Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2008 Ágúst

20.08.2008 21:34

Ótitlað

                        Ferð norður í land

 

Þann tuttugasta og fimmta júlí á föstudegi lögðum við hjónakornin af stað norður til Siglufjarðar.  Sama dag fóru líka norður, nokkrir úr Hvítasunnukirkjunni hér í Keflavík og úr Kærleikanum, sem hefur haft samkomur hér á laugardögum undanfarna mánuði.  Þau fóru í rútu en við fórum á okkar bíl því við ætluðum á eftir til Akureyrar.  Við fórum á undan hinum um morguninn því hugmyndin var að koma við hjá systur Ásgríms sem býr á  Blönduósi.  Veðrið var ljómandi gott og ferðin gekk vel.  Við stoppuðum til að fá okkur pilsur í Borgarnesi.  Mér finnst svo gott að stoppa oft, hættir annars til að stirna í líkamanum við langsetur milli landshorna í bíl.  Það virðist nú skipta mestu fyrir minn mann að komast á sem stystum tíma á áfangastað.  Það skal honum sagt til málsbóta að hann lét þetta

 eftir mér með pilsurnar í Borgarnesi, þótt hann væri sjálfsagt ekki sjálfur svangur.

 

Við þáðum svo kaffi og meiriháttar veitingar hjá Sigurlaugu á Blönduósi. Þaðan var svo ferðinni haldið áfram til Siglufjarðar í yndislegu veðri.  Það var meiningin að koma það snemma til Siglufjarðar til að geta hitt Elínu Jónasdóttur á undan samkomunni. Svo þurftum við að koma okkur fyrir á gistiheimilinu.  Það var búið að auglýsa Gospel samkomu í Siglufjarðarkirkju um kvöldið.  Þau úr kærleikanum eru ötul í sönglistinni og gospel tónleikar virðast hafa náð vissum vinsældum svo ætla mætti að söngelsku fólki finnst léttara að sækja svoleiðis samkomu heldur en beinar vakningarsamkomur, þar sem fólki er ráðlagt að taka  sinnaskiftum og bera ávöxt samboðin iðruninni.  Menn hafa misjafnt snið á boðun sinni.  Við vitum ekki hvað Siglfirðingar hugsuðu, því ,,blint er í annars brjóst að geta", en flestir létu sig engu varða undir hvaða formerkjum gestir þeirra væru komnir.

 

Daginn eftir var svo haldin útisamkoma á torginu og voru þá heldur fleiri áheyrendur, komandi og farandi.  Einhvern heyrði ég tala um að Aðventistar hefðu verið með Gospel samkomu í kirkjunni kvöldið áður. Einhvern tíma áttu Aðventistar sér kirkju á Siglufirði.  Eftir að samkomunni á torginu lauk, lögðum við hjónin af stað til Akureyrar.  Sú ferð gekk vel.  Dóttir mín hafði boðið okkur að dvelja í húsinu þeirra ásamt köttunum, meðan fjölskyldan skryppi til útlanda í tvær vikur.  Kettirnir heita Máni og Birta og eru töluverðir boltar, stærri heldur en Uppáþrengja okkar var.  Ásgrímur  ruglar stundum nöfnum þessara katta og kallar hann Dagbjart, sem er vel við hæfi, hann er svo bjartur á skrokkinn.  Hún er eldri og hefur verið brjóstvörn síns heimilis lengi.  Nú er hann aftur á móti orðinn köttur með  markmið, að taka við hlutverkinu af frúnni, að slást við nágranna sína.  Grimmur hundur fær rifið skinn, stendur einhversstaðar.  Það fékk Dagbjartur að reyna og svo hafði farið illt í sárið en bólgukúfurinn á skrokknum var í rénun er við komum.  Hann átti að fá seinustu sprautuna daginn eftir og Valur gaf honum hana áður en þau fóru.  Þetta fór allt vel og ég þurfti ekkert að eltast við dýralækni hans vegna.  Aldrei man ég eftir að kettirnir yrðu lasnir þar sem ég ólst upp, enda langt til næstu bæja, svo að þeir fóru ekki svo langt til að berjast um sitt  yfirráðasvæði.  Sannaðist þar með máltækið ,,Fáir lofa einbýli sem vert er".

 

Við notuðum tímann til að heimsækja góða kunningja meðan á dvölinni stóð.  Þó áttum við einhverja eftir þegar við fórum heim.  Á miðvikudag fórum við í unaðslegu veðri út í Hrísey að hitta jón bróður Ásgríms og Auði konu hans, sem búa þar á sumrin.  Þau höfðu boðið okkur í hádegismat, svo við tókum ferjuna sem fer frá Árskógssandi um hálf tólf að mig minnir.  Hún gengur allan daginn með stuttum hléum.  Jón kom niður á bryggju á dráttarvélinni til að sækja okkur.  Við fengum uppstoppuð tveggja manna sæti aftan á faratækinu. Eiginlega  fannst mér göturnar svo mjóar, að mér leið ekki vel þegar vélarnar voru að mætast, að því er mér fannst, á mikilli ferð.  En vélstjórarnir þekktu göturnar í sínum heimabæ betur en ég.  Við höfðum þar góða viðdvöl en undir kvöld héldum við heim á leið.

 

Við rendum fram í fjörð.  Þar hafði Ásgrímur dvalið sem unglingur.  Einn morgun stakk hann upp á því að við skryppum austur að Ástjörn í Axarfirði.  Það er nú góður spölur þangað og ég þurfti að hugsa mig um.  "Letinginn segir, ljón er úti fyrir ég kinni að varða drepinn á götunni".  Þar sen engin ljón eru á Íslandi þá var ekki hægt að hafa það sér til afsökunar og af stað héldum við.  Barnastarfinu við Ástjörn var nýlokið og unglingavikan ekki byrjuð.  Árni, sem verið hefur í forsvari fyrir þessu starfi um nokkurra ára skeið, hafði því betri tíma til að sýna okkur staðinn og það uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið, með góðum stuðningi trúbræðranna í Færeyjum en þeir eru margir þar, sem standa á sama grundvelli og Arthur Gook gerði, sem stofnaði sumarbúðirnar.

 

Ég dáist að Árna og því verki sem unnið hefur verið þarna í gegnum árin.  Við drukkum svo kaffi með honum.  Aðrir, sem enn voru eftir af starfsfólkinu fyrir austan, voru önnum kafnir við að þrífa húsin og viðra sængur úti á þaki í sólskininu.  Svo brunuðum við þar eftir til baka.  Við fórum á tvær samkomur í Hvítasunnukirkjunni á Akureyri.  Eftir aðra þeirra þágum við heimboð hjá Jóni og Jarþrúði og einnig þágum við heimboð hjá Þóri Páli og hans konu.  Heima hjá Helgu og Eiði vorum við tvisvar. Við heimsóttum líka Jóhann Pálsson einnig Eivor og Pálínu Jónsdóttur.  Fórum á tvær útisamkomur, sem eru haldnar sameiginlega af fólki úr þremur trúflokkum, Hjálpræðishernum K.F.Ú.M.og K. og Hvítasunnusöfnuðinum. Útisamkomurnar eru haldnar við torgið, á fimmtudögum.

 

Á föstudeginum 8.8.2008. bauð Írene  Gook okkur í kaffi í bókasafns húsinu.  Ég valdi mér ostaköku því ég hefi miklar mætur á henni.  Á eftir fórum við yfir í Vaðlaheiði og hún með okkur, til að virða Akureyri fyrir okkur þaðan, í hinu fegursta veðri.  Írene varð 99 ára 11 ágúst 2008.  Fólkið kom heim úr útlandinu sunnudaginn 10 ágúst og Birta varð himinglöð og neri sér upp við þau.  Svo kom hún til mín á eftir og neri sé upp við mig eins og hún vildi segja, ,,Þú ert nú líka nokkuð góð. Við lögðum af stað heim morguninn þann ellefta ágúst á mánudegi, með viðkomu á Akranesi hjá Heklu fósturdóttur Ásgríms.  Þá var ég nú fegin kaffinu. Þótt við hefðum að vísu fengið okkur pilsur í skála fyrir ofan Blönduós.  Það hafði verið yndislegt  veður allan tímann í ferðinni.

 

 

15.08.2008 13:10

Ótitlað

                        Tilkynning

 

Nú nýlega tók ég eftir því, að undir síðustu ferðasögu Arthurs  Gook hér á síðunni stóð orðið endir.

Nú hafa sumir ef tilvill haldið að þar með væri sögunni í heild lokið með heldur snubbóttum hætti.  Þetta kom til af því, að ég var að senda dóttur minni efnið með viðhengi svo hún gæti sett það á síðuna mína eins og hún hefur áður gert með þessa sögu.  Af því ég kann svo ósköp lítið á tölvu og það var langt síðan ég hafði sent bréf með viðhengi var ég hrædd um að það kæmist ekki allt til skila.  Setti því þetta orð endir undir, taldi mér trú um að ef hún gæti sagt mér að þetta orð hefði skilað sér þá mundi sagan öll hafa ratað rétta leið.  Þetta tókst en gleymdist að má orðið endir út.

Það er svo sannarlega kominn tími til að halda eitthvað áfram með söguna.

 Sagt var í gamla daga ef eitthvað gekk vonum verr, að það væri ekki einleikið.  Sama finnst mér um hvernig gengið hefur með seinnihluta sögunnar miðað við þann fyrri.

  • 1
Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99750
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 14:43:33

Eldra efni

Tenglar