Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2007 Apríl

30.04.2007 16:42

Afmæli

Afmæli Benjamíns.

Hann Benjamín Þórðarson vinur okkar varð 80 ára í gær. Afmælisveislan var haldin á heimili dóttur hans, Ferjubakka 12 í Reykjavík. Við erum nokkra mánuði á sama árinu. Mikið megum við þakka Guði fyrir þessa löngu ævi sem hann hefir gefið okkur. Ég var að líta yfir minningargreinar í blaði og af þeim sem minnst var á, sá ég að einn hafði dáið 101 árs. Annar hafði dáið 83 ára og þriðji 80 ára. Hinir voru mun yngri eða 60 ára 58 og 52 ára. Við erum lánssöm sem Guð hefur vitjað á ungum aldri og gefið okkur fullvissu um eilíft hjálpræði fyrir trú á frelsisverk Drottins Jesú, ættum því að geta tekið óvissri dauðastund með meira jafnvægi en þeir sem ekki hafa enn tekið við og tileinkað sér verk meðalgangarans. Hallgrímur Pétursson segir í 39 passíusálmi:                                                        

Enn þú skalt ekki treysta 

óvissri dauðans stund,

né guðs með glæpum freista,

gjörandi þér í lund,

náðartíminn sé næsta

nógur höndum fyrir;

slíkt er hættusemd hæsta;

henni guð forði mér.(eldri rith.)

Jæja, okkur hjónum hafði verið boðið í afmælisveislu Benjamíns. Lögðum við af stað kl.rúmlega 2 héðan úr Keflavík í yndislegu sólskini en ekki höfðum við nú lengi ekið þegar við erum komin í eitthvert rosalegt rok sem lagðist svo ískyggilega á hlið bílsins að mér var ekki sama. Það var líka meiri hvinur þessu samfara í bílnum en ég hefi áður lent í. Ég hugsað að ég vildi ekki fara heim aftur fyrr en veðrinu slotaði en við vorum svo lánssöm að við lentum ekki út fyrir þá aksturslínu sem okkur tilheyrði og veðrið fór batnandi. Það gekk vel að finna húsið. Maðurinn minn er svo klókur að rata þegar hann er búinn að líta í símaskrána áður en við förum að heiman og ég verð ennþá meiri rati fyrir bragðið, af því ég þarf aldrei að leggja það á mig að villast nokkrum sinnum við að reyna að rata.

Það var gaman að koma í afmælið og hitta þar afmælisbarnið og ýmsa kunningja. Þiggja góðar veitingar sem nóg var af. Af heimferðinni er nú ekkert að sérstakt að segja. Er við horfðum til fjallanna úr Reykjavík voru þau öll hulin í einhverjum mistursmekki, líklega stormurinn að dreifa moldarkornum fósturjarðarinnar út yfir lönd og höf. Sumir vilja meina að allt sé sauðkindinni að kenna. Mér finnst íslendingar eigi að bera virðingu fyrir sauðkindinni, fyrir að halda hita á okkur í gegnum aldirnar. Við höfum nú skemmstan tímann gengið í hör eða silki. Það var ullin innst sem yst þegar ég man fyrst og nokkrar voru kynslóðirnar komnar á undan mér. Ég held nú að eldgosin og jökulárnar komi nú eitthvað við sögu í sambandi við uppblásturinn. Veðrið sem við fengum í bakaleiðinni til Keflavíkur var hið allra besta. 

05.04.2007 11:54

Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns

Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns svo hann verði ekki leiður á þér og hati þig.

Þetta segir hinn vitri Salómon í orðskviðum sínum 25.17. Þetta sagði hann löngu áður en Heilagur Andi var gefinn söfnuðinum á Hvítasunnudag. Eftir það var talað um að hinir kristnu höfðu allt sameiginlegt um tíma, því við lesum um, að enginn taldi neitt vera sitt, það er hann átti. Þá var kærleikurinn svo brennandi. En í Matt 24.12 gerir Jesús ráð fyrir að þeir tímar komi, vegna þess að lögleysi magnist muni kærleikur alls þorra manna kólna.

Þótt Salómon geri ráð fyrir að við getum orðið leið á meðbræðrum okkar sem ekkert hóf hafa á heimsóknum sínum, þá getur hið sama alveg eins átt við dýr.

Þegar ég átti heima í Hornafirði þá fengum við að kynnst því. Ein rauð meri sem átti heima utar í sveitinni varð svo yfirkomin af ást á hrossunum okkar að hún virtist hvergi una sér nema þar sem þau voru. Þessi meri virtist nú eiga eitthvað rólega daga heima hjá sér, var víst ekki í neinni stritvinnu og sýndist hafða góðan tíma til að slæpast. Hún var heldur ekkert í handraða ef á henni þurfti að halda þar sem hún hélt sig fjarri sínu heimili. Hún taldi nú ekki eftir sér sporin að hlaupa til okkar eða ganga. Þetta var ekki nema klukkutíma gangur frá hennar heimili. Þá voru vegalengdir mældar, milli bæ, með því að mæla hve lengi væri gengin hin eða þessi bæjarleið.

En þegar við vorum að sækja hrossin okkar og nota þau við vinnu, þá var ekkert hentugt að hafa laust hross alltaf hlaupandi með. Við leyfðum okkur samt aldrei, svo ég muni til, að beisla hana eða binda. Það var fjarlægt okkur að leggja hendur á annarra manna hross. En mér fannst hún óskaplega þreytandi svo að ég man það ennþá.

En það voru fleiri skepnur en þessi hryssa sem reyndu á þolrif fólks. Við áttum eina á sem tók slíku ástfósrti við annan bæ í sveitinni að hún settist þar alveg að og vildi hvergi vera nema í túninu á þeim bæ. Það var nú á þeim tímum að grasstráin voru dýrmætari en í dag. Þá var ekki búið að rækta þessi ósköp af túnum eins og núna. Túnin þá, voru því hjá sumum, nærri heilagar skákir og því stórsynd hjá skepnum að hafa að engu eignarrétt manna og stökkva yfir túngirðingar.

En það er, held ég, ómögulegt að girða fyrir sauðfé ef það kemst upp á lag með að stökkva girðingar. Ekki veit ég hvað henni gekk til. Hún var ekki að sækja sér félagskap annarra kinda. Hún var bara komin til þess að vera á þessum bæ. Í þjóðsögum má lesa um ókindur sem settust að í hömrum eða hættulegum skriðum og ollu tjóni og dauða á vegfarendum sem um veginn fóru. Í katólskri tíð voru heilagir menn fengnir til að vígja slíka staði. Ærin þessi olli nú ekki þannig tjóni þótt hún ylli þeim leiðindum sem hún ásótti svo mjög. Þetta var álíka löng leið fyrir hana að fara eins og fyrir Rauðku sem ásótti okkur. Ég get ekki sagt um það, hvort í þessu túni hafi vaxið meiri sælgætisstrá en hún hefði getað veitt sér heima fyrir.

Frændi minn, sem þarna bjó, var orðinn svo þreyttur á þessari skepnu, sem hafði vissulega til að bera hinn margnefnda sauðþráa, sem oft hefir verið klínt á suma menn. Hann hefir eflaust verið búinn að reyna allt sem hann gat upphugsað til að fæla hana burt og sjálfsagt búinn að kvarta yfir henni oftar enn einu sinni. Dag nokkurn kom hann svo með hana alla leið reiðandi fyrir framan sig á hesti. Ég veit ekki hvort það var til að eigendur skepnunnar skildu betur alvöru málsins, eða hvort honum datt í hug að ærin kynni að hvekkjast við þennan óvenjulega hreppaflutning á hestbaki og hugsa sig um tvisvar áður en hún legði af stað til baka, eða bara verða ánægð heima einhverja daga og veita með því heimilisfólki á hinum bænum langþráða hvíld frá nærveru sinni. Ég man nú ekki alveg hver urðu örlög hennar en tel víst að henni hafi verið slátrað um haustið. Skepnur geta gengið of langt.

  • 1
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99807
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:25:46

Eldra efni

Tenglar