Þóra Guðrún Pálsdóttir

30.04.2007 16:42

Afmæli

Afmæli Benjamíns.

Hann Benjamín Þórðarson vinur okkar varð 80 ára í gær. Afmælisveislan var haldin á heimili dóttur hans, Ferjubakka 12 í Reykjavík. Við erum nokkra mánuði á sama árinu. Mikið megum við þakka Guði fyrir þessa löngu ævi sem hann hefir gefið okkur. Ég var að líta yfir minningargreinar í blaði og af þeim sem minnst var á, sá ég að einn hafði dáið 101 árs. Annar hafði dáið 83 ára og þriðji 80 ára. Hinir voru mun yngri eða 60 ára 58 og 52 ára. Við erum lánssöm sem Guð hefur vitjað á ungum aldri og gefið okkur fullvissu um eilíft hjálpræði fyrir trú á frelsisverk Drottins Jesú, ættum því að geta tekið óvissri dauðastund með meira jafnvægi en þeir sem ekki hafa enn tekið við og tileinkað sér verk meðalgangarans. Hallgrímur Pétursson segir í 39 passíusálmi:                                                        

Enn þú skalt ekki treysta 

óvissri dauðans stund,

né guðs með glæpum freista,

gjörandi þér í lund,

náðartíminn sé næsta

nógur höndum fyrir;

slíkt er hættusemd hæsta;

henni guð forði mér.(eldri rith.)

Jæja, okkur hjónum hafði verið boðið í afmælisveislu Benjamíns. Lögðum við af stað kl.rúmlega 2 héðan úr Keflavík í yndislegu sólskini en ekki höfðum við nú lengi ekið þegar við erum komin í eitthvert rosalegt rok sem lagðist svo ískyggilega á hlið bílsins að mér var ekki sama. Það var líka meiri hvinur þessu samfara í bílnum en ég hefi áður lent í. Ég hugsað að ég vildi ekki fara heim aftur fyrr en veðrinu slotaði en við vorum svo lánssöm að við lentum ekki út fyrir þá aksturslínu sem okkur tilheyrði og veðrið fór batnandi. Það gekk vel að finna húsið. Maðurinn minn er svo klókur að rata þegar hann er búinn að líta í símaskrána áður en við förum að heiman og ég verð ennþá meiri rati fyrir bragðið, af því ég þarf aldrei að leggja það á mig að villast nokkrum sinnum við að reyna að rata.

Það var gaman að koma í afmælið og hitta þar afmælisbarnið og ýmsa kunningja. Þiggja góðar veitingar sem nóg var af. Af heimferðinni er nú ekkert að sérstakt að segja. Er við horfðum til fjallanna úr Reykjavík voru þau öll hulin í einhverjum mistursmekki, líklega stormurinn að dreifa moldarkornum fósturjarðarinnar út yfir lönd og höf. Sumir vilja meina að allt sé sauðkindinni að kenna. Mér finnst íslendingar eigi að bera virðingu fyrir sauðkindinni, fyrir að halda hita á okkur í gegnum aldirnar. Við höfum nú skemmstan tímann gengið í hör eða silki. Það var ullin innst sem yst þegar ég man fyrst og nokkrar voru kynslóðirnar komnar á undan mér. Ég held nú að eldgosin og jökulárnar komi nú eitthvað við sögu í sambandi við uppblásturinn. Veðrið sem við fengum í bakaleiðinni til Keflavíkur var hið allra besta.



 

Flettingar í dag: 81
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 125
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 78126
Samtals gestir: 16282
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 15:02:37

Eldra efni

Tenglar