Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2006 Maí

19.05.2006 02:01

Sáðmaður gekk út að sá

Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist ,að honum, að hann varð að stíga út í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið. Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:

"Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá, og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar himinsins komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. En er sól hækkað visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu upp og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt. En sumt féll í góða jörð. Kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt." Og hann sagði: "Hver sem eyra hefur að heyra, hann heyri!" Mark. 4: 1-9.

Menn sáðu í Gyðingalandi og menn sá á Íslandi. Þann 16 maí gekk húsbóndinn í þessu húsi út til að sá gulrófufræi og gulróta, í þessu unaðslega sólskinsveðri. En þótt veðrið sé gott þá geta ýmsir verið á ferð sem hugsa meira um sinn eigin hag en okkar. Fuglarnir hafa býsna góða fréttaþjónustu á veturna að ég ætla, því að ég hefi séð þá setja, einn og einn upp í háum trjám með löngu millibili. Þeir hafa að mínu áliti það starf að tilkynna félögum sínum ef einhver góðhjörtuð sál fleygir fuglamat út í garðinn sinn. Þeir eiga ef til vill líka að líta eftir köttunum, hvort óhætt sé, þeirra vegna, að setjast að krásunum.

Fuglarnir minna á sig á veturna en við erum ekkert að gefa þeim núna. Þeir fóru líka að verða lausari við þegar voraði. Gæti best trúað að þeir hefðu farið í langt ferðalag. Þeir sjást lítið það næsta okkur. Samt fylgjast þeir meira með athöfnum okkar en við höldum.

Að lítilli stundu liðinni eftir að beðið hafði verið stúngið upp og sáning var hafin, hafði hópur fugla safnast í nágrenni við sáðmanninn. Gátu varla biðið með að setjast að krásinni þar til hann hefði lokið verkinu og léti sig hverfa. Þeir höfðu sennilega komist að því að það gæti verið arðsöm atvinna að ganga í spor sáðmannsins og týna fræin um leið upp úr moldinni. Þannig fréttir höfðu mér áður borist af athæfi þessara fugla hér á suðurnesjum og varð þessi atburður til að staðfesta að það væri engin lygasaga, þótt mér fyndist hún ótrúleg. Svona innrætta fugla hafði ég aldrei heyrt um, þar sem ég ólst upp, nema Krumma. Hann hafði það til á haustin að vakna á undan okkur til að draga silunganetin uppúr Kistulæknum sem lögð höfðu verið kvöldinu áður. Hann hafði víst málsháttinn í höfðinu: "Morgunstund gefur gull í mund." Sáðmaðurinn sá nú hvert stefndi með sitt ræktunarstarf og sótti plastdúk til að verjast frekari ágangi nágranna okkar. Ég hefi ekki séð þá síðan.

Jesús sagði: ,,Heyrið þér nú dæmisöguna um sáðmanninn: Hvenær sem einhver heyrir orðið um ríkið og skilur það eigi, þá kemur hinn vondi og rænir því, er sáð var í hjarta hans."

08.05.2006 22:46

Gídeonfundur

Gídeon fundur

Við Gídeonkonur í kvennadeild Keflavíkur, fengum bréf frá deild númer 2 í Reykjavík, þar sem þær buðu okkur á sameiginlegan fund kvennadeildanna fimmtudaginn 27 apríl 2006 sem halda átti klukkan 20.30 að heimili Rósu Magnúsdóttur í grafarholtinu í Reykjavík. Kvöldið áður hringdi kunningi okkar og bað manninn minn að fara með sig inn á landspítala morguninn eftir. Hann átti að mæta þar kl. 9. Ég hugsaði að best væri þá fyrir mig að nota ferðina og fara með. Hefði ég þá nógan tíma fyrir mig sjálfa í bænum þar til fundurinn hæfist um kvöldið. Ég ætlaði að labba niður Laugaveginn. Þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur fyrir tugum ára þá fannst mér svo gaman að ganga niður Laugaveginn frá Háteigsveginum þar sem bróðir minn bjó. Í dag er þetta nú ekki alveg sami Laugavegur og þá, finnst mér. Veðrið var indælt en samt þegar ég var búin að vera á gangi um tíma fannst mér það vera hálfnapurt, þótt ég væri í vetrarúlpunni. Ég rak mig á að þessi fyrsti klukkutími uns búðir væru almennt opnar, var nokkuð lengi að líða, að lokum var ég orðin lúin og fannst ég þurfa að hvíla mig. Sá stóla úti fyrir búð nokkurri og sé í hendi mér að hér muni mér gefast kostur að kaupa eitthvað matarkyns og setjast svo að krásinni utan við dyrnar. Ég fer svo inn í búðina en sé enga manneskju og allt bara fullt af sælgæti. Ég ætlaði nú ekki að kaupa sælgæti svo ég fór bara út á götuna aftur. Spyr mig nú áfram eftir stað þar sem hægt er að kaupa einhverja næringu og eta hana innandyra. Mér er þá bent á að í Bernhöftsbakaríi geti maður keypt sér hressingu og notið hennar inni á staðnum. Eftir þó nokkra göngu finn ég bakaríið og kaupi mér snúð og eplasafa. Mikið var gott að setjast og mér hlýnar og ég aflýist og á eftir get ég haldið áfram fyrir kraft "fæðunnar" eins og segir í Biblíunni um einn af spámönnunum eftir að engill hafði fært honum brauð og vatn. Það urðu nú samt engir 40 dagar og 40 nætur hjá mér. Ég þurfti nú ekki á því að halda því ég var ekki á flótta enda ekki viss um að þau í Bernhöftsbakaríi séu svo langt komin í matargerðarlystinni þótt snúðurinn hafi verið óaðfinnanlegur. Það var nú engill sem

höndlaði með brauðið handa spámanninum. Gat hafa verið bakað á himni.

Ég horfi í búðargluggana en hvergi sé ég auglýstar útsölur. Þær verða ekki fyrr en í haust segir ein afgreiðsludama. Ég veit nú reyndar að aðalútsölutíminn er liðinn. Það er sá tími sem ég vildi gjarnan eiga heima nær höfuðborginni. Ég er ekki vön að kaupa í fyrstu búð sem ég kem að. Nú kem ég í búð sem mér lýst á að sé með vandaðar vörur. Þar er verið að selja úlpur sem höfðu verið á kr. 16.000 áður en eru nú á útsölu á um helmings afslætti. En ég ætla ekki að kaupa svona dýrt og eiginlega er ég orðin of lúin svo að ég nenni ekki að máta og fer út.

Nú ætla ég að stefna beint upp á Hlemm og taka strætisvagn inn í Kleppsholt eða Sund. Þegar þangað kemur er einn vagn nýfarinn þangað inneftir en annar komi fljótlega sem mér skilst að sé þó ekki jafngóður kostur en býð hans. Ég spyr vagnstjórann um leið og ég borga, hvar sé best fyrir mig að fara út. Hann tiltekur það og nú er bara að vona að hann kalli upp nöfnin á viðkomustöðunum. Til öryggis sest ég í næsta sæti fyrir aftan hann svo ég sé í kallfæri við hann. Hann virðist alveg þekkja alla viðkomustaði og týnir þá skilvíslega upp að ég held en er ekkert að pípa um hvað þeir heiti. Hann gæti verið frændi minn, þögull eins og ég get verið, þótt það liggi ekkert illa á mér, heldur liggur bara svo vel fyrir mér að þegja. Mig minnir þó að vagnstjórarnir hafi alltaf kallað upp áningarstaðina þegar ég var ung og átti um tíma heima í Kleppsholtinu. Jæja, að lokum stoppar hann á stað þar sem enginn fer út og enginn kemur inn og hinkrar aðeins svo ég hugsa að hér eigi ég að fara og af því ég sit svona nálægt bílstjóranum þá get ég látið hann staðfesta það. Þegar út kemur kannast ég ekkert við umhverfið og get ómögulega áttað mig á, í hvaða átt Sæviðarsundið sé. Þangað er þó ferðinni heitið til að heimsækja þrjár bróðurdætur mínar sem búa þar, tvær í sama húsi og sú þriðja í næsta húsi við þær. Ég held þó að ég eigi að fara yfir götu nokkra, mikla umferðaræð og þá kem ég fljótlega út á tún og finn engar gangstéttir. Fer bara áfram og sé með tímanum búðir framundan þ.á.m. Rúmfatalagerinn. Ég veit að þar hitti ég fólk sem getur sagt mér til vegar, sem verður líka raunin á því stúlka nokkur stendur þar til hliðar á gangstéttinni við að reykja. Hún getur bent mér í áttina sem ég skuli fara. Ég fæ líka stefnuna staðfesta á leiðinni hjá einstaklingum sem ég sé á leið minni. Að lokum finnst mér ég kominn þar sem ég kannist eitthvað við umhverfið. Þar sé ég nokkuð stóra byggingu að flatarmáli sem mér finnst hafi verið matvöruverslun áður fyrr en nú er greinilega hluti af henni veitingahús. Stutt frá er eitthvert hús, ekki stórt, sem ég álít að sé nærfataverslun. Glugginn er alþakinn myndum af brjóstahöldum og brókum frá ofanverðu og niðurúr þótt ofrausn sé nú að kalla þessa bleðla því nafni. Ég er ákveðin að fara þarna inn og spyrja hvar sundin séu og sem ég nú storma að dyrunum rek ég augun í auglýsingu um að enginn sé þangað velkominn undir átján ára aldri. Ég stansa snögglega. Hvaða myrkraverk skulu nú vera unnin hér um hæstan dag? Ég hefi aldrei á ævi minni farið inn um dyr með svo fráhrindandi áletrun. Ég er náttúrlega eldri en 18 ára en til er gamall málsháttur sem segir: "Tvisvar verður gamall maður barn" Ég gæti verið komin á síðara bernskuskeiðið. Ég ákveð því að fara heldur beint inn á veitingastaðinn og spyrja þar. Þar er ein stúlka við afgreiðslu og er upptekin. Mér lýst ekki á að fara að ónáða þá sem þegar eru sestir að snæðingi svo ég ætla heldur að fara út og reyna að ná tali af væntanlegum matargestum áður en þeir finna reykinn af réttunum. Loks hitti ég á mann um leið og hann kemur út úr bíl sínum. Hjá honum fæ ég að vita að ég er bara sjóðheit, rétt hjá sundinu sem ég er að leita að. Ég labba góðan spöl uns ég finn götuna og er loks komin á áfangastað. Nú hefi ég tímann fyrir mér til kvölds að spjalla við frænkurnar sem ég hitti svo sjaldan. Þær fá að vita hvert ferð minni er heitið um kvöldið og spyrja fyrir hvað Gídeonfélagið standi. Ég get sagt þeim að það gefi Nýja testamenti í barnaskóla, sjúkrahús, hótel og fl.staði. Einnig fái hjúkrunarkonur og sjúkraliðar sín eintök er þær útskrifist. Það er búið að starfa hér á landi síðan 1945. Vestur ?Íslendingur, Kristinn Guðnason, hafði ungur að árum flutt til Bandaríkjanna og kynnst samtökunum þar. Hann fékk ákafa löngun til að gjalda ættlandi sínu skuld, sem hann taldi sig vera í við það og áleit sig best geta goldið hana með því að beita sér fyrir stofnun Gídeon félaga hér á landi. Elsta systirin gefur mér afmælisblað Thorvaldsensfélagsins. Þegar ég fór að líta í það heima hjá mér sá ég að hún sýnist vera formaður fyrir því um þessar mundir. Þetta félag á mjög merka sögu og hefir starfað að góðgerðamálum í 130 ár. "Þvílíkt úthald", segi ég nú bara. Þær voru 24 sem stofnuðu félagið og eru nú 89 sem hver og ein styður félagið með virkri þátttöku. Hinar frænkur mínar starfa líka í stúku sem hefir það að markmiði að sinna góðgerðamálum á sem kyrrlátastan og hávaðaminnstan hátt. Mér fannst þetta nú bara merkilegt því þannig vildi Kristur að slík verk væru unnin.

Ein systranna og maður hennar hafði boðið systrum sínum ásamt mér í kvöldmat. Nutum við góðra rétta og samveru þar til tími var kominn fyrir mig að fara á Gídeonfundinn upp í grafarholt. Sú elsta ók mér þangað upp eftir svo ég þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af stefnu eða stað. Hún er innfæddur reykvíkingur. Ég held að við værum mættar frá fjórum deildum á fundinum og fengum að heyra ágrip af tilhögun á þeirra fundum hverra fyrir sig. Fundurinn var vel lukkaður og góður andi ríkjandi. Rausnarlegar veitingar í lokin. Tvær aðrar Gídeonkonur voru mættar úr Keflavíkurdeildinni og fékk ég far með annarri þeirra og hennar manni heim um kvöldið.

03.05.2006 21:02

Ferð um fornan hrepp Dóttursonur Ásgríms og kona hans sem eru búsett í Þorlákshöfn höfðu boðið okkur til veislu er halda skyldi í tilefni þess að ferma átti son þeirra, þann 14 apríl. Veislan skyldi haldin kl.sex að kvöldi. Faðirinn talaði við afa sinn í símanum og tilkynnti boðið. Jafnframt lýsti hann leiðinni er til veislustaðarins lægi. Ég stakk upp á að við færum um Grindavík austur og þá leiðina með ströndinni því ég hafði ekki farið þá leið alla áður.  Innra með mér fannst mér einhver sérstök þörf að biðja Guð um farsæla ferð. Við fórum af stað klukkan hálf þrjú í góðu gluggaveðri eins og farið er að segja nú, þegar er heldur kalt en sólin skín og heiður himinn. Heldur er nú leiðin landkostasnauð ef litið er bara á gróðurfarið til Grindavíkur og áfram. Við ökum nú samt framhjá gullkistu Grindvíkinga þar sem Svartsengi er, rétt áður en við komum í Grindavík. Mér fannst nú leiðinlegt hvað ég vissi lítið um þetta landssvæði og varð það til þess að ég sótti mér fróðleik, er við vorum aftur komin heim, í bók sem heitir Saga Grindavíkur eftir Jón Þ, Þór. Þegar ég fór að lesa komst ég að því, að bókin var alls ekki leiðinleg eins og ég hélt sumar byggðasögur vera. Hún var bara skemmtileg, þótt ég hefði haft meira gagn af henni ef ég hefði þekkt betur þau kennileiti sem vitnað er til. "Grindavíkurhreppur er sagður einna víðlendastur allra hreppa í Gullbringusýslu og meiri hluti hans fjalllendi. Það sem mér fannst fróðlegt að lesa var, að Grindavík var um aldir ein af sterkustu stoðum undir auðlegð Skálholtsstóls og þeirri menningariðju sem þar var stunduð." Hvernig mátti það verða að Grindavík gæti skipt svo miklu máli fyrir svo fjarlægan stað eins og Skálholtstól? Jú það voru hin fengsælu fiskimið. Grindavík lá að sjó, var útgerðarstaður og stóllinn gerði út skip frá Grindavík. Það er líka sagt að hann komst yfir jarðir þar á staðnum og þar með hlunnindi sem þeim fylgdu. Á bls. 175 segir svo um Hraun, að rekavon væri í betra lagi  Dómkirkjan í Skálholti ætti helming alls viðreka og Viðeyjarklaustri væri eignaður helmingur af öllum trjám er væru 6 álnir og stærri. Svo var og um söl og fjörugrös fleiri ásamt hvalreka, að það var allt til hlunninda talið á sjávarjörðum. Þá fannst mér fróðlegt að lesa um eldgosahrinuna á Reykjanesi sem hófst þrem öldum eftir landnám. Þá runnu ekki færri en sex hraun á Reykjanesskaga, þar af fjögur í Grindavíkurhreppi. Ekki að undra að útlitið sé eins og það er á leiðinni austur frá Grindavík. Helst er það Grámosinn sem hugsar með sér, ?Heyrið þið mig, hér er nú aldeilis gott undir bú." Þetta er sannarlega ein hinna virðingarverðustu jurta sem Guð hefir skapað, fyrir hvað hugrökk hún er að hefja nýtt landnám á beru og brunnu eldhrauninu. Þessi leið sem við förum er ekki malbikuð en er nú bara sæmileg. Þegar nálgast Krýsuvík fer ég að horfa eftir einhverri vík en það er enga vík að sjá. Við virðumst vera langt frá sjó. Loks nálgumst við Krýsuvíkurkirkju og brunum framhjá vegskilti til hægri, sem á stóð Krýsuvíkur- og eitthvað meira en sá ekki hvað það var og hélt það væri ef til vill vegur. Þegar ég hefi orð á þessu telur bóndi minn að það muni hafa verið vegur sem við hefðum átt að fara. En þar sem við erum að nálgast kirkjuna og hjá henni er hópur fólks þá sting ég upp á að við spyrjum þau til vegar og tekur hann vel í það, sem ég verð fegin. Mér hefir fundist maðurinn, sem er ákaflega ratvís að eðlisfari, hafi hann áður um veg farið og kannski þess vegna, stundum lítið fyrir að spyrja gest og gangandi um stefnur og staðhætti en ef til vill treyst á sína náttúrugáfu. Við stormum svo inn í kirkjuna því þetta var ekki messa, sem fólkið var að sækja og hann spyr mann einn úr hópnum til vegar sem vísar honum veginn og minn maður spyr hvort við eigum ekki að fara til baka sem hinn játar en ég þóttist skilja seinna að hann hefði álitið okkur koma úr hinni áttinni. Við ókum svo til baka og lásum á vegskiltið sem ég gat um áður að við hefðum farið hjá. Nú kom í ljós að það stóð ekki Krýsuvíkurvegur á skiltinu heldur, að mig minnir, Krýsuvíkurstapar eða því líkt. Nú verðum við aftur ráðvillt en sjáum í því, að bíll kemur á móti okkur. Spyrjum þennan segi ég og hann hefir líklega hugsað hið sama opnaði bílrúðuna og spyr manninn um leiðina. Hann segir að við skulum snúa við og aka lítið eitt lengra en kirkjan er og kæmum þá á rétta leið. Þetta gekk allt eftir. Ókum við nú áfram í þessu yndislega bjarta veðri og framhjá Herdísarvík. Þar hafði ég komið áður fyrir allmörgum árum. Svo kemur að því að við ökum framhjá Hlíðardalsskóla en þar höfðum við dvalið á Alfahelgi fyrir stuttu síðan ásamt fleirum og liðið ágæta vel. Þaðan er ekki löng leið niður í Þorlákshöfn. Þar höfðum við ákveðið að heimsækja hjón er við höfðum fyrr hitt, er við höfðum áður í Þorlákshöfn komið. Konuna hafði ég þekkt fyrir mörgum áratugum er við áttum báðar heima sem börn austur í Hornafirði. Á leiðinni að húsi þeirra ókum við framhjá skála sem Ásgrímur vildi meina að veisluna ætti að halda í um kvöldið. Dóttursonur hans hafði verið að leiðbeina honum í síma, um leiðina kvöldið áður og verið að tala um einhvern skála sem veislan átti að vera í. Við fengum hinar bestu viðtökur hjá hjónunum sem við ætluðum að heilsa uppá áður en að veislunni kæmi. Þegar klukkuna vantaði kort í sex vil ég nú gjarnan fara að leita uppi þennan blessaða skála en hjónin sem við vorum hjá álitu að ekki mundu þar fara fram nokkrar meiriháttar veislur, hringdu meira að sega að okkur áheyrandi þangað og fengu að vita að ekkert slíkt væri þar í bígerð. Hjónin álitu að í húsi nokkru ekki svo langt frá skálanum gæti einmitt verið um veisluhöld að ræða. Vorum við þá ákveðin að leita það hús uppi sem tókst vafningalítið. Þegar við sáum fjölda bíla í kring um húsið leið mér betur og áleit að allt mundi fara á besta veg. Er inn var komið reyndist þar fjöldi fólks samankominn en okkur bar ekkert kunnuglegt andlit fyrir augu. Ásgrímur tók þar mann nokkurn tali til að komast til botns í þessu fyrirbæri. Sem betur fór var þetta skýr maður og vissi allt það markverða í sínum heimabæ sem okkur reið á að vita. Hann sagði að sú veisla er við leituðum að væri haldin austur á Eyrarbakka. Þetta kom sannarlega flatt uppá okkur. Mér fannst þetta ekki líta nógu vel út ef við kæmum allt of seint miðað við boðskortið. Illa viðeigandi ef fólkið yrði langt komið að borða er við kæmum en mér fannst á bóndanum hann ekki vera eins uppnæmur, við yrðum nú ekki svo lengi að renna þetta. Þetta fór betur en áhorfðist. Fjöldi fólks var mættur og nú sáum við kunnug andlit. Við náðum aðeins að setjast áður en borðhaldið hófst. Það var allt ríkulegt og engin leið að bragða á öllum réttum. Eyrarbakki var yndislegur staður í kvöldsólinni. Ef ég væri yngri held ég að ég gæti hugsað mér að eiga þar heima. Heimferðin um malarveg, í mánaskini og stjarna, laus við alla götulýsingu gekk vel og við gátum þakkað Guði fyrir farsæl ferðalok.

  • 1
Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99777
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 15:04:37

Eldra efni

Tenglar