni. Það sem fyllti hugann var, að ekki mátti maðurinn fá svima eða stíga hálft spor aftur á bak, þá gat dauðinn verið vís. Síðan hefi ég hugsað um lærisveinana á Genesaretvatninu forðum þegar bátinn fyllti allt í einu og þeir urðu hræddir. Jesús gaf í skyn að það hefðu ekki verið rétt viðbrögð. Hann sagði bara við þá, reyndar eftir að hann hafði lægt öldurnar : ,,Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?" Allt fór þetta nú vel hjá okkur.

Mér finnst samt að hönnuðir megi hugsa sinn gang og fasteignasalar sem selja gömlu fólki hús eða íbúðir með svona hættulegum hornskápum. Þeir ættu að taka fram í söluauglýsingum, að það sé bara fyrir klifurfugla að gera þá hreina, ekki konur um áttrætt sem aldrei hafi stundað loftfimleika. Nú get ég samt huggað mig við, að ekki eru lengur neinar dauðar manneskjur undir okkar rúmi, né ryk í okkar skápum.

 

03.04.2006 01:34

Verslunarferð.

Þriðjudagur 28 mars 2006. Það er glaða sólskin en samt óttalega kaldur stormur af hafi. Ég ætla að fara að versla því að það er ýmislegt sem mig vantar. Auðvitað fer ég ein. Bóndanum virðist leiðast svo mikið að bíða eftir mér inn í búðum. Mér leiðist líka að horfa upp á hann þjást af eirðaleysi svo þetta er beggja hagur að hann sé bara heima. Ég er búin að segja honum að búðir séu einu staðirnir þar sem gamalt fólk geti innunnið sér jafnvirði peninga, með .því bara að gefa sér tíma til að hugsa og velta fyrir sér verði. Horfa eftir hvort eitthvað sé á tilboði og svo framvegis. Á þessum vettvangi eru allir jafnir en ætli gamalt fólk að fara að bjarga sér með vinnu þá er búið að sýna okkur það með útreikningum, að það er algjör heimska. Þá lendi maður í sköttum og ekki bara venjulegum heldur líka í jaðarsköttum og þeir eru svo lúmskir. Hafi nú fólk misst rétt sinn til bóta vegna tímabundinnar vinnu getur tekið langan tíma að komast inn í kerfið aftur að ég held en hefi ekki reynt. Það er að vísu til nokkuð sem heitir að vinna svart en ekki er það nú kristilegt að gjalda ekki keisaranum það sem keisarans er. Sumum finnst reyndar líka heimska að lífeyrirssjóðir urðu til. Ég veit ekki hvað mér finnst um það en ég hefi heyrt rök því til staðfestingar að betra hefði verið geyma peningana á annann hátt. Ég fæ rúmar 5000 á mánuði úr einum líferyrissjóði. Er ein þessara gömlu húsmæðra sem hugsuðu um og ólu börnin upp inni á heimilunum en hleyptu þeim samt út til að leika sér og fara í skóla. Sumar hinna yngri öfunda okkur og finnst við hafa átt gott að geta verið heima. Er alls ekki hægt að leyfa konum að hafa valfrelsi? Ég hefi aldrei séð rökin á móti því gerð opinber. Er það eitthvað sem þolir ekki dagsbirtu?

Jæja ég var á leið í búðina. Reyndar fer ég í bíl því að þetta er svo langt að fara, að það væri ekki fyrir gamalt fólk að bera aðföngin heim. Það er bara hvasst og má segja rok þegar að búðinni kemur. Það er þá hvergi rok í bænum ef ekki þar. Þeir höfðu enda sett upp auglýsingu um daginn, þar sem fólk var beðið að skila kerrunum aftur inn í hús svo að þær fykju ekki á bíla á stæðinu. Núna eru líka örfáar kerrur úti í stæðunni, enda er nú bara þriðjudagur og þá er mun rólegra en undir helgar. Ég fæ mér kerru og fer að týna í hana það sem mig vantar, brauð og kex og svo fer ég í grænmetið en kaupi lítið. Fyrir nokkrum vikum var hægt að fá hér gullauga í lausu, svona líka ódýrt, aðeins sá svolítið á hýðinu en ágætt samt til átu en það er ekki til núna. Jæja sennilega er þetta Premíer og dálítið laskað flusið. Ég tek samt slatta í lausu af góðri stærð á 69 kr. kílóið. Ég verð forvitin að smakka það en ég veit að það jafnast ekki á við Gullauga ræktað í sandgarði eins og ég þekkti austur í Hornafirði endur fyrir löngu. En þetta er mjög gott verð og kemur vel út í okkar matarreikningi því að við borðum mikið af kartöflum eins og gert var í okkar æsku. Svo fer ég inn í kælinn til að ná í mjólk og viðbit. Þá vantar mjólk í lítersfernum, hún er bara til í stærri umbúðum. Við erum bara tvö í heimili svo mjólkin skemmist frekar ef stendur lengi í opnu íláti. Ég sé engan sem ég geti borið fram kvörtun við og fer því fram aftur. Þegar ég kem fram fyrir heyri ég einhvern hávaða úr grænmetis horninu eða hvað sem það kallast, þetta húsrými þar sem grænmeti er selt og ávextir. Einhver viðskiptavinur hefir verið að setja út á þjónustu og ungur starfsmaður getur ekki látið konuna vera á eintali við sjálfa sig og svarar henni, sem er nú líka kurteisi útaf fyrir sig. Ég heyrði nú ekki svo grannt hvað þeim bar á milli en sé í hendi mér að þarna er maður sem gæti leiðbeint mér að finna eplaedik sem mig hefur lengi vantað. Ég hugsa, með tilliti til síðustu viðburða, að hógværð henti hér best og Biblían hefir fyrir löngu sagt mér að grimmur hundur fái rifið skinn. Ég spyr því eins mjúklega eins og útlit og orðfæri duga mér til, hvort hann geti sagt mér hvar eplaedik sé að finna. Hann lýtur upp mjög góðmannlegur á svip og ber engin merki þess að hafa lent í snörpum vindstreng nýlega. ?Þarna í kryddhillunni", segir hann mjög svo ljúflega og bendir mér hvert ég skuli stefna. Þetta var nú fínt, hér eftir þarf ég aldrei lengur að ráfa frá einu söluhorni til annars að leita að þessar vöru. Það var líka svo gott að hafa hitt svona hupplegan mann. Þegar ég hefi lokið viðskiptum og út er komið tekur það vandamál við, að láta kerruna standa kyrra meðan ég opna bílinn því þótt ég reyni að fara að þeirri hlið með kerruna sem ég held að sé hlémegin þá er næstum álíka hvasst þar og stormurinn gerir sig líklegan til að rífa hurðirnar af bílnum, því þær liggi svo beint fyrir blæstri. Það er svipað með körfuna. Hún vill bara dansa um hvernig sem ég reyni að fá hana til að standa kyrra. Hún minnir á óðan hest sem vill alls ekki standa kyrr meðan knapinn reynir að koma sér í hnakkinn, þegar  stóðið hefir stokkið á undan. Eftir dálítið basl tekst þetta þó farsællega og allt kemst heilt í höfn. Húsbóndinn kemur nú fús til hjálpar þegar heim er komið, til að raða vörunum upp í hillur. Það er líka jöfnuður. Ég er búin að hafa fyrir að taka þær niður úr hillunum í búðinni.

  • 1
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99860
Samtals gestir: 20163
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 16:08:59

Eldra efni

Tenglar